Lesbók Morgunblaðsins - 25.09.1999, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 25.09.1999, Blaðsíða 15
VÍNLAND ER ELDRA EN ÍSLANPS BYGGD II VÍNLAND í ÍRSKUM FORNRITUM EFTIR HERMANN PÁLSSON Sæför Brandans segir á þessa lund: „Á meðan hafði Brandan fundið sex uppsprettur inni á frjóvum velli, þétt vöxnum grænum grösum og gróðursprotum. Hann kom til baka með fangið fullt af nýjum aldinum [...] Myndlýsingin er úr forn-írsku handriti. Merkasti umróður íra er kenndur við Meldún og talinn vera saminn á áttundu eða níundu öld, en hann stendur djúpum rótum í ævafornum jarðvegi írskrar menningar. Kristnu efni er þar stillt í hóf. Skemmtilegt er til þess að vita að Umróður Meldúns var orðinn lesefni með írum áður en íslensk þjóð varð til. ÓTT fornírskur skáldskapur í óbundnu máli þyki síst vera jarð- bundinn og fjalli oft á tíðum um heim hugarburðar var listrænum sagnahöfundum þar í landsuðri mikil virkt á mannlegum örlög- um. Slíkan áhuga má jafnvel ráða af heitum margra sagna, en þær eru einatt kenndar mannlegar athafnir; yfir- leitt eru fornsögur íra stuttar, einfaldar að gerð og varða einkum tiltekinn atburð. I íi’sk- um sagnaheitum eru nefndar orrustur, rán, veislur, ástir, árásir, innrásir, bónorð, draum- ar, aldurlög, getnaðir o.s.frv.10 Nú skal nefna tvö dæmi til skýringar. í fornsögunni Fled Bricrenn er lýst mikilli og örlögríki’i veislu sem Bricriu hélt, enda merkti fled ‘veislu. Orðið compert táknaði ‘getnað, fang og í þættinum Compert Con Culainn segir einmitt frá því hvernig garpurinn Cú Chulainn kom undir. Slíkt þykir ekkert tiltökumál, enda gætir hisp- ursleysis víða í írskum fornsögum. Tveir írskir sagnaflokkar skipta einkum máli þegar verið er að glíma við sögur af farmönn- um, sem kynnast fjarlægum löndum eða jafn- vel annarlegum heimi handan við úthafið. Hér verða slíkar sögur kallaðar titferðir og Um- róðrar. Hinar fyrrnefndu heita á írsku echtraí, í eintölu echtrae; þetta orð er skylt sögninni echtraid sem merkir „fer út, leggur af stað í ferðalag“. Og með því að hér er um að ræða hugmynd sem minnir á Útferðarsögu Sigurðar Jórsalafara og Útfarardrápu Halldórs skvaldra um sömu ævintýri, þá hefur mér helst dottið í hug að þýða írska orðið með útferð.11 Svo er hermt í Morkinskinnu að Islendingur einn skemmti hirð Haralds harðráða með sög- um og þegar dregur að jólum á hann ekki nema eina ósagða, en það var einmitt Útferðar- saga Haralds, sem gæti víslega verið kölluð echtrae á írsku, enda lýsir hún ævintýrum hans í Miklagarði.12 Þó mun þá frásögn hafa skort allan þann skáldskap og þá miklu fegurð sem er aðal hinna írsku echtraí. Rétt er einnig að rifja það upp að Önnur Mósebók var áður fyrr kölluð Útferðarbók (þ.e. Exodus). í upphafi titferða birtist jafnan dularfull og undra fögur kona sem heillar garp til að koma til Munarheims,13 en sá heimur getur verið á ýmsum stöðum: neðanjarðar eða neðansjávar; oft í álfaborg. Stundum liggur hann langt vest- ur í hafi og minnir að því leyti á Vínland og Hvítramannaland. En hvar sem hann er, þá ríkir þar mikil fegurð, sæla og unaður; hvergi bólar á elli, dauða né sóttum; dýrleg angan, heilindi og friður ríkja þar: fögur hljómlist, litaskrúðug náttúra. Sögur þær sem ganga undir heitinu Útferðir segja frá kynlegum at- vikum, undrum og töfrum. Ferðalag til annar- legs heims er samkenni slíkra sagna. I elstu útferðarsögunni, sem enn er til og var skráð á sjöundu eða áttundu öld og kennd er við Bran, er talað um hundrað og fimmtíu fjar- lægar eyjar sem liggi vestur í hafi; hver þeirra er helmingi eða jafnvel þrisvar sinnum stærri en írland, enda kemur það fáum á óvart að Hvítramannaland í þættinum af Ara á Reyk- hólum er einnig kallað frland hið mikla. Hinn flokkur írskra fornsagna sem vert er að minnast í sambandi við Vínlandssögur kall- ast immrama og ég leyfi mér að kalla þær um- róðra á íslensku sem má teljast nákvæm þýð- ing. I slíkum sögum leita menn að eyjum í út- hafinu og gera það af engu minni áhuga en þeir Leifur og Karlsefni sýndu í landaleit forðum. I írsku umróðrunum er mikill skáldskapur fólg- inn, enda er langtum örðugra að henda reiður á landafræði þeirra og sagnfræði en hægt er í Vínlandssögum. Þó leikur enginn vafi á að írsku umróðrarnir styðjist við raunverulegar sjóferðir; í slíku sambandi má benda á Papana sem sigldu hingað, reru eða létu berast fyrir vindi og straumi á áttundu og níundu öld.14 Þess skal snögglega getið að einn umróðurinn írski sem er í bundnu máli og var ortur á tí- undu öld, fjallar um tvo munka frá Eynni helgu í Suðureyjum; þeir róa á haf út og hitta þá átta eyjar. Skáldið drepur á þá nýstárlegu kenn- ingu að með hryðjuverkum norrænna víkinga sé guð að refsa Irum fyrir syndsamlegt athæfi. Merkasti umróður Ira er kenndur við Meldún og talinn vera saminn á áttundu eða ní- undu öld, en hann stendur djúpum rótum í ævafornum jarðvegi írskrar menningar. Rristnu efni er þar stillt í hóf. Skemmtilegt er til þess að vita að Umróður Meldúns var orðinn lesefni með Inim áður en íslensk þjóð varð til.15 En frægastur allra írskra sæfara að fornu var Brandan hinn helgi, sem er talinn vera fæddur seint á fimmtu öld. Um hann eru til tvö rit, sem eru þó nokkuð skyld hvört öðru: Lífs- saga Brandans og Sæför Brandans, sem er tal- in vera skrifuð seint á níundu öld eða snemma á hinni tíundu, rétt um það leyti sem land- námsöld gengur yfir hér um slóðir. Hvort tveggja ritið er til bæði á írsku og latínu. 5. Vfnland i frskum fornritum Vín og vínber teljast til þeirra gæða náttúr- unnar sem prýða Fyi’irheitna landið í írskum frásögnum. Löngu áður en íslendingar og Grænlendingar fóru að kynnast vínberjum vestan hafs höfðu írar skrifað um slíka hluti í titferðum sínum og Umróðrum. Einna eftir- minnilegasta frásögnin af vínberjum sem ég kannast við í írskum letrum er í Sæför Brand- ans: „Að kveldi hins þriðja dags kom gríðar- stór fugl fljúgandi að bátnum og bar í goggi sér kvist af ókenndu tré. Á öðrum enda kvistsins hékk stór köngull af hárauðum vínberjum. Fuglinn lét kvistinn detta niður í kjöltuna á Brandan. Hann kallaði á munka að koma nú til sín og hvatti þá til að taka til matar síns: ‘Lítið nú á þetta og snæðið matinn sem guð hefur gefið oss. Hvert vínber var jafn stórt og epli. Brandan skammtaði þeim vínberin, eitt í senn, og þau entust þeim tólf daga.“ Annars staðar í Sæför Brandans segir á þessa lund: „Á meðan hafði Brandan fundið sex uppsprettur inni á frjóvum velli, þétt vöxnum grænum grösum og gróðursprotum. Hann kom til baka með fangið fullt af nýjum aldinum [...] Fjörutíu daga nærð- ust þeh’ á vínberjum, káli og sprotum. Síðan sigldu þeir brott og höfðu með sér eins mikið og báturinn gat tekið.“ í Umróðri Meldúns er eyja þar sem tré bera indæl aldini með ágætum og áfengum berjum. „Dásamleg eyja og í henni var stór lundur af einstakri fegurð, höfugur með eplum, gullnum að lit og angandi. Tær vínlækur rann um miðj- an lundinn, og þegar vindur lék um trén þaut í þeim fagurlegar en í nokkru söngfæri. Þeir bergðu dálitlu af eplum og dreyptu á víni úr læknum; urðu þá saddir þegar í stað. Og þaðan frá angraði þá hvorki sótt né sár.“ Um aðra ey segir að á henni miðri „var stöðuvatn, og það var rétt eins og sætt vín á bragðið". írskum ritum verður yfirleitt langt- um tíðræddara en íslenskum bókum um ilm og keim og kemur því lítt á óvart svofelld lýsing í Útferð Brans: „Skógur með blómum og aldin- um, unaðsleg angan af vínviði: skógur þar sem ekkert hrörnar og lauf eru gullin að lit.“ Svo mætti lengi telja. Þótt ég hafi ekki rek- ist á heitið Vínland í írskum ritum,16 þá er vín svo áberandi þáttur í lýsingum þeirra á eylönd- um í vestri að þau geta sannlega kallast vín- lönd og þangað mun réttast að leita að fyrir- myndum að örnefninu Vínland í íslenskum fornritum. Þótt Vínlandssögurnar geri ráð fyrir því að þeir Bjarni Herjólfsson og Leifur heppni hafi ekki vitað til þeirra landa í vestri sem þeir hröktust til, þá er engan veginn ósennilegt að fróðir Islendingar á fyrstu öldum landsbyggð- ar hafi þekkt hugmyndir Ira um annarleg og ókunn lönd í vestri, handan við mikið haf. Slík vitneskja hefur verið hluti af þeim skerfi ’. menningar sem vestrænir landnámsmenn hlutu í arf frá írskum forfeðrum sínum. í þessu sambandi er vert að minnast þess að þau Þorfinnur karlsefni, Guðríður kona hans, Leifur heppni,17 Ari Másson og Ari fróði áttu öll kyn sitt að rekja til írskra forfeðra. Og með því að farmennsku gætir töluvert í ættum þessa fólks er engan veginn ósennilegt að minningin um írska umróðra hafi hjarað hér- lendis þangað til hin annarlegu lönd komu í ljós þegar siglt var nógu langt í útsuður. Hvað sem slíku líður þá ættum vér ekki að státa af fundi Vínlands án þess að láta Ira njóta sannmælis. Fátt þykir öllu argara ógæfumerki en að eigna sjálfum sér afrek annarra, ekki síst þegar löngu gleymdir forfeður eiga í hlut. 1 Um sérstakan hugmyndaheim Grænlendinga að fornu er nauðalítið vitað. Um Norðmenn er það í skemmstu máli að segja að þeir virðast ekki hafa vitað neitt um Vínland fyrr en þeir fóru að rýna í íslenskar skræður löngu eftir að Noregur og ísland komust undir dönsk yf- irráð. Á þrettándu öld töldu þeir Grænland liggja á ysta hjara veraldar og voru alis ófróðir um Helluland, Markland og önnur lönd sem íslendingum varð tíðrætt um forðum. Eitthvert helsta afrek danskra konunga á þessu sviði um langan aldur var að týna Grænlandi, stærstu ey heimsins. Til allrar bölvunar þeim sem nú byggja hið svala land fundu Danir það aftur. Fundur lands hefur löngum reynst þeim harla lítill snúður eða gæfa sem þar eiga heima. 2 Orðið skröksaga er notað hér í fomri merkingu: ‘goð- sögn, tíðindi af atburði sem aldrei hefur gerst í raun og veru. 3 Glöggum lesendum Eiríks sögu rauða þykir kynlegt að útlent fólk er áberandi í föruneyti Leifs í Vínlandsfór. - Þjóðverjinn sem fóstraði hann er ekki eina hræðan þar af annarlegum uppruna. „Ólafur konungur Tryggvason hafði gefið Leifi tvo menn skoska; hét karlmaðurinn Haki en konan Hekja. Þau vora dýram skjótari." Orðið skoskur merkir annaðhvort „írskur“ eða „frá Vestur- Skotlandi". Um fráleika fra er getið i nokkram íslensk- um ritum. Sjá Carl J .S. Marstrander, Bidrag til det nor- ske sprogs historie i Iriand (Kristiania 1915), bls. 146, Bo Almquist, ‘Gaelic/Norse folklore contacts. Iriand and Europe in the early Middle Ages. Útg. Próinséas Ní Chatháin & Micheal Richter (Klett-Cotta 1996), bls, 159-60. Helgi Guðmundsson, Um haf innan. Vestrænir menn og íslenzk menning á miðöidum (Reykjavík 1997), bls. 322-25. 4 Hér er um útlent minni að ræða. í írskri fomsögu er lýst öldraðum íra, gráum fyrir hærum, sem sæfarar rekast á úti á eyju einni og neitar tvívegis að segja til nafns síns, þegar hann er spurður um það, rétt eins og kappinn úr Breiðuvík í Eyrbyggju. 5 Sagan telur að þetta hafi borið við „ofarlega á dögum Ólafs hins helga“, en hann féll árið 1030. 6 Sama orðtak er notað í Eiríks sögu rauða um þá Leif Eiríksson og félaga hans: „En er Leifur sigldi af Græn- landi um sumarið urðu þeir sæhafa til Suðureyja" (fs- lenzk fornrit IV: 209). 7 Sturlubók, 122. kap. í Hauksbók stendur Reyknes- ingakyn sem kann að vera upphaflegra og einnig mun það hafa verið nafn á ættfræðiriti frá tólftu öld sem fjall- aði um niðja Úlfs skjálga landnámsmanns. Til saman- burðar verður Ölfyssingakyn, sem nefnt er í Landnámu. Hugsanlegt er að frásögnin af Ari Mássyni á Hvítra- mannalandi hafi verið skrásett i *Reyknesingakyni. Þá hefði mannfræði verið blandað við ættfræði, rétt eins og ber við í öðrum ritum. Vert er að minnast þess að út- legðar Ai'a Mássonar er ekki getið í Melabók. Fóst- bræðra saga birtir fróðleik úr *Reyknesingakyni. 8 Sjá íslenzk fornrit I: 162, nmgr. 2 (Jakob Benedikts- son). 9 Sjá Edmund Hogan S.J., Onomasticon Goedelicum (Dublin 1910), bls. 638. Ýmis önnur írsk landfræðiheiti í fornsögum eru samsett á sömu lund og Hvítramanna- land, svo sem þessi tvö í orðréttri þýðingu: Sterkra- mannaey og Blárramannaland (=Marokkó), sem forfeð- ur vorir kölluðu raunar Bláland. 10 írsk handrit frá miðöldum varðveita tvær ítarlegar sagnaskrár sem flokka þeim eftir atburðum. Sjá Rudolf Thurneysen, Die irische Helden- und Königsage bis zum siebzehnten Jahrhundert (Halle [Saale] 1921), bls. 21-24. 11 Tvær ‘útferðir eru birtar í lrskum fornsögum (Reykjavík 1953), þar sem þær eru kallaðar Ævintýri Nera og Ævintýri Kormaks. 12 Sögumanni farast orð á þessa lund um heimildar- mann sinn: „Það var vandi minn úti á landinu að eg fór hvert sumar til þings og nam eg hvert sumar af sögunni nokkuð að Halldóri Snorrasyni." Morkinskinna. Útg. Finnur Jónsson (Kh. 1932), bls. 200. Með því að Halldór tók sjálfur þátt í ævintýram Haralds þar syðra, má ætla að hann hafí farið með rétt mál. Hér hagar til rétt eins og í Grænlendinga sögu þar sem Karlsefni er talinn hafa • rakið frásagnir af Vínlandsferðum, en í þeim gegndi hann vitaskuld mikilvægu hlutverki sjálfur. 13 Þórgunna í Eiríks sögu rauða minnir dálítið á hlut- verk slíkra kvenna í írskum útferðum, enda hittir Leifur á Vínland eftir fund þeirra. Þó fer höfundur sögunnar sínar eigin götur og hún hefur annars konar hliðstæður í íslenskum sögum. 14 Nýjustu ritin um Papa sem mér eru kunn eru kver mitt Keltar á íslandi (Reykjavík 1977) og bók Helga Guðmundssonar sem getið er í 3. nmgr. hér að framan. 15 Kafli úr Umróðri Meldúns birtist í Tímariti Máls og menningar árið 1952, en þar er sagan kölluð „Sigling Meldúns". Þess skal getið til gamans að nafni hans bregður fyrir hérlendis. Þorgeir meidún landnámsmað- ur bjó á Tungufelli í Lundarreykjadal. 16 Örnefninu Þrúgnaey bregður þó fyrir. 17 Ekkert er vitað um írskan upprana Bjai-na Herjólfs- 7 sonar. Hins er þó vert að minnast að með Herjólfl föður hans var á skipi til Grænlands „suðureyskur maður kristinn, sá er orti Hafgerðingadrápu“. Höfundurinn er fyrrverandi prófessor við Edinborgar- hóskólo. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 25. SEPTEMBER 1999 1 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.