Morgunblaðið - 01.02.2004, Page 2
2 B | Morgunblaðið | Heimastjórn 100 ára
Sú kemur tíð, er upp úr alda hvarfi
upp rís þú, Frón, og gengur frjálst að
arfi.
Öflin þín huldu geysast sterk að starfi,
steinurðir skreytir aptur gróðrarfarfi.
…
Þá mun sá Guð, er veitti frægð til forna,
fósturjörð vora reisa endurborna,
þá munu bætast harmasár þess horfna,
hugsjónir rætast. Þá mun aptur morgna.
(Hannes Hafstein, „Íslandsljóð“, Þjóð-
viljinn 12. jan. 1901.)
„Sú kemur tíð …“
E
vrópubúar litu flestir
með bjartsýni fram á
veginn við upphaf 20.
aldar, enda þótti öld-
in sem þá var á enda
eitthvert mesta fram-
faraskeið í gervallri sögu álfunnar.
Aukið athafna- og skoðanafrelsi,
vaxandi þekking á gangi náttúr-
unnar, tæknibylting, iðnbylting –
allt þetta gaf mönnum von um að
hin nýja öld yrði tími framfara,
frelsis og friðar í Norðurálfu. Slíka
bjartsýni má einnig greina í orð-
ræðum Íslendinga á sömu tíma-
mótum. Þeir voru reyndar á þess-
um tíma ein fátækasta þjóð
Evrópu, og fáar af þeim tækninýj-
ungum sem létt höfðu nágranna-
þjóðunum lífið á 19. öldinni höfðu
borist til landsins, en sú trú að
þjóðin myndi taka sér fram á nýrri
öld var engu að síður útbreidd. Eitt
„aðaleinkennið á þjóðlífi voru á
liðinni öld, er einmitt það, hve
mikils vér höfum farið á mis af því,
er einkent hefir 19. öldina með sið-
uðum þjóðum“, skrifaði til að
mynda Björn Jónsson ritstjóri í
aldamótagrein í blaði sínu, Ísafold,
en „verkefnið mikla fyrir hvern
góðan Íslending“ var, sagði hann,
að breyta þessu og kippa þjóðinni
„inn í framfarastrauminn …“
Framfaraþrá Íslendinga var ekki
úr lausu lofti gripin, heldur studd-
ist hún við þá vissu að aukið frelsi
frá erlendri stjórn myndi opna
landsmönnum leið inn í nú-
tímann. Þessu til sönnunar benti
eitt helsta stuðningsblað Heima-
stjórnarflokksins, Þjóðólfur, á það í
janúarbyrjun árið 1901 að á síðasta
fjórðungi 19. aldarinnar, eða tím-
anum frá því að Alþingi fékk lög-
gjafar- og fjárveitingavald, hefðu
Íslendingar „tekið meiri framför-
um yfirleitt, heldur en á öllum hin-
um 3 fyrstu aldarfjórðungum til
samans“. Trúin á samband stjórn-
frelsis og framfara birtist einnig
skýrt í aldamótakvæðum þjóð-
skáldanna. Sem dæmi þar um má
nefna verðlaunakvæði Einars
Benediktssonar, sem prentað var í
flestum aldamótaútgáfum Reykja-
víkurblaðanna, en þar tengir
skáldið saman morgunskímu
framfaranna, sem þrengir sér inn í
myrkur aldanna, og helstu skrefin í
þjóðernisbaráttu 19. aldarinnar:
Vér munum aldamyrkrið fyrst,
svo morgun framfaranna,
er bókmennt og lærdómslist
brá ljósi’ á hugi manna;
og „Fjölni“, reisn vors feðramáls,
og fundinn þjóðarinnar;
og löggjöf vora og fjármál frjáls
einn fjórðung aldarinnar.
Aldamótakvæði sýslumannsins
á Ísafirði og nýkjörins þingmanns
Ísfirðinga, Hannesar Hafsteins, var
á svipuðum nótum. „Sú kemur
tíð“, spáði hann þar, að „upp rís
þú, Frón, og gengur frjálst að arfi“.
Þá fyrst var guð reiðubúinn að
endurreisa íslenska þjóð og leiða
hana til fyrri frægðar – og þá „mun
aptur morgna“.
Heimastjórn – forsenda
framfara?
Ekki leið á löngu þar til Hannesi
Hafstein gafst tækifæri til að
hrinda orðum sínum í fram-
kvæmd, en 1. febrúar 1904 varð
skáldið og embættismaðurinn
fyrsti ráðherra íslenskrar heima-
stjórnar. Miklar vonir voru bundn-
ar við hinn nýja ráðherra, a.m.k.
meðal þeirra sem stóðu með hon-
um í flokki. Jafnvel hinn grandvari
embættismaður Magnús Stephen-
sen, sem missti embætti lands-
höfðingja við stofnun heimastjórn-
arinnar, fagnaði stjórnarskipt-
unum; „það sem mig hefur vantað
sérstaklega, það er »initiativ«
(frumkvæði), skapandi hugsjónir
og aðrir hæfileikar til að ryðja
framfarabrautir“, sagði hann í
veislu sem haldin var honum til
heiðurs af þessu tilefni, og ýjar um
leið að því að allir þessir kostir
prýði ráðherrann nýja (Þjóðólfur,
5. feb. 1904).
Saga heimastjórnartímabilsins
virðist staðfesta trúna á tengsl
framfara og stjórnfrelsis. Hagvöxt-
ur var ör flest árin frá 1904–1918,
þótt stundum gæfi á þjóðarskút-
una á þessum árum, og þá ekki síst
á síðustu árum heimsstyrjaldar-
innar fyrri. Að öðru leyti voru
fyrstu ár aldarinnar sannkallað
hagsældarskeið; ritsími var lagður
til landsins, togaraútgerð hófst fyr-
ir alvöru, eimskipafélag var stofn-
að, o.s.frv. En hverju getum við
helst þakkað þennan árangur?
Aðdáendur Hannesar Hafsteins
eru ekki í vafa um hver átti hér
stærstan hlut að máli. „Hannes
Hafstein [er] foringinn, sem kemur
í framkvæmd hugsjónum þeim,
sem við hinir yngri heimastjórn-
armenn höfðum alið í brjósti,“
sagði t.d. Jón Þorláksson, síðar for-
maður Íhaldsflokksins og forsætis-
ráðherra, í grein sem hann skrifaði
til að minnast Hannesar að honum
látnum. En þegar nánar er að gáð
virðast tengsl framfara í atvinnu-
málum, stefnu stjórnmálaflokk-
anna og aukinnar sjálfstjórnar Ís-
lendinga vera nokkru flóknari en
oft er af látið. Í fyrsta lagi voru af-
skipti stjórnvalda af íslenskum at-
vinnumálum frekar takmörkuð á
árunum fram að fyrri heimsstyrj-
öld. Þar kom hvort tveggja til að
ríkisvaldið var mun vanmáttugra á
þeim árum en síðar varð og að þá
þótti óeðlilegt að ríkið væri að vas-
ast of mikið í efnahagslífinu. Hér
má benda á þá staðreynd að starfs-
menn ráðuneytis Hannesar Haf-
steins voru aðeins tólf í upphafi, og
þótti ýmsum reyndar nóg um það
skrifstofubákn. Vitaskuld er ekki
hægt að ætlast til að svo fámennur
hópur hafi valdið byltingu í ís-
lensku samfélagi, jafnvel þótt þar
hafi eflaust verið um einvalalið að
ræða. Reyndar má leiða að því lík-
um að afskiptaleysi stjórnmála-
manna gagnvart atvinnumálum
hafi einmitt ýtt undir öra þróun í
íslenskum sjávarútvegi á árunum
fram að fyrri heimsstyrjöld, vegna
þess að hugur ráðamanna á fyrri
hluta 20. aldar hneig ávallt fremur
að því að efla sveitirnar, m.a. með
lagningu járnbrautar um Suður-
land, en að styrkja útgerð og þétt-
býli.
Í öðru lagi er erfitt að sjá hvernig
aukið frelsi frá Danmörku stuðlaði
beinlínis að efnahagslegum fram-
förum á Íslandi á heimastjórnar-
tímanum. Þar má benda á að
stofnun Íslandsbanka árið 1904,
sem veitti gríðarlegu erlendu fjár-
magni inn í landið og átti stærstan
þátt í að efla sjávarútveginn á
fyrstu árum 20. aldarinnar, var
ákveðin með lögum frá Alþingi um
hlutafélagsbanka árið 1901, áður
en nokkru hafði verið slegið föstu
um íslenska heimastjórn. Eins var
eitt merkasta afrek Hannesar Haf-
steins í ráðherratíð hans, tenging
landsins við umheiminn með
símastreng, einungis mögulegt fyr-
ir bein afskipti dönsku stjórnarinn-
ar – og reyndar var ráðherrann
gagnrýndur harkalega af andstæð-
ingum sínum fyrir undirlægjuhátt í
samskiptum sínum við dönsk yf-
irvöld í því máli. Þar eins og á
mörgum öðrum sviðum nutu Ís-
lendingar góðs af sambandinu við
Dani, þótt smám saman væri
höggvið á strengina sem tengdu
þjóðirnar tvær.
Í leit að þjóðareiningu
Allt frá dögum Jóns Sigurðssonar
hafði samstaðan í baráttunni fyrir
þjóðfrelsinu verið efst í huga ís-
lenskra stjórnmálamanna, um leið
og sundrungin taldist rót alls þess
sem miður fór í íslensku þjóðlífi.
Hannesi Hafstein var þetta ofar-
lega í huga á fyrstu ráðherraárum
sínum; „það er trú mín og sann-
færing“, sagði hann við vígslu
Sogsbrúar í september 1905, „að
með vaxandi menning muni ...
samheldni og samvinna eflast í
öllu því sem fósturjörð vorri er fyrir
beztu. ... Sameiginlegur vilji um að
keppa fram til umbóta og menn-
ingar í trausti til landsins okkar og
framtíðar þess er brú, sem þarf að
byggja sem bezta og vandaðasta“
(Þjóðólfur, 15. sept. 1905).
Þrátt fyrir einlægan vilja varð
Hannesi ekki að ósk sinni, enda
urðu stjórnmálaátök heimastjórn-
artímans einhver þau hörðustu
sem þekkst hafa í íslenskri pólitík.
Að hluta til má rekja deilurnar til
persónulegrar óvildar á milli helstu
stjórnmálaforingja tímabilsins, en
þær tengjast þó einnig eðli stjórn-
málanna á þessum árum. Í stjórn-
málastríðinu höfðu fjárfestingar í
atvinnulífi, afstaðan til ríkisrekst-
urs eða til uppbyggingar velferð-
arkerfis engan forgang, heldur
voru það hin ýmsu tæknilegu atriði
í samskiptunum við Dani sem
helst ollu uppnámi. Eitt heitasta
deilumálið öll þessi ár var til að
mynda seta ráðherrans í ríkisráði
Danmerkur, sem allir sem til
þekktu hlutu að vita að skipti í
raun og veru engu máli fyrir stjórn
landsins vegna þess að ríkisráðið
var valdalaust um íslensk sérmál.
Ástæðan fyrir því að þetta atriði
skipaði svo stóran sess í hugum Ís-
lendinga var sú staðreynd að ís-
lensk pólitík taldist alls ekki snúast
um framfarir eða efnahagslega vel-
ferð þjóðarinnar fyrst og fremst,
þótt allir hafi trúlega viljað hag
hennar sem bestan. Viðfang
stjórnmála heimastjórnartímans
var frelsi þjóðarinnar frekar en
hvernig farið var með frelsið, og
því var eins og sjálfstæðisbaráttan
lenti ávallt sjálfkrafa í miðju um-
ræðunnar. Vandinn í þessum efn-
um var þó lengst af sá að Íslend-
ingar treystu sér ekki til þess að
skera á sambandið við Dani, vegna
þess að innst inni trúðu fæstir því
að Íslendingar gætu staðið á eigin
fótum. Því voru alla tíð til þeir
stjórnmálamenn sem vildu ná
sáttum við Dani og ýta sjálfstæð-
isbaráttunni til hliðar, a.m.k. um
stundarsakir, en þeim tókst það þó
aldrei til langframa. Hannes Haf-
stein brenndi sig á þessu árið 1908
þegar hann talaði fyrir uppkasti að
nýjum sambandslögum á milli Ís-
lands og Danmerkur, en það var
fellt með allmiklum mun í alþing-
iskosningum vegna ágreinings um
orðalag laganna frekar en innihald.
Það var því eins og stjórnmálin
væru meira og minna ónæm fyrir
þeim breytingum sem urðu á ís-
lensku þjóðlífi á heimastjórnartím-
anum, a.m.k. fram að stofnun Al-
þýðu- og Framsóknarflokks árið
1916 – og reyndar komst engin
regla á stjórnmálaflokkana fyrr en
sjálfstæðisbaráttunni lauk árið
1918. Þá fyrst fóru kjósendur og
stjórnmálamenn að raða sér á
flokka eftir efnahagslegum hags-
munum og pólitískum hugsjónum
frekar en heldur innihaldslitlum
kritum um ríkisráðsákvæði eða
undirskrift á skipunarbréfi ráð-
herra.
Nýsköpun samfélags
Með þessu er alls ekki verið að
segja að íslenskir stjórnmálamenn
hafi engin áhrif haft á nýsköpun ís-
lensks samfélags á fyrstu árum 20.
aldar. Fræðslulögin árið 1907,
stofnun Háskóla Íslands árið 1911,
víðtæk breyting á kosningalögum
árið 1915, umbætur í samgöngu-
málum, o.s.frv., byltu ekki íslensku
samfélagi í einni svipan, en lögðu
þó grunninn að vexti íslensks nú-
tímasamfélags. Líta má á þessa
þætti sem lið í því sem ritstjóri Ísa-
foldar kallaði að kippa þjóðinni
inn í framtíðarstrauminn, eða sem
yfirlýsingu um að íslenskir ráða-
menn vildu laga samfélagið að því
þjóðfélagskerfi sem þá var að taka
á sig mynd í vestrænum ríkjum.
Þetta var alls ekki sjálfgefið, þótt
okkur kunni að þykja svo nú,
vegna þess að lengi vel höfðu al-
þingismenn viljað verja bænda-
samfélagið og hefðbundna ís-
lenska samfélagsgerð fyrir þeirri
ógn sem henni stafaði af iðnvæð-
ingu og þéttbýlismyndun. Slíkar
hugmyndir áttu litlu fylgi að fagna
á heimastjórnartímanum, a.m.k.
meðal þeirra sem mestu réðu í
pólitíkinni, og sjálfsagt fagna því
flestir nú.
Ef við berum nývæðingu Íslands
saman við nágrannalöndin er fátt
sem vekur sérstaka athygli, vegna
þess að hún fylgdi að mestu sömu
brautum og í öðrum vestrænum
ríkjum. Hér mætti helst nefna að
Íslendingar fara tiltölulega seint af
stað, en taka þó skarpt við sér þeg-
ar framþróunin hefst fyrir alvöru.
Útilokað er að spá fyrir um hvort
þjóðfélagsþróunin hefði orðið
önnur ef Ísland hefði lotið stjórn
Dana lengur en raun ber vitni, en
a.m.k. er ljóst að þjóðfrelsisbarátt-
an hamlaði alls ekki nývæðingu ís-
lensks samfélags.
Framfarir forsenda
fullveldis?
Íslendingum hefur löngum verið
tamt að túlka sögu sína á þann hátt
að beint samband hafi verið á milli
aukinnar sjálfstjórnar og velmeg-
unar í landinu, og hvert skref í
sjálfstæðisbaráttunni hafi leitt nær
sjálfkrafa af sér framfarir og hag-
vöxt. Þegar skáld og blaðamenn
gerðu upp 19. öldina túlkuðu þeir
Íslandssöguna á þennan hátt;
stofnun Alþingis, verslunarfrelsi og
stjórnarskrá voru í þeirra huga ekki
aðeins áfangar í íslenskri stjórn-
málasögu heldur urðu þáttaskil á
öllum sviðum þjóðlífsins á þessum
tímamótum. Hér hefur því verið
haldið fram að tengslin á milli
stjórnmálaþróunar og framfara á
efnahagssviðinu hafi verið nokkru
flóknari en þetta einfalda líkan
gerir ráð fyrir, enda fylgist þróun
þessara tveggja þátta alls ekki ná-
kvæmlega að. Þannig urðu senni-
lega meiri skil í fjármálum hins op-
inbera um miðjan 10. áratug 19.
aldar en við upphaf heimastjórnar,
skútuöldin hófst fyrir alvöru um
1890, vélbátaútgerð árið 1902 og
togaraútgerð af krafti um 1910.
Sennilega er nær að líta á stjórn-
frelsið sem einn hluta nývæðingar
en helstu orsök hennar – og reynd-
ar var sú efnahagslega framþróun
sem hófst á síðari helmingi 19. ald-
ar helsta forsenda þess að Íslend-
ingar gátu krafist fullveldis. Það má
vel vera að sjálfstæðisbaráttan og
þjóðerniskenndin hafi blásið fólki í
brjóst viljann til að taka sér fram
en þjóð sem ekki getur framfleytt
sér sjálf á erfitt með að krefjast
frelsis.
Morgunn íslensks nútíma?
Þjóðarstolt | Ungir menn í Reykjavík með hvítbláa fána í Öskjuhlíð.
Eftir Guðmund Hálfdanarson
’Viðfang stjórnmála heimastjórnartímans varfrelsi þjóðarinnar frekar en hvernig farið var með
frelsið, og því var eins og sjálfstæðisbaráttan
lenti ávallt sjálfkrafa í miðju umræðunnar. ‘
Höfundur er prófessor í sagnfræði
við Háskóla Íslands.