Morgunblaðið - 07.02.2002, Page 26

Morgunblaðið - 07.02.2002, Page 26
ERLENT 26 FIMMTUDAGUR 7. FEBRÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ AFGANSKIR stríðsherrar hafahundruð pak- istanskra stuðningsmanna talibanastjórn- arinnar fyrrverandi í Afganistan í haldi og krefjast lausnargjalds fyrir þá. Hóta þeir að lífláta mennina nema ættingjar þeirra greiði þúsundir Bandaríkjadala, að sögn ættingja nokkurra manna sem hafa verið í haldi. „Mér bárust skilaboð þar sem sagði að annaðhvort borgaði ég uppsett verð eða son- ur minn yrði tekinn af lífi,“ sagði Moambar Khan, sem er sjötugur. „Ég er viss um að þeir hefðu staðið við stóru orðin.“ Khan, sem ræktar hveiti við bágan kost í hæðum Hindu Kush-fjallanna í Pakistan, segist ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um. Hann fékk lánaða peninga hjá vinum og vandamönnum og fékk elsta son sinn, Ghul- an Akbar Khan, sem er 34 ára, lausan. „Ég hef ekkert við peninga að gera, ég þarfnast sonar míns,“ segir hann ánægður með að hafa heimt son sinn úr helju. Engar vísbendingar um aðild afgönsku stjórnarinnar „Ég fór til Afganistans því ég vildi þjóna Guði,“ segir Ghulan Khan. Faðir hans, sem er trúaður mjög, kveðst einnig trúa því að það sé skylda hvers múslima að ganga til liðs við heilaga baráttu, jihad, og lagði hann því á sínum tíma blessun sína yfir ákvörðun son- arins. Pakistanskar fjölskyldur sem greitt hafa lausnargjald til að fá syni sína heim aftur, eða sem fengið hafa kröfur þar um, segja að Afganar búsettir í Pakistan – sumir hverjir í flóttamannabúðum þar í landi – hafi haft milligöngu í málunum. Hafa Afganarnir tengsl við stríðsherrana hinum megin landa- mæranna. Um er að ræða stríðsherra sem þátt tóku í sókn Norðurbandalagsins gegn talibönum fyrir jól og unnu þar sigur, auk annarra valdamikilla héraðshöfðingja sem tóku fanga í átökunum. Engar vísbendingar eru um að bráðabirgðastjórnin afganska eigi hlut að málum. „Þetta fólk í flóttamannabúðunum kemur á tengslum við okkur. En við eigum ekki þá peninga sem farið er fram á,“ segir Khiasda Rahman, sem er 35 ára, en hann segir að far- ið hafi verið fram á að Rahman-fjölskyldan greiddi um átta þúsund dollara, rúmlega átta hundruð þúsund ísl. kr., í lausnargjald fyrir sautján ára gamlan meðlim fjölskyld- unnar sem haldið er í fangelsi í Mið- Afganistan. „Við viljum að stjórnvöld aðstoði við að fá þessa menn heim.“ Hefur lengi tíðkast í Afganistan Þúsundir Pakistana streymdu á sínum tíma yfir landamærin til Afganistans í því skyni að taka þátt í heilögu stríði talibana gegn Bandaríkjamönnum. Margir hafa að vísu þegar snúið heim, sumir féllu í bardög- um en margir eru enn í Afganistan, í haldi áðurnefndra stríðsherra. Útilokað er að vita um hversu marga menn er að ræða. Pakistönsk stjórnvöld, sem áður veittu tal- ibanastjórninni leynt og ljóst liðsinni, virðast lítt ætla að beita sér í þessum málum. Þau lýstu opinberlega yfir andstöðu sinni við að pakistönsk ungmenni héldu til Afganistans til að taka þátt í jihad og í staðinn fylktu þau liði með Bandaríkjamönnum. „Þeir fóru ólöglega yfir landamærin til Afganistans og mega því vænta þess að verða dregnir fyrir dómstóla ef þeir snúa aftur,“ segir Aziz Khan, talsmaður pakist- anska utanríkisráðuneytisins. Sagði hann mjög lítið sem stjórnvöld geta í raun gert. „En auðvitað er þetta ekki eðlilegt. Ann- aðhvort er mönnum haldið sem föngum og þá leiddir fyrir rétt, eða þá að þeim er sleppt lausum.“ Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði þró- unina hins vegar ekki eiga að koma mönnum á óvart. Sú hefð hafi löngum tíðkast í Afgan- istan að menn þurfi að greiða lausnargjald fyrir að fá að fara frjálsir ferða sinna. Krefja ættingjana um lausnargjald The Washington Post/Doug Struck Ghulan Akbar Khan var haldið föngnum í Afganistan uns faðir hans greiddi uppsett lausnargjald. Afganskir stríðsherrar halda pakistönskum stuðningsmönnum talibana föngnum Ooch í Pakistan. The Washington Post. ’ Ég hef ekkert við peninga að gera, ég þarfnast sonar míns ‘ HENRIK prins, eiginmaður Mar- grétar Danadrottningar, svaraði því hlæjandi til í fyrradag, að það væri ekkert kreppuástand ríkjandi innan konungsfjölskyldunnar. Það væri bara tilbúningur fjölmiðlanna. Voru þau hjónin saman við endurvígslu Danska hússins í París og að sögn dönsku blaðanna var Henrik þá númer tvö allan daginn. Mesti sægur af blaðamönnum og ljósmyndurum, aðallega dönskum, var mættur við Danska húsið á Champs Elysées þegar Margrét og Henrik mættu á staðinn. Brostu þau breitt í allar áttir en virtust samt dá- lítið þreytuleg. Áður en opnunarathöfnin hófst bað sendiherra Danmerkur í París fréttamennina að geyma spurning- arnar og virða einkalíf þeirra hjóna og danskir og franskir lífverðir voru síðan lagnir við að halda þeim í hæfi- legri fjarlægð. Blaðamanni Jyllands- Posten lánaðist þó að spyrja Henrik einnar spurningar, hvernig ástandið væri innan fjölskyldunnar. Svarið var stutt og laggott: „Það er allt í lukkunnar velstandi hjá okkur. Þetta er bara tilbúningur í ykkur,“ sagði hann hlæjandi og hafði síðan hratt á hæli. Viðtalið við Margréti var enn styttra: „Yðar há- tign, vilduð þér segja...,“ og svarið var ákveðið „nei“. Að opnunarathöfninni lokinni hvarf Henrik aftur heim á búgarðinn í Frakklandi en drottningin fór heim til Danmerkur. Erfðarétturinn ræður alls staðar Danskir fjölmiðlar hafa verið að kynna sér virðingarstigann í öðrum konungsfjölskyldum í Evrópu og þá kemur í ljós að maki drottningar eða konungs er í besta falli númer þrjú og oft miklu neðar í stiganum. Í Bretlandi leysir Karl prins Elísa- betu, móður sína, af hólmi þegar svo ber undir og síðan Andrés og Ját- varður. Þá fyrst er komið Filippusi drottningarmanni og hertoga af Ed- inborg. Það eru sem sagt erfðirnar sem ráða. Í Hollandi kemur Willem-Alex- ander fram fyrir hönd móður sinnar, Beatrix drottningar, en ekki eigin- maður hennar, Claus prins. Danski sagnfræðingurinn Claus Bjørn segir að þetta sýni að Henrik prins hafi enga ástæðu haft til að láta sér mis- líka. Hans hlutverk hafi heldur ekki verið neitt annað en að tryggja við- gang ættarinnar. Margrét Danadrottning og Henrik prins í París „Bara tilbún- ingur í ykkur“ AP Margrét drottning og Henrik prins við vígslu Danska hússins í París. ÍSRAELAR eyðilögðu þrjú hús í Austur-Jerúsalem í gær og hafa þá lagt í rúst alls sjö hús Palest- ínumanna í borginni í þessari viku. Sögðu þeir, að húsin hefðu verið reist í óleyfi en Palest- ínumenn benda á, að Ísraelar neiti þeim ávallt um leyfi fyrir nýjum húsum. Ehud Olmert, borgarstjóri í Jerúsalem, sagði í gær, að haldið yrði áfram að brjóta niður hús Palestínumanna í hverri viku. Yasser Arafat, leiðtogi Palest- ínumanna, sem hér gefur sigur- merki með fingrunum, átti í gær fund með stuðningsmönnum sín- um í Ramallah en Ísraelar leggja nú að Bandaríkjamönnum að finna sér annan viðmælanda en Arafat. Búist er við, að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, muni herða á því á fundi sínum með George W. Bush Bandaríkja- forseta en Sharon hélt vestur um haf í gær. Reuters Sigurreifur Arafat SVISSNESKA dagblaðið Le Temps, sem gefið er út á frönsku, hefur ákveðið að sekta þá blaða- menn sína sem gera stafsetning- ar- eða málfræðivillur í þessum mánuði, að því er blaðið greindi frá. Mun sektin nema fimm sviss- neskum frönkum – um 300 krón- um – fyrir hverja villu. Hver sá blaðamaður sem staf- setur orð rangt, brýtur málfræði- reglur, skrifar illa byggða setn- ingu eða fer rangt með staðarheiti verður sektaður samkvæmt ákvörðun aðalritstjórans. „Við viljum vekja athygli starfsfólks okkar á þessum villum, sem draga úr gæðum blaðsins,“ útskýrði að- stoðaraðalritstjórinn, Ignace Jeannerat. „Ætlunin er ekki að refsa þeim sem gera villur, heldur gera þeim ljóst, að í góðu dagblaði verða að vera vel skrifaðar grein- ar,“ sagði Jeannerat. Ekki eru allir blaðamennirnir á Le Temps sáttir við þessar ráð- stafanir og telja þær óþarflega valdsmannslegar. Sektað fyrir málvillur Genf. AFP.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.