Lesbók Morgunblaðsins - 25.09.1999, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 25.09.1999, Blaðsíða 4
/ Ifyrri grein minni um gömlu Parísarárin var þess meðal annars getið að nokkur hluti af íslensku náms- og listamönnun- um hefði búið í grennd við Breteuiel- torgið og var það eflaust mest fyrir til- stilli leikarans Ducrocq, sem hafði einu sinni verið franskur sendikennari við Háskóla íslands og átti einmitt sjálfur heima í þessu hverfi. Skömmu eftir að kynni tókust með okkur komumst við að því að við áttum sameiginlegt eitt mál, sem við höfðum báðir brennandi áhuga á, þar sem var leiklist- in. Honum voru stundum falin misstór hlut- verk í sýningum í Vieux Colombier-leikhúsinu, auk þess lék hann í kvikmyndinni: Dieu créa la femme (Guð skapaði konuna) með Brigitte Bardot, þar sem fór að vísu nokkuð minna fyr- ir honum en leikkonunni lostfögru. Eg undir- ritaður hafði aftur á móti verið við leiklistar- nám í Pasadena Playhousee, en það er önnur saga, sem ekki verður rakin hér. Eg man ekki gjörla hvernig það atvikaðist, en Ducrocq hafði einhvern veginn fengið þá flugu í höfuðið að forvitnilegt gæti verið að gera kvikmynd með frönskum leikurum heima á Islandi. Islensk náttúra eða landslag væri í raun og sanni gjörsamlega óplægður akur, ónumið land fyrir kvikmyndagerðarmenn. Fá- gætur fjársjóður sem vert væri að kynna fyrir umheiminum. Efni myndarinnar skyldi skil- yrðislaust sótt í íslenskar bókmenntir, helst góðan sjónleik, annað þótti Ducrocq ekki koma til greina, enda sjálfur leikhúsmenntað- ur. Ég benti honum á Fjalla-Eyvind eftir Jó- hann Sigurjónsson sem hugsanlegt viðfangs- efni og eftir að ég hafði rakið íyrir honum efn- isþráðinn í stórum dráttum og jafnframt skýrt honum frá því að leikritið væri að vissu marki byggt á sannsögulegum atburðum og örlögum ógæfufólks á átjánduöld, þá féll þetta í svo góðan jarðveg hjá Ducrocq að mér var brátt falið það vandasama verk að þýða Fjalla-Ey- vind á frönsku. Síðan sat ég með sveittan skallann yfir þessari þýðingarþraut ýmist með Ducrocq eða starfsfélaga hans mér við hlið. Þótt þeir skildu ekki stakt orð í móðurmáli mínu, lásu þeir þýðinguna yfir til að fjarlægja þjalarför, fága stílinn og ljá honum þannig EFTIR HALLDÓR ÞORSTEINSSON Greinarhöfundurinn var í París um og eftir miðja öldina 1 þegar hópur íslenskra mynd- listarmanna var | þar við nám, en auk þeirra komu í heimsókn Þórbergur Þórðar- son og Margrét kona hans og sagt er frá kaffiboði Halldórs Laxness og Auðar konu hans á Coupole. eins franskt yfirbragð og nokkur kostur var. Við þá félaga stend ég í ævarandi þakkarskuld fyrir stuðninginn og ekki orð meira um það nema þá raunalegu staðreynd að ég hef ekki minnstu hugmynd um hvar þessi gamla þýð- ing mín er nú niðurkomin. Ducrocq og félagar hans fóru brátt á stúfana að leita að fjárfestum bæði í heimalandi sínu svo og hérlendis og gekk það satt best að segja eins og í lygasögu. Aðalstuðningsmaður þessa djarfa fýrirtækis heima á Islandi var Pétur Gunnarsson, sálugi, stórkaupmaður og Frakk- landsvinur. Guðlaugur Rósinkrans, þjóleikhús- stjóri, var líka með í spilinu, ef mér bregst ekki minni og í beinu framhaldi af þessu var kvik- myndafélagið Saga Film stofnað að ég best veit. Sumarið 1950 kom Ducrocq ásamt leikstjóra og kvikmyndatökumanni til Islands í því skyni að kynna sér aðstæður og gera ítarlega vett- vangskönnun, þar sem þeir höfðu haft óljósar spumir af dvalarstað Fjalla-Eyvindar og Höllu í Herðubreiðarlindum. Lagt var upp í leiðangur þangað frá Mývatni með staðkunn- ugum leiðsögumanni í jeppa ásamt Frökkun- um þremur og undirrituðum. Ekkert var yfír veðrinu að kvarta, sói, hiti og blíða alla leiðina. Þar sem það var með öllu útilokað að komast alveg að dvalarstað Fjalla-Eyvindar í jeppan- um, áttum við ekki annars úrkosti en að fara fótgangandi síðasta spölinn og tók það hvorki meira né minna en um það bil fjóra tíma fram og til baka. Þegar Frakkarnir sáu loks gjót- una, sem Eyvindur hafði hafst við í sögðu þeir ekki neitt, en ég þóttist geta lesið vonbrigði úr svip þeirra. Hugsanlega gat það verið mistúlk- un af minni hálfu og þó. Hitt þori ég hins veg- ar að fullyrða að þeir voru allir þrír bergnumdir af þeirri náttúrufegurð, sem þeim fannst hvarvetna blasa við sjónum sínum á þessum norðlægu slóðum. Meira en hálfu ári fyrir heimsókn Frakk- anna til Islands var þegar búið að velja leikara í aðalhlutverkin í væntanlegri kvikmynd, en það voru þau Roger Pigaut og Maria Casarés. Aður en gerð verður grein fyrir leikferli henn- ar, má ef til vill geta þess hér að við þremenn- ingarnir, þ.e.a.s. Ducrocq, leikstjórinn og ég sóttum hana einu sinni heim í íbúð hennar við Vaugirard-götu. Eftir að við höfðum hringt dyrabjöllunni og opnað hafði verið fyrir okkur, var okkur ekki vísað til stofu, eins og við bjuggumst við heldur til svefnherbergis leikkonunnar. Auk hennar var líka fyrir Roger Pigaut. Við vorum varla sestir fyrr en okkur var boðið upp á koníak. Þótt ég væri veraldar- vanur, þótti mér full snemmt að fara að skála í þeim eðaldrykk kl. 11 f.h. og þakkaði gott boð, sem félagar mínir þáðu það aftur á móti. Á þessum fundi okkar voru allir fullir eftir- væntingar og tilhlökkunar að takast á við verkefni, sem virtist heillandi og krefjandi í senn. En tæpu ári síðar vöknuðum við upp við vondan draum, þegar frönsku fjárfestarnir kipptu að sér hendinni öllum að óvörum. Ég er ekki frá því að íslensku fjárfestarnir og þó einkum Pétur Gunnarsson hafí orðið fyrir þó nokkrum skakkaföllum við þetta. Þeir höfðu m.a. kostað för Frakkanna til Islands svo og uppihald og ferðalög hérlendis. Hér mætti líka skjóta því inn að mér var aldrei greiddur hvorki grænn túskildingur né svört „sentima" fyrir þýðinguna, en það er annað mál, sem ekki verður frekar rætt hér. Forvitnilegt hefði verið að sjá Maríu Casa- rés glíma við hlutverk Höllu í kvikmynd. Þessi spænskættaða leikkona lét enga næma sál ósnortna, slíkur var hennar innri eldur og út- geislun. Hún var óskeikul að heita, enda var henni einkar lagið að tjá bæði hug og tilfinn- ingar þeirra leikpersóna, er henni var falið að túlka hverju sinni og það með hárréttum og hnitmiðuðum radd- og svipbrigðum. Það má með sanni segja að bæði of og van hafi verið henni fjarri skapi. Hún gerði garðinn frægan jafnt á fjölunum sem frammi fyrir kvikmynda- vélinni. Frammistaða hennar í sjónleikjum eins og Hinum réttlátu eftir Camus, Djöflinum og drottni eftir Sartre og Sex persónum í leit að höfundi eftir Pirandello þótti með miklum ágætum. Engu síðri var hún í kvikmyndum eins og t.d. La Chartreuse de Panne (Karþús- anunnan í Parma), byggð á önduvegissögu Stendhals og í snilldarverki Marcels Carnés, Les Enfants Du Parradis eða Leikhúsgestun- um á efstu svölum. Sá sem þessar línur ritar, varð einu sinni þeirra ánægju aðnjótandi að sjá þennan fjöl- hæfa listamann leika Hamlet Danapris í Le Théatre Marigny við Champs Elysés, leikhúsi í eigu hans og eiginkonunnar, Madeleine Renaud, sem var fullkominn jafnoki manns síns í leiklistinni. Túlkun Barraults á titilhlut- verkinu var í senn frumleg og rammfrönsk með tilheyrandi skaphita og ólgu, en enda þótt tök hans á viðfangsefninu hefðu kannski þótt framandi í Englandi, var hann samt alltaf trúr jafnt anda verksins sem texta höfundar. Önn- ur vinnubrögð voru viðhöfð eða réttara sagt annað viðhorf haft til „handrits" Shakespeares af sama sjónleik, þegar hann var settur á svið í Þjóðleikhúsi íslendinga hérna um árið. Guð má vita hvernig leikstjórinn og hjálparhella hans, leikfræðingurinn, fóru að því að verða sér út um þetta kolfágæta „handrit". Þeir fé- lagar sátu með sveittan skallann og hófust handa við að stytta, strika út og sníða af helstu agnúana. Þeir renndu ekki blint í sjóinn með eitt einasta atriði, en það er meira en sagt verður um enska leikskáldið, Shakespeare. Þeim rann sérstaklega til rifja hversu glám- skyggn hann var á eðli vináttunnar. Hann vissi greinilega ekki að vináttan er blind rétt eins og ástin. Þær eru í vissum skilningi tvíbura- systur. Listræn nauðsyn krafðist þess því skil- yrðislaust að Hóratió, besti vinur Hamlets, væri blindur, já, raunverulega blindur, en ekki aðeins í sálu sinni. Allir heilvita menn hljóta að sjá þetta og skilja. Vonandi felur þjóðleikhús- stjóri Baltasar Kormáki og leikfræðingunum, þessum stórhuga og stórtæku umbótamönn- um, fleiri sjónleiki Shakespeares til lagfæring- ar. Framtak sem yrði áreiðanlega metið að verðleikum meðal allra helstu menningarþjóða í heiminum. Með magister Birni á Bar Norland Þar sem leiklist er meira bundin stund og stað en aðrar listgreinar vilja nöfn þeirra leik- ara, sem hafa haft fjalir undir fótum allan sinn starfsaldur, gleymast furðu fljótt. Öðrum lista- mönnum eins og t.d. skáldum, rithöfundum og listmálurum reynist því ólíkt hægara að höndla ódauðleikann en þessum listamönnum augnabliksins. Ég undirritaður verð forsjón- inni eilíflega þakklátur að hafa fengið tækifæri til að njóta listsköpunar þeirra í París á eftir- stríðsárunum, leikara á borð við Louis Jouvet, Madeleine Renaud, Gérard Philip auk þeirra sem þegar hafa verið tilgreindir. Mér er mjög til efs að yngri kynslóðin kunni nokkur deili á þessu látna listafólki. Öðru máli, já, allt öðru máli gegnir um rithöfunda og heimspekinga eins og Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir. Þar sem ritverk þeirrar síðarnefndu voru nýlega til umfjöllunar á málþingi menntakvenna hér í höfuðborginni má skjóta því hér inn í, þótt það komi ekki kvennafræð- um beinlínis við, að Högna Sigurðardóttir, arkitekt, var um árabil andbýlingur Simone de Beauvoir á sama gangi á fyrstu hæð í Rue Schoelcher í 14. hverfinu í París. Sýnir þetta ekki og sannar að heimurinn er miklu minni en við höldum. Eftir þennan útúrdúr er ef til vill ekki úr vegi að geta þess, að ég komst í kynni við þetta víðfræga fólk á námsárum mínum í París. Það vildi þannig til að vinur minn, magister Björn Bjarnason frá Steinnesi, hafði fyrir tilviljun haft spurnir af dönskum vínbar, sem hét Bar Norland og varð hann fyrr en varði mjög vinsæll meðal landanna á Montparnasse. Kvöld nokkurt þar sem við magisterinn sátum saman við barinn, spurði ég hvort hann hefði nokkuð tekið eftir skötu- hjúunum sitjandi inni í básnum næst snyrting- unni og þar eð hann hafði ekki veitt þeim neina sérstaka athygli, fræddi ég hann á því að þarna sætu heimspekingarnir umtöluðu, Sartre og de Beauvoir, og væru eflaust að brjóta hin merkustu mál til mergjar. Þótt hann vildi ekki trúa mér í fyrstu, sannfærðist hann samt von bráðar. Þar sem við höfðum það báðir á tilfinning- unni, að þau hefðu valið þennan líttþekkta stað til að fá frið fyrir forvitnu fólki og ágengum aðdáendum, rak okkur í rauninni í rogastans þegar Sartre ávarpaði okkur á leiðinni út. 4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 25. SEPTEMBER 1999

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.