Lesbók Morgunblaðsins - 30.11.1996, Blaðsíða 19

Lesbók Morgunblaðsins - 30.11.1996, Blaðsíða 19
EG MÁ eiginlega ekki segja að ég búi í London því af einhveiju bjánalegu stolti er ég að remb- ast við að halda lögheimili á íslandi. Til þess að halda því þarf ég að vera hálft árið hér og fer því oft á milli og dvel lengi í einu,“ sagði Magnús sem hefur búið erlendis síðastliðin 14 ár, þar af níu í London. Hann var á leið norður á Akureyri, fljótlega eftir samtalið við blaðamann, til að vinna í leikmynd fyrir Leikfélag Akureyrar, en Magnús vann samfellt við leikmyndateikn- un í tíu ár á sjötta og sjöunda áratugnum og er lærður leikmyndateiknari. „Það er best að vera ekkert að tala um leikmyndagerð, því það er listgrein sem ég vil helst ekki vinna við. Eg tók að mér þetta verkefni einkum vegna þess að það eru gamlir vinir minir sem að því standa og eins þarf maður náttúrulega að hafa tekjur. En þó það kunni að hljóma steigurlætislega þá finnst mér þetta bölvuð tímaeyðsla," segir Magnús og hlær, „en ekki get ég neitað því að ég hef dálítið gaman af því“. Hann segist dá leikara en finnst illa með þá farið. „Leikhúsfólkið kannast við þessa skoðun mína og ég er dálítið óvinsæll meðal þess fyrir vikið, sem eðlilegt er. Ef skrifaður er góður texti og með hann farið af ímyndun- arafli í stjórn og flutningi þá er þetta dásam- legt. En megnið af því sem flutt er er því miður leiðindamiðjumoð. “ Þykjustu-tilraunaleikhús Magnúsi finnst leikhúsin hugsa lítið um að hleypa ferskum vindum inn á sviðið og í staðinn sé hraðsoðnu flatmeti látlaust dælt í áhorfendur. Honum finnst leiklistin vera í föstum skorðum og fylgja löturhægt í fótspor annarra listgreina. En hvað finnst honum um svokölluð óháð leikhús og tilraunaleikhús. Er einhver broddur í þeim? „Það sem er kallað þessum nöfnum stend- ur sjaldnast undir nafni, hvorki hér á landi né erlendis. Það er mikið til af þykjustu-til- raunaleikhúsum. Heimsleikhúsið er bara svona. I heild er þetta ræfilslist, það er alveg dagsatt, en afhvetju veit ég ekki. Vera kann að það sé áhorfendadekrið sem heldur því í skorðum og auðvitað er eitthvað til í því. Sem betur fer eru bjartir glampar hér og þar í heiminum en það fer heldur lítið fyrir þeim,“ segir Magnús. Morgunblaóió/Ásdís MAGNÚS Pálsson myndlistarmaður. „Ég er ekki að reyna að kafa ofan í sálina á fólki I FOTSPOR ANN- ARRA LISTGREINA Magnús Pálsson myndlistarmaður er búsettur í Lond- on en er staddur hér á landi til aó hanna leikmynd fyrir Leikfélag Akureyrar. í samtali við ÞÓRODD BJARNASON segir hann honum sitthvað um mynd- list sína, sem oft er nátengd leikhúsi, og um bág- borna stöðu leiklistar í hinum vestræna heimi. Hann skrifar sjálfur texta fyrir leikara, blandar þeim saman við allskyns listlíkistexta (kitsch) og setur fram sem myndlistarverk en í raun eiga þeir heima á leiksviði, að hans eigin sögn. „Það er svo mikið til af fallegu listlíki," segir hann. Nýtf verk tilbúió Tvö leikverk eftir hann hafa verið flutt á sviði. Hið fyrra hjá Stúdentaleikhúsinu en hið síðara flutti Alþýðuleikhúsið fyrir nokkr- um árum í samvinnu við Þjóðleikhúsið á Litla sviði hins síðar nefnda og nefndist það Sprengd hljóðhimna vinstra megin. „Sú sýn- ing gekk heldur vel og ég áætla að þannig sýningar eigi svo sem 2000 manna áhorf- endahóp. Það er nú kannski bara svipað og gerist í London. Eg er með nýtt leikhúsverk tilbúið, sem ég gæti gert dásamlegar sýning- ar úr, en það er alls staðar lokað á það. Menn vilja að leikverk segi ákveðna sögu og fjalli um vandamál fólks,“ segir Magnús þungur á brún. Aðspurður segir hann að leik- verk hans ijalli um listina sjálfa og um leik- húsið sem list. „Ég er ekki að reyna að kafa ofan í sálina á fólki. Þetta eru einskonar talaðar óperur, kannski einhver vitleysa, en ég skynja það sem nýjung sem þarf að vera sjáanleg til að hafa áhrif á listina." Býður eftir nýrri bylgju Magnús hefur staðið fyrir sumarvinnustof- um þar sem myndlistarmenn, sem fást við gjörninga, og leikarar koma og vinna saman. „Ég vil koma á kynnum milli þessa fólks því allt er það jú að vinna með sama efnið ef svo má segja. Reynsla mín er samt sú að leikhúsfólkið, sem fyrst og fremst ætti að geta grætt á þessum vinnustofum, er mest- megnis ósnortið en myndlistarmennirnir. -y gleypa í sig það sem leikhúsfólkið er að gera og fara að notfæra sér leikhúsapparatið, án þess að spillast sem listamenn. “ Að lokum finnst blaðamanni við hæfi að spyija Magnús hvort hann haldi að enn sé hægt að gera eitthvað nýtt í listum. „Já, það er endalaust hægt að gera eitt- hvað nýtt. Ég er að bíða eftir að það komi önnur og jafn kröftug bylgja og nýja málverk- ið var upp úr 1980. Ég er að bíða eftir bylgju sem er í andstöðu við það sem nú ríkir og þangað til sit ég bara, bíð og held sem mest kjafti.“ % KYNLEGIR KVARTETTAR TÓNLIST Sígildir diskar BRODSKY KVARTETTINN Lament. Verk eftir Stravinsky, Alvarez, Matthews, Szymanski, Massenet, Thomas, Schulthorpe o. fl. Tónsk. Silva Classics SILKD 6001. Upptaka: [DDD], London 2/1994. Lengd: 71:11. Verð: 1.899 kr. KRONOSKVARTETTINN Winter was hard. Verk eftir Sallinen, Ril- ey, Part, Webern, Zorn, Lurie, Piazzolla, Schnittke og Barber. Elektra Nonesuch 7559-79181-2. Upptaka: DDD, Bandaríkjun- um 1987-88. [Lengd: 69:21.] Verð: 1.899 kr. ÓHÆTT er að segja um strengjakvart- ettinn, að af er það sem áður var. Rætur tóngreinarinnar má rekja til gömbuhópa 16. og 17. aldar, en Haydn (sem var miklu fremur „faðir“ strengjakvartettsins en sinfóníunnar) var manna virkastur norðan Alpafjalla til að festa samsetninguna tvær fiðlur, víólu og selló í sessi og gera að sígildu listformi, sem í áframhaldandi mótun Mozarts, Beethovens og spor- göngumanna þeirra varð að sennilega virtustu grein tónbókmenntanna. Meðan ljómi greinarinnar í dag er slík- ur, að jafnvel þrautreynd tónskáld leggja ekki til atlögu við hana nema með hyl- djúpri lotningu (og sjaldnast lengri en 12-15 mínútna verkum núorðið), þá er auðvelt að gleyma, að kvartettinn, eins og flest hefðbundin kammerform, var upphaflega hannaður til að skemmta áhugamönnum. Það eimir harla lítið eftir af þeirri staðreynd í stærstu verkum 20. aldar, þar sem kenningin um að virtúósinn sé hækja tónskáldsins virðist eiga sér æ meiri stoð í raunveruleikanum, sérstak- lega í módernisma eftirstríðsáranna. Enginn tónsmiður sinnir lengur áhuga- mönnum, enda virðist löngu liðin tíð að venjulegt fólk komi saman til að leika kammertónlist sér til skemmtunar, þó að það hafi verið meginundirstaða nótnaút- gáfu þangað til grammófónn, útvarp og sjónvarp lögðu tónlistariðkun heimilanna í rúst. En kannski á almenningur ein- hvern tíma eftir að enduruppgötva þá fágætu ánægju sem aðeins fæst úr lif- andi samspili eftir nótum. í millitíðinni bjargar þorri tónlistarunn- enda sér á hljómdiskum. Og þar eru merkileg tíðindi að gerast. Kvartettinn er að koma aftur til fólksins, ef svo má segja. Eftir langvarandi einangrun í fá- mennum og síminnkandi hlustendahóp fagurtónkera tóku ungir strengjaleikarar sig til og endurreistu þátt í sígildu tónlist- arlífi sem hafði verið ómissandi partur þess áður fyrr: sjónarspilið - “showið.“ Sjónarspilsþátturinn í tónleikahaldi á öldinni sem leið skóp í senn ímynd og neytti sviðstöfra flytjandans. Framkoma stórsnillinga eins og Paganinis og Liszts, fettur þeirra, svipmót og sérkennileg uppátæki komu iðulega öllu í stanz, ekki síður en sjálf spilamennskan, og kynngi- magnað andrúmsloftið á tónleikum þeirra mettaðaðist iðulega lykt af hoffmanns- dropum frá áheyrendapöllum, þegar kon- ur hnigu unnvörpum í ómegin. Síðustu leifar þessara „stæla“ eru ýktar handa- hreyfíngar konsertpíanista og griplandi strengjaleikara. Að öðru leyti eru venju- legir sígildir tónleikar nú til dags jafn flekklaus og fyrirsjáanleg athöfn og hjónavígsla. Eða, sem sagt, þar til strengjakvartett- ar eins og Kronos og Brodsky komu til skjalanna. Og - heyri menn og undrist - áheyrendur og plötukaupendur, einkum hinir yngri, hafa tekið þeim afar vel, ef marka má plötubúðarlokur. Kronos kvartettinn (nafnið er dregið af frumvætti tímans í grísku goðafræð- inni) kallar sig eldri hópinn, og á hann sammerkt með félögum sínum í Brodsky að fara afar dult með upplýsingar um ævi og starfsferil í diskbæklingum. En ef maður er nógu gamall í hettu, má muna eftir tónleikum hinna þá kornungu Bandaríkjamanna frá San Francisco, þeg- ar Kronos kom fram í Austurbæjarbíói sem þá var 1977. Ef minnið svíkur ekki var þar, auk kvartetta eftir Beethoven og Sjostakovitsj, leikið ýmislegt sem mað- ur átti ekki von á í marmarahallarfansi sígilds kvartetts, eins og biksvartur blús, og gott ef ekki líka Purple Haze eftir Jimi heitinn Hendrix, þó að hljómlistarfólkið væri (þá) tiltölulega settlegt í klæðaburði og ekkert ljósaorgel í gangi, líkt og ný- skeð í Kaupmannahöfn, þar sem skv. lýs- ingu Sigrúnar Davíðsdóttur (Mbl. 17.10.) mátti heyra hópinn flytja m.a. kínverska tóna, gyðingatónlist og pönk á fjögurra tíma löngum maraþontónleikum. Brodsky kvartettinn felur brezkt þjóð- erni sitt bak við nafnið á frumflytjanda fiðlukonsert Tsjækovskíjs og virðist ekki hafa farið að hasla sér völl á plötumark- aði fyrr en kringum 1984, þó að diskar hópsins séu nú orðnir um 12 talsins (Kron- os hefur nú a.m.k. 14 á samvizkunni). Brodsky er líklega íslenzkum létttónlistar- unnendum kunnastur fyrir samvinnu við Björku Guðmundsdóttur og smellinn She Moved Through The Fair undir söng El- vis Costellos, nr. 5 á umræddum diski. Líkt og Kronos leggur Brodsky áherzlu á að fjarlægja hólf á milli ólíkra stíla og tóngreina, og lætur semja eða útsetja fyrir sig (ef meðlimir hans gera það þá ekki sjálfir) hverskonar kynleg dæmi úr afkimum tónlistarheimsins, sem hingað til hafa sízt verið við strengjakvartettleik kennd. Slíkar afurðir kváðu á útlenzku kallaðar „cross-over“ tónlist. Ægir þar mörgu saman, eins og gruna má af nöfn- um höfunda. Hjá Brodsky má þannig finna nýklassík Stravinskys, sölsu, rómantísku- skotið popp, módemíska framúrstefnu og nýja alstílhyggju, sígilda rómantík, míni- malisma og ástralska þjóðlagið „Waltzing Mathilda“ í kostulegri útsetningu. Kronos- diskurinn flíkar melódrama (undirleik við ljóðaupplestur), uppákomutónlist, mið- aldaskotnu tónamáli Arvo Párts, 6 Bagat- ellum Antons Weberns, tilraunaverki eftir Zorn með rafhljóðum o.fl., Tangó eftir Piazzolla, 3. Kvartett Alfreðs Schnittkes og stórborgarrómantík Barbers (Adagio). Sem sé: eitthvað fyrir nánast hvaða smekk sem er, ef undan eru skilin barokk og vínarklassík. Margir munu sjálfsagt eiga erfitt með að gera upp á milli diskanna tveggja, því flutningur er framúrskarandi góður í báð- um tilvikum. Persónulega hneigist undir- ritaður þó heldur að Bretunum, bæði fyr- ir (þrátt fyrir allt) heilsteyptara tón- verkaval (þar skara Fimm stykki f. strengjakvartett eftir Pólverjann Pawel Szymanski fram úr restinni að frum- og ferskleika) og líka fyrir klassískari og yfirvegaðri samhljóm. Leikur Kronos-inga er að því leyti ágengari og hefur ákveðna tilhneigingu til stundum að yfirdramatís- era. Upptökugæðin eru nærri lýtalaus á báðum diskum. Ríkarður Ö. Pálsson LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 30. NÓVEMBER 1996 19

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.