Morgunblaðið - 04.02.2001, Side 6
ERLENT
6 SUNNUDAGUR 4. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
HANN neyddist varla tilþess að segja af séreinungis vegna þess aðhann laug, því það hafa
svo margir ráðherrar komist upp
með að ljúga. Það getur ekki verið
að hann hafi neyðst til þess að
segja af sér af því að hann reyndi
að breiða yfir lygarnar því að það
hafa aðrir líka gert. Af hverju
neyddist Peter Mandelson Ír-
landsráðherra þá til að segja af
sér? Þessari spurningu veltu sér-
fræðingar breskra fjölmiðla ákaft
fyrir sér nú í vikunni eftir afsögn
Mandelsons og mörgu var velt
upp.
En það er kosningablær í lofti,
talað um kosningar 3. maí og því
einnig ákaft rætt hver sé staða
Verkamannaflokksins í kjölfar
Mandelsonmálsins. Það væri ótrú-
leg bjartsýni fyrir Íhaldsflokkinn
að dreyma um sigur, því þótt
William Hague, leiðtogi hans,
skari fram úr í kappræðum í
þinginu skarar flokkurinn enn
ekki fram úr Verkamannaflokkn-
um.
Tony Blair forsætisráðherra
hefur þó gildar ástæður til þess að
vakna upp í köldu svitabaði á
hverri nóttu því að með lítilli kosn-
ingaþátttöku gæti martröð flokks-
ins ræst og hann misst stóran
hluta af þingmeirihluta sínum. En
í raun tapa báðir stóru flokkarnir
á hneykslismáli eins og þessu, því
kjósendur yppta öxlum og segja að
flokkarnir tveir séu greinilega
sami grautur í sömu spillingar-
skálinni.
Tengsl Hinduja-
bræðranna og Blair
Það er öldungis ekki ljóst hver
gerði hvað í þeirri fléttu þegar
auðugir indverskir bræður,
Gopichand og Scrichand Hinduja,
fengu breskt ríkisfang. Og það á
skömmum tíma, þótt þeir hafi báð-
ir verið flæktir í spillingarmál
heima fyrir um langt skeið. Muna
menn ekki enn Bofors-mútumálið
þegar sænska vopnaverksmiðjan
Bofors var sökuð um að hafa mút-
að indverskum embættis- og
stjórnmálamönnum til að kaupa
vopn sín á miðjum níunda ára-
tugnum? Málið er enn í rannsókn
á Indlandi og bræðurnir tveir,
ásamt tveimur öðrum bræðrum,
hafa núna verið kyrrsettir á Ind-
landi vegna málsins.
En þótt bræðurnir sjái mest
dómara og lögreglu á Indlandi um-
gangast þeir Tony Blair og aðra
ráðherra heima í London. Engin
furða þótt bræðurnir kjósi fremur
London en Nýju-Delhi. Með jóla-
korti bræðranna fylgdi geisladisk-
ur með fimmtán mínútna kvik-
mynd frá veislu sem þeir bræður
héldu Blair-hjónunum. Myndin er
á vefsíðu breska blaðsins Guardian
sem ályktar að sambandið sé
meira en skylduræknin ein.
Guardian heldur því líka fram
að Blair hafi í haust stutt árang-
urslausa tilraun bræðranna til að
kaupa Express-blaðakeðjuna.
Klámkóngurinn Richard Desmond
hreppti ekki aðeins blöðin, heldur
líka teboð með Blair, enda vitað að
ræktun fjölmiðlatengsla er lykilat-
riði í viðleitni stjórnarinnar til
þess að tryggja sér jákvæða um-
fjöllun.
Samkrull Blair, fjölmiðla-
kónga og annarra auðmanna
Þess vegna er fjölmiðlakóngur-
inn Rupert Murdoch einnig reglu-
legur gestur hjá Blair, sem meira
að segja hringdi eitt sinn í hinn
ítalska starfsbróður sinn til þess
að komast að því hvort Murdoch
gæti keypt ítalska sjónvarpsstöð.
Blair er því hvorki ókunnugur
bræðrunum né er honum ókunn-
ugt um áhrif þess að forsætisráð-
herra taki upp símann fyrir vini og
velgjörðarmenn.
En auðugir vinir vilja líka eitt-
hvað fyrir sinn snúð. Tímaritið
Spectator hélt því fram fyrir jól að
Murdoch hefði krafið Blair loforðs
um að efna ekki til evruatkvæða-
greiðslu í lok þessa árs eins og ut-
anríkisráðuneytið hefði verið að
undirbúa. Stjórnin neitaði þessu.
Ályktun tímaritsins er að það sé
vissulega öðrum tvímenninganna
líkt að krefjast svona loforðs og
líkt hinum að veita það.
Það eru fleiri en Mandelson,
sem eru velkunnugir Hinduja-
bræðrunum, sem sóttu um ríkis-
fang um líkt leyti og þeir gáfu
milljón í Þúsaldarhvelfinguna sem
Mandelson sá þá um í fyrri ráð-
herradómi sínum. Það eru líka
fleiri en Mandelson sem rækta
sambandið við asíska auðmenn.
Það var hugsanlega Keith Vaz
Evrópuráðherra, sem kynnti
Mandelson fyrir bræðrunum. Vaz
hefur verið í nánu vinfengi við þá
og berst nú fyrir pólitísku lífi sínu
vegna þeirra tengsla í kjölfar af-
sagnar Mandelsons.
Hvað þarna hefur í raun farið
fram á nú nefnd á vegum stjórn-
arinnar að rannsaka. Lofað er
skjótum niðurstöðum, því eins og
Íhaldsflokkurinn bendir ákaft á
dugir ekki annað en nefndin skili
af sér fyrir kosningar. Sir Ant-
hony Hammond sem á að rann-
saka málið er lögfræðingur. Út-
nefningin er þó ákaft gagnrýnd
því hann hefur um árabil starfað í
innanríkisráðuneytinu, sem er líka
flækt í vegabréfamálið. Að sögn
Spectator er Hammond embætt-
ismaður sem hefur alltaf barist
gegn opnum og gegnsæjum
stjórnarháttum.
Mandelson í hefndarhug
Það reikna allir með að Mandel-
son sé í hefndarhug eftir grein
hans í Sunday Times um síðustu
helgi. Þar neitaði hann að hafa
skipt sér af ríkisfangsumsókn
bræðranna heldur hefði hann látið
undan þrýstingi. Nú vita fjöl-
miðlar ekki hvar Mandelson og
hinn brasilíski sambýlismaður
hans halda sig. Þeir sáust síðast
keyra að heiman með stefnu á
Heathrow-flugvöll, en gætu þess
vegna eins verið í fríi í Bretlandi.
Sem ráðherra var sagt að
Mandelson hefði verið eins og laus
fallbyssa á þilfarinu. Hann var
þekktur fyrir að vilja ráða og hik-
aði ekki við að fara yfir á verksvið
annarra ráðherra. Afi hans var
Herbert Morrison, einn stofnenda
Verkamannaflokksins og utanrík-
isráðherra, embætti sem hann
þótti ekki valda vel. Allir virtust
vita að barnabarnið stefndi á að
bæta um betur í því embætti.
Ýmsum þótti Mandelson vitna um
of í afann en stíll þeirra var ólíkur.
Mandelson sóttist eftir stjörnu-
glysi og félagsskap auðmanna.
Morrison keyrði sjálfur Morris-
míníinn sinn.
Mandelson gæti reynst Blair
skeinuhættur ef hann er í hefnd-
arhug. Hann veit allt sem er þess
virði að vita um Tony Blair og
stjórnarstörf hans, því þeir töluð-
ust við að minnsta kosti einu sinni
á dag mörg undanfarin ár. Hann
gæti því búið yfir áhugaverðu fjöl-
miðlafóðri.
Samstarfsmenn
og vinir – eða „vinir“
Í innsta hring Verkamanna-
flokksins fléttast saman persónu-
leg vinátta og samstarf. Meðan
Blair var að tala við Mandelson á
miðvikudaginn fyrir rúmri viku sat
Alastair Campbell, talsmaður
Blair, á daglegum fundi með
blaðamönnum. Hann vildi ekki
staðfesta að Mandelson yrði áfram
ráðherra. Þar með var Campbell
ekkert að bíða formlegrar tilkynn-
ingar og fjölmiðlarnir sáu hvað
klukkan sló tveimur tímum áður
en tilkynningin kom. Blair ætlaði
greinilega ekki að mæta í fastan
fyrirspurnatíma í þinginu þann
dag og þurfa að svara fyrir Man-
delson.
Svona til að styrkja ennfrekar
ástæðuna fyrir brottvikningu
Mandelson talaði Campbell væg-
ast sagt niðrandi um Mandelson
við blaðamenn föstudaginn eftir
afsögn hans þegar hann tók undir
að Mandelson hefði verið gripinn
„stundarbrjálæði“ eins og Ron
Davies sem sagði af sér sem Wal-
es-ráðherra árið 1998. Þótti þetta
ótrúlega gróf yfirlýsing.
Davies, kvæntur maður og faðir,
sagði nefnilega af sér eftir að hafa
hitt vafasamt lið í skemmtigarði
þar sem samkynhneigðir karlar
sækja sér skyndikynni. Breskir
fjölmiðlar tíunduðu þennan blaða-
mannafund í smáatriðum því að
enginn sem var viðstaddur átti orð
yfir ósvífni Campbells, sem, eins
og einn blaðamaður sagði, segir
aldrei neitt að óathuguðu máli. Í
umræðutíma í þinginu átti Blair
líka í mestu vandræðum með að
víkja sér undan síendurteknum
spurningum Hague um hvort tals-
maðurinn hefði þarna mælt fyrir
munn Blair.
Þessi ummæli hindruðu Mandel-
son þó ekki í að syngja með Camp-
bell í afmælisveislu tengdamóður
Campbell laugardagskvöldið á eft-
ir. Á meðan rann grein Mandel-
sons í gegnum prentvélar Sunday
Times, þar sem hann sakar óbeint
Blair og Campbell um að hafa ýtt
sér út áður en sér gæfist tími til að
gaumgæfa málið.
Fórn eða
hreinsun?
Breskir fjölmiðlar gleypa ekki
við því að Mandelson hafi verið
látinn fara bara af því að hann
laug og reyndi að hylma yfir það –
ef hann þá gerði það.
Það hlýtur að hafa verið eitt-
hvað annað og meira. Sumir segja
málið dæmi um gyðingahatur því
að Mandelson er af gyðingaættum,
aðrir að hann sé fórnarlamb kyn-
ferðisfordóma því að hann er sam-
kynhneigður. En þótt þetta geti
einhvers staðar kraumað undir er
þetta varla nægileg ástæða.
Sú kenning að Mandelson hafi
orðið undir í valdabaráttu í innsta
hring flokksins hljómar sennilegri
í hugum margra. Þarna hafi
Alastair Campbell gripið tæki-
færið og ýtt frá nánum vini og
hörðum keppinaut um hylli Blairs.
Hinn hrokafulli Mandelson hafði
stigið á margar tær. Gordon
Brown fjármálaráðherra fyrirgaf
honum aldrei stuðninginn við
Blair, þegar flokkurinn valdi á
milli þeirra tveggja eftir skyndi-
legt fráfall Johns Smith flokksfor-
manns 1994. Í fjármálaráðuneyt-
inu þóttist Financial Times hafa
heyrt kampavínsglasaglaum mið-
vikudaginn sem Mandelson sagði
af sér.
Sjónvarpið sýndi gamalt skot,
þar sem John Prescott aðstoðar-
forsætisráðherra hélt á krukku
með grimmum og ljótum krabba
og stakk upp á að hann ætti að
heita Peter... og allir vissu við
hvern hann átti.
Ef valdabarátta var ekki málið
var Mandelson kannski fórnar-
lamb þess að Blair hafði lofað
stjórn sem yrði hreinni en hrein
en hefur síðan fengið á sig spill-
ingarbrag í líkingu við stjórn
hægrimanna áður. Kannski var
Mandelson bara óheppinn að málið
bar upp á einmitt nú, þegar kosn-
ingar eru í sjónmáli og eftir mörg
illa lyktandi mál. Tímasetningin
krafðist þess að sýnt yrði að spill-
ing væri ekki liðin – og því varð
Mandelson að víkja. Vaz fær hins
vegar að berjast.
Kosningar í sjónmáli
Tímasetningin og kosningar í
sjónmáli hefur vísast haft áhrif á
gang mála.
Aukakosningar nýlega benda
áfram til trausts meirihluta stjórn-
arinnar. Hague græðir varla beint
á spillingarmálum Verkamanna-
flokksins. Það tapa allir stjórn-
málamenn á þeim, því þau draga
úr trausti kjósenda á þeim og
áhuga á stjórnmálum almennt.
En það eru mörg ef og ef í bolla-
leggingunum. Hrifning fólks á
Blair hefur hríðsjatnað undan-
farna mánuði. Maðurinn, sem bæði
virtist geta gengið á vatni og flog-
ið, sýnist nú bæði illa syndur og
vængjalaus. Hrifningin á Hague
hefur þó ekki vaxið að sama skapi.
Hins vegar sækir Charles Kenn-
edy, leiðtogi frjálslyndra demó-
krata, í sig veðrið og er bæði mál-
efnalegur og viðræðufimur.
Nýlegar kannanir sýna að
Íhaldsflokkurinn hefur um 32 pró-
senta fylgi, stjórnin um 45.
Spectator leiðir að því líkur í vik-
unni að fylgi Íhaldsflokksins sé
traust en 45 prósent stjórnarinnar
ótraust. Ef kosningaþátttakan fell-
ur niður í 67 prósent séu 32 af 67
ekki slæm niðurstaða.
Það sé líka viðtekin könnunar-
skekkja að fylgi íhaldsins sé van-
metið. Þótt stjórnin stefni líklega
á stutta en snarpa kosningabar-
áttu, rofna af páskafríi, hafi kosn-
ingabaráttan í raun staðið undan-
farna mánuði og fólk sé þegar
orðið kosningaþreytt.
Í Financial Times í vikunni er
bent á að málið sýni að stjórnina
skorti samkennd. Ráðherrarnir
skilji ekki að þeir tapi allir þegar
einn þeirra þurfi að segja af sér
eins og nú og Blair sé einangr-
aður. Þar við má svo bæta að nú er
spilling orðin hluti af vörumerkinu
„nýi verkamannaflokkurinn“. Það
væri erfitt fyrir alla flokka að
glíma við slíkt, en það er sérstak-
lega erfitt fyrir flokk sem fremur
hampar gildismati en stefnumál-
um eins og Verkamannaflokkurinn
gerir svo óhikað – og ætlar að gera
í komandi kosningabaráttu.
Verkamanna-
flokkurinn
í vanda
BAKSVIÐ
Stjórn Verkamannaflokksins komst til
valda eftir að Íhaldsflokkurinn hafði feng-
ið á sig spillingarstimpil. Nú þarf flokk-
urinn aftur á móti að glíma við sama
vanda. Sigrún Davíðsdóttir segir það vera
slæmt veganesti í kosningabaráttu,
sem flokkurinn hyggst reka fremur
á gildismati en stefnumálum. ReutersTony Blair og Peter Mandelson voru til skamms tíma nánir vinir og samstarfsmenn.