Dagblaðið Vísir - DV - 11.05.1996, Blaðsíða 22
LAUGARDAGUR 11. MAÍ 1996 33 "V
Upphafið var einkamálaauglýsing
í blaði í Berlin árið 1988. Barbara
Glasner, þá tuttugu og átta ára,
hafði búið ein með níu ára dóttur
sinni, KayJane, allt síðan hún fædd-
ist. Faðirinn hafði hvorki treyst sér
til að ganga i hjónaband né taka
þátt í uppeldi dótturinnar. Nú, þeg-
ar hún var orðin næstum tíu ára,
fannst henni mikið vanta að eiga
ekki fóður og móðir hennar saknaði
þess að eiga ekki eiginmann.
Barbara fór sjaldan út og því voru
líkurnar á að hitta mannsefni ekki
miklar. Hún ákvað því að setja aug-
lýsingu í einkamáladálk eins dag-
blaðanna og varð ekki fyrir von-
brigðum með árangurinn. Til henn-
ar barst fjöldi bréfa með tilboðum
um kynni. En hún svaraði ekki
rétta tilboðinu.
Gamall
knattspyrnumaður
Maðurinn sem sýndi Barböru
áhuga í svari sínu var jafnaldri
hennar, René Rogge, fyrrum liðs-
maður Dynamo í Berlín. Hann hafði
á sér orð fyrir að vera duglegur iðn-
aðarmaður.
René hafði verið kvæntur og árið
1982 hafði hann eignast son. Nokkru
eftir að drengurinn kom í heiminn
tók René tilboði um að gerast verk-
stjóri hóps sem tók að sér að leggja
jarðgasleiðslu í Síberíu. Góðum
launum var heitið og hann hélt
austur á bóginn.
Þegar hann sneri aftur heim,
þremur árum síðar, urðu endur-
fundirnir við eiginkonuna ekkert
fagnaðarefni. Hún hafði fundið sér
annan mann. Og um það sagði
René:
„Það er ekki hægt að viðhalda
ástarsambandi í þrjú ár með bréfa-
skriftum.“
Hann tók skilnaðinn nærri sér og
þykir ýmsum sem hann hafi orðið
kveikjan að þeirri afbrýðisemi sem
átti eftir að verða svo örlagarík.
Eftir heimkomuna fékk René
starf hjá byggingafyrirtæki og varð
brátt verkstjóri yfir tólf manna
hópi. Sérgrein hans nú var uppsetn-
ing hreinlætis- og hitunartækja í
nýbyggingum.
„Ég vann frá sex á morgnana til
tíu á kvöldin,“ sagði hann, „og um
helgar lék ég með Dynamo. En öllu
þessu hætti ég þegar ég hitti Bar-
böru.“
Ólíkar frásagnir
Sagt er að tvær hliðar séu á
hverju máli og það átti eftir að
sannast af frásögnum þeirra Bar-
böru og Renés af sambúð þeirra.
Frásögn Renés var í meginatriðum
á þessa leið:
„Samband mitt við Barböru og
KayJane varð þegar í upphafí gott
og það leið ekki á löngu þar til
KayJane fór að kalla mig pabba. Til
þess að fá meiri tlma til að vera með
þeim sagði ég upp því starfi sem ég
var í og gerðist vörubílstjóri. Nú
þurfti ég ekki að vinna neina yfir-
vinnu lengur og það nýttist okkur
þremur. Það var dálítil lóð við hús-
ið sem Barbara átti og ég lagði mig
fram um að gera þar fallegan garð.“
Það var rétt. Á fyrstu þremur
árum sambúðarinnar reisti René lít-
ið garðhýsi og bílskúr á lóðinni og
kom upp fallegum garði. „Ég gerði
allt fyrir Barböru,“ sagði hann síð-
ar, „en hún notfærði sér bara hve
undanlátssamur ég var.“
Frásögn Barböru er á allt annan
veg. „Þegar frá leið,“ sagði hún, „fór
hann að segja mér hvernig ég ætti
að fara áð öllu. Og hann þoldi ekki
að ég héldi áfram að vinna hjá
tryggingafélaginu sem ég var hjá.
Barbara, KayJane og René.
René í höndum tveggja réttarvarða
eftir að æði rann á hann í réttinum.
Honum líkaði ekki að ég umgengist
margt fólk og sýndi mikla afbrýði-
semi vegna karlmanna sem höfðu
samskipti við mig vegna trygging-
anna.“
Logandi afbrýði
Þegar Barbara neitaði endanlega
að segja upp starfi sínu hellti René
bensíni yfir garðhýsið og bar eld að
því. Það brann til grunna en hann
fór svo óvarlega að hann brenndist
sjálfur alvarlega.
Barbara heimsótti hann einu
sinni á spítalann, en aðeins til að af-
henda honum bréf þar sem hún bað
hann að taka föggur sínar um leið
og hann kæmist á fætur því hún
vildi ekkert með hann hafa að gera
framar. í fyrstu var sem René sætti
sig við orðinn hlut. Þegar hann
hafði útskrifast tók hann eigur sín-
ar og hvarf. Um hríð sá Barbara
ekkert til hans.
En desemberkvöld eitt árið 1991
var dyrabjöllunni á íbúð Barböru í
Kúhlungsborner Strasse 2 í Witten-
beck hringt. Og Barbara segir
þannig frá:
„Það var sérstök hringing sem
mamma notaði alltaf þegar hún
kom. Ég sat og var að horfa á kvik-
mynd í sjónvarpinu. Ég flýtti mér
fram, opnaði, sneri mér við og
sagði: „Komdu inn, mamma. Ég er
að horfa á sakamálamynd.“
Exi á lofti
En það var ekki móðir Barböru
sem var að koma. René hafði hringt
eins og hún til að geta komið sam-
býliskonunni fyrrverandi að óvör-
um. Barbara hafði aðeins tekið
Barbara heldur um KayJane sem
grætur meðan beðið er dóms.
nokkur skref frá dyrunum þegar
hún fékk högg í bakið og þegar hún
leit við starði René á hana haturs-
fullum augum. í hendinni hélt hann
á exi.
„Hann sló mig mörgum sinnum
en hitti sem betur fer aðeins í hand-
legginn og öxlina því ég bar hend-
urnar fyrir mig.“
Að lokum féll Barbara í gólfið en
þá hafði KayJane komist í símann
og hringt á lögreglu og sjúkrabíl.
René flýði og var horfinn þegar lög-
regluþjónar komu á vettvang.
Það tók þó ekki langan tíma að
finna hann og hann var tekinn fast-
ur og settur inn. Nokkru síðar var
gefin út ákæra á hendur honum fyr-
ir líkamsárás og hann kom fyrir
sakadóm í Rostock. Þar hélt hann
því fram, eins og fyrr, að það hefði
alls ekki verið hann sem réðst á
Barböru í íbúð hennar.
Skotárás á jólum
René sagði Barböru greinilega
hafa skelfst svo við árásina að hún
gæti ekki lýst árásarmanninum.
Hún talaði um brúneygan mann,
eins og hann væri sjálfur, en hún
mætti ekki gleyma því að fjöldi
brúneygra karlmanna skipti þús-
undum.
Dómarinn trúði Barböru og René
var dæmdur til þriggja og hálfs árs
fangelsisvistar fyrir afar hættulega
líkamsárás.
Aðfangadagskvöldið 1994 á heim-
ili Barböru Glásner og KayJane átti
eftir að verða sögulegt. Vinur
KayJane, Uwe Blaczyk, var í heim-
sókn hjá þeim mæðgum og gekk allt
vel fyrir sig framan af kvöldi. En
skyndilega varð mikil breyting á.
Þegar staðið var upp frá borðum
Húsið sem Barbara bjó í.
og tekið til við að opna jólapakka
slokknuðu skyndilega ljósin í öllu
húsinu. Barbara stóð upp og gekk
að skáp framarlega í íbúðinni til að
huga að vartappatöflunni en hún
var ekki komin þangað þegar skot-
hvellur heyrðist. Síðan kom hver
byssukúlan af annarri inn um stofu-
gluggann. Engin þeirra hitti neitt
þeirra þriggja sem inni voru en
stórt glerbrot lenti í hálsi Uwes.
Flóttinn
Þegar skothríðinni lauk ríkti
skelfing í íbúðinni. Ekkert þeirra
sem þar voru hafði skýringu á því
sem gerst hafði og í fyrstu kom Bar-
böru René ekki í hug því hann átti
að sitja í fangelsi. En þá vissi hún
ekki að hann hafði fengið reynslu-
lausn skömmu fyrir jól. Og það var
hann sem hafði beitt þekkingu sinni
á húsinu til að loka fyrir rafmagnið
en síðan hafði hann skotið úr riffli
inn um stofugluggann.
Eftir skotárásina flýði René í bíl
sem hann hafði stolið til að geta
komist frá húsinu í skyndi með
riffilinn. Hann ók hratt en það átti
eftir að hefna sín því hann missti
stjórn á bílnum og ók á ljósastaur.
Lögregla kom á staðinn og fann
riffilinn í aftursætinu.
Þótt skotvopnið hefði fundist í
bílnum hélt René fast við að það
hefði ekki verið hann sem skaut inn
um stofugluggann. En kúlur sem
fundust í íbúðinni voru sendar
tæknideild lögreglunnar og þar
voru þær bomar saman við kídur
sem skotið var úr rifflinum. Eftir
það varð ekki um það deilt hvaða
vopni hafði verið beitt við skotárás-
ina.
Barbara með lögmanni sínum.
Þungur dómur
Enn á ný var gefin út ákæra á
hendur René Rogge. Nú var sakar-
giftin morðtilraun og réttarhöldun-
um lauk með fimmtán ára fangelsis-
dómi. Var þá meðal annars horft til
þess að hann hafði kveikt í garðhýsi
Barböru og ráðist á hana með exi.
Taldi dómarinn hann hættulegan
mann sem taka bæri úr umferð um
lengri tíma.
Ljóst er að René mun ekki ógna
Barböru á næstunni en það er
henni þó takmörkuð huggun. Vegna
þeirra áverka sem hún hefur hlotið
hefur hún orðið að hafa framfæri
sitt af örorkubótum undanfarin þrjú
ár og ekki batnaði hagur hennar við
skotárásina því hún lagðist þungt á
hana, ekki síst vegna þess að hún
þykist nú sannfærð um að René hafi
ekki gert sína síðustu tilraun til að
ráða hana af dögum. Hann muni um
síðir losna og þá enn á ný kenna
henni um ófarirnar í lífi sínu sem
hann telji sig eiga óhefnt.
Martröð
Barbara segir tilhugsunina um
þann dag þegar René fái frelsið
martröð líkasta. Hún segist reyna
að róa taugarnar með lyfjum en það
dugi skammt. Sambýlismaðurinn
fyrrverandi hafi i raun gert líf sitt
að þungbærri raun. „Það er ein löng
martröð,“ sagði hún fyrir nokkru,
„og þegar maðurinn sem ég elskaði
einu sinni verður aftur frjáls ferða
sinna veit ég að hann mun gera það
sem honum hefur mistekist til
þessa. Hann er ekki hættur við að
ráða mig af dögum.“