Alþýðublaðið - 07.02.1987, Blaðsíða 9

Alþýðublaðið - 07.02.1987, Blaðsíða 9
Laugardagur 7. febrúar 1987 ______________________9 GYLFI Þ. GÍSLASON 70 ÁRA Að vera íslensk þjóð á sjálfstæðu íslandi Ég býö ykkur öll hjartanlega vel- komin til þessa fundar. Sérstaklega býö ég velkomna starfsbræður mína frá hinum Norðurlöndunum. Mér er það alveg sérstök ánægja, að þeir skuli allir hafa getað og viljað takast á hend- ur hina löngu ferð hingað til Ultima Thule. Ég vona, að fundur okkar megi verða gagnlegur, og þeir þurfi ekki aö iðrast langrar ferðar sinnar. Ég býð einnig hjartanlega velkomna alla sam- starfsmenn ráðherranna. Án þeirra yrðum við áreiðanlega nú eins og fyrri daginn eins og nærsýnn maður, sem gleymt hefur gleraugunum sínum. Ég vona, að mér fyrirgefist, þótt mig, langi til þess að segja nokkur orð, al- menns eðlis og utan dagskrár, áður en við byrjum vinnu okkar. Þetta er þó ekki nema í annað skiptið, sem nor- rænir menntamálaráðherrar hittast í Reykjavík. Mig langar til þess að skýra það með nokkrum orðum, að það er ekki venjuleg og sjálfsögð kurteisi, er ég býð ykkur hjartanlega velkomin. Við Islendingar teljum okkur nor- ræna þjóð. Við viljum halda áfram að vera það. Allt samstarf við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum er okkur kær- komið. Líklega er þó samstarf í menn- ingarmálum okkur kærkomnast og eðlilegast. En þetta hafið þið allt sam- an heyrt áður, án efa margoft. Og það væri hreint ekki óeðlilegt, að þið héld- uð, að hér væri um vel meint, en venju- legt orðskrúð að ræða. En í mínum munni hafa þessi orð dýpri og alvar- legri merkingu, og ég er sannfærður um, að þar mæli ég fyrir hönd mikils hluta hugsandi íslendinga. Það er- þetta, sem mig langar til þess að skýra með fáeinum orðum. Frá skynseminnar sjónarmiði — mælt á mælistiku hagkvæmni og hag- nýtra sjónarmiða — er það ef til vill heimskulegt fyrir tæplega tvö hundr- uð þúsund manns að burðast við að halda uppi sjálfstæðu ríki og vilja vera óháð menningarþjóð. Það furðulega ævintýri, sem hófst með landnámi norrænna manna á stóru eylandi norð- ur undir heimskautsbaug fyrir nær ell- efu hundrað árum, við rætur víðáttu- mestu jökla Norðurálfu, á einni stormasömustu strönd Atlantshafs, var ef til vill óskynsamlegt uppátæki. Líf nokkurra tuga þúsunda hér norður á hjara veraldar í margar, myrkar aldir var án efa ekki arðvænlegt fyrirtæki. Þessa rœðuflutti Gylfi Þ. Gíslason við setningu mennta- málaráðherrafund- ar Norðurlandanna í Reykjavík 2. júlí 1963. Og einhverjum reikningsglöggum raunsæismönnum hefur eflaust getað fundizt það hæpið tiltæki — á tuttug- ustu öld, tímum tækni og vaxandi áhrifa stórvelda — að endurreisa eld- gamalt smáríki, svo fámennt, að allir íbúarnir kæmust fyrir við nokkrar göt- ur í nútíma stórborg, — svo lítið, að þjóðarframleiðslan er ekki meiri en framleiðsla meðalfyrirtækis hjá stór- þjóð. En eins og landnámsmennirnir lögðu út í óvissuna á níundu öld, með ímyndunaraílið að áttavita, heillaðir af því, sem er ótrúlegt í öllum ævintýr- um, — eins og fátæk þjóð varðveitti tungu sína og þjóðerni öldum saman af tryggð við forfeður og minningar og af þeirri ást á sögu og ljóði, sem verður ekki látin í aska, — eins höfum við, tuttugustu aldar menn á íslandi, gert alvöru úr því, sem áður var draumur, að efna til sjálfstæðs ríkis, þrátt fyrir fæð okkar, þrátt fyrir smæð okkar. íslenzkur stjórnmálamaður var eitt sinn að ræða við indverskan mann á þingi Sameinuðu þjóðanna, og spurði hinn indverski um íbúatölu íslands. ís- lendingurinn mundi í svipinn ekki ná- kvæmlega, hversu marga tugi umfram hundrað þúsund þjóðin teldi, og var því ekki komin lengra en að segja hundrað, þegar Inverjinn botnaði setn- inguna og sagði: „Hundrað milljónir, já, þið ættuð að geta séð ykkur vel far- borða!" Ég minnist þess einnig, þegar ég átti viðræður við David Ben Gurion í Israel 1958. Hann sagði m.a„ að ein heitasta ósk sín væri sú, að ísraels- menn yrðu sem fyrst fjórar milljónir talsins, fyrr sagðist hann ekki vera ör- uggur um framtíð ríkisins. Minna ríki fengi ekki staðizt á okkar tímum. Ég held, að öllum hugsandi íslend- ingum sé ljóst það, sem er tvisýnt við tilveru smáríkis örfárra einstaklinga undir miðnætursól og norðurljósum. En aldrei, í aldalangri sögu þessa kalda lands, hafa búið hér menn, sem eru staðráðnari í því, að þúsund ára gamla ævintýrið, sem hér hefur verið að gerast, skuli halda áfram að vera raunveruleiki, staðreynd, — að hér skuli um allar aldir vera íslenzkt ríki íslenzkrar þjóðar. Nýir tímar og nýjar aðstæður krefjast auðvitað nýrrar af- stöðu á fjölmörgum sviðum. Hinn mikli vandi okkar er einmitt fólginn í því að samræma stefnu okkar í málum dagsins því eilífa markmiði, að vera is- lenzk þjóð á sjálfstæðu íslandi. En hver er kjarni þessa vanda? Öll vitum við, að við lifum á öld tækni, kjarnorku, geimferða, skipu- lagningar. Það er líka kunnara en frá þurfi að segja, að allt þetta eílir stór- veldi, en gerir hlutskipti smærri ríkja erfiðara. Auðvitað geta smáríki einnig náð langt í tækni og skipulagningu, einkum á takmörkuðu sviði. Það hafa t.d. Norðurlönd sýnt og jafnvel hið minnsta þeirra, ísland, sem mun mega teljast forystuþjóð í veiðitækni. í kjölfar þessa geta siglt góð lífskjör. En það breytir ekki þeirri meginstað- reynd, að á æ fleiri sviðum tækninnar stendur hinn stóri betur að vígi en hinn smái. Og það er sú þróun, sem gerir hlutskipti smáríkjanna æ vanda- samara. Hvað eiga þau að taka til bragðs? Skynsemin hefur verið að leggja undir sig heiminn. Hagkvæmnin hef- ur verið að ryðja öðrum mælikvörðum til hliðar. Ekki situr það á mér, sem hef haft þann starfa að kenna stúdentum hagfræði, að vanmeta hagkvæmni og skynsemi. En það er til fleira í veröld- inni. Mér finnst, að skynsemi og hag- kvæmni sé búin að þoka ímyndunar- afli og innblæstri alltof langt til hliðar. í sannleika sagt finnst mér, að megin- vandi okkar tima sé í því fólginn, að imyndunaraflið sem skapandi máttur sé i hættu. Það sem við þörfnumst um- fram nýjar vélar, umfram meiri kjarn- orku, umfram nýjar eldllaugar, að ég ekki tali um fleiri kjarnorkusprengjur, er meira ímyndunarafl, meira skap- andi, vekjandi, þroskandi og gleðjandi ímyndunarafl. Við þörfnumst endur- mats á þekkingunni. Við teljum okkur aðeins þekkja náttúrulögmálin og staðreyndirnar. Auðvitað gerum við það, og við eigum þeirri þekkingu mik- ið að þakka. Við þekkjum þyngdarlög- málið og breytingarnar á verðlaginu. En við höfum aldrei hlustað á þyngd- arlögmálið, og við höfum aldrei séð verðlagsvísitöluna á gangi í miðbæn- um. En höfum við ekki bæði heyrt og séð Sölku Völku? Er hún ekki jafn- áþreifanleg staðreynd og þyngdarlög- málið? Og er ævintýraheimur H.C. Andersens, er sú veröld, sem Hamsun hefur gefið okkur í sögum sinum, Fröding i ljóðum sínum og Sibelius í tónum sinum, nokkuð óraunverulegri en verðlagsvísitalan, sem við erum þó að minnsta kosti guðs lifandi fegin að hafa aðeins séð á prenti eða á mynd, en aldrei þurft að taka í hendina á, þótt við hefðum hins vegar gjarnan viljað heilsa upp á afa gamla á Knerri í Fjall- kirkju Gunnars Gunnarssonar? Ef það er rétt, að okkar tíma skorti fyrst og fremst skapandi ímyndunar- afl, jafnvel frekar en siðgæðisvakn- ingu, jafnvel frekar en trúarvakningu, þá held ég, að smáþjóðirnar verði að hafa forystu um að bæta úr því. Stór- þjóðirnar, stórveldin, eru málsvarar hagkvæmninnar, skynseminnar. Það er eðlilegt. Ef smáþjóðirnar eiga að halda hlut sínum, sanna tilverurétt sinn, sýna gildi sitt, þá verður að hafa fleiri kvarða á lofti en kvarða tækninn ar, hagsýninnar, hinnar blindu kunn- áttu. Og þá má það ekki gleymast, að valdið er ekki mælikvarði á gildið. Þeg- ar öllu er á botninn hvolft, er það ein- staklingurinn, sem skiptir máli. Það er satt, sem Halldór Laxnes hefur sagt, aö sannleikurinn er ekki í bókum, og ekki einu sinni í góðum bókum, heldur í mönnum, sem hafa gott hjartalag. Nú fer það vonandi að verða ljósara, hvað ég er að fara. Við íslendingar byggjum eitt yngsta ríki Evrópu, eitt smæsta ríki veraldar. Við höfum komið því á fót á öld raunhyggju og tækni, tímum stórvelda og þjóðabandalaga. Hernaðartækni nútímans hefur gert það nauðsynlegt, að við gerðumst aðil- ar að hernaðarsamtökum við stórveld- in. Þróunin í viðskiptamálum mun ef- laust einnig gera það nauðsynlegt, að við gerum einhverja samninga við þær stóru viðskiptaheildir, sem virðast timanna tákn. Rás tímans hefur leitt okkur, hina smæstu af öllum smáum, Framh. á bls. 23 Gyljl Þ. Gislason í ráðherrastól á Alþingi. Gylfi Þ. Gislason Jlytur rœðu ájlokksþingi og hyllir Guðmund G. Hagalin, rithöfund

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.