Morgunblaðið - 28.11.2001, Qupperneq 20
VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF
20 MIÐVIKUDAGUR 28. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
ÍAV - Íslenskir aðalverktakar hf, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík
Sjá nánar á www.iav.is
Skemmtilega hönnuð og rúmgóð 3ja herbergja
íbúð á 4. hæð í glæsilegu viðhaldslitlu lyftuhúsi
auk sér stæðis í bílageymslu. Íbúðin skiptist í
tvö svefnherbergi, baðherbergi, þvottahús,
geymslu, eldhús og stofu. Að auki er sér geymsla
í kjallara. Mjög vandaður frágangur úti og inni.
Birt stærð íbúðarinnar er 126,9 fm. Íbúðin er til
afhendingar í desember nk.
Hafðu samband við söludeild ÍAV í síma 530 4200
SAMÞYKKT var á hluthafafundi í Ís-
lenska járnblendifélaginu hf. á
Grundartanga í gær að lækka hlutafé
félgsins úr tæpum 1.763 milljónum
króna í 441 milljón. Þetta hefur í för
með sér að einn hlutur í félaginu kem-
ur í stað fjögurra áður. Tveir stærstu
hluthafarnir í félaginu, norska fyrir-
tækið Elkem, sem á 55,9% og íslenska
ríkið, sem á 12,0%, höfðu komist að
samkomulagi um þetta fyrir hluthafa-
fundinn.
Í framhaldi af fundinum samþykkti
stjórn félagsins að auka hlutaféð um
650 milljónir króna og bjóða hluthöf-
um í félaginu það til kaups á genginu
1,0. Eftir hlutafjárhækkunina verður
heildarhlutafé félagsins tæplega
1.091 milljón krónur. Elkem mun
sölutryggja útboðið.
Af hálfu ríkisins var samþykkt að
grípa til þessara aðgerða í þeim til-
gangi að styrkja fjárhag Íslenska
járnblendifélagsins fyrir árslok, þrátt
fyrir ágreining aðila um verðmæti
hluta í félaginu, og treysta þar með
áframhaldandi starfsemi þess.
Framlag ríkissjóðs 4 milljarðar
Ríkissjóður hefur sjö sinnum veitt
fé til Íslenska járnblendifélagsins í
formi hlutafjár á tímabilinu frá 1977
til 2000. Á núverandi verðlagi er þetta
fjármagn samtals um 5,1 milljarður
króna. Ríkið hefur einu sinni selt
hlutabréf í félaginu, er 26,5% hlutur
var seldur á árinu 1998, sem á núver-
andi verðlagi er um 1,1 milljaður. Rík-
ið hefur því samtals lagt fram um 4
milljarða króna til verksmiðjunnar
með beinum hætti.
Núverandi eignarhlutur ríkisins er
12% af 441 milljónar króna hlutafé,
eða um 53 milljónir króna, að nafn-
verði. Útboðsgengi í væntanlegu
hlutafjárútboð er 1,0 og miðað við það
er verðgildi eignahlutar ríkisins það
sama og nafnverðið.
Skilyrði VÞÍ verði uppfyllt
Marius Grønningsæter, fulltrúi
Elkem í stjórn Íslenska járnblendi-
félagsins, sagði á hluthafafundinum
að megintilgangurinn með lækkun á
hlutafé félagsins og síðan með útgáfu
nýs hlutafjár, væri að styrkja fjárhag-
inn til að félagið ætti ekki á hættu að
lánasamningum þess yrði sagt upp og
lán gjaldfelld. Kveðið væri á um lág-
marks eigið fé félagsins og rekstur
þess í lánasamningum. Staðan í þeim
málum nú væri slík að hætta væri á að
þau skilyrði væru ekki uppfyllt. Ef til
gjaldfellingar lána kæmi væru ekki
miklar líkur á að félaginu stæði til
boða jafn hagstæð lán og það væri
með nú, sem þá myndi enn frekar
auka erfiðleika fyrirtækisins.
Í samkomulagi Elkem og ríkis-
stjórnarinnar er kveðið á um að aðilar
samþykki báðir að grípa til aðgerða í
framhaldi af framangreindum breyt-
ingum á hlutafé félagsins, sem eiga að
stuðla að því að það uppfylli skilyrði
Verðbréfaþings til að vera skráð á að-
allista þingsins. Í samkomulaginu
kemur einnig fram að Elkem muni, að
því marki sem félagið kann að auka
við hlutafjáreign sína í útboðinu á
kostnað íslenskra fjárfesta, bjóða það
íslenskum hluthöfum í félaginu til
sölu síðustu tvær vikur janúarmán-
aðar 2002 á útboðsgenginu, þ.e. sama
gengi og bréfin voru keypt á.
Hlutur Elkem aukist ekki
Mæting á hluthafafund Íslenska
járnblendifélagsins í gær var fyrir
69,33% hlutafjár. Þar af voru mættir
fulltrúar ríkisins og Elkem, sem eiga
samtals 67,9% hlutafjár. Fulltrúar
japanska fyrirtækisins Sumitomo,
sem á 8,4% í félaginu, mættu ekki á
fundinn.
Fyrirspurnir komu fram á fundin-
um frá einstökum hluthöfum um fyr-
irætlanir Elkem og hvaða tryggingu
smærri hluthafar hefðu fyrir því að
Elkem myndi ekki eignast yfir þrjá
fjórðu af hlutafé félagsins og þar með
geta afskráð það af Verðbréfaþingi
Íslands.
Haukur Ingibergsson, fulltrúi iðn-
aðar- og viðskiptaráðherra í stjórn Ís-
lenska járnblendifélagsins, sagði að
samkomulag ríkisins og Elkem gengi
út á það að tryggja að hlutafjáraukn-
ingin yrði með þeim hætti að hlutur
Elkem ykist ekki frá því sem nú væri,
í tengslum við þessa tilteknu aðgerð.
Marius Grønningsæter bætti því
við að Elkem hefði engar áætlanir
uppi um að draga félagið út af verð-
bréfamarkaði. Ef Elkem mundi eign-
ast hlut í félaginu umfram þau 55,9%
sem eignarhlutur þess væri nú, yrði
sá mismunur boðinn til sölu í janúar
til íslenskra fjárfesta, samkvæmt
samkomulaginu við ríkið.
Spurt var á fundinum hvort nauð-
synlegt hefði verið að færa hlutafé fé-
lagsins eins mikið niður og raun bæri
vitni. Fram kom að það væri mat
framkvæmdastjórnar fyrirtækisins
og stjórnar að svo væri, en margir
óvissuþættir væru þessu samfara og
því erfitt að segja til um hvað væri
endilega rétt í þeim efnum. Frá því
hefur verið greint að ríkið er ekki
sammála verðmati Elkem á félaginu.
Þá kom fram að af hálfu ríkisins og
Elkem hefði ekki verið haft samband
við Sumitomo vegna þessara aðgerða.
Ekki væri því vitað hvort fyrirtækið
myndi taka þátt í hlutafjáraukning-
unni.
Frank Björklund, framkvæmda-
stjóri Íslenska járnblendifélagsins,
sagði horfur ekki góðar varðandi verð
á kísiljárni á næsta ári. Í byrjun árs
hefði verið offramboð á kísiljárni á
heimsmarkaði. Margar járnblendi-
verksmiðjur hefðu þá dregið úr fram-
leiðslu. Vegna þess hefði verðið
hækkað um mitt ár en það væri aftur
orðið lágt og allt útlit væri fyrir að svo
yrði áfram fram á næsta ár.
Tillaga stjórnar Íslenska járn-
blendifélagsins um lækkun á hlutafé
félagsins úr 1.763 milljónum króna í
441 milljón var samþykkt á hluthafa-
fundinum með 98,2% greiddra at-
kvæða, en 1,8% voru á móti.
Niðurfærsla og aukning á hlutafé
Lækkun á hlutafé Íslenska járn-
blendifélagsins, sem samþykkt var í
gær, er ekki sú fyrsta í sögu félagsins.
Hlutafé fyrirtækisins hefur tvisvar
verið fært niður áður. Í fyrra skiptið á
árinu 1984, en þá var það fært niður
úr 997 milljónum króna í 660 millj-
ónir, eða um 337 milljónir. Félagið gaf
út jöfnunarhlutabréf að fjárhæð 660
milljónir króna á árinu 1988. Við það
var hlutafé félagsins aukið úr 660
milljónum í 1.320 milljónir. Ári síðar
voru aftur gefin út jöfnunarhlutabréf
að fjárhæð 680 milljónir og við það
varð hlutafé félagsins 2.000 milljónir.
Á árinu 1992 var hlutafé Íslenska
járnblendifélagsins svo fært niður í
annað skiptið, úr 2.000 milljónum
króna í 600 milljónir. Jafnframt var
þá ákveðið að heimila hlutafjáraukn-
ingu félagsins.
Á árinu 1993 var hlutaféð aukið um
389 milljónir, sem greiddar voru á
nafnverði. Það var aftur aukið á árinu
1997, og þá um 424 milljónir að nafn-
verði, sem greitt var á genginu 2,2. Á
árinu 2000 var það enn aukið og þá
um 350 milljónir að nafnverði, sem
greitt var á genginu 1,5.
Hlutur ríkisins úr 55% í 12%
Bygging kísiljárnverksmiðjunnar á
Grundartanga í Hvalfirði var í upp-
hafi ákveðin í tengslum við virkjunar-
framkvæmdir við Sigöldu. Verkið
hófst í samvinnu við bandaríska fyr-
irtækið Union Carbide árið 1974. Ári
síðar dró Union Carbide sig út úr
samstarfinu og lögðust framkvæmdir
þá niður.
Árið 1976 var gerður samningur
við Elkem, og var hafist handa við
framkvæmdir á nýjan leik árið eftir,
en verksmiðjan var þá hönnuð að
nýju.
Rekstur Járnblendiverksmiðjunn-
ar hófst árið 1979 og komst í fullan
gang ári síðar. Upphaflega átti rík-
issjóður 55% í fyrirtækinu og Elkem
afganginn. Árið 1984 keypti svo jap-
anska fyrirtækið Sumitomo 15% af
heildarhlutafé félagsins af Norð-
mönnum.
Ríkið seldi stærstan hluta af
hlutafé sínu í Íslenska járnblendi-
félaginu í útboði á árinu 1998, eða
26,5% af heildarhlutafénu, sem nam
þá 1.413 milljónum króna í framhaldi
af hlutafjáraukningunni 1993 og 1997.
Gengið í útboðinu var 2,5. Hlutur rík-
isins fyrir útboðið var kominn niður í
38,5% af heildarhlutafénu því ríkið
tók ekki þátt í hlutafjáraukningu fé-
lagsins á árinu 1997.
Hlutur ríkisins eftir söluna á 26,5%
hlutnum var því 12% og hefur haldist
í því hlutfalli, því ríkið tók þátt í hluta-
fjáraukningu félagsins á árinu 2000,
sem miðaðist að því að halda hlutnum
óbreyttum. Á sama tíma og hlutur
ríkisins í félaginu fór lækkandi jókst
hlutur Elkem, sem er nú eins og áður
segir 55,9%. Hlutur Sumitomo hefur
hins vegar minnkað úr upphaflegum
15% í 8,4%.
Undirstöðuhráefni stáliðnaðarins
Í dag eru þrír svonefndir ljósboga-
ofnar í Járnblendiverksmiðjunni á
Grundartanga. Fyrsti ofn verksmiðj-
unnar var gangsettur í apríl 1979,
annar í september 1980 og sá þriðji,
sem er nokkuð stærri en hinir tveir,
var gangsettur í október 1999.
Meginafurð Íslenska járnblendi-
félagsins er kísiljárn, sem er eitt af
undirstöðuhráefnum stáliðnaðarins,
ýmist notað til hreinsunar á stáli eða
sem blendiefni til þess að fá fram
ákveðna eiginleika. Kísiljárn er auk
þess notað í litlum mæli í efnaiðnaði.
Árleg framleiðsla kísiljárns hjá
Járnblendifélaginu er um 114 þúsund
tonn.
Ódýr raforka er forsenda fram-
leiðslu kísiljárns á Íslandi, því vegna
langra flutningsleiða verður allur hrá-
efniskostnaður mjög hár.
Rekstur Íslenska járnblendifélags-
ins hefur verið erfiður á þessu ári sem
og næstu tvö árin þar á undan. Tap
varð af rekstrinum á síðasta ári eins
og árið þar áður. Næstu 6 ár þar á
undan, á tímabilinu frá 1993 til og
með 1998, skilaði reksturinn hins veg-
ar hagnaði þegar verndartolla á
markaði naut við.
Þar áður hafði félagið einungis skil-
að hagnaði tvö ár af fjórtán árum frá
upphafi starfseminnar. Hagnaður var
árin 1988 og 1989.
Ákveðið hefur verið að færa hlutafé Íslenska járnblendifélagsins niður um 1,3 milljarða króna
Samkomulag en
ágreiningur er
um verðmæti
Morgunblaðið/RAX
Hluthafar í Íslenska járnblendifélaginu tóku virkan þátt í hluthafafundi fé-
lagsins og spurðu m.a. um fyrirætlanir Elkem varðandi fyrirtækið.
Tveir stærstu hluthaf-
arnir í Íslenska járn-
blendifélaginu, ríkið og
Elkem, hafa náð sam-
komulagi um aðgerðir
til að styrkja félagið.
Fyrir aðgerðirnar hefur
ríkið lagt fram um 4
milljarða króna til verk-
smiðjunnar á núverandi
verðlagi. Eftir lækkun
á hlutafé félagsins er
eignarhlutur ríkisins um
50 milljónir króna.