Lesbók Morgunblaðsins - 06.03.1999, Blaðsíða 7
DERRICK
STUNDUM berast fregnir af háöldruðum
karlmönnum sem sýna karlmennsku sína í
verki og gera sér mun yngri konum börn.
Einn níræður í Astralíu stóð í slíkum stór-
ræðum ekki alls fyrir löngu. Við þekkjum
líka umræður um gráa fiðringinn, mennina
sem hverfa burt með tannburstann.
En hver segir að konur geti ekki verið
fjörugar langt fram eftir aldri og fíflað karl-
menn í stórum stíl? Um daginn sagði Frið-
bert múrari mér frá tveimur eldri konum,
ellilífeyrisþegum í Langholtshverfinu. Onn-
ur þeirra hét Guðríður, hin Anna. Þær voru
ekkjur og bjuggu saman í kjallaraíbúð. Þær
voru ekkert skyldar en börn þeirra voru
hjón og bjuggu á efri hæðinni.
Guðríður var móðir Sigurðar Jónssonar
fulltrúa hjá Vinnueftirlitinu en Anna móðir
Pálínu Torfadóttur féhirðis hjá Islands-
banka. Sonur Sigurðar og Pálínu er Ingvar
sem hannar tölvuforrit með ættartöflum ís-
lenskra hesta og selur þær forráðamönnum
þýskra búgarða.
Anna sat heima á kvöldin og horfði á sjón-
varpið. Hún fylgdist með framhaldsþáttum,
prjónaði og fór að sofa, fíngerð kona, grann-
vaxin, ekki mikið yfir sextugt.
Guðríður var eldri. Hún hafði engan
áhuga á framhaldsþáttum og sjónvarpi en
tók virkan þátt í félagslífi eldri borgara,
dansi og spilum, kraftmikil kona að sjá, ekki
smáfríð en yfir henni reisn. Guðríður var
hölt en lét það ekki aftra sér. A spilakvöldin
hafði hún stundum með sér vodkafleyg.
Hún var næstum því lent í hjónabandi
með sterkefnuðum manni af Snæfellsnesi,
hafði upphaflega komið til hans sem ráðs-
kona en hann fallið fyrir henni og Játið smíða
hringa.
Þau settu hringana upp að kvöldi og áttu
fjöruga nótt saman en um morguninn þegar
Guðríður vaknar liggur hinn sterkefnaði Ró-
meó kaldur við hlið hennar.
Sögðu gárungarnir að svona færi hún með
þá. Einn sprellfjörugur karl var nefndur til
sögunnar. Eftir ár í tygjum við Guðríði var
hann kominn í hjólastól.
Guðríður hafði þetta sjálf í flimtingum.
Hún sagði Önnu stórbrotnar sögur af bólför-
um sínum. Lagði Anna lítinn trúnað á, fitjaði
upp á trýnið og horfði á framhaldsþátt.
Engu að síður ollu ástaratlot Guðríðar í
kjölfar spilakvölda því að Anna krafðist þess
að kjallaranum yrði skipt. Varð það úr og
hélt Anna sjónvarpinu.
En ástaratlotin héldu áfram. Sólbjört
kvöld, stjörnubjartar nætur, í gegnum hríð-
arkóf; alltaf kom Guðríður heim í kjallarann
með einhvern fjörkálf í farteskinu.
Nú er það nótt eina í köldum febrúarmán-
uði að Guðríður kemur heim með einhleypan
sjómann af Hrafnistu og ástaratlot hefjast.
Eru þau venju fremur fjörug. Að minnsta
kosti vaknar Anna: Þetta líkist ástarbríma
unglinga. Hér er enginn slappleiki kenndur
við elli.
Hvort Anna vill sannreyna atvik þessi eða
áður útdauðir vessar fara á hreyfingu, um
það er ekki fjölyrt hér, en forvitnin rekur
Ónnu út. Hún gengur um garðinn snjóþung-
an að vetrarlagi. Leið hennar liggur að
glugga Guðríðar.
Hvað sér hún? Eitthvað sem heldur áhuga
hennar svo bráðvakandi að morguninn eftir
vaknar hún með illskeytta lungnabólgu.
Vakthafandi lækni, sem kom að skoða Önnu
í kjallarann, þótti þetta afar torkennilegt.
Kona sem sat öllum stundum inni í hlýj-
unni og horfði á sjónvarpið; hún hlaut að
hafa smitast af Derrick!
Höfundurinn er rithöfundur.
LJÓÐRÝNI
KRISTJÁN KARLSSON
SNERTU MIG UÓS
Snertu mig ljós, það líður
langt á kvöld og ég æðrast
þungt logn þéttist í myrkur
fjaðrirnar þagna, það fölnar
fjórlitur páfugl hugans
ljósin á engi og eyrum
lengst blikar áin afskipt
uppsprettu ljóssins
ranghverfa rökkurs og hugar
' á fellur svöl yfír andlit
okkar snöggvast úr fjarska
hljóðlaust og hverfur í myrkrið
snertingin ein er eftw
ást mín, í blindum taugum,
snertu mig
snertu mig ljós sem lifir
(Kvæði 84)
ÞETTA ljóð býr yfir mikilli fegurð og mikilli sorg í blöndu af beinum lýsingum tilfinn-
inga, myndhverfingum og ytri myndum er spegla hugrenningar. Form þess er fimm
þriggja lína erindi, þar sem tvær fyrri línurnar hafa stuðla og höfuðstaf, en hin þriðja
tvo stuðla. I síðasta erindinu er vikið frá þessu stranga formi með endurtekningu orð-
anna „snertu mig“. Hún eykur áhrifamátt þess er ljóðinu lýkur með upphafsorðunum
„snertu mig ljós“ með viðbótinni „sem lifir“.
Sú blanda sem nefnd er hér í upphafi, kemur strax fram í fyrsta erindinu. Kalla má
það færslu milli skynsviða að tala um snertingu ljóss, sem ahnennt höfðar til sjón-
skynjunar, og „þungt logn“ er fjarri því að vera venjulegt orðfæri. Sömuleiðis að það
„þéttist í myrkur". Hins vegar er það bein lýsing tilfinningar að segjast æðrast.
Þegar í upphafi birtist hlutgervi ljóðsins (mynd hlutlægra efnisatriða), þótt sú mynd
sé enn ekki orðin skýr. Mælandi sem ekki gerir vart við sig, er staddur á óljósum stað
síðla kvölds í logni sem breytist í myrkur og biður um snertingu ljóss, sem er að
hverfa.
í næstu erindum skýrist þessi mynd smám saman. Þegar myrkur fellur á þagna
fjaðrirnar, - það er hluti fyrir heild, þar sem átt er við fuglasönginn. En um leið þagn-
ar hugurinn, eða eins og segir í ljóðtextanum „fölnar fjórlitur páfugl hugans". Þetta er
í senn áhrifamikil og óvænt myndhverfíng, sem gegnir vel því hlutverki að sýna í
mynd það sem hvorki hefur form né lögun. Hugurinn er sem fjórlitur páfugl: hinni
margbreytilegu, frjóu hugsun er líkt við litríkan fugl. Nú fölna litir hans, hugurinn
slóvgast er mælandinn æðrast, lætur hugfallast. Um leið fölnar birtan á engjum og
eyrum.
Við þekkjum öll að við slíkar aðstæður sést rennandi árstraumur lengst áður en allt
hverfur endanlega í myrkur. En í þessu ljóði er áin „afskipt uppsprettu ljóssins" er
sett hjá: ranghverfa eða andstæða rökkurs og hugar. Ain, sem fellur líkt og silfur-
strengur í rökkrinu, fellur einnig „svöl yfir andlit / okkar snöggvast úr fjarska / hljóð-
laust og hverfur í myi'krið“. Vatn hefur margvíslega táknræna merkingu. Það getur
táknað materia prima: upphaf alls; orku líkamlegrar, tilfinningalegrar og andlegrar
hreinsunar; hinn kvenlega þátt lífsins; lífið sjálft; andlega sköpun og andlegt líf. Hér
er það beinlínis tengt ljósi, sem einnig á sér margvíslega táknrænar merkingar: sköp-
un; andleg orka; guðdómleiki; hugljómun; líf. Við ráðningu þessara tákna í ljóðinu ber
að hafa í huga andstæður ljóss og myrkurs - og þá um leið að vatnið er hér „afskipt
uppsprettu ljóssins". Takið eftir orðinu „okkar“ - mælandinn er ekki einn, án þess að
það sé skýrt frekar. Takið einnig eftir því að í Ijóðinu ríkir þögn. Hið eina sem minnir
á hljóð er „fjaðrirnar þagna".
Nú er allt, bókstaflega allt horfið í myrkur, - og „snertingin ein er eftir / ást mín, í
blindum taugum". í slíku algeru myrkri eru tengsl einungis fólgin í snertingu. Hér er
hún tengd ást, og taugarnar eru „blindar“ (enn yfirfærsla) í þessu myrkri sem er
miklu meira en myrkur ytri veraldar. Það hlýtur hér að vera tengt bæði tilfinningu
(sbr. taugarnar og ástina) og hugsun. Með öðrum orðum allsherjarmyrkur sorgar og
örvæntingar sem birtist í átakanlegri bæn lokaorðanna: „snertu mig / snertu mig ljós
sem lifir". Þrátt fyrir allt lifir ljósið sem er horfið mælanda ljóðsins, það veit hann og
hrópar á það í hljóðri bæn.
NJÖRÐUR P. NJARÐVÍK
ENGINN HLUSTAR
ÖRSAGA EFTIR ANGELU ROBERTS
KLUKKAN er sjö. Gamla útskorna
klukkan í næsta herbergi slær sjö þung
högg. Þau endurspegla andrúmsloftið
sem hvílir yfir þessari biðstöð, því þetta
er sannarlega endastöð fyrir þá sem hér bíða,
lengra verður allavega ekki haldið að sinni.
Fólkið hér er ekki ólíkt okkur, það hefur til-
finningar, þai-fir og langanir en samt eru þær
gleymdar og grafnar áður en þau sjálf hafa
hætt að anda. Sum þeirra bíða átekta á enda-
stöð þessa jarðneska lífs, sum hrædd en önnur
ráðvillt og vita ekki af hverju þau eru hér.
Hún er ein þeirra sem bíða.
Hún situr við gluggann í æfingagallanum sem
hjúkrunarkonan klæddi hana í þennan morgun
einsog alla, alla hina morgnana. Hún hoifii- út
um gluggann og pírir augun til að reyna að
koma saman skýrri mynd af útsýninu sem hún
hefur af þriðju hæð, en augun eru víst farin að
gefa sig eins og allt annað í hennar litla vesæla
kroppi. Húð hennar er föl. Hver sprunga og
hrukka bera merki lífsreynslu og þekkingar
sem hafa rist sig inn í andlit hennar og sál.
Hendur hennar eru æðaberar og hálfbæklaðar
þar sem gigtin hefur herjað. Augun gráblá, fjar-
læg og döpur. Lífsneistinn er horfinn.
Hún er að reyna að rifja upp gamlar minn-
ingar til að gleyma stund og stað. Hún var jú
eitt sinn manneskja, full af lífsorku, hraust og
sjálfstæð eins og við flest. Hún hafði lifað. Hún
hafði dansað hönd í hönd við lífið, hún hafði
elskað, verið elskuð. Hún hafði grátið, hlegið
og upplifað lífsins dýpstu leyndarmál.
En nú hefur hún ekkert, ekki einu sinni lífið
sjálft. Þetta er ekki líf hinna lifandi. Hvað er
hún nú? Hvert er hún komin? Hvert er hún að
fara? Hvenær?
Hún er gengin í barndóm, hún er ósjálf-
bjarga, þarf að láta mata sig, klæða og skipta á
sér.
Það er erfitt að ganga í barndóm í annað
sinn svipt allri virðingu og reisn. Það er hlust-
að á raddir lítilla barna, í þeim er framtíðin
sögð vera en ekki í andlitum eldri og reyndari
manna, þar er sögð engin framtíð, enginn
hlustar.
Hún vill fá að fara, það er ekkert eftir, þetta
er hennar ósk. Hvað er þá að því að hún vilji
fara? Hún hefur rétt á þessari löngun, þessari
ósk. Þessari hinstu ósk. Lífsorkan er að þrot-
um komin. Vilji hennar er að fá að fara en eng-
inn vill hlusta á orð gamallar konu. Enginn
hlustar, enginn vill heyra.
Dagarnir koma og fara, þeir eru allii' eins.
Hún sefur, borðar og vakir, dag eftir dag, mán-
uð eftir mánuð, ár eftir ár.
Arstíðirnar vekja enga ánægju né undrun
lengur, þær skipta hana engu, allt er eins, það
rennur saman í eitt og hið sama. Hún fer hvort
eð er ekkert og gerir ekkert, vakir bara, sefur,
bíður með óminn af sömu plötunni í bakgrunn-
inum með sömu lögunum. Stundum festist
platan í sama farinu og fer hvorki aftur á bak
né áfram fyrr en einhver kemur og slekkur.
Hún er eins og þessi plata, enginn vill koma og
slökkva. Enginn heyrir, enginn vill hlusta.
Fólk kemur, það fer, það lifir, hrærist og
þroskast, það kemur sjaldnar, það hættir að
koma. Það skiptir engu, hún er ekki líknarmál
og ekki stytta sem er til sýnis þegar öðrum
þóknast að veita henni viðtal.
Tíminn líður en samt ekki. Ekkert eftir
nema þokukenndar minningar um liðna at-
burði sem hún reynir að rifja upp af fremsta
megni og endurupplifa þó ekki væri nema brot
af þeim aftur.
Sál hennar er fangi í þessum þreytta lík-
ama.
Biðin er óendanleg. Sál hennar skreppur
saman og felur sig innst í hjarta hennar en sál-
in getur hvergi falið sig fyrir grimmum örlög-
um þessa heims sem vísa á dyr þeim sem
gamlir þykja. Þessi litla kjökrandi sál sér ekk-
ert Ijós í myrkrinu nema sjálfan dauðann til
þess að hún geti öðlast frelsi frá þessum
óskiljanlega heimi tilfinningaleysis og rang-
hugmynda. Ekkert annað eftir en að bíða eftir
að silkimjúkar hendur dauðans loki augum
hennar og leiði sál hennar inn í ljósið, þar sem
rödd hennar mun að eilífu heyrast.
Höfundurinn er ung stúlka í Reykjavík.
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS - MENNING/LISTIR 6. MARZ 1999 7