Morgunblaðið - 28.11.2001, Síða 17
SUÐURNES
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 28. NÓVEMBER 2001 17
FÉLAGAR úr ferðahópi rannsókn-
ardeildar Lögreglunnar í Reykjavík
(FERLIR) hafa fundið stein með ár-
talinu 1674 ofan við Kálfatjarnarvör
á Vatnsleysuströnd. Er þetta einn af
elstu ártalssteinum sem vitað er um
á Reykjanesi og ekki er týndur, að
sögn Ómars Smára Ármannssonar
aðstoðaryfirlögregluþjóns.
Félagarnir ganga mikið sér til
heilsubótar á Reykjanesi og hafa
sérstakan áhuga á að skoða og leita
að ýmsum menningarminjum. Ár-
tals- og áletrunarsteinar eru víða til
á Reykjanesi. Ómar Smári nefnir
eftirtalda staði: Gömlu steinbrúna
vestan við Kálfatjarnarkirkju, við
Knarrarnes, í Stúlknavörðunni, Í
Hrafnagjá, við Stóru-Vatnsleysu, í
Flekkuvík, við Kerlingabúðir, í
Kistugerði, í Garði, Fuglavík, ofan
við Þórshöfn, í Stóra-Hólmi, við
Prestsvörðuna, á Hvaleyrartanga
og við Hlið á Álftanesi. Lög-
reglumennirnir hafa verið duglegir
við að finna ártalssteina eftir ýms-
um heimildum.
Steinninn ofan við Kálfatjarn-
arvör er með þeim eldri sem þeir
hafa augum litið í rannsóknaferðum
sínum. „Við höfum þó sett stefnuna
á að finna, auk annarra minja, enn
eldri ártalssteina sem eiga að vera
víðs vegar um Reykjanesið. Fugla-
víkursteinninn á til dæmis að hafa
ártalið 1538 og talið er að elsta
greinanlega ártalsáletrunin á einum
Hvaleyrarsteinanna sé 1657,“ segir
Ómar Smári.
Sesselja Guðmundsdóttir, sem er
úr Vogum á Vatnsleysuströnd og
ritað hefur bókina Örnefni og
gönguleiðir á Vatnsleysuströnd, vís-
aði þeim á heimildir um steininn við
Kálfatjarnarvör. Þar er um að ræða
skrif Sveinbjörns Egilssonar í tölu-
blaði Ægis frá 1936. Þar er skýrt frá
grjótbyrgi sem stóð við Kálfatjarn-
arvör en gafl hafi fallið úr því í
brimi. Í gaflinum hafi verið steinn
og í hann hoggið ártalið 1677. Einn-
ig kemur fram að Erlendur Magn-
ússon, bóndi á Kálfatjörn, lét leita
steinsins í grjóthrúgunni og hann
var múraður í vegg byrgisins.
Sjórinn hefur haldið áfram að
brjóta land ofan við vörina. Að sögn
Ómars Smára er byrgið nú horfið að
mestu, aðeins má greina hluta úr
vegg. Jarðýtu var ekið um of-
anverða fjöruna fyrir skömmu. Í
öðru beltisfarinu fundu félagarnir
úr FERLIR ferkantaðan stein með
áletruninni A 1674, en ekki 1677
eins og fram kom í hinni skrifuðu
heimild. Telur Ómar Smári senni-
legt að um sama steininn sé að ræða.
Líklegra sé að ártalið sé rangt skráð
í Ægi en að annar steinn hafi verið á
sama stað. Sesselja telur öruggt að
um sama steininn sé að ræða og að
ártalið hafi einfaldlega misritast í
skrifunum sem birtust í Ægi.
Ómar Smári segir að jarðýtan
hafi ekki skemmt áletrun steinsins,
þótt hún hafi snúið upp.
Tilefni eða leikur
Að sögn Sesselju er ekki alltaf vit-
að um tilefni áletrunar á þessa
steina. Stundum er ákveðið tilefni,
eins og til dæmis bygging húss, en
svo getur líka verið um leikaraskap
að ræða. Hún segir að svo virðist
sem mikið hafi verið um slíka steina
á Suðurnesjum og lögreglumenn-
irnir hafi verið duglegir að finna þá.
Morgunblaðið/Jim Smart
Lögreglumennirnir úr Reykjavík fundu ártalssteininn neðan við fjörukambinn við Kálfastrandarvör. Stuðst
var við heimildir frá árinu 1936. Jarðýta hafði nýlega ekið yfir steininn, án þess að hann skemmdist.
A 1674 er letrað á steininn sem fannst við Kálfatjarnarvör.
Fundu
stein með
ártalinu
1674 við
Kálfatjörn
Vatnsleysuströnd
ÞRJÚ stéttarfélög á Suðurnesjum
og Lífeyrissjóður Suðurnesja stefna
að byggingu sérhannaðs skrifstofu-
og þjónustuhúss eða kaupum á húsi
sem þau gætu sameinast um. Hafa
þau meðal annars spurst fyrir um lóð
á miðbæjarsvæðinu við Samkaup.
Verkalýðs- og sjómannafélag
Keflavíkur (VSFK), Verslunar-
mannafélag Suðurnesja, Iðnsveina-
félag Suðurnesja og Lífeyrissjóður
Suðurnesja hafa hafið undirbúning
að því að færa starfsemi samtakanna
á einn stað. Kristján Gunnarsson,
formaður VSFK, segir að tilgangur-
inn sé að ná fram samlegðaráhrifum
í rekstri og spara með því fé.
Fulltrúar félaganna séu farnir að
líta í kringum sig eftir húsnæði eða
byggingarlóð. Ekki sé mikið um lóðir
við Hafnargötuna. Því hafi þeir
spurst fyrir um það hjá bænum
hvort unnt væri að fá lóð á Sam-
kaupssvæðinu en það svæði sé enn
óskipulagt. Hann segir að ef hentug
lóð fáist verði byggt á því sérhannað
hús yfir starfsemi félaganna.
Kristján segir að einnig komi til
greina að kaupa hús og breyta því
þannig að það hentaði starfseminni.
Félögin eiga fasteignir sem þau
myndu þá selja eða nýta á annan
hátt.
Stéttar-
félögin vilja
byggja
saman
Reykjanesbær
NÁTTÚRUSTOFNUN Reykjaness
heldur fræðslu- og umræðufund um
jarðfræði og jarðhita, grunnvatn og
efnistöku á Reykjanesskaga, á
morgun, fimmtudag, frá kl. 13.30 til
16.30 í Eldborg við Orkuver Hita-
veitu Suðurnesja í Svartsengi.
Kristján Sæmundsson jarðfræð-
ingur fjallar um jarðfræði og jarð-
hita á Reykjanesskaga, Freysteinn
Sigurðsson jarðfræðingur ræðir um
grunnvatn á Reykjanesskaga, Gunn-
ar Bjarnason jarðfræðingur fjallar
um námuskráningu og leiðbeiningar
um námuvinnslu og Björn Stefáns-
son, sérfræðingur hjá Náttúruvernd
ríkisins, fjallar um námufrágang og
leiðbeiningar um námufrágang.
Ingimar Sigurðsson í umhverfis-
ráðuneytinu tekur þátt í umræðum
um lögfræðilegar hliðar þessara
mála, segir í frétt frá Náttúrustofu
Reykjaness.
Ráðstefna um
jarðfræði
Reykjanes-
skaga
Svartsengi
HAFNAR eru framkvæmdir við
dýpkun í Sandgerðishöfn. Síðar í
vetur verður svo Norðurgarður
lengdur um 25 metra.
Verktakafyrirtækið Hagtak hf.
átti lægsta tilboðið í verkið og hefur
nú hafið framkvæmdir. Verið er að
bora og sprengja til að dýpka höfn-
ina við Norðurgarð niður í 6 til 8,5
metra dýpi. Eftir áramótin stendur
síðan til að reka niður stálþil til að
lengja garðinn. Björn Arason hafn-
arstjóri segir að þetta sé gert í þeim
tilgangi að bæta aðstöðu fyrir stærri
loðnu- og síldarskip en hafnarstjórn
hefur markað þá stefnu að vaxtar-
broddur hafnarinnar liggi í uppsjáv-
arfiski.
Þegar verkið var boðið út var við
það miðað að því yrði lokið fyrir 1.
febrúar. Ekki hefur viðrað vel til
dýpkunarframkvæmda að undan-
förnu og margir dagar fallið úr
vinnu, að sögn Björns.
Morgunblaðið/Reynir Sveinsson
Starfsmaður Hagtaks á borpramma við dýpkun í Sandgerðishöfn.
Ekki viðrar
vel til dýpkunar-
framkvæmda
Sandgerði
♦ ♦ ♦