Morgunblaðið - 30.11.2001, Síða 50
MINNINGAR
50 FÖSTUDAGUR 30. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Guðmundur F.Sigurjónsson
fæddist í Reykjavík
21. október 1948.
Hann lést á heimili
sínu í Garðabæ 25.
nóvember síðastlið-
inn. Foreldrar hans
voru hjónin Guðfinna
Halldóra Steindórs-
dóttir húsfreyja í
Reykjavík, f. 30.8.
1926, d. 10.3. 1984,
og Sigurjón Hafdal
Guðjónsson málara-
meistari, f. 11.2.
1921, d. 4.12. 1978.
Systkini hans eru Steindór, f.
1943, Þuríður, f. 1946, d. 1978,
Valgerður Andrea, f. 1950, og
Guðfinna Sigurjóna, f. 1956. Guð-
mundur ólst upp í Reykjavík og
nam dúka- og flísalögn við Iðn-
skólann í Reykjavík. Auk þess að
starfa við iðn sína vann hann ýmis
verslunarstörf og spilaði í dans-
hljómsveit um árabil. Upp úr fer-
tugu fór hann aftur í skóla og fékk
málarameistararéttindi. Eftir það
var hann m.a. sölu-
maður hjá Litaveri
og Hörpu. Síðustu
tvö árin var hann
verslunarstjóri hjá
Hörpu í Skeifunni.
Guðmundur
kvæntist 13. septem-
ber 1969 Ragnhildi
B. Jóhannsdóttur
hjúkrunarfræðingi,
f. 17.9. 1950. For-
eldrar hennar voru
Guðrún Elín Guð-
mundsdóttir ljós-
móðir, f. 16.10. 1906,
d. 29.5. 1988, og Jó-
hann Guðmundsson, f. 21.1. 1917,
d. 16.4. 2001. Guðmundur og
Ragnhildur eignuðust þrjú börn.
Þau eru Steindór Stefán, tölvun-
arfræðingur, f. 24.7. 1972, Jó-
hanna Guðrún viðskiptafræðing-
ur, f. 30.8. 1978, maki Ómar
Gústafsson, Ástrós nemi, f. 16.3.
1984.
Útför Guðmundar fer fram frá
Garðakirkju í dag og hefst athöfn-
in klukkan 15.
Sumarið sem ég varð 15 ára vann
ég með pabba við að mála og fórum
við meðal annars út á land að vinna.
Okkur feðgunum leiddist ekki það
sumar, það var mikið hlegið. Þannig
var alltaf þegar maður var að sýsla
eitthvað með pabba, hvort sem það
var vinna eða áhugamál, það var allt-
af stutt í brosið.
Pabba var margt til lista lagt,
hann málaði myndir á striga jafnt og
auglýsingar á heilu húsgaflana, spil-
aði á hljómborð, og brá sér í hlut-
verk flestra iðnaðarmanna við bygg-
ingu einbýlishúss, fyrir utan allt
annað.
Hin seinni ár gaf pabbi sér meiri
tíma í að sinna áhugamálunum sem
voru helst stangveiði og ferðir á völl-
inn, þó ferðirnar í Frostaskjólið hafi
oft verið meira spennandi en þetta
sumarið. Það þýddi samt ekkert að
gera grín að KR-ingunum í hans
eyru, hann hafði alltaf svör á reiðum
höndum. Margar góðar minningar
tengjast veiðinni, hann vissi fátt
betra en að vera staddur við speg-
ilslétt vatn og kasta flugu fyrir sil-
ung. Hann varð seint þreyttur á því
og á tímabili mátti hann varla eiga
nokkra tíma lausa án þess að vera
kominn í vöðlurnar. Enda var hann í
lok þess sumars farinn að hugsa eins
og silungur, kistan orðin full og ná-
grannarnir komnir í eldi á ferskum
og reyktum silungi.
Þó farið hafi verið að draga af
honum var hans síðasta veiðiferð í
ágústlok og lá þar meðal annars sex
punda bleikja í valnum.
Pabbi hafði mikinn áhuga á yfir-
náttúrulegum efnum og hafði lesið
sér til um sálarrannsóknir og sótt
miðilsfundi. Það hjálpaði honum
mikið í baráttunni að vera þess full-
viss að það biði eitthvað betra hinum
megin.
Pabbi hefur kvatt okkur í bili. Það
er sárt. En minningin lifir um góðan
föður og góðan vin.
Fjölskyldan vill skila þakklæti til
hjúkrunarfræðinga hjá Karítas,
Líknardeildar Landspítalans,
læknanna Valgerðar Sigurðardóttur
og Jakobs Jóhannssonar og ekki síst
allra þeirra ættingja og vina sem
studdu fjölskylduna í þessari erfiðu
baráttu. Ósk pabba um að fá að vera
heima þar til yfir lauk hefði orðið
erfitt að láta rætast hefði ekki komið
til velvilji samstarfsfólks mömmu á
St. Jósefsspítala og fyrir það er fjöl-
skyldan mjög þakklát.
Steindór (Dóri).
Þegar ég fæddist og pabbi kom til
mömmu á fæðingardeildina, þar sem
hún lá á sex manna stofu, sagði hann
hátt og snjallt svo örugglega allir
heyrðu: „Er hún ekki lík píparanum
í næsta húsi?“ Svona var húmorinn
hans pabba og þegar ég var komin
til vits og ára gátum við hlegið okkur
máttlaus að vitleysunni í hvort öðru.
Við áttum margar skemmtilegar
stundir saman og nú er gott að hlýja
sér við þær minningar. Ég er líka
viss um að húmorinn hafi hjálpað
pabba í baráttunni við krabbameinið
því hann gat slegið á létta strengi al-
veg þangað til yfir lauk.
Pabbi var mjög góður í sínu fagi
og hafði einstaklega næmt auga fyr-
ir litum og litasamsetningum. Það
var því eins og köld vatnsgusa í and-
litið þegar ég, á gelgjunni, vildi fá
herbergið mitt málað svart. Rök-
ræðurnar sem fylgdu í kjölfarið
stóðu lengi yfir því við vorum jafn
þrjósk en sátt náðist að lokum um að
einn veggur, sá stærsti, yrði málað-
ur svartur. Þessi veggur var líklega
með þeim erfiðari sem pabbi hefur
málað en hann gerði það fyrir
Hönnsu Pönnsuna sína.
En við pabbi áttum margt annað
sameiginlegt en húmorinn og
þrjóskuna, eins og t.d. að vera
minnst af öllum á fermingarmynd-
inni. Eini munurinn á okkur var sá
að hann stækkaði svo en ekki ég.
Hann sagði mér oft söguna af vaxt-
arkippnum sem hann tók ekki fyrr
en eftir bílprófið og að hann þurfti
að sitja með púða þegar hann tók
prófið. Hann sagði mér einnig marg-
ar aðrar sögur af sínum yngri árum
og eru mér sérstaklega minnisstæð-
ar allar sögurnar af Röðli, þar sem
hann spilaði oft. Ég gerði alltaf grín
að honum þegar hann byrjaði sög-
urnar á: „Þegar ég var að spila á
Röðli…“
Elsku pabbi, ég mun sakna þess
mikið að geta ekki lengur hlegið með
þér, þrjóskast við þig og hlustað á
sögurnar þínar. En ég veit að núna
ertu kominn á stað þar sem þér líður
vel því ég sá friðinn sem færðist yfir
þig þegar þú kvaddir þennan heim.
Nú kveð ég þig.
Þín,
Jóhanna Guðrún
(Hanna Gunna).
Elsku pabbi minn. Það er svo sárt
að þurfa að kveðja þig svona fljótt.
Þú sem varst svo ungur, aðeins 53
ára, og ert horfinn á braut. En minn-
ingin lifir um góðan mann og frá-
bæran pabba og það kemur enginn í
þinn stað. Það var svo æðisleg ferðin
sem við fórum í, öll fjölskyldan, sam-
an í sumar, en þú og mamma ætl-
uðuð bara tvö saman í afslöppunar-
ferð til Portúgal í viku en við
krakkarnir komum á eftir og eltum
ykkur í sólina og var það í fyrsta og
síðasta sinn sem við fórum öll sam-
an. Sú ferð mun lifa í minningu okk-
ar allra um ókomna tíð.
Þú varst alltaf svo jákvæður og
duglegur í gegnum þessi erfiðu veik-
indi og það var frábært að þú gast
verið hér heima síðustu dagana.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
( Þórunn Sig.)
Þrátt fyrir hetjulega baráttu
stoppaði stríðið og Guð kom til þín
og veitti þér hvíld. En það er gott að
vita til þess að þér líður betur þar
sem þú ert núna og þú hefur fengið
frið fyrir öllum verkjum.
En ég vil kveðja þig með þeim
orðum sem þú sagðir alltaf við mig:
Rósin hans pabba síns.
Þín
Ástrós.
Þá fékkstu loksins hvíldina, Mansi
minn, og ert kominn á vit mömmu
þinnar, pabba og annarra sem tóku
vel á móti þér í öðrum heimi. Þótt
legan hafi kannski ekki verið svo
ýkja löng var hún ströng á köflum.
Sem betur fer barstu gæfu til að
undirbúa þig vel. Enda sagðir þú
stuttu fyrir dauða þinn að sennilega
væru fáir jafnaldrar þínir jafn vel
undir vistaskiptin búnir og þú. Í
nokkuð mörg ár ertu búinn að hafa
áhuga á dulrænum efnum og hefur
gert ýmislegt í þeim málum. Það
kom þér mjög vel núna og ekki ann-
að hægt en dást að því hversu hetju-
lega þú tókst þeim fréttum, að ekk-
ert væri hægt að gera meira fyrir
líkama þinn. Hvílíkt jafnaðargeð. Ég
hélt ekki að þetta væri hægt. Enda
sagðir þú að sennilega væri enginn
eins undrandi á því og þú sjálfur. Nú
er dauðinn nokkuð sem fólk gjarnan
hræðist að tala um, jafn eðlilegur og
hann er. Ég held samt að þér hafi
þótt gott að geta talað um hann og
veit að þér var alltaf nokkuð léttara
eftir þær samræður sem við áttum
um þau mál. Þegar við grétum sam-
an á líknardeildinni fyrir nokkrum
vikum varstu eðlilega mjög ósáttur
við að hérvistinni væri að ljúka, það
væri svo margt sem þú mundir
missa af. Engu að síður sagðirðu í
lokin að þú vonaðir nú samt að fyrst
svona væri komið yrði biðin ekki of
löng og að þú mundir ekki þjást. Þér
varð sem betur fer að mestu að ósk
þinni í þeim efnum. Því miður vissi
ég ekki nógu fljótt hvert gagn þess-
ar samræður höfðu gert þér.
Kannski hefði ég getað hjálpað þér
betur, en það er of seint að súta það
núna. Þegar við spjölluðum saman
fyrir viku fannst mér þú aftur á móti
alveg tilbúinn og gamli grallarinn
kominn aftur. Þá, eins og svo oft áð-
ur, komstu fram í kaffi miklu meira
af vilja en mætti.
Þá kemur í hugann sagan af atvik-
inu þegar þú hittir nágrannakonu
þína fyrir stuttu. Hún spurði hvern-
ig gengi. „Það fer eftir því hvað þú
meinar. Það er ekkert hægt að gera
fyrir mig meira. Það er engin lækn-
ing, en ég er aftur á móti að fara að
rífa niður flísarnar á baðinu og ætla
að fara að breyta því öllu.“ Er að
furða að aumingjans konunni hafi
orðið orðfall. En þannig tókstu á
þessum málum. Dauðinn skyldi ekki
ná tökum á þér fyrr en í fulla hnef-
ana. Og þú byrjaðir vissulega verkið.
Fórst að rífa niður flís og flís, eins og
kraftar leyfðu. Stjórnaðir svo verk-
inu eins og þú gast, en leyfðir öðrum
að hjálpa þegar þú gast ekki meir.
Svo var eins og þú gætir ekki sleppt
fyrr en verkinu væri lokið og alveg í
lokin, þegar þú vissir að smiðurinn
var kominn að setja upp síðustu
skápana, þá sagðirðu: „Jæja, þá fer
þetta nú eitthvað að ganga.“ Morg-
uninn eftir lauk verkinu alveg og þú
varst allur.
Þessa dagana reikar hugurinn
aftur um rúma þrjá áratugi, þegar
ég ákvað að komast í góðan kunn-
ingsskap við þig, misnota þig til að
komast í meira návígi við systur
þína. Síðan áttum við margar góðar
stundir saman og ekki síst eftir að
við Adda urðum par og þú búinn að
finna Röggu þína. Einnig þegar við
skruppum saman upp í Grímsá að
veiða, mála og vera saman. Ein-
hverra hluta vegna man ég ekki eins
mikið eftir veiðinni og grallara-
skapnum í þér. Við náðum vel saman
og það var gott að eiga þig að vini.
Dæmi um það var þegar við Adda
komum inn í Ásgarð og tilkynntum
að við ætluðum að giftast sex vikum
síðar. Þú varst þá viðstaddur og
spurðir um hæl hvort þið Ragga
mættuð vera með. Vill hún það? var
spurt á móti. „Hún veit það ekki
enn,“ var svarið. Svo raukstu í sím-
ann og spurðir: „Ragga, viltu giftast
mér 13. september?“ Jú, hún vildi
giftast þér og hún vildi vera með!
Þannig voru sumar ákvarðanir ekki
lengi að veltast fyrir þér. Hlutirnir
voru bara gerðir. Löngu seinna fór-
um við svo saman til Kanarí í brúð-
kaupsferðina sem aldrei var farin og
áttum ógleymanlegar stundir þar,
sem enn er stundum verið að minn-
ast á. Fyrir þetta allt og margt fleira
vil ég nú þakka og óska þér alls góðs
í nýju umhverfi.
Röggu, sem nú hefur misst upp-
eldisbróður, föður og eiginmann á
innan við ári, og krökkunum, sem
hafa líka misst svo mikið, óskum við
Adda gæfu og guðs blessunar í sinni
miklu sorg.
Erlingur Friðriksson.
Mágur minn Guðmundur Sigur-
jónsson, eða Mannsi eins og ég kall-
aði hann ætíð, hefur fengið hvíldina,
blessaður karlinn minn, og er farinn
á annað tilverustig.
Ég kynntist Mannsa fyrir ellefu
árum þegar ég fór að vera með
Steina bróður hans. Þegar ég hugsa
um þessi ár finnst mér við hafa hist
alltof sjaldan eins og oft vill verða í
dagsins önn. En alltaf þegar þeir
bræður hittust var spaugað og
spjallað, það var alveg frábært að
hlusta á þá með sinn gálgahúmor
sem aldrei brást, jafnvel ekki síð-
ustu dagana í veikindunum.
Mannsi var mikill aðdáandi KR og
á því sviði vorum við andstæðingar
og gerðum góðlátlegt grín hvort að
öðru.
Mannsi og Ragga komu til okkar
að kvöldi 22. apríl sl. og sögðu okkur
að hann hefði greinst með lungna-
krabba. Við höfðum verið erlendis í
þrjár vikur og á þeim tíma hafði
pabbi Röggu dáið og Mannsi greinst
með krabbamein.
Þessir mánuðir sem liðnir eru síð-
an hafa verið erfiðir en gefandi. Þeir
bræður nýttu tímann vel. Steini fór
til hans alla daga og sat hjá honum
um stund og enn var spaugað og rifj-
aðir upp gamlir tímar. Þeir voru
ótrúlega líkir, þurftu oft ekki að tala,
hvor um sig vissi hvað hinn vildi sagt
hafa. Þeir voru ekki aðeins bræður
heldur einnig bestu vinir.
Við áttum dýrmætar stundir með
Mannsa og Röggu stundum á sunnu-
dagsmorgnum þegar við Ragga
komum úr gönguferðum með
hundana okkar og þeir bræður biðu
okkar með nýtt kaffi og með því.
Stundir sem aldrei gleymast.
Mannsi var afar handlaginn og
vildi hafa fínt í kringum sig. Í sept-
ember sl., eftir að hann hafði verið
skorinn upp og fengið úrskurð um að
ekkert væri hægt að gera, hófst
hann handa við að taka baðherberg-
ið í gegn. Það stytti honum stundir
að spá og spekúlera hvernig best
væri að gera það. Honum entist ekki
heilsa til að flísaleggja sjálfur, en
fylgdist með af áhuga þegar Dóri,
með góðra manna hjálp, flísalagði og
verkið kláraðist daginn áður en
hann dó.
Mér finnst ég ríkari að hafa fengið
að fylgjast með Mannsa í veikind-
unum. Hann var ótrúlega skapgóður
allan tímann, æðrulaus og mikil
hetja. Síðustu dagana var hann að
hugsa um hvernig þeim sem eftir
lifðu myndi reiða af, hvernig börnin
hans myndu spjara sig og var meira
að segja að spyrja hvort Steini bróð-
ir hans hefði ekki nóg að gera og
fleira þess háttar. Hann trúði á líf
eftir þetta líf og það hefur sjálfsagt
gefið honum aukinn styrk í veikind-
unum.
Það var honum afar mikilvægt að
fá að liggja heima þar til yfir lyki og
það fékk hann. Hann lést á heimili
sínu að morgni sunnudagsins 25.
nóvember sl., umkringdur öllum
þeim sem honum voru kærastir.
Ragga og börnin umvöfðu hann í
ást og kærleik og gerðu allt sem í
þeirra valdi stóð til að hann gæti átt
eins góða daga og hægt er í svona
erfiðum veikindum og fóru þau m.a.
öll saman í vikuferð til sólarlanda sl.
sumar, eftir að komið hafði í ljós að
geislarnir höfðu ekki gert gagn.
Þetta hafa verið erfiðir mánuðir
hjá Röggu og börnunum, en þau
hafa verið einstaklega samhent og
það er ekki ónýtt fyrir krakkana að
eiga slíkan klett fyrir mömmu.
Elsku Ragga, Dóri, Hanna
Gunna, Ástrós og Ómar, ég bið guð
að styrkja ykkur og systkini Mannsa
á þessum erfiðu stundum og ég veit
að þið eigið dýrmætar minningar í
hjartanu til að ylja ykkur við.
Hjördís.
Hin langa þraut er liðin,
nú loksins hlauztu friðinn,
og allt er orðið rótt,
nú sæll er sigur unninn,
og sólin björt upp runnin
á bak við dimma dauðans nótt.
(Valdimar Briem.)
Elsku Ragnhildur, Ástrós, Dóri,
Hanna Gunna og aðrir aðstandend-
ur. Megi allir englar himinsins
vernda og vaka yfir ykkur á þessum
erfiðu stundum.
Ykkar vinkonur
Heiða Björk og Sigríður Ásta.
Kveðja frá Hörpu Sjöfn hf.
Guðmundur Sigurjónsson er fall-
inn frá langt um aldur fram eftir erf-
iða baráttu við illvígan sjúkdóm.
Guðmundur var sölumaður í
Hörpu á árunum í kringum 1990. Þá
komu strax í ljós hæfileikar hans á
þessu sviði vegna mikillar þekkingar
á málningarefnum, kurteislegrar
framkomu og góðrar þjónustulund-
ar sem viðskiptavinir kunnu að
meta.
Hann færði sig um set og tók til
starfa í Litaveri. Á þeim tíma sem
Guðmundur starfaði í Litaveri, seld-
ist þar meira af Hörpumálningu en
menn rekur minni til fyrr og síðar.
Var sá árangur rakinn til eljusemi
Guðmundar og góðrar þjónustu sem
hann veitti viðskiptavinum.
Guðmundur starfaði sjálfstætt um
árabil og tók þá m.a. að sér að mála
húsgafla og útbúa merkingar og
auglýsingaefni. Við þessi störf nutu
listrænir hæfileikar hans sín með
ágætum. Á þessum árum vann Guð-
mundur mikið fyrir Hörpu og málaði
m.a. auglýsingar á húsgafla sem
vakið hafa athygli og borið vinnu-
brögðum Guðmundar gott vitni.
Vorið 1999 var ákveðið að hefja
rekstur eigin verslana Hörpu hf. Við
gerðum okkur ljóst að miklu varðaði
að til starfa í verslununum veldust
hæfileikamenn sem hefðu fagþekk-
ingu og yfirsýn til að geta veitt við-
skiptavinum okkar ráðgjöf og fyr-
irmyndarþjónustu. Við leituðum þá
til Guðmundar og buðum honum
stöðu verslunarstjóra í annarri af
tveimur fyrstu Hörpuverslununum.
Guðmundur réð ríkjum í Skeifunni 4
þar til hann veiktist fyrr á þessu ári.
Í þessu starfi nutu hæfileikar hans
sín vel og fjölmargir viðskiptavinir
urðu til þess að flytja Hörpu hf.
þakkir fyrir að tefla fram svo ráða-
góðum fagmanni sem Guðmundur
Sigurjónsson var. Fólk leitaði til
hans aftur og aftur enda gerðu menn
sér grein fyrir þekkingu hans og
smekkvísi þegar málning og litaval
var annars vegar.
Guðmundur barðist við hinn erf-
iða sjúkdóm þegar Harpa og Sjöfn
sameinuðust 1. september sl. og til
varð Harpa Sjöfn hf.
Verslunarstjórastaða Guðmundar
beið hans í Skeifunni og við vonuð-
um öll að hann ætti afturkvæmt til
fyrri starfa. En því miður varð hann
að lúta í lægra haldi og er nú horfinn
á braut frá okkur.
Við söknum góðs vinnufélaga og
samherja. Mestur er þó söknuður
nánustu ættingja hans, eiginkonu og
barna. Við vottum þeim dýpstu sam-
úð.
Guðmundur Sigurjónsson var
góður og hæfileikaríkur maður.
Minningin um hann lifir.
Helgi Magnússon.
GUÐMUNDUR F.
SIGURJÓNSSON
Fleiri minningargreinar um
Guðmund F. Sigurjónsson bíða birt-
ingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga.