Morgunblaðið - 04.02.2001, Side 33
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 4. FEBRÚAR 2001 33
greinin, sem kveður á um að allir, sem þess
þurfa, skuli eiga rétt á aðstoð vegna t.d. sjúk-
leika, örorku, elli, atvinnuleysis og sambæri-
legra atvika, jafnframt að allir skuli eiga rétt á
að hljóta almenna menntun og fræðslu við sitt
hæfi. Kveðið er á um að fyrirkomulag þessara
ákvæða skuli ákveða nánar í lögum. Þessi grein
kom í stað eldra ákvæðis um að sá skyldi eiga
rétt á styrk úr almennum sjóði, sem gæti ekki
séð fyrir sér og sínum, að því gefnu að hann ætti
ekki skylduframfærendur. Þetta eru í raun einu
ákvæðin um efnahags- og félagsleg réttindi í
stjórnarskránni, en endurskoðunin 1995 beindist
einkum að því að styrkja ákvæði um borgara- og
stjórnmálaleg réttindi, ekki sízt til samræmis við
alþjóðlegar skuldbindingar íslenzkra stjórn-
valda.
Athyglisvert er að rifja upp þær umræður,
sem þá fóru fram um skilgreiningu á mannrétt-
indahugtakinu. Frumvarp til breytinga á
stjórnarskránni var flutt af formönnum allra
þingflokka, sem þá voru á Alþingi. Í greinargerð
með frumvarpinu er fjallað um efnahags- og
félagsleg réttindi, m.a. með þessum orðum:
„Þótt enginn ágreiningur sé um mikilvægi þess
markmiðs að tryggja öllum áðurgreind efna-
hagsleg og félagsleg réttindi er í reynd umdeilt
hvort þau beri að telja til grundvallarmannrétt-
inda eða hvort þau séu eins konar viðbótarrétt-
indi sem hafa komið til með batnandi lífskjörum í
nútímaþjóðfélögum. Af þessum sökum eru skipt-
ar skoðanir um hvort eða að hve miklu leyti eigi
að stjórnarskrárbinda þessi réttindi. Helstu rök
með nauðsyn þess að binda slík réttindi í stjórn-
arskipunarlög eru að sjálfsögðu mikilvægi þess
að menn geti í raun lifað mannsæmandi lífi í
þjóðfélaginu. Mótrökin hafa á hinn bóginn verið
þau að í raun geti verið óframkvæmanlegt að
fylgja þessum réttindum eftir þar sem þau kalli
á tiltekið efnahagsástand ríkis. Þótt mikilvægt
sé að hvert ríki hafi efst á stefnuskrá sinni að
tryggja þegnum sínum mannsæmandi líf og
þeirri stefnu verði fylgt eins og kostur er sé
varasamt að binda slíkar stefnuyfirlýsingar í
stjórnarskipunarlög. Með því geti rýrnað gildi
annarra mannréttindaákvæða sem felast í af-
skiptaleysi ríkisins og orðið þannig öllu fram-
kvæmanlegri.“
Þótt talin séu upp með- og mótrök í greinar-
gerðinni og jafnframt vísað til ýmissa alþjóð-
legra mannréttindasáttmála, sem Ísland hefur
staðfest og kveða á um efnahagsleg og félagsleg
réttindi, varð niðurstaða þingflokksformann-
anna fimm þessi: „Við ákvörðun um hvaða rétt-
indum skyldi bæta við núgildandi ákvæði VII.
kafla [mannréttindakafla stjórnarskrárinnar]
var sú stefna tekin að leggja fyrst og fremst
áherzlu á borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
Var því ákveðið að bæta ekki við í neinum telj-
andi mæli efnahagslegum og félagslegum rétt-
indum, heldur færa til nútímahorfs ákvæðin í 70.
og 71. gr. ...“ Þar er verið að vísa til áðurnefndra
ákvæða um rétt til félagslegrar aðstoðar og
menntunar.
Eftir að frumvarp þingflokksformannanna
kom fram var það gagnrýnt harðlega af þáver-
andi stjórn Lögmannafélags Íslands, en þá var
formaður félagsins Ragnar Aðalsteinsson
hæstaréttarlögmaður, sem síðar varð lögmaður
Öryrkjabandalagsins í málinu gegn Trygginga-
stofnun. Í umsögn félagsins sagði að frumvarpið
kynni að fela í sér afturhvarf til eldri tíma að því
er varðaði skilning á mannréttindahugtakinu og
eðli þess. Félagið gagnrýndi að meiri áherzla
væri lögð á borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
en efnahagsleg, félagsleg og menningarleg rétt-
indi.
Í viðtali við Morgunblaðið í febrúar 1995 sagði
Ragnar Aðalsteinsson: „Mannréttindi án efna-
hagslegra, félagslegra og menningarlegra
mannréttinda eru ekki mannréttindi í nútíma-
skilningi. Það má ekki hugsa sem svo að úr því að
skólaganga er tryggð með almennum lögum, svo
dæmi séu tekin, þá verði það gert um alla fram-
tíð. Stjórnarskráin horfir til miklu lengri tíma,
sem við getum ekki séð fyrir. Þess vegna verðum
við að tryggja þessar lífsnauðsynjar, fæði, klæði
og húsnæði, í gegnum hana.“
Geir H. Haarde, þáverandi þingflokksformað-
ur Sjálfstæðisflokksins, var fyrsti flutningsmað-
ur umrædds frumvarps og svaraði þessari gagn-
rýni m.a. þannig í Morgunblaðinu: „Það er mikill
misskilningur að engin félagsleg eða efnahags-
leg réttindi séu inni í frumvarpinu. Tekin voru
þau atriði sem okkur þóttu mikilvægust og auð-
veldast að standa við. Sú stefna var tekin að vera
ekki með pólitískar yfirlýsingar. Það má hugsa
sér að stjórnarskráin innihaldi fagra framtíðar-
sýn, eins og sumir eru að biðja um, en við erum
þeirrar skoðunar að plagg af slíku tagi væri allt
annars eðlis. Við viljum ákvæði sem hægt er að
standa við, byggja á rétt fyrir dómstólum og
sækja ef á manni er brotið. Við vildum ekki fara
út á þann hála ís að gefa fyrirheit í stjórnar-
skránni sem ekki er hægt að standa við.“
Raunar fór svo að í Lögmannafélaginu risu
miklar deilur vegna framgöngu stjórnar þess í
málinu og var á aðalfundi þess samþykkt álykt-
un, borin fram af átta fyrrverandi formönnum
félagsins, þar sem sagði að það samræmdist ekki
eðli og tilgangi félagsins að gefa út „álitsgerðir,
umsagnir eða ályktanir, þar sem pólitísk afstaða
er tekin í nafni félagsins í umdeildum þjóðfélags-
málum“. Aukinheldur samþykkti fundurinn að
beina því til stjórnar félagsins að gæta þess að
ekki yrðu framvegis gefnar út pólitískar álykt-
anir í nafni þess. Það má því ljóst vera að á meðal
lögmanna er engin sátt um hina „nýju“ skil-
greiningu mannréttinda.
Á Alþingi urðu hins vegar harla litlar umræð-
ur um frumvarpið. Lítið sem ekkert var tekizt á
um hina litlu áherzlu á efnahagsleg og félagsleg
réttindi og þingheimur samþykkti frumvarpið
samhljóða. Sú staðreynd er athyglisverð út frá
því, sem áður var sagt; að afstaðan til stöðu og
inntaks þessara réttinda hlýtur að fara öðrum
þræði eftir stjórnmálaskoðunum manna. Hún er
líka athyglisverð í ljósi þeirrar miklu áherzlu
sem forystumenn núverandi stjórnarandstöðu-
flokka, Samfylkingar og Vinstri-grænna, hafa
lagt á að niðurstaða Hæstaréttar í öryrkjamál-
inu sé sigur hinna „nýju“ ákvæða um efnahags-
og félagsleg réttindi, sem bætt hafi verið í
stjórnarskrána árið 1995.
Vaxandi áhrif
alþjóðasamn-
inga
Raunar verður ekki
annað séð en að lög-
gjafinn hafi árið 1995
ekki séð fyrir að mál
gætu þróazt með
þeim hætti, sem þau
hafa nú gert. Velta má fyrir sér hvað hafi valdið
því að Hæstiréttur gekk jafnlangt og raun er á
varðandi túlkun þessara ákvæða. Hluti af skýr-
inguni er væntanlega það sívaxandi tillit, sem
dómstólar taka til þjóðaréttar og alþjóðlegra
sáttmála. Slíkt er auðvitað eðlilegt í heimi, þar
sem alþjóðlegir samningar eru gerðir um æ fleiri
viðfangsefni, en vekur engu að síður spurningar
um réttaráhrif alþjóðasamninga hér á landi og
samspil þeirra og innlendra stjórnarskrár- og
lagaákvæða, því að til þessa hefur verið gengið
út frá tvíeðli íslenzks réttar, þ.e. að alþjóðasamn-
ingar fái ekki bein réttaráhrif heldur þurfi að
lögfesta þá sérstaklega, þótt túlka beri innlend
lagaákvæði með hliðsjón af þeim. Enn sem kom-
ið er hefur aðeins mannréttindasáttmáli Evrópu
verið lögfestur hér á landi.
Jafnframt vakna spurningar um áhrif þess-
arar þróunar á innihald fullveldishugtaksins,
sem fer jafnt og þétt rýrnandi vegna alþjóðlegra
samninga og alþjóðavæðingar yfirleitt. Eins og
Davíð Þór Björgvinsson bendir á í áðurnefndri
grein sinni: „Undirritun íslenskra ráðamanna á
alþjóðlegum mannréttindasáttmálum felur ekki
lengur eingöngu í sér loforð þeirra gagnvart öðr-
um ríkjum um að virða tiltekin réttindi gagnvart
þegnum sínum, heldur munu þessir sáttmálar
hafa bein áhrif á það hvernig ákvæði í íslenskum
lögum, þ.m.t. í stjórnarskránni, eru skýrð og af-
mörkuð. Gera má ráð fyrir að stjórnmálamenn
hafi þetta í vaxandi mæli í huga við undirritun
slíkra sáttmála og fullgildingu þeirra.“
Nefna má dæmi um þetta úr nágrenni okkar; á
seinni hluta síðasta árs barðist ríkisstjórn
Verkamannaflokksins í Bretlandi hatrammlega
gegn því að ákvæði um efnahagsleg og félagsleg
réttindi yrðu tekin upp í hina nýju mannrétt-
indaskrá Evrópusambandsins. Rökin voru þau
að þessi ákvæði gætu síðar meir grafið undan
samkeppnisstöðu brezks atvinnulífs, enda hafa
Bretar gengið skemur en margar meginlands-
þjóðirnar í t.d. lagasetningu um vinnumarkað-
inn. Bretar höfðu reyndar ekki erindi sem erfiði
og í réttindaskránni eru ýtarleg ákvæði um
félags- og efnahagsleg réttindi. Enn hefur hins
vegar ekki verið gert út um það hver réttaráhrif
réttindaskrárinnar verði.
Önnur skýring kann að vera samspil hinnar
nýju jafnræðisreglu, sem sett var í stjórnar-
skrána 1995 og ákvæðanna um félagslegu og
efnahagslegu réttindin. Skúli Magnússon, lektor
við lagadeild Háskóla Íslands, bendir í Morgun-
blaðinu í dag, laugardag, á að þessi breyting hafi
haft afdrifaríkari afleiðingar en menn hafi al-
mennt gert sér grein fyrir. „Hægt er að deila um
nánast hverja einustu lagasetningu Alþingis á
grundvelli jafnræðisreglunnar enda hefur jafn-
ræðishugtakið aldrei verið ágreiningslaust frá
því sögur hófust. Hættan er því sú að úrlausnir
dómstóla fari að snúast um það sem við getum
með einföldun kallað pólitísk sjónarmið en ekki
réttarreglur sem við getum staðreynt fyrir-
fram.“
Allt gefur þetta ástæðu til að hvetja til vand-
aðrar umræðu, nú þegar kastljósið hefur beinzt
að mannréttindum og stjórnarskrá, um eðli og
inntak þeirra réttinda, sem hér hafa verið til um-
fjöllunar. Ekki verður þess sízt vænzt af stjórn-
málaflokkunum að þeir skýri afstöðu sína í þess-
um efnum.
„Að hversu miklu
leyti eiga efnahags-
og félagslegu rétt-
indin heima í stjórn-
arskrá og í hvaða
mæli er hægt að
byggja á þeim fyrir
dómstólum? Færa
má rök fyrir því að í
stjórnarskrá eigi að
vera algild grund-
vallarréttindi, en
ekki almennar
stefnuyfirlýsingar.
Ýmsir hafa orðið til
að benda á hættuna
á því að áherzla á
efnahags- og félags-
legu réttindin, t.d. í
stjórnarskrá, geti
orðið til að þynna út
hin klassísku mann-
réttindi.“
Laugardagur 3. febrúar
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Við Geysi