Morgunblaðið - 29.04.2001, Qupperneq 29

Morgunblaðið - 29.04.2001, Qupperneq 29
32 SUNNUDAGUR 29. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ Hallgrímur B. Geirsson. Styrmir Gunnarsson. Framkvæmdastjóri: Ritstjóri: STOFNAÐ 1913 Útgefandi: Árvakur hf., Reykjavík. Aðstoðarritstjórar: Karl Blöndal, Ólafur Þ. Stephensen. Fréttaritstjóri: Björn Vignir Sigurpálsson. L EIÐTOGAR Ameríkuríkja komu um síðustu helgi saman til fundar í Quebec í Kanada. Meðal þess sem samþykkt var á fundinum var að mynda risavaxið fríverslunarsvæði er næði til 34 ríkja frá Kanada í norðri til Argentínu í suðri fyrir árið 2005. Á þessu svæði búa alls um 800 milljónir manna. Þetta yrði því stærsta fríversl- unarsvæði veraldar og vafalítið mikilvæg efna- hagsleg lyftistöng fyrir álfurnar í vestri. Fríverslun hefur átt undir högg að sækja í heiminum síðastliðin misseri og það sem ein- kenndi fundinn í Quebec öðru fremur voru fjöl- menn mótmæli er beindust gegn fríverslun og ekki síst því fyrirbæri sem gjarnan er nefnt „al- þjóðavæðing“. Leiðtogarnir urðu að funda á víg- girtu svæði sem fjölmennt lögreglulið stóð vörð um. Það virðist vera orðin regla fremur en undan- tekning að á fundum sem þessum safnist saman fjölmennt lið fólks er oft og tíðum virðist eiga fátt annað sameiginlegt en óljósa andstöðu við „al- þjóðavæðinguna“. Fjölskrúðug hreyfing mót- mælenda Upphafið að þessu má rekja til ráðherrafund- ar Heimsviðskipta- stofnunarinnar í Seattle í nóvember 1999 þar sem leiðtogar ríkja um allan heim voru samankomnir til þess að ákveða næstu skref í átt að aukinni fríverslun í heiminum í framhaldi af Uruguay-lotu GATT- samkomulagsins. Þau áform fóru út um þúfur og Seattle-fund- arins er helst minnst fyrir harðskeytta götubar- daga þar sem mótmælendur og lögregla tókust á dögum saman, fulltrúar komust ekki á fundarstað og skemmdarverk voru framin á fyrirtækjum sem þóttu táknræn fyrir alþjóðavæðinguna. Það var samt ekki umsátursástandið er ríkti á fundinum sem réð því að ekki náðist samkomulag um nýja viðræðulotu heldur andstaða mikilvægra sendinefnda við mörg þau grundvallaratriði sem til stóð að taka ákvörðun um. Fulltrúar jafnt Evrópusambandsins sem Bandaríkjanna mættu til leiks án þess sannfær- ingarkrafts, sem nauðsynlegur var til þess að hægt yrði að knýja nýja lotu í gegn. Áherslan var á að standa vörð um sérhagsmuni einstakra ríkja og því fór sem fór. Allt frá heimsstyrjöldinni síðari hafði náðst undraverður árangur í því að efla fríverslun og lækka tolla í alþjóðlegum viðskiptum. Átta samn- ingalotur undir merkjum GATT, almenna sam- komulagsins um tolla og viðskipti, höfðu tryggt einstakan árangur og aukna velmegun um allan heim. Að mati Alþjóðabankans nema áhrifin af Uruguay-lotunni eingöngu um 100–200 milljarða dollara kaupmáttaraukningu neytenda um allan heim á hverju ári. Þegar þarna var komið sögu var aftur á móti komið að því að samningaviðræðurnar færðust inn á pólitískt viðkvæmari svið, svo sem fjarskipta- og landbúnaðarmál. Pólitískur vilji reyndist ekki vera til staðar þegar á reyndi. En þótt úrslitin hafi ráðist í bakherbergjum en ekki í götubardögum er Seattle-fundarins ekki síður minnst fyrir að þar tókst hinni sundurleitu hreyfingu gegn alþjóðavæðingunni í fyrsta skipti að stilla saman strengi sína. Það er að mörgu leyti erfitt að skilgreina þessa hreyfingu sem eina heild enda samanstendur hún af fjölmörgum smáhópum. Umhverfissinnum, stjórnleysingjum, þjóðernissinnum, sósíalistum, mannréttindahópum af ýmsu tagi og einstakling- um og samtökum sem setja sig upp á móti hinu ríkjandi skipulagi af einhverjum ástæðum. Allir þessir hópar höfðu verið til um árabil. Það sem gerðist í Seattle var hins vegar að annars vegar náðu hinir ólíku hópar að skipuleggja sig og sam- ræma aðgerðir sínar með aðstoð Netsins auk þess sem þeir náðu saman með skipulagðari hags- munahópum, svo sem stéttarfélögum í Bandaríkj- unum og fulltrúum landbúnaðarins. Sú uppsafnaða reiði sem greinilega var til stað- ar kom flestum í opna skjöldu en reiðin beindist einkum að táknum alþjóðlegra heimsviðskipta, bandarískum stórfyrirtækjum á borð við Nike og McDonald’s sem byggt hafa upp vörumerki sem finna má um allan heim. Í raun snerust mótmælin einungis að litlu leyti um starfsemi Heimsviðskiptastofnunarinnar og þau málefni sem lágu fyrir ráðherrafundi hennar í Seattle. WTO var einungis tákn fyrir alþjóðavæð- inguna og því beindist reiðin gegn stofnuninni þó svo að flestir þeir er gengu um götur Seattle hafi vafalítið haft litla sem enga vitneskju um starf- semi stofnunarinnar. Nú virðist, af sömu ástæðu, sem ekki megi halda fund á vegum ákveðinna alþjóðlegra sam- taka án þess að komi til mótmæla sem áþekk eru þeim í Seattle. Þannig logaði allt í átökum á fund- um Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington og Prag, hefð virðist vera komin á mótmæli í við- skiptahverfinu City í London hinn fyrsta maí ár hvert og jafnvel á Davos-fundinum í Sviss voru andstæðingar alþjóðavæðingarinnar mættir. Mót- mælin í Quebec um síðustu helgi eru því einungis grein af þessum meiði. Gagnrýni á al- þjóðavæðingu Þrátt fyrir að á þriðja ár sé liðið frá Seattle- fundinum eru mark- mið andstæðinga al- þjóðavæðingarinnar enn jafnóljós og þá. Það ræðst kannski ekki síður af því að alþjóðavæðingin sem slík er ekki fyrirbæri sem hægt er að skil- greina með nákvæmum hætti. Með þessu hugtaki er yfirleitt átt við þá þróun að múrar á milli ríkja hafa verið að hverfa, hvort sem er í pólitískum, menningarlegum eða viðskiptalegum skilningi. Hugmyndir, vörur, fjármagn og fólk eiga nú greiða leið á milli flestra ríkja og með tilkomu Netsins hafa fjarlægðirnar sem áður skildu fólk að horfið að miklu leyti. Við þurfum ekki að bíða í marga daga eftir að fá erlend dagblöð heldur get- um lesið New York Times með morgunkaffinu á meðan flestir íbúar New York eru enn í fasta- svefni. Hægt er að panta vörur og varning í gegn- um Netið og jafnvel fylgjast með dagskrá útvarps- og sjónvarpsstöðva um allan heim. Það þykir ekki lengur tiltökumál að ferðast um heiminn og starfa í öðrum ríkjum um lengri eða skemmri tíma og daglegt líf fólks og lífsstíll byggist sífellt meira á menningarlegri blöndu hefða. Við horfum á bandarískar kvikmyndir, borðum ítalskan mat dagsdaglega, leggjum kannski stund á austur- lenska speki og hlustum á suður-ameríska tónlist. Þessi þróun er að mestu leyti jákvæð en auðvit- að er, eins og alltaf þegar hlutir breytast, hægt að finna mýmörg dæmi um að breytingarnar séu ekki alltaf til góðs fyrir alla. Þannig er eðlilegt að ein- stök ríki hafi áhyggjur af því að menningarleg sér- kenni þeirra eigi á hættu að hverfa þar sem ekki er hægt að etja kappi við þá fjöldamenningu sem tröllríður heimsbyggðinni í gegnum gervihnatta- sjónvarp, kvikmyndir og nú Netið. Staðbundnir atvinnuhættir eru einnig í hættu þar sem smáar og oft frumstæðar atvinnugreinar geta ekki keppt við fjöldaframleiðsluna. Ágætt dæmi eru þær áhyggjur sem Frakkar hafa af alþjóðavæðingunni, en einn helsti fulltrúi hreyfingarinnar gegn alþjóðavæðingunni er Jose Bové, sauðfjárbóndi sem varð frægur þegar hann lagði veitingastað á vegum hamborgarakeðjunnar McDonald’s í rúst. Enn og aftur átti það tákn er varð fyrir barðinu á reiði bóndans lítið sameig- inlegt með því sem hann var í raun að mótmæla, nefnilega nýjum reglum um skatta á ostafram- leiðslu. Hamborgarakeðjan var hins vegar tákn sem allir skildu og Bové varð á einni nóttu að þjóð- hetju í Frakklandi, eins konar frönskum Hróa hetti sem barðist gegn hinum ríku alþjóðafyrir- tækjum til að bæta hag fátæku bændanna. Þegar réttað var í máli Bové var engu líkara en alþjóða- væðingin væri á sakabekk, tugþúsundir manna söfnuðust saman til að sýna honum stuðning, franskir fjölmiðlar tóku upp málstað hans og Lion- el Jospin, forsætisráðherra Frakklands, sagði baráttu hans vera réttmæta. Gagnrýni annarra beinist að því að sú þróun sem á sér stað á vettvangi samtaka á borð við WTO sé andlýðræðisleg. Þar komi saman embættismenn sem enginn hafi kosið og ráði ör- lögum heimsbyggðarinnar. Það kann að vera ákveðið sannleikskorn í þessari gagnrýni, að því leyti til að oftar en ekki er lítil áhersla lögð á að kynna þá starfsemi sem á sér stað innan alþjóð- legra samtaka í aðildarríkjum þeirra, hvað þá að afla markmiðum þeirra almenns stuðnings. Hættan er sú að margir fari að líta svo á að lífi þeirra sé stjórnað af sviplausum hópi embættis- og stjórnmálamanna í dökkum jakkafötum er sjást á sjónvarpsskjánum ganga inn og út af fund- um á milli þess sem þeir setjast inn í svartar glæsi- bifreiðar. Þeim sem missa vinnu sína vegna nið- urskurðar eða vegna þess að fyrirtækið sem þeir starfa hjá hefur orðið undir í alþjóðlegri sam- keppni er lítil huggun í að heyra hástemmdar ræð- ur um hversu mikilli velmegun aukin fríverslun á eftir að skila heiminum. Þessi gagnrýni á hins vegar við um flestar al- þjóðastofnanir og jafnvel stofnanir innan ein- stakra ríkja. Það er ávallt varhugavert er fjar- lægðin milli borgaranna og þeirra er taka ákvarðanir um örlög þeirra verður of mikil. Það er lýðræðisleg skylda valdhafa að tryggja sem mest gegnsæi við ákvarðanatöku og skilvirkt upplýs- ingaflæði til almennings. OPINN GRÆNMETISMARKAÐUR Sl. þriðjudag efndu Samtök verzl-unar og þjónustu til blaða-mannafundar, þar sem settar voru fram ýmsar tillögur samtakanna um umbætur í dreifingu og sölu græn- metis og ávaxta og raunar einnig blóma. Meðal þeirra tillagna, sem sam- tökin lögðu fram, var sú, að komið yrði á fót uppboðsmarkaði fyrir þessar vörur sem mundi virka með hliðstæð- um hætti og fiskmarkaðir. Framleið- endur seldu vöru sína á uppboðsmark- aðnum með sama hætti og útgerðar- fyrirtæki selja nú fisk á nokkrum uppboðsmörkuðum. Það er ástæða til að staldra við þessa hugmynd og veita henni eftirtekt. Þær umræður, sem staðið hafa undanfarnar vikur um sölukerfi á grænmeti og ávöxtum hafa varpað ljósi á einokunar- kerfi og vinnubrögð, sem ekki er við- unandi að viðgangist lengur. Jafnframt er ljóst, að það eru ekki sízt þær að- stæður, sem skapaðar hafa verið með ákvörðunum stjórnvalda, sem leitt hafa til þessa kerfis. Verndartollarnir hafa búið til jarðveginn fyrir það einok- unarkerfi, sem verið er að byggja upp. Opinn uppboðsmarkaður fyrir græn- meti og ávexti hefur þá kosti í för með sér, að verðmyndun á þessum vörum verður algerlega gagnsæ. Það blasir við öllum hvaða verð stórmarkaðir borga fyrir þessar vörur og jafnframt þurrkast út möguleikar á því að mis- muna stórmörkuðum í verði eins og nú tíðkast augljóslega og skekkir mjög samkeppnisstöðuna þeirra í milli. Þegar fyrir liggur opinberlega hvaða heildsöluverð stórmarkaðir greiða fyr- ir grænmeti og ávexti er líka ljóst hver álagning þeirra er en um það hefur ver- ið deilt á síðum Morgunblaðsins und- anfarnar vikur. Framleiðendur sjá dag hvern hvað stórmarkaðir og aðrir kaupendur á uppboðsmarkaði greiða fyrir vöruna og þeir vita hvað þeir fá í sinn hlut. Milli- liðakostnaður vegna rekstrar uppboðs- markaðar verður því líka öllum ljós. Þetta eru kostirnir við uppboðs- markað á grænmeti og ávöxtum og þeir eru miklir. Vandinn er hins vegar sá, að það eru fyrst og fremst tveir stórir aðilar, sem mundu verða kaupendur á slíkum markaði. Að vísu yrðu kaupendur mun fleiri en megnið af vörunum yrði keypt af tveimur stórum aðilum eins og nú háttar. Hugsanlega er þriðja stór- markaðskeðjan að verða til, þótt það eigi eftir að koma í ljós. Þegar svo fáir kaupendur eru má bú- ast við ásökunum um samráð þeirra í milli. Það samráð yrði þá væntanlega neytendum í hag en framleiðendum í óhag. Þessum röksemdum má svara með því, að fljótt kæmi í ljós á mark- aðnum, hvort um slíkt samráð væri að ræða. Það mundi sjást á þeim tilboðum, sem sett væru fram. Í okkar fámenna samfélagi er þetta röksemd, sem nota má um alla mark- aði. Ef allur fiskur, sem kemur á land, yrði settur á markað eins og sjómenn gera kröfu til mundu 4-5 stærstu út- gerðarfyrirtækin verða stærstu kaup- endur. Það er ekki umtalsvert erfiðara að hafa samráð á milli fjögurra til fimm aðila en tveggja til þriggja. Þess vegna má ekki gera of mikið úr þessari rök- semd en óneitanlega eru þarna vissar hættur á ferðinni. Kjarni málsins er þó sá, að opinn uppboðsmarkaður á grænmeti og ávöxtum mundi gera alla verðmyndun á þessum vörum gagnsæja og þar með brjóta á bak aftur það einokunarkerfi, sem nú er að vaxa úr grasi. Ef í ljós kæmi að samráð á milli stærstu aðila skekkti markaðinn veru- lega væri það sérstakt vandamál, sem takast yrði á við. Í ljósi þessara röksemda er ástæða til að hvetja ríkisstjórn og Alþingi til að íhuga alvarlega tillögu Samtaka verzl- unar og þjónustu um opinn uppboðs- markað fyrir grænmeti og ávexti. 29. apríl 1981: „Kjarninn í þeim ráðstöfunum, sem rík- isstjórnin boðar nú og duga eiga í einn mánuð, eða fram yfir vísitöluútreikning 1. júní, er „ýtrasta aðhald í verðlags- málum“ í kjölfar „algjörrar verðstöðvunar“ síðan um ára- mót og auknar niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum frá og með 1. maí næstkomandi. Stefnumörkunin felst í þessu tvennu, hins vegar er ekki auðvelt að lesa það út úr frumvarpi ríkisstjórnarinnar, hvernig að framkvæmdinni skuli staðið. Sýnilegt er, að um hana hefur ekki náðst samstaða innan stjórnar- flokkanna. Auðvitað á ekki að afgreiða nýjasta efnahags- frumvarp stjórnarinnar frá Alþingi, fyrr en framkvæmd þess liggur fyrir í einstökum atriðum. Reynslan af fram- kvæmd bráðabirgðalaganna frá því um áramót sýnir, að hættulegt er að treysta um of á orðheldni ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra. Vafa- laust er mörgum húsbyggj- andanum til dæmis farið að lengja eftir framkvæmd lof- orðsins um skuldbreytingu á húsnæðismálalánum. Skatta- lækkunarloforðin hafa verið framkvæmd með því að krukka dálítið í þá hækkun skatta fyrra árs, sem ákveðin var við afgreiðslu fjárlaga fyr- ir 1981. Framkvæmd verðlagsmála á samkvæmt frumvarpinu að vera með þeim hætti, að rík- isstjórnin setur ákveðið há- mark verðhækkana, síðan ganga allar verðhækkanir fram innan þeirra marka, eft- ir að samþykki viðkomandi verðlagsyfirvalda hefur feng- ist. Samþykki verðlags- yfirvöld hærri hækkun en rúmast innan marka rík- isstjórnarinnar, þarf staðfest- ingu hennar til að hækkunin nái fram að ganga. Greinilegt er af þessari reglu, að ráð- herrarnir eru að sligast undan skriðu verðhækkanabeiðna og vilja geta rætt eitthvað annað á fundum sínum en afleið- ingar eigin ákvarðana. Hitt er svo annað og alvarlegra mál, að í frumvarpi ríkisstjórn- arinnar kemur ekkert fram um það, hvert hið leyfilega há- mark verðhækkana verður.“ 29. apríl 1971: „Sjálfstæð- ismenn völdu sér nýja forystu á Landsfundinum sl. þriðju- dagskvöld. Jóhann Hafstein, forsætisráðherra, var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokks- ins og Geir Hallgrímsson, borgarstjóri, var kjörinn varaformaður. Það féll í hlut Jóhanns Hafstein að axla á örlagastund mikla byrði. Lík- lega hefur enginn íslenzkur stjórnmálamaður verið kall- aður til forystu við jafn erf- iðar og örlagaþrungnar að- stæður. Mikill stjórnandi hvarf skyndilega af sjón- arsviðinu og Jóhanni Hafstein var falin yfirstjórn þjóð- arskútunnar og forysta Sjálf- stæðisflokksins. Á 19. Lands- fundi Sjálfstæðisflokksins vottuðu Sjálfstæðismenn Jó- hanni Hafstein þakkir sínar fyrir það, hve vel hann hefur haldið á málum, með eft- irminnilegum hætti, í þeirri einhuga kosningu er hann hlaut, sem formaður Sjálf- stæðisflokksins. „Ég finn að slíku fólki má aldrei bregðast,“ sagði hinn nýkjörni formaður Sjálfstæð- isflokksins og bætti því við, að hann mundi engu lofa öðru en því að gera sitt bezta. Með það loforð Jóhanns Hafstein ganga Sjálfstæðismenn glaðir og sigurreifir frá þessum Landsfundi til kosningabar- áttunnar, sem framundan er.“ Fory s tugre inar Morgunb lað s ins

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.