Morgunblaðið - 26.05.2003, Síða 6
FRÉTTIR
6 MÁNUDAGUR 26. MAÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
KYNNINGARFUNDUR um bygg-
ingu húsaþyrpingar í Skugga-
hverfi var haldinn í gær í Lista-
safni Íslands fyrir valinn hóp
fjárfesta og annað áhugafólk. Á
fundinum voru auk annarra þeir
sem þegar höfðu skráð sig fyrir
íbúð en sala á íbúðunum hófst
formlega strax í kjölfar fundarins.
Vel á annað hundrað manns
voru á kynningarfundinum og var
áhuginn mikill, að sögn Bjargar
Þórðardóttur, markaðsstjóra 101
Skuggahverfis ehf. Að hennar
sögn bókuðu nokkuð margir sig í
viðtal hjá fasteignasölunum með
fyrirhuguð kaup í huga strax í
byrjun vikunnar.
Fyrirfram höfðu um 30 íbúðir
verið teknar frá og þrjár af fimm
þakíbúðum en hver þeirra er um
270 fermetrar að stærð og kostar
á fimmta tug milljóna króna.
Ódýrustu íbúðirnar eru 54 fer-
metrar og kosta 15 milljónir króna
með innréttingum. Í dag kl. 17.30
verður kynningarfundur haldinn
fyrir almenning í Listasafni Ís-
lands.
Morten Schmidt, arkitekt frá
dönsku arkitektastofunni Hammer
Et Lassen, og Ögmundur Skarp-
héðinsson, arkitekt frá Horn-
steinum, lýstu byggingunum fyrir
væntanlegum kaupendum í gær og
sýnd voru líkön, myndefni og
teikningar. Þar voru einnig
fulltrúar frá fasteignasölunum
Eignamiðlun og Húsakaupum og
frá Eignarhaldsfélaginu 101
Skuggahverfi.
Helstu kennileiti þyrpingarinnar
verða þrjár 16 hæða byggingar við
Skúlagötu en alls verða reistar 18
byggingar með tæplega 250 íbúð-
um af ýmsum stærðum. Í fyrsta
áfanga verða byggðar rúmlega 90
íbúðir og ráðgert að afhenda þær
kaupendum haustið 2004.
Á annað hundrað manns var á kynningarfundi um íbúðabyggð í 101 Skuggahverfi
Nokkuð margir bókuðu
viðtöl með kaup í huga
Morgunblaðið/Sverrir
Vel á annað hundrað manns sótti kynningarfundinn í Listasafni Íslands í gær þar sem íbúðirnar voru kynntar.
TENGLAR
.....................................................
Nánari upplýsingar um íbúðirnar má
finna á slóðinni: www.101skuggi.is
Tölvuteikning
Ráðgert er að afhenda fyrstu íbúðirnar væntanlegum kaupendum í haust.
FORMAÐUR kjördæmisfélags
Frjálslynda flokksins í Reykjavík-
urkjördæmi norður og suður, Björg-
vin E. Vídalín, hefur kært fram-
kvæmd nýliðinna alþingiskosninga
til dómsmálaráðuneytisins. Að sögn
Guðjóns A. Kristjánssonar, for-
manns Frjálslynda flokksins, er
kæran lögð fram með vitund og vilja
forystu flokksins. Í kærunni fer
Björgvin fram á að öll greidd at-
kvæði í kosningunum verði, að við-
stöddum umboðsmönnum flokk-
anna, endurtalin og að endurúr-
skurðað verði um þau atkvæði sem
úrskurðuð voru ógild af yfirkjör-
stjórnum við talningu. Leiði slík
endurtalning og endurúrskurður
ógildra atkvæða til breyttrar niður-
stöðu verði niðurstöður sl. alþingis-
kosninga ógiltar og þeim breytt til
samræmis við niðurstöðu endur-
talningar.
Til vara er þess krafist að ein-
ungis verði endurúrskurðað um þau
atkvæði sem úrskurðuð voru ógild
af yfirkjörstjórnum við talningu en
til þrautavara er þess krafist að
endurúrskurðað verði um þau at-
kvæði sem úrskurðuð voru ógild af
yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjör-
dæmis norður við talningu.
Kæran verður framsend frá
dómsmálaráðuneytinu til Alþingis
en það úrskurðar endanlega um
kjörgengi alþingismanna.
Litlu munaði
Í kærunni segir að ástæða þess að
farið er fram á endurtalningu sé sú
að litlu hafi munað í atkvæðum á
landsvísu til þess að verulegar
breytingar yrðu á því hverjir teljast
rétt kjörnir alþingismenn. Á lands-
vísu muni aðeins 13 atkvæðum af
samtals 185.398 greiddum atkvæð-
um til þess að oddviti Frjálslynda
flokksins í Reykjavíkurkjördæmi
norður verði rétt kjörinn þingmaður
í jöfnunarþingsæti og að frambjóð-
andi í 2. sæti á lista Framsóknar-
flokksins í kjördæminu missi þing-
sæti sitt.
Enn fremur segir í kærunni að
svo virðist sem ekki hafi verið sam-
ræmi í vinnubrögðum við fram-
kvæmd kosninga eða talningar milli
kjördæma og að meðferð vafaat-
kvæða hafi verið mismunandi eftir
kjördæmum.
Bent er á að 58 atkvæði hafi verið
ógild í Reykjavíkurkjördæmi suður
en 131 í Reykjavíkurkjördæmi norð-
ur. „Sami fjöldi kjósenda er í báðum
þessum kjördæmum og munur á
ógildum atkvæðum því mikill og
bendir það einnig til þess að mis-
munandi forsendur hafi ráðið mati á
atkvæðaseðlum við talningu.“
Í kærunni kemur fram að ekki er
kveðið á um endurtalningu í kosn-
ingalögum en þar er heldur ekkert
sem bannar endurtalningu eða
kveður á um að einungis megi telja
greidd atkvæði einu sinni.
Kosningalögin verði skoðuð
Guðjón A. Kristjánsson segir að
það sé ekki síður tvennt sem vaki
fyrir Frjálslynda flokknum með
kærunni. Í fyrsta lagi að það verði
sett einhver mörk um hvenær eigi
að endurtelja og hvenær ekki, þ.e.
hvort mörkin eigi að liggja við þrett-
án atkvæði, hundrað eða fleiri. „Það
hefur aldrei reynt á það í alþingis-
kosningum hvar þessi lína liggur,“
segir hann.
Í öðru lagi telur flokkurinn að
gera þurfi mikla bragarbót á fram-
kvæmd kosninganna. Til dæmis geti
ekki verið viðunandi að farið sé með
vafaatkvæði með mismunandi hætti
eftir kjördæmum, að sögn Guðjóns.
Kæra framkvæmd
þingkosninganna
FJÖLDI erlendra stjörnufræðinga
og áhugamanna verður á Íslandi
þann 31. maí til þess að fylgjast með
sólmyrkva sem sjást mun vel frá
landinu.
„Það hafa svona 20 ferðaskrifstof-
ur haft samband við mig. Það eru
margir að koma og sjá þetta og eru
þeir úr ýmsum áttum,“ sagði Þor-
steinn Sæmundsson stjörnufræðing-
ur í samtali við Morgunblaðið. Til
dæmis kemur hingað Jay Pasachoff
frá Bandaríkjunum en þetta mun
vera 37. myrkvinn sem hann verður
vitni að. „Tveir helstu myrkva-
sérfræðingar sem ég þekki koma
hingað, belgíski stærðfræðingurinn
Jean Meeus sem ég hef haft sam-
vinnu við í mörg ár og annar sem
starfar hjá bandarísku geimvísinda-
stofnuninni, NASA, og er sólmyrkva-
sérfræðingur. Þeir koma hingað bara
af því að þeir hafa áhuga á að sjá
þetta en ekki vegna þess að þetta hafi
mikla fræðilega þýðingu,“ sagði Þor-
steinn.
Einnig munu þrír prófessorar úr
háskóla í Palm Beach á Flórída koma
hingað. Þeir munu fræða bæði ís-
lensk og bandarísk skólabörn um sól-
myrkva í gegnum heimasíðu sína.
Félagar hans nota einnig tækifær-
ið og skoða landið um leið.
Talið er að Raufarhöfn sé vel til
þess fallin að sjá sólmyrkvann þar
sem fá fjöll skyggja á útsýnið, en
hvar ætli stjörnufræðingurinn sjálf-
ur kjósi að vera? „Ég ætla ekkert að
ákveða það fyrr en ég sé veðurspána,
það er það sem öllu ræður í þessu
sambandi,“ sagði Þorsteinn.
Samkvæmt vefsíðu almanaks Há-
skóla Íslands er sólmyrkvinn hring-
myrkvi sem merkir að tunglið fer allt
inn fyrir sólkringluna en nær ekki að
hylja hana. Hringmyrkvinn mun ná
hámarki um kl. 4 að morgni laugar-
dagsins 31. maí og mun standa yfir í
um það bil 3,6 mínútur. Þessi sól-
myrkvi verður sá mesti sem sést hef-
ur frá Íslandi frá árinu 1986. Að með-
altali eru 239 sólmyrkvar á öld á
jörðinni í heild, en aðeins 77 af þeim
eru hringmyrkvar.
Löngu fullbókað
Hótelið á Raufarhöfn er löngu full-
bókað en þar er að mati franskra sér-
fræðinga einn ákjósanlegasti staður
heims til að sjá sólmyrkvann. „Þetta
eru aðallega Frakkar, Þjóðverjar,
Bretar og Svisslendingar,“ sagði Er-
lingur Thoroddsen hótelstjóri Hótels
Norðurljósa á Raufarhöfn. „Hótelið
hér tekur 30 manns en það verða hér
tæplega 60 manns á okkar vegum,“
sagði Erlingur sem hrósaði Þorsteini
Sæmundssyni stjörnufræðingi fyrir
vefsíðuna sem útskýrir sólmyrkvann.
Hann sagði hótelið í samstarfi við
bæjarbúa sem margir hverjir bjóða
útlendingum gistingu þessa nótt.
„Útlendingarnir sætta sig alveg við
það. Heimamennirnir sem bjóða
þetta eru oftast fólk sem hefur auka-
pláss, því börnin eru flutt út, og hefur
gaman af þessu og vill hjálpa til.“ Á
laugardagskvöldið verður svo sjó-
mannadagsball á Raufarhöfn og á
sunnudeginum verður sjómannadag-
urinn svo nóg verður um dýrðir þá
helgina.
Sólmyrkvi sést frá Íslandi aðfaranótt 31. maí
Margir koma
og fylgjast með
TENGLAR
.....................................................
http://almanak.hi.is
www.eclipselive.com
EKKI er talið æskilegt að
horfa á sólmyrkva berum aug-
um. Guðmundur Viggósson,
yfirlæknir Sjónstöðvarinnar,
sagðist hafa séð dæmi um
augnskemmdir í kjölfar þess
að fólk horfði á sólmyrkva
berum augum.
„Það er ekki myrkvinn sem
slíkur heldur er það sólin sem
skín framhjá honum sem veld-
ur skaða,“ sagði Guðmundur.
„Tunglið skyggir á og svo
kemur sólin allt í einu útundan
þessu og maður fær bera sól-
ina beint í augun. Maður má
aldrei horfa beint upp í sólina.
Aðalatriðið er að horfa ekki
upp í sól að óþörfu.“
Guðmundur mælti með að
þeir sem ætluðu að horfa á sól-
myrkvann notuðu jöklasól-
gleraugu eða þeim mun
dekkri sólgleraugu.
Þorsteinn Sæmundsson
stjörnufræðingur tók í sama
streng. „Það er mjög vara-
samt að horfa á sólmyrkva
berum augum,“ sagði Þor-
steinn.
„Það verður að hafa mjög
dökkt gler eða filmu. Það er
hægt að fá dökka ljósmynda-
filmu hjá ljósmyndurum en
það er best að nota svart/hvíta
filmu. Ef hún er nægilega
dökk er þetta eins og að horfa
á tunglið. Maður sér sólina án
nokkurra óþæginda. Dökkt
rafhlöðugler er líka möguleiki
en þau eru af mismunandi
gerðum. Ef maður hefur ekk-
ert þá er hægt að sóta gler
upp á gamla mátann,“ sagði
Þorsteinn.
Sólmyrkvi getur
valdið sjón-
skemmdum