Morgunblaðið - 19.07.2001, Blaðsíða 30
LISTIR
30 FIMMTUDAGUR 19. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
FRAMBOÐ á forntónlist, þ.e. tónlist fram
að tímum Bachs, hefur færzt mjög í aukana á
seinni áratugum, samfara þeirri endurreisn á
„upphaflegum“ flutningsmáta sem nú má heita
nærri einráður í tónlist fyrir 1750. A.m.k. gild-
ir það um úrval hljómplötuverzlana, sem
stækkað hefur verulega frá því sem var á 7.-8.
áratug.
Eitthvað hefur Íslendingum hins vegar
gengið treglegar að fá að kynnast forntónlist í
lifandi mynd. Innlendir hljómlistarhópar eins
og Musica antiqua, Voces Thules og Bachsveit-
in í Skálholti eru teljandi á fingrum annarrar
handar, og heilu árin geta liðið milli heimsókna
erlendra flytjenda hingað. Sýnir það betur en
flest annað hvað „þú álfu okkar yngsta land“
er enn langt úr alþjóðaleið, hvað sem líður öll-
um samgönguframförum.
Með fullri sanngirni verður þó líka að við-
urkenna, að tónlist miðalda og endurreisnar-
tímans höfði enn aðeins til minnihluta tónlist-
arunnenda, og liggja því óhjákvæmilega
markaðssjónarmið að baki fátíðra heimsókna
að utan. Það er segin saga, að oftar en ekki
þurfi að koma til styrkir frá menningarsjóðum
eða sendiráðum umræddra landa, eins og þeg-
ar sænska sendiráðið studdi komu tólfmenn-
inganna í Ensemble Villancico hingað frá
Stokkhólmi í febrúar 1997.
Sömuleiðis hlaut ferð miðaldadúósins Alba
hingað fjárstuðning úr Dansk-íslenzka sjóðn-
um. Dúóið hefur komið tvisvar áður til lands-
ins, 1997 í Skálholt og 1998 í Hallgrímskirkju,
og var söngkonan við hlið píparans og tromm-
arans Pouls Høxbros í fyrri skiptin sænska alt-
söngkonan Agnethe Christensen, auk velska
hörpuleikarans Helen Davies 1998, þar sem
hópur úr Vox Feminae Margrétar Pálmadótt-
ur myndaði nunnukór í tónverkum Hildigerðar
abbadísar frá Bingen, er fagnaði 900 ára af-
mæli það ár. Að þessu sinni söng hins vegar
landa Christensens, Miriam Andersén, er
einnig lék á gotneska hörpu frá um 1400.
Réttmæti erlends miðaldatónlistarinnslags
á þjóðlagahátíð Siglfirðinga ætti að vera aug-
ljóst. Elztu íslenzku þjóðlögin eru frá miðöld-
um, líkt og fornbókmenntir okkar, og þar eð
lifandi þjóðlagasönghefð meðal alþýðu er tæp-
ast lengur til hér á landi, og þaðan af síður
hljóðfærasláttur, veitir ekki af erlendum bak-
grunni að nánast eina söng- og hljóðfærahópn-
um sem sinnt hefur íslenzkum þjóðlögum hin
síðustu ár, þ.e.a.s. Emblu, er fram kom á
fyrstu þjóðlagahátíðinni í fyrra og aftur nú í
sumar. Má á vissan hátt segja, að með hvoru
tveggja framtaki sé verið að fylla dulítið í
hörmulegar þjóðmenningareyður vegna skil-
vísrar upprætingar lútherskra klerka fyrri
tíma á alþýðlegri tón- og dansmennt.
Hvað dansinn varðar lögðu þau Høxbro
einnig til fróðlegt námskeið í miðaldahring-
dönsunum estampie og bran(s)le, sem líkt og
fleiri hinna 10 námskeiða hátíðarinnar, eins og
kvæðamennskutilsögn Steindórs Andersens,
fóru fram í gagnfræðaskólahúsi bæjarins. Oft-
ast við góða þátttöku og meiri en í fyrra. Dans-
kennsla Høxbros byggði á biblíu forndansa-
könnuða, Orchésographie eftir Thoinot
Arbeau (Langres 1589) við eigin undirleik á
pípu og bumbu og vakti mikla kátínu. Mætti
vel hugsa sér álíka leiðbeiningar í sagnadöns-
um, vikivökum og basse danse (sbr. Vera mátt
góður) á komandi hátíðum frá innlendu fróð-
leiksfólki á við Kolfinnu Sigurvinsdóttur, sem
kenndi börnum og fullorðnum í fyrra. Að ekki
sé talað um þjóðdansa frá Skandinavíu og víð-
ar úr N- og A-Evrópu, þar sem kunna að leyn-
ast vísbendingar um forntónlistarmenningu
norðurhjarans er finnast ekki í fræðibókum.
Rammi hinna fjölsóttu miðaftanstónleika
Ölbu-dúósins (af lat. albus, hvítur, og vísað til
dagrenningarbirtu og morgunlokkna trúba-
dúra) var harla óvenjulegur, því uppákoman
fór fram í gömlu innansvalbúnu timburhúsi við
hlið Síldarminjasafnsins þar sem verið er að
innrétta Bræðsluminjasafnið Gránu. Kaldr-
analegur mjölsnigill blasti við áheyrendum
fyrir aftan flytjendur innan um risavaxin tann-
hjól, svo minnti eilítið á Krupp-verksmiðjuum-
gjörð umdeildrar Niflungahringsuppsetningar
Chérauds í Bayreuth á 8. áratug. En hljóm-
burðurinn var furðugóður, og svalahringurinn
vakti spurningu um hvort hér mætti ekki flytja
Shakespeareleikrit í stíl við Globe-leikhúsið
nýendurreista í Lundúnum.
Dagskráin hófst á hljóðfæraútsetningu á
miðaldasekvenzu úr sænsk-finnsku söngbók-
inni Piae Cantiones frá 1582, Laus Virginis
nati sonat cum iubilo. Sekvenzur nutu fyrrum
þvílíkrar alþýðuhylli – sumpart vegna tengsla
við veraldlegan söng og dans eins og lai og es-
tampie – að tilhlýðilegt þótti að fjarlægja þær
úr messuhaldi í andsiðbót kaþólsku kirkjunnar
á 16. öld, enda mátti vel skynja múglægan
munaðarundirtón úr rúmbukenndum bumbu-
slætti Høxbros (3+3+2) við eigin írskleitan
flúrblástur á einhenda galoubet-flautu, maka-
laust hljóðfæri sem spannar nærri tvær
krómatískar áttundir þrátt fyrir aðeins þrjú
fingragöt. Þarna birtist ljóslifandi „pipe and
tabor“ hefð síðmiðalda, sem húsum reið (jafnt í
kastala, kirkju og koti) allt frá 12. til 15. aldar.
Miriam Andersén söng næst angurværan en
bráðfallegan enskan ástarsöng frá lokum 13.
aldar, Brid one breere, við eigin harpslátt.
Andersén er menntuð í forntónlistarmekkanu
Schola Cantorum Basiliensis í Sviss og fór
mjög sannfærandi jafnt með þetta sem seinni
framlög sín til tónleikahaldsins. Eftir „Bjergt-
rolden“, lipra syrpu Høxbros úr þremur
dönskum þjóðlögum á galoubet og „bones“
kastaníettur í fjór- og sexskiptum töktum,
kynnti hann með skondnum, myndrænum fett-
um og hljóðlíkingum „Den bjergtagna“, hrika-
lega sænska ballöðu um ill örlög stúlku sem
gekk í björg og bjó með álfum. Söng þar And-
ersén við hörpuundirleik og pípu í dæmigerðri
punktaðri hrynjandi og sérkennilega tatara-
blendinni módal-tóntegund, sem kveikti
spurningu um hvort rætur Liljulagsins forna
kynnu að leynast í afdölum Jamtalands, fallist
menn ekki á mögulega misritun í handriti
Labordes.
Alfons spaki („El Sabio“) Kastalalandskon-
ungur kom við sögu í næstu þrem lögum úr
200 Maríusöngva handriti tónskálda hans frá
13. öld, þar sem brá fyrir allvirtúósum samleik
pípu og trommu. Hirð konungs var á sínum
tíma mikil gróðrarstía tónlistar, og sóttu
hljómlistarmenn þangað úr allri álfu, líkt og
seinna til Ferrara og Versala á 16. og 17. öld.
Furðunútímalegt lagferli var yfir ensku Mar-
íuvísunni frá svipuðum tíma, On hir is mi lif,
einskonar iðrunarsöng bersyndugs öldungs á
elleftu stundu. „Got in vil hohen vreuden saz“
hét síðan merkur nótnafundur, hypolýdískur
lofsöngur um Eirík Menved Danakonung (Ei-
ríkssonar klippings myrta) eftir þýzka meist-
arasöngvarann Rumelant, er sunginn var við
samtímis undirblástur á tvær galoubetflautur
þar sem bordúnstónn færðist milli handa til
skiptis.
„Glorieuse Vierge Marie“, Maríulag eftir
norðurfranska trouvèresöngvarann Adam de
la Halle (d. 1288), kunnan fyrir söngleik sinn
„Le jeu de Robin et Marion“, var ægifagurt
áheyrnar, og merkisviðburður var að „La
tierche estampie Real“ úr sjö laga safni frá um
1300, sem mun geyma hvorki meira né minna
en elztu varðveittu hljóðfæranótur í vestrænni
tónlistarsögu. Fór þar dórískt lag í punktaðri
6/8 takttegund og minnti hrynjandin svolítið á
hinn þriggja alda yngri andkaþólska níðsöng
Lilliburlero. Loks flutti dúóið hljóðfæraútsetn-
ingu á tveim Maríu-cantígum í sama takti en
með mun heitari og suðrænni áferð.
Það var engin spurning um aðild og rétt
þessara flytjenda. Mun fleiri hafa í seinni tíð
þótzt kallaðir til forntónlistariðkunar en
reynzt hafa útvaldir. Alba-dúó Høxbros og
Anderséns má óhikað telja meðal hinna seinni,
hvort heldur að innlifun, stíltilfinningu eða
flutningstækni. Hér gat að heyra túlkun í úr-
valsflokki, og sá þar varla snöggan blett á.
Mikill fengur var að framkomu dúósins á þess-
ari tónlistarhátíð, enda þökkuðu nærstaddir
fyrir eftirminnilega upplifun með því að klappa
fram tvö seiðandi aukalög.
TÓNLIST
Þ j ó ð l a g a h á t í ð á S i g l u f i r ð i
Hrafninn og dúfan: Norrænar ballöður og
miðaldasöngvar. Dúóið ALBA (Poul Høxbro,
pípur, tromma; Miriam Andersén, harpa og
söngur). Bræðsluminjasafnið Grána, föstu-
daginn 13. júlí kl. 21.
MIÐALDATÓNLEIKAR Söngvaseiður
Ríkarður Ö. Pálsson
ÞESSI dómur er dálítið seint á
ferðinni, lenti í glatkistunni um tíma,
en það fer vel á því að geta um jafn-
ólíka orgelleikara og Þóri Baldursson
og Agnar Má Magnússon, í einni tón-
leikasyrpu. Árni Scheving, Jón Páll
og Þórir Baldursson léku klassískan
kammerdjass á Jómfrúartorgi, en þó
er hljóðfæraskipan þessi ekki algeng;
þrjú hljómahljóðfæri sem að sjálf-
sögðu fara létt með einleikslínurnar
og í kaupbæti fótbassinn á hammond-
inu hans Þóris. Enginn norrænn ham-
mondorganisti stígur fótbassann af
meiri fimi en hann Einhverntíman
var ég að hnýta eitthvað í dúettskífur
Niels-Hennings bassasnillings og gít-
aristans Joe Pass. Þarna léku þeir
standarða sem þeir hefðu kunnað alla
ævi og ekki væri bryddað uppá neinu
nýju. Þá sagði Niels: ,,Þú verður að
skilja eitt Vernhadúr, að þegar tveir
virtúósar hittast og leika saman
klassískt efni er það í samleiknum
sem nýjungin felst – engu öðru.“
Þetta eru orð að sönnu og má að vissu
leyti heimfæra þau uppá leik þeirra
þremenninga á Jómfrúartorginu.
Sérhver ópus sem þeir léku, frá Night
And Day Cole Porters til C Jam
Blues Ellingtons hefur hljómað á þús-
undum djasstónleika í áratugi, en eru
ekki verri fyrir það frekar en verk eft-
ir Mozart eða Schubert sem hljómað
hafa enn lengur. Ég hef ekki heyrt
Árna og Jón Pál leika djass saman
síðan með Útlendingahersveitinni í
fyrra og samleikur þeirra var hnökra-
laus. Þórir er maður hinnar sterku
sveiflu reif þá oft uppúr fáguðum
kammerdjassinum einsog hammond-
orgelleikari á að gera. Ekki það að
Árni og Jón Páll geti ekki svíngað
einsog best gerist. Þeir fara létt með
það. Þeir félagar, sérí lagi Jón Páll,
voru duglegir að vitna í ýmsar þekkt-
ar laglínur í spuna sínum og gerðu
það af sömu smekkvísinni og Dexter
Gordon var vanur að gera og Perdido
eftir Juan Tizol luku þeir á boppfras-
anum sem Clark Terry bætti við
ópusinn þegar hann var í Ellington-
bandinu og svo kom Count Basie í
bláendann. Jón Páll spann frábæran
blúsaðan sóló í söngdansi Jimmy
McHuges, On The Sunny Side Of The
Street, og sóló Árns Scheving í All
The Things You Are eftir Jerome
Kern, sem hefur verið óslitið á dag-
skrá djassleikara í sextíu ár, var
skemmtilega uppbyggður og þrung-
inn spennu. Þar steig Þórir bassann
af miklum krafti og Jón Páll vitnaði í
Fly Me To The Moon. Body And Soul
Johnny Greens léku þeir af heitri til-
finningu og hinn vandmeðfarni söng-
dans Vincents Youmans, Tea For
Two, blómstraði í samleik þeirra. Þar
eru ýmsar gryfjur sem auðvelt er að
falla í séu menn ekki því smekklegri
djassleikarar. Og eitt er víst; það
slógu hundruð glaðra hjartna með
tónlist þeirra þremenninganna þetta
laugardagssíðdegi.
Ég hef lengi verið á leiðinni í djass-
kjallara Ozio, en þar hefur hljómað
djass öll sunnudagskvöld þetta árið
og vonandi verður svo sem lengst, því
þetta er ekta djassklúbbur og hljóm-
urinn hinn ágætasti. Góður kostur er
einnig að kjaftagangurinn af efri hæð-
inni heyrist ekki niður nema milli
laga. Sl. sunnudagskvöld lék tríó Agn-
ars Más þar. Agnar er, einsog flestum
mun kunnugt, einn fremsti djasspían-
isti okkar, en hann er einnig liðtækur
á orgel. Hann dvaldi í New York sl.
vetur og kennari hans þar, Larry
Goldings, er þekktur bæði sem pían-
isti og organisti. Það er mikill munur
á leik þeirra Þóris og Agnars. Ekki
bara hversu stíll þeirra er ólíkur, enda
þeir hvor af sinni kynslóðinni, heldur
eru hammondin ólík. Meðan Þórir
stígur fótbassann og leikur báðum
höndum á hljómborðið leikur Agnar á
bassann með vinstri hendi. Slíkt
stunda flestir yngri orgelistar djass-
ins. Tríóið hóf tónleikana á blúsi Or-
nette Colemans, Turnaround. Það var
ljóst frá upphafi að Jóel Pálsson var í
fínu formi og mátti heyra blæ frá hin-
um nýlátna saxófónjöfri, Joe Hend-
erson, í leik hans. Það var enginn
hamagangur í túlkun þeirra félaga á
Turnaround, heldur réð hin draum-
kennda sveifla. Meistaraverk Billy
Strayhorns, Chelsea Bridge, sem Ben
Webster blés svo meistaralega með
Ellingtonbandinu var önnur djass-
klassík á dagskránni og þar var leikur
Jóels einnig í stjörnumerki Hender-
sons, þótt hann eigi það stundum til
að blása vel meðfram munnstykkinu a
la Webster. Standardinn góðkunni,
Therés No Greater Love var hvers-
dagslegur í túlkun tríósins, en því
skemmtilegri var útgáfa þeirra á
Softly As In A Morning Sunrise.
Hrein klassísk sveifla frá upphafi til
enda og skemmtileg tilbreytni frá
hinni hefðbundnu djasstúlkun lags-
ins. Jóel spann mjúktóna þindarlaust
og sama háttinn hafði hann á í loka-
lagi efnisskrár kvöldsins: Have You
Met Miss Jones. Skínandi fegurð sem
vinstri hendi Agnars og burstar
Matthíasar mögnuðu.
Annars var fleira á dagskránni en
klassískir standardar. Fönky ópusar
og villtir eftir Scofield og Goldings
þarsem kraftur Jóels naut sín vel og
Agnar sýndi að hann á fleiri strengi í
hörpu sinni en hinn hógværa og ljóð-
ræna. Trommusóló Matthíasar í Big
Brother Goldings var príma og minnti
í uppbyggingu á meistaratrommara
svíngtímabilsins. Svo má ekki gleyma
því að þeir félagar léku tvo ópusa eftir
Agnar: r. u. nut? og Distant biscuits,
en þá má finna á frábærri tríóskífu
Agnars, sem er nýútkomin og nefnist
O1. Um hana verður fjallað hér síðar.
Fínir tónleikar á ekta djassstað.
DJASS
J ó m f r ú a r t o r g
Árni Scheving víbrafón, Þórir Bald-
ursson hammondorgel (B-3) og Jón
Páll Bjarnason gítar. Laugardag-
inn 30.6. 2001.
TRÍÓ ÁRNA SCHEVING
Orgeldjass
Vernharður Linnet
O z i o
Jóel Pálsson tenórsaxófón, Agnar
Már Magnússon hammondorgel
(XB2) og Matthías M. D. Hemstock
trommur. Sunnudagskvöldið 15.7.
2001.
TRÍÓ AGNARS MÁS
MAGNÚSSONAR
FYRSTU tónleikarnir í röð sum-
artónleika á þessu sumri voru á
dögunum í Reykjahlíðarkirkju.
Kom þar fram blandaður kór,
Vokalensemble Eriks Westbergs
frá Norður-Svíþjóð, ásamt jojkara,
Johan Marak, og orgelleikara,
Mattias Wager. Húsfyllir var í
kirkjunni og listafólkinu vel fagnað.
Við upphaf tónleikanna kynnti
Margrét Bóasdóttir, fram-
kvæmdastjóri tónleikaraðarinnar,
listafólkið og gerði grein fyrir sum-
arstarfinu.
Morgunblaðið/BFH
Vokalensemble Eriks Westbergs í Reykjahlíðarkirkju.
Kór Eriks West-
bergs í Mývatnssveit
Mývatnssveit. Morgunblaðið.
MYNDEFNIÐ er Jörðin, allt
frá íslenskum eldfjöllum til
regnskóga Amazon, á stórri ljós-
myndasýningu sem hófst í Kaup-
mannahöfn í byrjun júlí. Sýn-
ingin er utandyra og verður á
Kóngsins Nýjatorgi í tvo mánuði
en hún hefur nú þegar verið sett
upp í New York, Tókýó og
Mónakó, þar sem um 2,5 millj-
ónir manna hafa séð hana, og
stendur til að setja hana upp í
London, Róm og Beirút.
Sýningin nefnist „Jörðin séð
frá himninum“ og byggist á
verkum franska ljósmyndarans
Yann Arthus-Bertrand. Hefur
hann unnið úr yfir 100.000 loft-
myndum sem teknar voru yfir
76 löndum á fimm ára tímabili.
Myndirnar eru gríðarstórar og
hafa vakið mikla athygli þar sem
þær hafa verið sýndar, enda
þykir Arthus-Bertrand nálgast
kunnugleg viðfangsefni á nýjan
hátt. „Sýningin er ekki bara
meistaraleg ljósmyndun heldur
einnig mikilvægt framlag til að
auka áhuga og þátt almennings í
því að varðveita fegurð jarðar-
innar,“ segja ljósmyndararnir
Stine Norden og Søren Rud sem
setja sýninguna upp.
Kostnaður við sýninguna nem-
ur um 12 milljónum ísl. kr. og er
fenginn með kostun þar sem að-
gangur er ókeypis að sýning-
unni.
Jörðin séð
frá himninum
Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.