Morgunblaðið - 17.08.2002, Side 24
VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF
24 LAUGARDAGUR 17. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ
HAGNAÐUR Vinnslustöðvarinnar
hf. var 943 milljónir króna á fyrstu
sex mánuðum ársins, en í fyrra var
58 milljóna króna tap á sama tíma-
bili. Beitt er verðbólgureiknings-
skilum, en án verðleiðréttingar
væri hagnaður fyrri hluta þessa
árs 40 milljónum króna lægri.
Rekstrartekjur hækkuðu um
tæpar 300 milljónir króna frá fyrra
ári og voru nú 2,4 milljarðar króna.
Hagnaður fyrir afskriftir var 930
milljónir króna á fyrri helmingi
þessa árs og framlegðarhlutfall var
38,2% sem er svipað og í fyrra þeg-
ar hlutfallið var 38,4%. Á fyrsta
fjórðungi ársins var hlutfallið
41,5% og 34,4% á öðrum fjórðungi,
en félagið gerir ráð fyrir að fram-
legðarhlutfall ársins í heild verði
32%. Í tilkynningu frá stjórn
Vinnslustöðvarinnar segir að meg-
inhluta tekna félagsins sé aflað á
fyrri hluta ársinsi og að afkoma
uppsjávarhluta félagsins hafi verið
með besta móti í ár. Afkoma land-
vinnslu hafi hins vegar versnað
mjög á árinu. Afurðaverð bolfisks,
einkum saltfisks, hafi lækkað tals-
vert frá fyrra ári á sama tíma og
fiskverð til sjómanna hafi hækkað
mjög mikið.
Rekstrargjöld félagsins að af-
skriftum meðtöldum hækkuðu um
206 milljónir króna í 1.729 milljónir
króna, eða um 14%. Þar af hækkaði
stjórnunarkostnaður um 21 milljón
króna í 54 milljónir króna, eða um
62%. Þá er í rekstrarreikningnum
bókfært tap upp á 76 milljónir
króna vegna sölu á línubátnum
Gandí VE-171.
Fjármagnsliðir voru jákvæðir
um 326 milljónir króna á fyrri
hluta þessa árs, en í fyrra voru
þeir neikvæðir um 692 milljónir
króna á sama tímabili. Skýringin á
þessum jákvæða viðsnúningi er að-
allega hagstæðari gengisþróun
krónunnar fyrir skuldir félagsins í
ár en í fyrra og lægri vaxtakostn-
aður.
Hagnaður Vinnslustöðvarinnar
fyrir skatta var 950 milljónir króna
á fyrstu sex mánuðum ársins, en í
fyrra var 58 milljóna króna tap.
Veltufé frá rekstri hækkaði um
48% í 878 milljónir króna og veltu-
fjárhlutfall hækkaði úr 0,76 í lok
júní í fyrra í 1,37 á sama tíma í ár.
Heildareignir félagsins námu
tæpum sex milljörðum króna í lok
júní og höfðu þá hækkað um tæpar
300 milljónir króna frá áramótum.
Eigið fé hækkaði um tæpan einn
milljarð króna, í 2,3 milljarða
króna, og eiginfjárhlutfall fór úr
23,3% um áramót í 38,5% í lok júní.
Skuldir lækkuðu um 676 milljónir
króna á þessu tímabili og í tilkynn-
ingu félagsins segir að skýringarn-
ar séu annars vegar góður rekstur
og hins vegar styrking krónunnar.
Áætlun um afkomu hækkuð
tvisvar sinnum á árinu
Stjórn Vinnslustöðvarinnar hefur
ákveðið að nýta sér kauprétt að öll-
um hlutabréfum í Jóni Erlingssyni
ehf. og sameina félagið Vinnslu-
stöðinni frá og með 1. júlí síðast-
liðnum. Kaupverðið er 74 milljónir
króna. Samrunaáætlun Vinnslu-
stöðvarinnar, Jóns Erlingssonar og
Úndínu, sem Vinnslustöðin keypti
nýlega, verður kynnt innan tíðar,
að því er fram kemur í tilkynningu.
Samanlögð framlegð félaganna
þriggja á fyrstu sex mánuðum árs-
ins nam 1.054 milljónum króna og
hagnaður var 1.110 milljónir króna.
Í tilkynningu stjórnarinnar kem-
ur fram að upphafleg rekstraráætl-
un félagsins frá því í febrúar hafi
verið endurskoðuð tvisvar sinnum
til hækkunar. Nú sé gert ráð fyrir
1.100 milljóna króna framlegð án
þess að litið sé til áhrifa af samein-
ingu við Jón Erlingsson og Úndínu.
Í febrúar var gert ráð fyrir 26,5%
framlegðarhlutfalli en nú er sem
fyrr segir gert ráð fyrir 32%.
Hagnaður ársins er áætlaður 850
milljónir króna miðað við að geng-
isvísitalan verði hin sama í lok des-
ember og hún var í lok júní.
Reiknað með tapi á
seinni helmingi ársins
Eins og sjá má af tölum um
hagnað um mitt ár og áætlaðan
hagnað ársins er gert ráð fyrir
rúmlega eitt hundrað milljóna
króna tapi af rekstri félagsins á
seinni hluta ársins. Aðspurður hver
skýringin sé á þessu segir Sig-
urgeir B. Kristgeirsson, fram-
kvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar,
að fyrirtækið sé mjög vertíðardrif-
ið og sveiflur í afkomunni séu mikl-
ar innan ársins. Loðna sé aðallega
veidd á vetrarvertíð en einnig á
sumarmánuðum, en gert sé ráð
fyrir lítilli loðnuveiði í haust. Þá sé
þorskurinn veiddur á tímabilinu
febrúar til maí og fyrirtækið sé
ekki með frystitogara eða annað
sem jafni reksturinn, líkt og mörg
önnur fyrirtæki hafi. Aðspurður
hvort þetta sé vandamál og hvort
fyrirtækið hyggist reyna að breyta
þessu segir hann svo ekki vera.
Lykillinn að batanum hafi frekar
verið að auka sveiflurnar og taka
fiskinn þegar best sé við hann að
eiga og hann sé verðmætastur, í
stað þess að reyna að dreifa veið-
inni.
Um afkomuna segir Sigurgeir að
standist áætlanir ársins verði þetta
annað af bestu árum fyrirtækisins
þegar litið sé til framlegðar og
langbesta árið hvað hagnað snerti.
Þó beri að gæta að því að sveiflur
gengis krónunnar hafi mikil áhrif.
Hann segir að styrking gengis
krónunnar sé reyndar þegar orðin
of mikil fyrir sjávarútvegsfyrir-
tæki, eins og sjá megi ef bornir séu
saman fyrsti og annar fjórðungur
ársins hjá fyrirtækjum í greininni.
Hagnaður Vinnslustöðv-
arinnar 943 milljónir
Framlegðarhlut-
fall fyrstu 6 mán-
aða ársins var
38,2%, en gert er
ráð fyrir 32%
framlegðarhlut-
falli yfir árið
Morgunblaðið/Sigurgeir
Fjárfestingarfélagið Straumur hf.
seldi í gær hlutabréf að nafnverði
212,4 milljónir króna í Keri hf., sem
áður var Olíufélagið, á verðinu 12,9.
Söluverðið var því liðlega 2,7 millj-
arðar króna. Straumur var fyrir söl-
una stærsti einstaki hluthafinn í
Keri með 21,46% hlut en á nú ekkert
í félaginu.
Íslandsbanki hf. keypti hlutabréf-
in af Straumi en seldi þau Eignar-
haldsfélaginu Hesteyri ehf., sem er í
eigu Fiskiðjunnar Skagfirðings hf.
og Skinneyjar-Þinganess hf., ásamt
1,07% hlut bankans í Keri. Eignar-
hlutur Hesteyrar í Keri eftir þessi
viðskipti er því 22,53%, eða 223,0
milljónir króna að nafnverði, og er
Hesteyri nú stærsti einstaki hlut-
hafinn í félaginu.
Frá þessum viðskiptum var
greint í flöggunum í Kauphöll Ís-
lands í gær.
Þórður Már Jóhannsson, fram-
kvæmdastjóri Straums, sem jafn-
framt er stjórnarmaður í Keri, sagði
í samtali við Morgunblaðið í gær að
Straumi hefði borist tilboð í hluta-
bréf félagsins í Keri, á hagstæðu
verði, og því hefði verið ákveðið að
ganga til þessara viðskipta. Að-
spurður sagði hann að engar
ákvarðanir lægju fyrir um í hvaða
fjárfestingar yrði ráðist í framhaldi
af sölunni.
Jón E. Friðriksson, fram-
kvæmdastjóri Fiskiðjunnar Skag-
firðings, sagði að aðstandendur fé-
lagsins telji að þeir séu að fjárfesta í
rótgrónu og áhugaverðu fyrirtæki,
sem þeir hafi verið lengi í viðskipt-
um við. Ker tengist inn í áhugaverða
starfsemi sem sé spennandi að taka
þátt í.
Kristján Loftsson, stjórnarfor-
maður Kers, sagði það hið besta mál
að Eignarhaldsfélagið Hesteyri
hefði eignast hlut í Keri. Hann
þekkti þá sem að Hesteyri stæðu
ekki nema af góðu einu.
Morgunblaðið hefur heimildir fyr-
ir því að hagnaður Straums af við-
skiptunum með hlutabréfin í Keri sé
á bilinu 350–400 milljónir króna.
Eigendaskipti á
22% hlut í Keri
!"
#$
%&
'
(
)
" *+,)-
%..)+
/*/)/
5 6)$ 1
(
SJÓVÁ-Almennar tryggingar hf.
keyptu í gær hlutabréf að nafnverði
150.769.214 krónur í Fjárfestingar-
félaginu Straumi hf., sem svarar til
5,376% hlutar. Sjóvá-Almennar
tryggingar áttu ekki hlutabréf í
Straumi fyrir þessi viðskipti.
Einar Sveinsson, framkvæmda-
stjóri Sjóvár-Almennra trygginga,
sagði í samtali við Morgunblaðið í gær
að kaupin á hlutabréfum Straums séu
liður í fjárfestingarstefnu félagsins.
„Við höfum verið að velta því fyrir
okkur í þó nokkurn tíma að koma
þarna inn. Félagið hefur verið að gera
ágæta hluti og við sjáum mikla fram-
tíð í því,“ sagði Einar.
Þórður Már Jóhannsson, fram-
kvæmdastjóri Straums hf., sagðist
ekkert hafa um kaup Sjóvár-Al-
mennra trygginga að segja annað en
það að hann fagni því að fagfjárfestar
sýni hlutabréfum félagsins áhuga.
Sjóvá-Al-
mennar kaupa
í Straumi
SLÁTURFÉLAG Suðurlands tapaði
5 milljónum króna á fyrri helmingi
ársins, en á sama tímabili í fyrra var
tap félagsins 79 milljónir króna. Í
fréttatilkynningu frá félaginu segir að
bætt afkoma stafi fyrst og fremst af
lækkun fjármagnsgjalda vegna
hækkunar á gengi krónunnar. Geng-
ishagnaður nam 44 milljónum króna í
ár en í fyrra var 64 milljóna geng-
istap, sem eru 108 milljóna jákvæð
umskipti gengismunar.
Hagnaður fyrir afskriftir var 65
milljónir króna í ár en 59 milljónir
króna í fyrra og framlegðarhlutfall
lækkaði úr 4,0% í 3,7%. Afskriftir
námu 76 milljónum króna. Veltufé frá
rekstri hækkaði um tæpar fjórar
milljónir frá fyrri hluta síðasta árs og
nam nú 39 milljónum króna, eða 2,2%.
Eignir Sláturfélagsins drógust
saman um rúmar tvö hundruð millj-
ónir króna frá áramótum og námu 2,7
milljörðum króna í lok júní. Eigið fé
hækkaði lítillega og nam tæpum 1,2
milljörðum króna og skuldir minnk-
uðu um 220 milljónir króna og námu
rúmum 1,5 milljörðum króna um mitt
ár. Eiginfjárhlutfall hækkaði úr
40,5% um áramót í 43,9% um mitt ár.
Arðsemi eigin fjár var neikvæð um
13,7% á fyrri hluta árs í fyrra, en í ár
var hún neikvæð um 0,9%. Veltufjár-
hlutfall hækkaði lítillega frá áramót-
um, úr 1,30 í 1,36, en um mitt ár í fyrra
var það 1,67.
Sláturfélagið nýtir sér bráða-
birgðaákvæði laga og beitir verðleið-
réttingum. Hefði þetta ekki verið gert
hefði tap tímabilsins verið 8,6 millj-
ónum króna hærra og eigið fé 15,6
milljónum króna lægra.
Gert ráð fyrir bættri afkomu
á síðari árshelmingi
Í tilkynningu frá Sláturfélagi Suð-
urlands vegna uppgjörsins segir að
afkoma félagsins á fyrri hluta ársins
hafi verið óviðunandi og einkennst af
mikilli verðsamkeppni sem haft hafi
neikvæð áhrif á afkomu félagsins, en
styrking krónunnar hafi haft jákvæð
áhrif á fjármagnsliði. Fjárhagsstaða
Sláturfélagsins sé þó sterk, jafnframt
því sem markaðshlutdeild þess á kjöt-
markaðnum fari vaxandi. Vonast sé til
að hagræðing samfara kaupum á
kjötvinnslufyrirtækjum styrki rekst-
ur félagsins til lengri tíma litið. Þá
kemur fram að afkoma félagsins hafi
jafnan verið lökust framan af árinu,
en afkoman sé best á síðasta fjórðungi
þess. Aðhaldi verði áfram beitt og
gripið hafi verið til hagræðingarað-
gerða til að draga úr útgjöldum auk
þess sem fjárfestingar hafi verið
dregnar saman í öðru en kaupum á
kjötvinnslufyrirtækjum. Gert sé ráð
fyrir að þær aðgerðir og aðstæður á
markaði muni leiða til bættrar af-
komu Sláturfélagsins á síðari helm-
ingi ársins.
SS tapar 5 millj-
ónum króna
Jákvæður viðsnúningur gengismunar
nemur 108 milljónum króna
STJÓRNIR Fasteignafélagsins
Stoða hf. og Þyrpingar hf. hafa und-
irritað áætlun um sameiningu félag-
anna. Félögin verða sameinuð undir
nafninu Fasteignafélagið Stoðir hf.
en Þyrpingu hf. verður slitið. Sam-
runinn mun miðast við 1. janúar í ár.
Stærstu eigendur sameinaðs fé-
lags Stoða verða Kaupþing með
38,3%, Ingibjörg Pálmadóttir með
19,3%, Baugur með 15,2%, Lilja
Pálmadóttir með 11,8%, Íslenska
fasteignafélagið með 7,9%, Spari-
sjóður Reykjavíkur og nágrennis
með 3,2% en 4,3% verða í dreifðri
eign.
Helstu eignir félagsins verða
Kringlan, Hótel Loftleiðir, Hótel
Esja, Holtagarðar, Spöngin, Höfða-
borg, Borgartúni 21, meirihluti versl-
unarhúsnæðis 10–11-verslananna,
vörugeymslur og höfuðstöðvar
Baugs og húsnæði Kaupþings og
Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrenn-
is. Samanlagt verður húsnæði Stoða
um 170.000 fermetrar eftir samein-
ingu og heildareignir verða um 22
milljarðar króna.
Sameinað félag nægilega stórt
fyrir skráningu á markað
Jónas Þorvaldsson, framkvæmda-
stjóri fasteignafélaganna Stoða og
Þyrpingar, segir aðspurður að engin
ákvörðun hafi verið tekin um skrán-
ingu hins nýja félags á markað, en
hins vegar sé stærð þess nægjanleg
fyrir skráningu. Ákvörðun um skrán-
ingu muni hins vegar fara eftir mark-
aðsaðstæðum og áhuga eigenda.
Heildareignir verða
22 milljarðar króna
Stoðir og Þyrping sameinast