Morgunblaðið - 17.08.2002, Síða 42

Morgunblaðið - 17.08.2002, Síða 42
UMRÆÐAN 42 LAUGARDAGUR 17. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ BÆJARSTJÓRINN í Reykjanesbæ segir í viðtali við netmiðilinn mbl.is í dag að hann telji að bann sveitarstjórna við svokölluðum „einka- dansi“ geti talist brot á stjórnarskránni. Ekki er þar greint frá því hvaða grein stjórn- arskrárinnar sé í hættu grípi byggðastjórnir til þeirra ráðstafana að banna þetta athæfi, en helst verður að ætla að þar sé átt við 73. grein, um tjáningarfrelsi. Síð- ur að þar verði átt við 75. grein, sem fjallar um atvinnufrelsi, því slíku frelsi má setja skorður, krefjist almannahagsmunir þess. Ef um er að ræða fyrrnefndu grein- ina og þar skírskotað til listrænnar tjáningar, sem virðist hafa verið not- uð sem tylliástæða til að afla erlend- um „listdansmeyjum“ atvinnurétt- inda á Íslandi, þá verður ekki annað séð en Vinnumálastofnun sé heimilt að leita umsagnar opinberrar stofn- unar, svo sem Listdansskóla Þjóðleik- hússins, á því hvort umsækjandi hafi til að bera tilskilda menntun og hæfni eða hvort umrædd sýning flokkist undir hugtakið listdans. Ef um síðari greinina er að ræða má ljóst vera að þar yrði ekki brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi, þar sem í 206. gr. refsilaga (19/1940) segir í 2. mgr.: „Hver sem hefur atvinnu eða viður- væri sitt af lauslæti annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.“ Þar við bæt- ast svo ákvæði refsilaga um misneytingu (253. gr.), sem hæglega geta átt við í þessum tilvik- um. Eigendur nætur- klúbba hafa komið fram í íslenskum fjölmiðlum og borið af sér þær sak- ir að klúbbar þeirra séu skjól fyrir vændi. Þarna stendur fullyrðing þeirra gegn fullyrðing- um ýmissa annarra, sem hafa átt hlut að máli, og það verður að teljast mjög ólíklegt að svonefndur einkadans fari fram í öðrum til- gangi á Íslandi en í nágrannalöndum. Ekkert öðruvísi hér en annars staðar Það er vitað mál og hefur verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að einka- dansbúllur í öðrum löndum eru aðeins eitt form vændis. Engin ástæða er til þess að ætla að önnur lögmál gildi á Íslandi. Enn verra er, að yfirgnæfandi fjöldi þeirra stúlkna, sem leggja þetta fyrir sig, koma úr félagslegri neyð, einkum úr löndum Austur-Evrópu; eru beittar misþyrmingum og gerðar háðar eiturlyfjum. Vegabréf þeirra eru tekin og þeim í raun haldið föngn- um. Enn verra er svo, að þeir skugga- baldrar sem þessari iðju stjórna eru iðulega nátengdir skipulögðum glæpaflokkum. Í Danmörku og í Kanada hafa glæpagengi vélhjólamanna, „Hell’s Angels“ og „Bandidos“, sem til þessa hafa einkum fengist við eiturlyfjasölu og ofbeldisinnheimtu, á síðustu árum aukið þátt sinn í þessum miður félega atvinnurekstri. Vítisenglar hafa reynt að ná fót- festu í undirheimum Reykjavíkur. Árvökul lögregluyfirvöld hafa brugð- ist skjótt við og vísað þeim úr landi. Fyrir það njóta íslensk löggæslu- yfirvöld virðingar danskra starfs- félaga sinna, sem hafa haft það á orði við undirritaðan. Vítisenglar eru hins vegar lítt þakklátir íslenskum stjórnvöldum og hafa beitt starfsfólk sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn þráfaldlega hótun- um um líkamlegt ofbeldi, bæði af þessum ástæðum sem og þeim þegar íslenskir skuldunautar eiturlyfjasala hafa leitað hælis í sendiráðinu vegna ofbeldishótana. Danir grípa til aðgerða Ef stjórnendur íslenskra byggðar- laga hafa áhyggjur af því að stjórn- arskráin verndi frelsi manna til at- hafna með þeim hætti að fyrir það líðist ofbeldi, misneyting, vændi og frelsissvipting, þá er þeim hollt að skoða þau áform, sem dönsk sveitar- félög hafa nú um þessar mundir í samráði við danska dómsmálaráðu- neytið um að grípa til aðgerða til þess að þrengja með öllum löglegum ráð- um að starfsemi vélhjólaglæpa- manna. Á næstunni má búast við að kunngjörður verði listi yfir allar þær athafnir sem lög leyfa dönskum sveit- arstjórnum að grípa til í þeim tilgangi að hefta starfsemi af ofangreindum toga. Og þetta er meira að segja í landi, þar sem vændi er leyft með lögum, en öðrum þó bannað að hafa eymd vænd- isfólks að féþúfu. Er eymd annarra lögleg féþúfa? Bjarni Sigtryggsson Einkadans Vítisenglar hafa beitt starfsfólk sendiráðs Ís- lands í Kaupmannahöfn hótunum um líkamlegt ofbeldi, segir Bjarni Sigtryggsson, m.a. fyrir að hafa verið vísað frá Íslandi og fyrir að skjóta skjólshúsi yfir skuldu- nauta eiturlyfjasala. Höfundur er sendiráðunautur við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn. ÁKVÖRÐUN minni um að auka ekki út- flutningsskyldu á dilkakjöti úr 10% í 14% seinni hluta ágústmánaðar hefur fylgt töluverð um- ræða og er það gott. Sumir hafa þó skilið ákvörðun mína sem bann við útflutningi sem er auðvitað mikill misskilningur og því nauðsynlegt að leið- rétta. Ég er hlynntur útflutningi og hef stutt þá viðleitni með ýmsu móti eins og þeir geta vitnað um sem hann stunda. Í samningi við sauðfjárbændur, sem gerður var árið 1995, var í fyrsta sinn gert ráð fyrir sameig- inlegri ábyrgð sauðfjárbænda á út- flutningi á kindakjöti. Þessi sam- eiginlega ábyrgð var endurnýjuð í samningi ríkis og bænda árið 2000 enda þótti reynsla af þessu fyr- irkomulagi góð. Þessi ábyrgð er skýrð í 29. gr. búvörulöga nr. 99/ 1993 með síðari breytingum og er áhugasömum bent á að kynna sér þau lög. Þar sem verð fyrir dilkakjöt á erlendum mörkuðum er enn að meðaltali lægra en fæst á innan- landsmarkaði er útflutningsskylda íþyngjandi fyrir framleiðendur. Þess vegna vildi ég ekki auka út- flutningsskyldu á framleiðendur sem sýna þá framsýni og þann dugnað að skila afurðum á fersk- vörumarkað fyrir venjubundna sláturtíð og reyna með því móti að hvetja sem flesta til að taka þátt í því átaki. Áhrif þess að selja ferska vöru eru hverjum manni ljós og kraftur kjúklinga- og svína- bænda í markaðsstarfi er ekki minnst tengdur því að þeir eru ávallt að bjóða sína vöru ferska. Af þessu verða sauðfjárbændur að læra ef þeir vilja halda stöðu sinni á markaði og ég neita að bæta álögum á þá sauðfjárbændur sem fylla þann flokk. Tillögur Bændasamtaka Íslands um útflutningshlutfall byggjast ekki á þörf fyrir kjöt til útflutn- ings heldur birgða- stöðu og söluspá inn- anlands. Sláturleyfis- hafar hafa ákveðið frelsi í útflutnings- málum og nýta það í sínum áætlunum. Sumir kjósa að flytja út ferskvöru en aðrir frystivöru, allt eftir mörkuðum. Ákvörðun mín um að hækka ekki útflutningshlut- fallið seinni hluta ágústmánuðar hefur því ekkert með það að gera hversu mikið verður flutt út af því kjöti sem fellur til á þessu tímabili. Það má hennar vegna flytja allt kjötið út eða ekkert. Auðvitað spila slát- urleyfishafar eins vel úr þeim af- urðum sem þeir hafa til sölu og þeim er unnt. Þeir nýta jafnhliða innlenda markaði og erlenda eftir því sem best þykir hverju sinni. En meðan innlendir markaðir gefa besta verðið leyfi ég mér að hvetja alla hagsmunaaðila til að vinna sem best á þeim markaði. Í því ljósi tók ég þessa ákvörðun. Sláturtíð er uppskeruhátíð sauð- fjárbænda. Göngur, réttir, gleði og söngur einkenna sveitir landsins. Þessari hátíð verða bændur að deila með neytendum og það er best gert með öflugu markaðs- starfi og vandaðri framsetningu og kynningu á góðum, hollum og ódýrum mat úr heilnæmri náttúru okkar fagra lands. Lambakjöt, út- flutningur og markaðssetning Guðni Ágústsson Sauðfjárrækt Útflutningsskylda, segir Guðni Ágústsson, er íþyngjandi fyrir framleiðendur. Höfundur er landbúnaðarráðherra. ÆVI okkar mann- anna er eins og ein sam- felld flugeldasýning. Flugeldarnir eru af öll- um stærðum og gerðum og sýningin tekur því mið af því. Sumir flug- eldarnir eru gallaðir. Sum skotin misheppn- ast, fara ekki þangað sem til var ætlast. Sum skotin ná aldrei tilætl- uðu flugi, þrátt fyrir einbeitingu og góðan vilja. Önnur takast vel og lýsa upp himinhvolf- ið um stund en eru eftir aðeins augnablik minn- ing ein sem hægt er að ylja sér við. Molar Ævi okkar er full af litlum molum. Að vísu mislitlum og misáhrifaríkum. Sumir molarnir geta verið sætir, aðrir beiskir eða súrir. Þeir eru allavega og missterkir. Þessir molar veita okkur nýja sýn, eru skóli, fara í sjóð reynsl- unnar, reynslu sem við berum til ævi- loka og mun setja mark sitt á okkur. Einhverjir þessara mola geta jafnvel verið harðir undir tönn, hugsanlega meiðandi og ógeðslegir. Stundum fylgja þessum molum ný tækifæri og stundum geta þeir leitt til nýrra kynna. Við kunnum jafnvel að upplifa mikla gleði vegna þeirra, að minnsta kosti um stund- arsakir. Sumir molarnir verða að gullmolum sem við hefðum ekki viljað missa af. Ólýsanlega dýrmætar perlur í sjóði minninganna. Ævin er full af svona molum. Hún er saman- sett af litlum brotum sem púslað er saman á óskiljanlegan og jafnvel stundum öfugsnúinn hátt. Útkoman er al- gjörlega einstök ævi einnar óendanlega dýr- mætrar manneskju. Það er staðið með þér Það er gott að vita til þess að sama hvernig flugeldasýningin tekst og sama hvernig molarnir bragðast og fara með mann að þá skulum við eiga vin sem elskar okkur og fylgir okkur eftir. Þetta er að vísu ósýnilegur vinur en sannarlega raunverulegur. Þetta er vinur sem ekki bregst. Vinur sem yfirgefur okkur ekki, jafnvel ekki þótt á móti blási, staðan sé erfið um tíma og aðrir vinir vilji bregðast. Þetta er vinur sem vill taka okkur sér í faðm og bera okkur yfir erfiðustu hjalla ævinnar, þegar við örmögnumst og getum ekki gengið sjálf. Þessi vinur er að sjálfsögðu enginn annar en lífgjafi okkar og frelsari, Guðs sonurinn, Jesús Kristur. Hann vill leiða okkur hvert ævinn- ar spor, vera með okkur alla daga, all- ar stundir. Hann hefur herðar sem gott er að gráta á og hann gleðst með okkur á góðu stundunum. Hann vill uppörva okkur og styrkja til sérhvers góðs verks. Hann vill fá að fyrirgefa okkur og reisa okkur á fætur, gera okkur frjáls. Hann stendur með sínu fólki, okkur sem hann lagði líf sitt í sölurnar fyrir svo við mættum lifa. Hann getur gefið okkur frið sem er æðri okkar mannlega skilningi og hann einn megnar að viðhalda lífinu okkar er ævinni lýkur. Öll okkar von sé bundin við hann. Lifi lífið! Eins og flugeldasýning Sigurbjörn Þorkelsson Ævin Ævin er samansett af litlum brotum, segir Sigurbjörn Þorkelsson. Þeim er púslað saman á óskiljan- legan og jafnvel stund- um öfugsnúinn hátt. Höfundur er rithöfundur.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.