Morgunblaðið - 08.06.2002, Page 25

Morgunblaðið - 08.06.2002, Page 25
fyrir utan Nablus. Þar var okkur skipað að sitja á litlum malarbletti þrátt fyrir að þægileg grasflöt væri við hliðina. Þarna vorum við þar til um klukkan eitt eftir miðnætti. Þá var farið með okkur á lögreglustöð í Ariel-landnemabyggðinni þar sem við gistum í einhvers konar sjón- varpsherbergi.“ Þar var hópurinn í um það bil sól- arhring. Í dagbók Hrafnkels segir: „Við gistum í sjónvarpsherbergi í Ariel lögreglustöðinni undir vökulu augu vaktmanns. Í fyrstu gátum við farið á klósettið að vild en síðan þurftum við að spyrja um leyfi og að lokum var okkar meinað að hósta án leyfis.“ Eftir yfirheyrslur á sunnudegin- um segir Hrafnkell að hópnum hafi verið tilkynnt að hann væri handtek- inn „og stuttu síðar kemur lögreglu- maður inn með hand- og fótajárn og hlekkjar okkur öll“, segir hann og bætir við að fólkið hafi verið þannig járnað nánast allan tímann. Hópurinn var þá færður í lítinn sendibíl þar sem voru tvö hólf. Karl- mennirnir fimm voru settir í annað en konurnar þrjár í hitt. „Við börð- umst við að halda farsímasambandi við umheiminn meðan rafhlöðurnar dugðu. Símarnir duttu út einn af öðrum. Við náðum sambandi við CNN, BBC, japanska sjónvarpið, [ástralska] ABC og fleiri fréttastof- ur. Atburðurinn náði heimsathygli og vakti einhverja athygli á Íslandi,“ segir í dagbókinni margumtöluðu. Hrafnkell segir einmitt: „Ég lít alveg hiklaust svo á að við höfum orðið hernaðarstefnu Ísraels til skammar á alþjóðavettvangi með því að afhjúpa hana við fjölmiðla og brottvísun okkar frá Ísrael hafi verið lagalegur sirkus sem átti frekar litla stoð í lögum. Að brottvísun okkar hafi í raun komið til vegna þess að nærvera okkar var óþægileg; vegna þess að enginn mætti sjá það sem verið var að gera. Að það séu hlutir sem þoli ekki nánari skoðun.“ Hópnum var ekið til Tel Aviv þar sem konurnar voru settar í sérstakt fangelsi en karlarnir voru „bakaðir eins og brauð“ í lögreglubílnum í átta klukkustundir, eins og Hrafn- kell orðar það, áður en þeir voru settir í steininn í Ariel. Þar var sofið eina nótt en hópurinn svo fluttur í einhvers konar gæslubúðir í Ramle. „Þar var allra handa fólk sem Ísr- aelsmenn vildu af einhverjum ástæð- um hafa á einum stað undir eftirliti. Við fengum að fara út í 20 mínútur á dag, út í lítið gaddavírsport, nema á þriðjudaginn, sem fangarnir göntuð- ust með að væru frídagar þeirra; þá var ekkert farið út.“ Hræðsla kemur ekki upp í hugann Hrafnkell segist hafa upplifað margt miður skemmtilegt í ferðinni. Hann nefndir dæmi: „Þegar við vorum á leið frá Balata, eftir að hafa verið tekin með valdi, yfir í herstöðina sáum við aftur úr bílnum þar sem verið var að grand- skoða sjúkrabíl. Þá sáum við m.a. að eitt dekkið var tekið af honum! Þetta var gert með sjúklinga innanborðs, sem þurftu á aðstoð að halda. Mér skildist á sjálfboðaliðum sem höfðu farið strax í upphafi ferðar á sjú- rakahúsið að þessar skoðanir gætu tekið allt upp í þrjár klukkustundir.“ Spurður um það hvort hann hafi ekki orðið hræddur, t.d. þegar hóp- urinn var handtekinn af vélbyssu- mönnum eða þegar sprengja sprakk í næsta nágrenni, segir Hrafnkell: „Nei, hræðsla er alls ekki það sem kemur upp í hugann. Svona nokkuð er hluti af því sem búast má við að gerist.“ En hvað fær pilt eins og Hrafnkel til að fara á þessar slóðir í þeim til- gangi að hjálpa Palestínumönnum? „Ég sótti stóra fundinn sem hald- inn var í Háskólabíói eftir að Viðar Þorsteinsson og Sveinn Rúnar Hauksson komu heim frá Palestínu og hlustaði með athygli á það sem þeir höfðu að segja. Það, og mynd- band sem þeir sýndu úr ferðinni, hreif mig og ég tók það til mín per- sónulega þegar Sveinn bað um að menn gæfu sig fram í frekari ferðir. Ég ákvað að verða við því kalli Sveins og hvet aðra til að gera slíkt hið sama. Það gerir hinni þjáðu Pal- estínu ótvírætt gagn að hafa okkur þarna úti. Hermenn brosa fyrir framan myndavélar en um leið og þær eru farnar, haga þeir sér á óút- reiknanlegan hátt gagnvart varnar- lausum borgurum.“ Hrafnkell segist í raun ekki vita hvort hann sé í ferðabanni til Ísraels eftir það sem á undan er gengið. „Það hefur verið nefnt að svo kunni að vera en ég veit ekkert frekar um það en aðra lagahluti; t.d. hvað ég var handtekinn fyrir eða ákærður fyrir. Ég hef sterklega á tilfinning- unni að lagalegar leikreglur hafi ekki verið virtar og þess vegna get ég ekki dregið neinar ályktanir um hver staða mín er núna.“ Svo bætir hann við: „Ég er fátækur námsmað- ur og geri mér það ekki að leik að fara yfir þveran heiminn. En ef ég fengi tækifæri til að fara aftur til Palestínu á morgun til að gera það sama og var að fást við í síðustu viku, myndi ég hiklaust gera það.“ Hvorki hetjuskapur né þrekraun Hvað segir Hrafnkell svona eftir á; er það ekki fífldirfska að standa andspænis hermönnum með vél- byssur og reyna að hafa áhrif á þá? „Margir vilja líta á þessar ferðir út sem einhvers konar hetjuskap og þrekraun en ferðin sem slík var ekk- ert erfið; hún var þvert á móti alls ekki erfið. Það eina sem var erfitt í rauninni var að þurfa að snúa baki við Palestínu og fara aftur heim til Vesturlanda. Málið snýst ekki um það að ég hafi lent í þessu volki heldur þá stað- reynd að ísraelsk yfirvöld vísi er- lendum hjálparliðum úr landi. Málið verður að skoða í því víða sam- hengi.“ - - - - - Hrafnkell tók sjálfur ljósmyndirn- ar sem fylgja þessari grein. Hann hafði ekki mikinn farangur meðferð- is í ferðinni; einn bakpoka og litla handtösku og bakpokann sá hann ekki frá því hann var handtekinn þar til skömmu áður en hann fór upp í flugvélina í Tel Aviv á fimmtudag- inn. Þegar til landsins kom í gær hugð- ist hann ná í tvær filmur sem voru í bakpokanum en þær voru þá horfn- ar, en þar var m.a. að finna ljós- myndir úr Fæðingarkirkjunni í Betlehem. „Svo virðist sem [leyni- þjónustan] Mossad hafi líka haft mikinn áhuga á íþróttaskónum sem ég var með í bakpokanum. Vinstri skórinn er að minnsta kosti horfinn. Þettta voru fínir íþróttaskór; ég hefði ekkert haft á móti því að eiga parið svolítið lengur!“ Ljósmyndir/Hrafnkell Brynjarsson Tveir félaga Hrafnkels handjárnaðir í litla bílnum þar sem þeir voru „bakaðir eins og brauð“ í átta klukku- stunda ökuferð, eins og Hrafnkell orðaði það. Maðurinn vinstra megin á myndinni er Dani en hinn er Japani. Lögreglumaður gengur í hús í Balata á laugardegi fyrir viku; einn þeirra sem Hrafnkell og félagar eltu og áttu við bæði persónuleg samtöl og pólitísk eins og Hrafnkell komst að orði í blaðinu í gær. „Þeir munu ekki brjóta okkur,“ segir barnið á fingramáli innfæddra í Palestínu. Myndin er frá Nablus. Algengt er að sjá kúlnagöt eftir vélbyssur á vélarhlífum og framrúðum bifreiða eins og þeirrar til vinstri á myndinni. Á heimili afa og ömmu í gær. Anna Jónsdóttir, Hrafnkell, Sveinbjörn Markússon kennari og móðir Hrafnkels, Sigrún Sveinbjörnsdóttir. Ísraelskur hermaður skipar palestínskum unglingum í Nablus að lyfta buxum sínum og yfirhöfnum, til að sann- færa hann um að þeir beri ekki sprengjur innanklæða. Einn unglinganna var fatlaður og átti erfitt um gang. ERLENT MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 8. JÚNÍ 2002 25

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.