Morgunblaðið - 26.05.2003, Síða 20

Morgunblaðið - 26.05.2003, Síða 20
MINNINGAR 20 MÁNUDAGUR 26. MAÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ ✝ RóshildurSveinsdóttir fæddist að Ásum í Skaftártungu 21. febrúar 1911. Hún lést í Landspítala – háskólasjúkrahúsi Fossvogi 16. maí 2003. Foreldrar hennar voru Sveinn Sveinsson bóndi, f. 5. desember 1875 að Hörgslandi á Síðu, d. 14. janúar 1965, og Jóhanna Sigurðar- dóttir, f. 21. október 1879 á Breiðabólstað á Síðu, d. 2. júní 1968. Framan af bjuggu þau að Ásum í Skaftár- tungu, en fluttust að Norður- Fossi í Mýrdal 1923. Börn þeirra urðu 15 og 12 þeirra komust á legg. Eftirlifandi eru þau Ingunn og Gísli, en látin eru Sigursveinn, Gyðríður, Guðríður, Runólfur, Sveinn, Páll, Kjartan, Guðmundur og Sigríður. Róshildur giftist Benedikt Guð- jónssyni kennara, f. 3. mars 1909 að Auðsholti í Biskupstungum, d. 2. apríl 1982 í Reykjavík. Foreldr- ar hans voru Guðjón Jónsson bóndi frá Syðra-Seli, f. 10. apríl 1875, d. 31. jan. 1955, og kona hans Kristjana Jónsdóttir frá Stokkseyri, f. 1. maí 1872, d. 15. sept. 1922. Benedikt og Róshildur hófu sinn búskap að Reyni í Mýr- dal, en Benedikt var eini barna- kennarinn í báðum skólum sveit- arinnar í út-Mýrdal og Reynis- hverfi í tæp 10 ár. Róshildur aðstoðaði hann við kennslu. Þau fluttu til Reykjavík- ur 1944 og bjuggu lengst af á Hofteigi 44. Benedikt var kennari við Mela- skólann þar til hann lauk störfum vegna aldurs. Börn þeirra eru: 1) Sveinbjörn, f. 1. janúar 1933, d. 2. febrúar 1997, kvæntur Auði Jóns- dóttur; dóttir þeirra er Hlín, gift Hávari Sigurjónssyni, börn þeirra eru Hrólfur Þeyr, Auður og Sveinbjörn. 2) Brynja Kristjana, f. 20. febrúar 1938, gift Erlingi Gíslasyni, sonur þeirra er Benedikt, í sambúð með Charlotte Böving, dóttir þeirra er Anna Róshildur. 3) Jóhanna Gréta, f. 17. apríl 1941, gift Erni H. Bjarnasyni, þau skildu; dóttir þeirra er Ásta Júlía, í sambúð með Grétari Skúlasyni; börn þeirra eru Jóhanna Margrét og Rúnar Örn. 4) Ingunn Ósk, f. 15. janúar 1944, gift Högna Óskarssyni; börn þeirra eru a) Guðrún, gift Kristni Tryggva Gunnarssyni; börn þeirra eru Kristjana Ósk og Ing- unn Anna. b) Þorbergur. Þegar börn Benedikts og Rós- hildar voru vaxin úr grasi lagði hún stund á yogafræði og shiatsu nudd. Var hún einn af stofnendum Yogastöðvarinnar Heilsubót og kenndi yoga um árabil. Útför Róshildar verður gerð frá Fosvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Við Róshildur kvöddumst nokkr- um dögum fyrir andlát hennar. Það var friður yfir henni, stutt í bros og hlátur, þó hún væri tekin að þreyt- ast af langri lífsgöngu. Fyrsta fund okkar áttum við fyrir um 40 árum; við eldhúsborð, ýsusporð og kart- öflur. Ingunn, yngsta dóttir Rós- hildar og Benedikts, var tilefni heimsóknar minnar. Sama brosið, stutt í hlátur. Sólarstrokur og Nam- asta-kveðja að hætti yogaiðkenda komu seinna. Og svona hefur þetta verið árin á milli þessara funda, með ýmsum tilbrigðum að sjálfsögðu. Róshildur var þeirrar kynslóðar, sem á einni mannsævi upplifði þús- und ára þróun. Fædd í torfbæ, alin upp við þröngan kost og forna bú- skaparhætti, ein af 12 systkinum, sem komust á legg. Öll smituð af ferðalöngun Sveins föður þeirra, sem var ferðamönnum traustur fylgdarmaður yfir stórfljót og Mýr- dalssanda. Fróðleiksfús voru systk- inin með afbrigðum. Þessir eiginleikar komu fram með meiri þunga þegar samferðamenn Róshildar og Benedikts fóru að hægja á sér. Róshildur tók bílpróf og ein af hennar fyrstu ökuferðum lá hringinn í kringum Ísland. Hún fylltist óþreyju og ferðahug á vorin; ferðirnar urðu margar, enda skaft- fellskir vatnamenn og ferðagarpar langt fram í ættir. Lét hún sér ekki nægja að kynnast Íslandi; heims- álfur þrjár lagði hún undir fót og hús átti hún á Spáni í tæp 20 ár. Ung giftist Róshildur Benedikt Guðjónssyni kennara. Leiddu þær samvistir til skondinnar blöndu fornrar bændamenningar og bóhemsks lífsstíls; húsbóndinn gat setið ótruflaður yfir skákþraut, með óviðgerðan karbúrator innan seil- ingar, meðan Róshildur spilaði á munnhörpu og söng með eldri börn- unum meðan sú yngsta æfði ball- ettspor úti í horni. Börnin voru fjög- ur og hafa sem og barnabörnin haslað sér völl á hinum ýmsu svið- um þjóðlífsins; öll elsk að móður og ömmu. Benedikt lést um aldur fram 1982. Sorg Róshildar vék smám saman fyrir athafnaþrá, bæði innan- lands og utan; lét ekki staðar numið fyrr en í Kína og á Filippseyjum, með vetursetum á Spáni. Hún eign- aðist seinna náin vin í Páli Briem. Var það heilt ævintýri að fylgjast með þeim í hestastússi og við neta- veiðar, bæði komin fast að níræðu. Eftir andlát hans 1990 var sem þróttur Róshildar tæki að þverra, en stoltinu skaftfellska hélt hún þó til síðasta dags. Ekki verður punktur settur við þessa samþjöppuðu lýsingu á lífs- hlaupi Róshildar án þess að minnst verði á þann þátt í lífi hennar, sem flestir þekktu hana af. Fyrir um 35 árum hóf hún að leggja stund á yoga og shiatsu nudd. Var hún einn af stofnendum Yogastöðvarinnar Heilsubót og kenndi yoga um árabil, um leið og hún innprentaði læri- sveinum og -meyjum, og reyndar öllum sem komust í kallfæri við hana, austurlenskan lífsstíl og speki. Beitti hún kunnáttu sinni til að rétta úr bognum bökum, mýkja hnýtta vöðva og sefa órólegan hug. Einu af lífsins ævintýrum er lok- ið. Það lifir áfram í minningunni. Þökk fyrir samfylgdina. Högni Óskarsson. Elskuleg amma mín, Róshildur, er lögð af stað í sitt síðasta ferðalag. Hún var mér mikil fyrirmynd í líf- inu. Hún kenndi mér margt en fyrst og fremst kenndi hún mér hve mik- ilvægt er að njóta lífsins meðan hægt er. Ferðast og fara í útilegur, klæða sig skemmtilega og að hafa alltaf eitthvað til að hlakka til. Hún amma mín var svo sannar- lega á undan sinni samtíð með margt. Fyrst og fremst þó að fylgja sinni sannfæringu. Skilaboðin voru þau að það er allt í lagi að vera maður sjálfur, hafa skoðanir á hlutunum og skammast sín bara ekkert fyrir það. Unga kynslóðin í dag ætti að læra af henni og njóta þess að vera til. Ótal minningar um ömmu koma upp í hugann þegar kveðjustundin rennur upp. Jólaboðin þegar ég var lítil stelpa og amma spilaði jólalögin á munn- hörpuna sína og allir dönsuðu syngjandi í kringum jólatréð eru yndislegar bernskuminningar. Í mínum huga er ekki slæm til- hugsun að eldast með ömmu mína Róshildi sem fyrirmynd í lífinu. Á sextugsaldri fór hún að stunda jóga og yngdist á sál og líkama og öðl- aðist nýtt sjálfstæði. Frelsi til ferða- laga óháð öðrum öðlaðist hún á sjö- tugsaldri með því að taka bílpróf. Þegar hún varð ekkja á áttræð- isaldri lét hún aldeilis ekki deigan síga heldur keypti sér hús á Spáni sem hún dvaldi í á hverju ári upp frá því. Á níræðisaldri endurnýjaði hún kynni sín af hestamennskunni og stundaði hana daglega um nokkurra ára skeið með vini sínum Páli Briem. Við amma áttum gott samtal rétt áður en hún dó. Við ræddum trú- mál. Við vorum sannfærðar um að góður Guð myndi taka við okkur þegar jarðneska lífinu lyki. Þó að söknuður og minningar sæki á hug- ann, veit ég að það er ekki slæmt að líta til baka á ævikvöldinu og sjá að góðu og skemmtilegu dagsverki er lokið. Guð geymi þig, amma mín. Hlín Sveinbjörnsdóttir. Mér fannst amma mín Róshildur Sveinsdóttir ekki alltaf vera venju- leg. Hún breytti lífi sínu um sextugt frá því að vera reykjandi heima- vinnandi húsmóðir í það að verða jóga-kennari, heilsupostuli og heimshornaflakkari. Stundum var ekki hægt að komast inn til hennar vegna þess að hún stóð á haus upp við útidyrahurðina og maður þurfti að bíða meðan hún lét blóðið jafna sig áður en hún gat staðið upp og opnað. Hún var fædd 19 11 að Ásum í Skaftártungu ein af 12 systkinum sem komust á legg og urðu nær öll fjörgömul og heilsuhraust. Þó var ekkert af þeim á móðurbrjósti. Móðurmjólkin var of dýr lúxus í þeirri sveit. Börnin 12 voru því fljótt vanin á kúamjólk svo hægt væri að koma móðurinni að verki. Nokkrar gamlar konur á heim- ilinu sinntu svo hver um sitt korna- barn til fjögurra ára aldurs. Barna- þrælkun og basl einkenndu uppvöxt ömmu og hef ég fáar manneskjur heyrt tala jafn illa um sveitina og sveitalífið í gamla daga. Amma var næstum því búin að ræna mér úr vinnumennsku einu sinni þegar ég var 13 ára. Ég var eitthvað aumur og slæptur þennan dag þegar hún kom í stutta heim- sókn í miðjum heyskap og hún brást svo hart við að ég þurfti að grát- biðja hana að fara nú bara og skilja mig eftir. Skömmu fyrir andlát sitt sagði hún mér samt að hún harmaði það mest varðandi mig að hafa ekki rænt mér úr sveitinni þarna um ár- ið. Hún kvað oft fast að orði og oft voru predikanir hennar ansi magn- aðar, sérstaklega þegar kom að allri óhollustu. Það var ekki samvisku- laust sem maður lét salt eða sykur inn fyrir sínar varir í hennar návist. Þegar amma varð jógi ákvað hún líka að læra á bíl. Afi Benedikt kenndi henni og æfði hana fyrir prófið. Amma var nefnilega sígauni í fyrra lífi og ferðagleðin og útþráin henni í blóð borin. Ég ferðaðist mikið með þeim um landið sem barn á bílnum hennar, „Gulu hættunni“ og alltaf var það amma sem sat undir stýri. Þá var farið um Suðurland og afi sagði „beygja“ í miðjum beygjum og amma fussaði og sveiaði og svo var tjaldað í Leyni-hvamminum nálægt Ásum eða bara skotist austur á Sel- foss í Þóristún og ég fékk pulsu með öllu í hverri einustu sjoppu á leið- inni. Eftir afa dag héldu henni engin bönd og þá voru það Filippseyjar og Taíland og Kína og svo að lokum Spánn en þar keypti hún sér sum- arhús, þá 75 ára gömul, og vingaðist við sígaunana og glæpadrottning- arnar á svæðinu. Amma var „híler“ eins og það er kallað. Hún nuddaði fólk eða réttara sagt gekk á því og smurði svo með „Geirlaugarolíu“ sem að stofni til er mest steinolía með úthrærðum eggjarauðum. Amma trúði á lækn- ingarmátt steinolíunnar bæði út- vortist og innvortis. Ég held að eng- um hafi orðið meint af yfir- halningum hennar. Fólk var oft að koma með kökur eða smjörstykki eða frosna kjúklinga til að launa henni fyrir heilsubótina því ekki vildi hún peninga fyrir yfirhaln- inguna. Þessi smjörstykki eða frosnu kjúklingar birtust svo stund- um á tröppunum heima hjá okkur. Þannig gaukaði hún yfirleitt ein- hverju góðu til sinna og svo fékk maður sólarstroku í kaupbæti. Amma mín Róshildur og Sigga syst- ir hennar gáfu manni alltaf sólar- stroku. Það er þétt faðmlag á sama tíma og bakið er strokið sólarganginn þétt og innilega. Þetta var verkleg hreinsun sálarinnar, svo kyssti mað- ur ömmu alltaf þrisvar, fyrst tveir kossar á sitthvora kinn og svo einn í viðbót „til að loka“. Eftir að amma hafði setið í ekkju- dómi í nokkur ár var dinglað á bjöll- unni hjá henni. Úti fyrir stóð virðu- legur herra með blóm í hendi og spurði hvort hún vildi koma í bíltúr. Þetta var Páll heitinn Briem og hann varð kærastinn hennar ömmu og fyrirmynd mín og lærimeistari í hestamennskunni. Amma gekk í endurnýjun lífdaga við það að hitta hann og það gekk svo mikið á að manni óaði við. Fyrir utan allar ferðirnar austur í Traðarholt að leggja net og girða þá var hver laus stund nýtt til útreiða. Enda var Páll með 20 hesta á járnum. Snjóavet- urinn mikla 2000–2001 riðu þau út á hverjum einasta degi í kuldagöllun- um sínum, bæði komin fast að ní- ræðu. Amma var bæði hugrökk og ákveðin svo stundum stappaði nærri þrjósku. Hún þurfti líka að hafa full not af þessum eiginleikum sínum í harðri lífsbaráttu. Enda mættust í henni tveir heimar: Stolt en frum- stæð íslensk sveitamenning og aust- ræn heilsu-dulspeki. Það þarf skap- festu til að koma þessu öllu heim og saman og það hafði hún. Ég veit að þegar við sem eftir stöndum mæt- um henni á ný þá bíður okkur sólar- stroka og þrír kossar á kinn og svo verður maður líklega að sætta sig við Geirlaugarolíu og ofaná-labb. Benedikt Erlingsson. Amma mín Róshildur er látin, 92 ára að aldri. Annars var aldur af- stætt hugtak í hennar heimi og í stað þess að óska til hamingju með afmæli þá óskaði hún fólki gleðilegs nýs árs! Hver áfangi var upphaf nýrrar upplifunar í hennar huga. Hún snerti líf fjölmargra með sterkri nærveru sinni, lífsgleði og innri sem ytri fegurð. Hún bjó yfir líknarkrafti sem hún deildi með stórum sem smáum í gegnum jóga- kennslu, shiatsu nudd, og með vel völdum hvatningarorðum, skilningi og hlýju. Amma lifði tímanna tvenna og gætti þess að við lærðum að meta það mikilvægasta í hverju augna- bliki. Hún naut þess að segja okkur barnabörnunum frá uppeldisárun- um sínum góðu að Ásum, sagði okk- ur með stolti frá byggingarbrölti á eftirstríðsárunum og deildi með okkur framandi sögum af lifnaðar- háttum íslenskra frumbyggja úr húsinu sínu í Las Mimosas á Spáni. Hún var ólík öllum ömmum – í stað þess að lauma til okkar súkku- laðimola gaf hún okkur sælgæti á borð við möndlur, rúsínur og grænt te. Í stað þess að prjóna á okkur hosur kenndi hún okkur að standa á haus og gera sólaræfinguna. Í stað þess að lesa fyrir okkur bækur sagði hún okkur af ævintýrum þeirra afa á mótorhjóli í Mýrdalnum á fjórða áratugnum og uppeldisár- um með ellefu systkinum sínum í Skaftafellssýslu. Þegar flestar jafn- öldrur hennar voru að hægja á sér og njóta efri áranna heima fyrir, ákvað amma að taka bílpróf á sjö- tugsaldri, keypti sér sjálf nýjan bíl og brunaði um borg og bý á „gulu hættunni“ – hvert sem hjartað bar hana. Hún hafði skoðanir á mörgum hlutum og hikaði ekki við að deila þeim með hverjum sem var. Hlátur hennar bergmálar enn á Hofteign- um og lyktin af „Geirlaugarnudd- olíunni“, sem hún blandaði sjálf eft- ir uppskrift formæðra sinna, mun ávallt tengjast minningu hennar. Þrátt fyrir sérstöðu sína vissi hún alltaf hvað skipti mestu máli í lífinu – t.d. var skál af óviðjafnanlegum grjónagrauti allra meina bót, ekkert bauð mann jafn velkominn heim eft- ir langa veru erlendis eins og ís- lenskur lambahryggur matreiddur að hennar hætti, og góð „sólar- stroka“ milli herðablaðanna er besta ráðið við orkuleysi. Amma var mörgum sterk fyrir- mynd. Hún kenndi okkur að ekkert verkefni væri of flókið hvort sem það voru útreiðarferðir á tíræðis- aldri eða erfitt nám erlendis. Hún kenndi okkur að engar ákvarðanir eru teknar fyrir mann – það eru for- réttindi að hafa skoðanir, fylgja þeim eftir og bera ábyrgð á afleið- ingunum. Hún sýndi okkur að það er í lagi að fylgja hjartanu – allt er mögulegt ef maður bara á sér draum. Hún kenndi okkur að það er ekki álit annarra sem skiptir höf- uðmáli, það er skoðun þín sem veg- ur ávallt þyngst. Hún kenndi okkur að hika ekki. Hún kenndi okkur að njóta lífsins, náttúrunnar og fegurð- arinnar og með hrósi sínu og hvatn- ingu gerði hún okkur stolt og örugg. Með smitandi hlátri sínum minnti okkur á gildi gleðinnar, með reynslu sinni kenndi okkur þrautseigju og með tilvist sinni gaf hún okkur framtíð. Gleðilega nýja tilveru, elsku amma Róshildur. Namasta. Guðrún Högnadóttir. Lífið er þannig að stundum kynn- ist maður fólki, sem fær mann til að doka við. Sumir einstaklingar eru nefnilega þannig úr garði gerðir, að þeir skapa sér fastan sess í tilveru manns. Amma Róshildur var þann- ig, það varð mér ljóst barnungum. Amma var um margt merkileg kona. Það er löng leið frá Ásum í Skaftártungu til Reykjavíkur. Það var ekki á færi allra að skapa sér sess í síbreytilegu samfélagi, sem Ísland var á síðustu öld. Amma Rósa sá til þess, að börnin hennar og afa Benedikts yrðu að skapandi og gefandi einstaklingum. Hún sá til þess að hún gæti, komin á sjötugs- aldur þegar hún tók bílpróf, flakkað hjálparlaust um sveitir og óbyggðir landsins á „Gulu hættunni“; hún framkallaði innri sálarró hjá vinum og vandamönnum með svæðanuddi og sálgæslu fram yfir nírætt. Og sýndi það á síðustu árum sínum að hún væri ekki eftirbátur þeirra yngri í fjölskyldunni þegar kom að hestamennsku og útreiðartúrum. Mikilvægast er, að amma Rósa sá til þess, að snáðinn litli frá Banda- ríkjunum kynntist Íslandi og Ís- lendingum í sinni hreinustu mynd; að strákhvolpurinn tæki upp ís- lenska siði, svo hann yrði einhvern tímann að manni. Að hann gæti mætt ögrunum lífsins af jafnaðar- geði og æðruleysi. Í hnotskurn lýsir eftirfarandi atburður þessu. Við vorum í Húsafelli á áttunda ára- tugnum, stórfjölskyldan öll mætt. Ég ákvað eitt kvöldið að viðra kett- linginn hans Benna frænda. Kett- lingurinn hætti fljótlega að vilja láta viðra sig og varð eitthvað druslu- legur. Ég dró hann inn og spurði hvað væri eiginlega að honum? Amma Róshildur var ekki lengi að koma kettinum til aðstoðar, og los- aði snærisspottann sem ég hafði bundið um hálsinn á honum. Kett- lingurinn hljóp í fangið á Benna frænda og vildi lítið af mér vita eftir þessa lífshættu sína. Og mér, fimm ára snáðanum, brá og bjóst við skömmum. „Svona nú, Þorbergur minn, hættu nú að gráta,“ sagði amma, „hann jafnar sig. Þú bindur kannske bandið ekki svona fast um kettlinginn ef þú viðrar hann aftur á morgun.“ Þakka þér fyrir jákvæða leiðsögn. Namasta. Þorbergur. Amma Róshildur. Nú ert þú farin til Guðs og þar á þér eftir að líða vel. Það sem ég á eftir lifað verður án þín. Aðeins smáhluti af æskunni var með þér. Níu ár. En hitt verður án þín. Mér brá svo þegar ég sá þig allt í einu svo hreyfingarlausa. Mér hefði þótt betra að þú værir hjá mér þegar ég grét þín vegna. Þú varst góð og þó að þú sért ekki lengur sýnileg verðurðu alltaf hjá mér. Sveinbjörn. RÓSHILDUR SVEINSDÓTTIR

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.