Morgunblaðið - 23.12.2001, Síða 16

Morgunblaðið - 23.12.2001, Síða 16
16 SUNNUDAGUR 23. DESEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ þúsundasta er þrefalt stærri en hinar. Stór alda endist ekki lengi, en ef hún brotnar á hlið bátsins þá getur hún hvolft honum. Flestir seglbátar eru þannig byggðir að þeir rétta sig við. Við höfum aldrei farið á hvolf, en lagst á hliðina.“ Þau skiptast á að vera á vakt. Vindstýring (windpilot), sem er stillt með tilliti til vindáttarinnar, sér um að halda stefnunni. Ef vindurinn breytist verður að breyta stillingu vindstýringarinnar. Það auðveldar líf- ið að hægt er að aka seglunum innan úr stýrishúsinu. Óvænt heimsókn Síðasta vetri eyddu Holly og George á Bahamaeyjum og nutu hlýj- unnar á suðlægum slóðum. Þau sigldu síðan upp með austurströnd Banda- ríkjanna og höfðu viðkomu á ýmsum stöðum þar til þau komu til St. Johns á Nýfundnalandi. Þaðan var lagt á Atlantshafið með stefnu á Ísland. George segist ekki hafa viljað hætta á að lenda í ís og því var farið djúpt fyrir Hvarf á Grænlandi. Ísland tók vel á móti Hannah Brown. Þau komu upp á Reykjanes- hrygginn á bjartri sumarnótt þar sem fjöldi togara var að veiðum. Holly var í koju en George að lesa bók á milli þess sem hann var á útkíkki. Skyndi- lega heyrði hann raddir og leit upp furðu lostinn. Fjórir íslenskir sjó- menn voru komnir á slöngubáti upp að skipshliðinni. George dáðist að því að þeir létu kaldann og pusið ekkert á sig fá, heldur þurrkuðu sjávarlöðrið úr andlitinu berum höndum. Þeir heilsuðu og gáfu George poka með flökum í soðið. Hann var svo furðu lostinn að hann gleymdi að endur- gjalda gjöfina, hvað þá að spyrja þá að nafni. Þegar Holly vaknaði um morgun- inn var hún hissa að sjá fiskinn og heyra af heimsókninni. „Ég eldaði mér heilt flak, það var svo stórt að það rúmaðist ekki á pönnunni. Með þessu hafði ég fulla pönnu af steiktum kart- öflum. Ég borðaði þetta allt og leyfði ekki örðu. Ég held ég hafi aldrei smakkað betri mat,“ segir Holly. Vestfirðir einkar áhugaverðir Hannah Brown tók land í Kópa- vogshöfn 21. júlí sl. eftir 19 daga sigl- ingu frá Nýfundnalandi. Eftir nokk- urra daga dvöl í Kópavogi lá leiðin til Vestmannaeyja, þaðan til Grindavík- ur og síðan Reykjavíkur. Þá var siglt á Snæfellsnes, Ólafsvík og Grundrar- fjörð og þaðan til Vestfjarða þar til staðar var numið í Ísafjarðarhöfn. Þar ákváðu þau að hafa vetursetu, en hafa farið í styttri ferðir norður á Strandir. Holly þykir Vestfirðir einkar áhugaverðir því þar er að finna fólk frá fjörutíu mismunandi þjóðum. Hún segir að list sín snúist öðru frem- ur um heiminn og mismunandi menn- ingarheima. „List snýst um að reyna á sig til hins ýtrasta, þenja líkama, huga og sál út fyrir ystu mörk og nema ný svæði. Starf mitt felst í að kanna og skoða og miðla því sem ég sé. Líf mitt og starf eru samtvinnuð. Ég álít að það sé hlutverk okkar sem mannvera að reyna á okkur til hins ýtrasta. Það eru ekki peningar sem knýja mig áfram, heldur löngunin til að miðla því sem ég sé. Sumir vinna til að fá laun, aðrir til að sinna ástríðu sinni.“ Litbrigði hafs og himins George hefur yndi af að vera á sjó og veit ekki hvað sjóveiki er. Holly segir hins vegar að sjómennskan eigi síður við sig. „Ég hef átt við sjóveiki að stríða, svo það er ekki eintóm sæla fyrir mig að vera til sjós. Engu að síður áttaði ég mig á því að algengustu hljóð á plánetu okkar heyrast á hafinu, því það þekur þrjá fjórðu hluta jarðar. – Ýlfur stormsins og ölduniðurinn. – Maður kynnist ekki þessum hljóðum nema að vera til sjós. Flestir jarð- arbúar heyra þau aldrei því þeir hafa aldrei verið úti á rúmsjó.“ Holly segir að það hafi verið sér sterk lífsreynsla að lifa og hrærast á hafinu, sjá litbrigðin, finna fyrir haf- inu alls staðar umhverfis og kynnast lífríkinu við sjávarborð. Þótt ekkert sjáist nema haf og himinn skipta lit- brigðin þúsundum, eins skuggamynd- ir skýjanna og síbreytileg áferð haf- flatarins. „Í þokunni rennur þessi veröld saman í eitt og maður sér að- eins fáein fet fram fyrir bátinn. Ég reyni að skrá þessa reynslu og miðla því sem ég finn og reyni.“ Sigrast á óttanum George segir að margir í Banda- ríkjunum hafi spurt hvort þau séu ekki hrædd við að vera úti á rúmsjó svo dögum skipti. „Við höfum lent í óveðri, það er ekki hægt að sigla lengi á úthafinu nema að lenda í stormi. En maður hræðist það ekki. Ég er hræddari í umferðinni á þjóðvegum Bandaríkjanna. Líkurnar á óhappi eru mun meiri þar en um borð í bátn- um.“ Holly segir að maður megi ekki láta óttann stjórna lífi sínu, þótt hann kunni að vera fyrir hendi. En hvernig gengur henni að lifa með sjóveikinni? „Það eru ýmsar aðferðir til þess. Fyrst reyndi ég að gefa henni engan gaum og láta sem ég væri ekki veik. Því meir sem ég reyndi að hunsa sjó- veikina þess veikari varð ég. Nú reyni ég að vera mjög heiðarleg og bregst við sjóveikinni með ýmsu móti. Stund- um fer ég út á dekk og stend við bóg- inn, eða aftur í skut og fæ vindinn í andlitið. Vanlíðan er afstæð á sinn hátt. Þegar maður þjáist líður tíminn löturhægt, en þegar manni líður vel þá flýgur tíminn áfram.“ Allur heimurinn er vinnustofa Holly hefur víða unnið að list sinni, eins og heimasíða þeirra Georges ber með sér. Aðspurð hvers konar list- sköpun hún stundar nefnir Holly list- málun, höggmyndagerð, ljósmyndun, skriftir, skopmyndateiknun og köku- bakstur. „Já, ég baka kökuskúlptúra! Sem listamaður nota ég það listform sem passar hverju sinni. Listræn áhersla mín þessa dagana snýst um að flokka, raða og miðla ljósmyndum af því sem ég hef séð á ferðum okkar. Listsköpun snýst um sköpunargáfu og hið sjálfsprottna – það sem gerist af sjálfu sér. Í sömu hugmynd felst að einbeita sér að augnablikinu og að gera sem mest úr því. Áður en við lögðumst í ferðalög var ég með stóra vinnustofu og efniviðurinn var mest „rusl“. Vinnustofan var full af alls konar dóti sem ég hafði flokkað eftir lit, lögun og áferð. Þegar við komum til Guatemala hitti ég listakonu sem var með opna vinnustofu. Þangað komu listamenn og unnu að list sinni. Hún sagði við mig: Gerðu eitthvað. Ég maldaði í móinn og sagði að vinnu- stofa mín væri langt í burtu. En svo áttaði ég mig á því að vinnustofa mín verður að vera þar sem ég er sjálf hverju sinni. Allur heimurinn er vinnustofa.“ Augu Hollyar lukust upp fyrir því að það er alls staðar rusl og meira en nóg af því. „Í Guatemala fór ég að tína drykkjarrör af götunum, spýtubrot, umbúðapoka og umbúðir utan af dag- blaðapökkum og fór að búa til skúlp- túr sem ég skildi eftir á safni þar.“ Með listsköpun sinni hefur Holly vak- ið fólk til meðvitundar um þá mögu- leika sem felast í endurnýjun þess sem ella væri hent. Listaverk sem hún hefur gert úr ýmsu „rusli“ eins og hún kallar það, prýða nú virðulega staði, jafnt opinberar byggingar og listasöfn í einkaeign og opinberri. Holly segist líta á listina sem leið til að brúa bilið á milli ólíkra menningar- heima og aldurshópa. „Ég býð líka öðrum að taka þátt í listsköpun minni. Þannig getur fólk á ýmsum aldri og úr ólíkum áttum sameinast um að tjá sig og skapa eitthvað sem ella hefði ekki orðið til.“ Vinnustofa á vettvangi Myndir af nokkrum verkum Holly- ar eru sýnd á heimasíðu hennar. Eitt þeirra er Hnötturinn (The Globe). „Ég kom til Kansas City og var ekki með neitt. Svo fór ég að safna hlutum til að nota í hafið. Ég bauð fólki að koma og taka með sér eitthvað blátt. Það kom með gallabuxur, kerti og hvaðeina. Áður en yfir lauk höfðu um tvö þúsund manns lagt hönd á plóg- inn, fólk frá 17 þjóðum. Börn bjuggu til dýrin, fullorðnir máttu líka, en börnin voru spennt fyrir dýrunum. Þau notuðu innkaupapoka, húfur, lím- band, kerti, fötur og hvaðeina. Eitt drykkjarstrá er ekki mikið, en mörg eru efni í listaverk. Ég setti upp söfn- unarkassa og bað um afgangsdót og það sem fólk ætlaði að henda.“ George og Holly voru í Jökulfjörð- um 11. september þegar árásin var gerð á Bandaríkin. Holly var rétt búin að skrá í dagbókina þegar þau heyrðu af árásinni: „Ef allir í heiminum gætu á einhvern hátt fengið að reyna kraft náttúrufegurðarinnar, þá held ég að ef til vill gætu hvorki kvöl, sorg eða jafnvel styrjaldir verið til.“ Þar sá Holly hjartaform í náttúrunni og tók af þeim myndir. Þar má sjá hjarta- laga steina, mosaþembur, öðuskeljar og margt fleira. Þetta varð henni yrk- isefni í lítil listaverk sem sýnt var í Slunkaríki í september. Á slóðir forfeðranna Þau Holly og George hafa haft nóg að sýsla á Ísafirði í haust. Þau byrjuðu á að fara á íslenskunámskeið og sátu á skólabekk með fólki m.a. frá Júgó- slavíu og Póllandi. Þeim þykir ótrú- lega mikið um að vera á Ísafirði, ekki síst á listasviðinu. Þá hefur Holly lagt lið sitt í Gamla apótekinu, samkomu- stað fyrir ungt fólk . Þar eru tölvur, spilaborð, æfingaaðstaða, kaffihús og margt á dagskrá. Holly er með vinnu- stofu í nágrenninu. George notar tímann til að dytta að bátnum, enda ekki gefist jafngott næði til þess undanfarin ár og nú. Nú í byrjun desember tók hann sér far með Mánafossi hringinn í kringum landið og hafði mjög gaman af. Að vori er ætlunin að sigla frá Ísa- firði. Það stendur til að stoppa á Húsavík og Austfjörðum og fara það- an í skoðunarferðir á landi. Síðan verður stefnan tekin á Færeyjar. „Mig langar að dvelja að minnsta kosti mánuð í Færeyjum,“ segir George. „Þaðan getur stefnan verið tekin til Írlands, Skotlands eða Nor- egs. Höfðingi MacLeod-ættarinnar býr í kastala á Isle of Skye. Kastalinn er niðri við ströndina og hægt að sigla þar uppað.“ Ekkert liggur fyrir um hvert ferðinni er heitið eftir það, enda eru þessir ferðalangar frjálsir eins og fuglar hafsins. TENGLAR ..................................................... www.nmt.edu/~bridge gudni@mbl.is, rax@mbl.is Svona líta Bandaríkin út á hnettinum. Hvert svæði hefur sín einkenni. Ak- urlöndin á bakvið vísundinn eru gerð úr korni sem límt er á dúk og saumuð inn í vasa úr vinyl. Skógarnir eru gerðir úr grænum plastgöfflum. Ljósmynd/Holly Huges Efninu í Einstein var safnað þannig að fjórtán söfnunarkassar voru settir upp í Socorro og var beðið um penna, tölvudisklinga og tenn- isbolta. Alls tóku 67 sjálfboðaliðar þátt í sköpun verksins, allt frá leik- skólabörnum upp í ellilífeyrisþega. Ljósmynd/Holly Huges Skóf á hjartalaga steini í Lónafirði. Ljósmynd/Holly Huges Holly fann hjartalaga myndir í Jökul- fjörðum. Þetta bláa steinhjarta var í Hrafnsfirði. Morgunblaðið/RAX Áður en George og Holly fóru til sjós ferðuðust þau víða á reiðhjólum. Þau eru með hjól um borð í bátnum og nota þau til að ferðast þar sem komið er í höfn. Ljósmynd/Holly Huges Holly fékk börn til að gera dýramyndir á hnöttinn. Makki ljónsins er gerður úr segulbandi og gúmmíteygjum. Vígtennurnar úr einnota plastgöfflum.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.