Morgunblaðið - 01.02.2004, Síða 16

Morgunblaðið - 01.02.2004, Síða 16
16 B | Morgunblaðið | Heimastjórn 100 ára S tjórnarskrárdeilur nítjándu aldar á Ís- landi snerust að miklu leyti um sjálfstæði þjóðarinnar. Þær sner- ust að litlu leyti um þingræði og inntak ráðherra- ábyrgðar, sem var eitt helsta deilu- efnið í nágrannalöndum okkar, þar á meðal Danmörku. Lengst af gengu kröfur Íslendinga út á að fá innlent framkvæmdarvald undir forystu landstjóra eða jarls. Þegar leið að lokum nítjándu aldar gætti vaxandi umræðu um þingræði, en skilningurinn á því hvað það þýddi var samt með ýmsum hætti. Framkvæmd þingræðis á Íslandi fyrstu árin eftir að það var innleitt árið 1904 var að ýmsu leyti sér- stæð. Ráðherrann var að forminu til hluti af ríkisstjórn Danmerkur – þar sem ríkti þingræði frá 1901 – en fylgdi samt þingmeirihlutanum á Íslandi. Staðgengill hans, landrit- arinn, var embættismaður, sem í fjarveru ráðherrans sat samt einnig á Alþingi. Í efri deild Alþingis sátu á þessum tíma sex konungkjörnir þingmenn sem ráðherra Íslands valdi eftir að heimastjórn komst á. Konungkjörnu þingmennirnir gátu skipt sköpum fyrir afdrif mála á þinginu því í efri deild þingsins sátu einungis 14 þingmenn og þurftu þeir þannig ekki að fá nema tvo hinna þjóðkjörnu til liðs við sig til að hafa meirihluta í deildinni. Val á nýjum ráðherra Á fyrstu árum þingræðis á Ís- landi ríkti iðulega nokkur óvissa um hvernig stjórnarskipti skyldu fara fram. Á þeim tíma sem leið frá því að Íslendingar fengu heima- stjórn og þingræði árið 1904 fram að því að ríkisstjórn með fleiri en einum ráðherra tók við árið 1917 gerðist það sex sinnum að nýr ráð- herra tæki við embætti. Þetta voru Hannes Hafstein árið 1904, Björn Jónsson 1909, Kristján Jónsson 1911, Hannes Hafstein 1912, Sig- urður Eggerz 1914 og Einar Arn- órsson 1915. Í þingræðisríki er eðlilegt að meirihluti þings ráði samsetningu ríkisstjórnar. Þetta er sums staðar gert með því að þing lýsir trausti á ríkisstjórn, en annars staðar með því að þing getur vikið henni með vantraustsyfirlýsingu. Alþingi sam- þykkti traustsyfirlýsingu við ráð- herra í þinglok 1907 en þá hafði hann reyndar setið síðan 1904. Sú leið hefur verið farin á Íslandi að líta svo á að ráðherrar eða ríkis- stjórnir þyrftu ekki traustsyfirlýs- ingu þingsins en gætu setið svo lengi sem gera mætti ráð fyrir stuðningi meirihluta þingsins. Tveir flokkar kepptu um völdin stóran hluta heimastjórnartímans, Heimastjórnarflokkurinn og Sjálf- stæðisflokkurinn. Vegna þess hve flokkaskiptingin í þinginu var los- araleg var í nokkur skipti vand- kvæðum bundið að finna hver það væri sem nyti trausts meirihluta þingsins til að gegna ráðherraemb- ætti. Sérstaklega átti þetta við um þau skipti þegar ráðherrar Sjálf- stæðisflokksins gamla tóku við embætti. Sá flokkur var mun los- aralegra bandalag en Heimastjórn- arflokkurinn og átti engan óum- deildan leiðtoga sambærilegan við Hannes Hafstein í Heimastjórnar- flokknum. Eftir stórsigur Sjálfstæðisflokks- ins í kosningunum 1908 urðu átök um val á ráðherra innan flokksins, en helsti arkitekt kosningasigur- sins, Björn Jónsson, var nokkuð af- gerandi sigurvegari úr þeirri bar- áttu. Eftir að Björn hafði verið felldur sem ráðherra 1911 var hins vegar flokkurinn klofinn milli „sparkliðsins“ – sem hafði fellt ráð- herrann ásamt Heimastjórnar- mönnum – og þeirra sem stutt höfðu Björn. Ljóst var að einhver úr „sparkliðinu“ myndi hljóta hnossið en keppnin stóð á milli Kristjáns Jónssonar og Skúla Thor- oddsens. Skúli sendi konungi skeyti fyrir hönd Sjálfstæðisflokks- ins þar sem hann taldi sig hafa stuðning 19 þjóðkjörinna þing- manna Sjálfstæðisflokksins og hlutleysi tveggja til viðbótar. Þetta var meirihluti þingmanna, sem voru 40 að tölu og nokkuð drjúgur meirihluti þjóðkjörinna þing- manna (þeirra 34 þingmanna sem ekki voru konungkjörnir). Margir töldu hér á landi eins og víða er- lendis að konungkjörnir fulltrúar eða fulltrúar forréttindahópa í efri deildum þinga ættu ekki að hafa áhrif á framkvæmd þingræðisins. Þeir ættu til dæmis ekki að greiða atkvæði um vantraust á ráðherra. Ýmsir fleiri voru hins vegar í sambandi við konung, fyrir utan Skúla. Virðist þeirra mat hafa verið að Kristján Jónsson gæti tryggt sér nauman meirihluta í þinginu með tilstyrk Heimastjórnarflokksins, konungkjörinna þingmanna og einhverra stuðningsmanna Sjálf- stæðisflokksins. Stjórnvöld í Dan- mörku ákváðu að fylgja þeirra ráð- um og veittu Kristjáni ráðherra- embættið. Margir töldu að með þessu hefði verið gróflega brotið gegn starfsreglum þingræðisins, en tillaga um að rannsaka skeyta- sendingar til konungs var síðar felld á jöfnum atkvæðafjölda í þinginu. Mikil óvissa ríkti einnig um val á ráðherra árið 1915. Eftir að Sigurð- ur Eggerz hafði beðist lausnar frá embætti vegna ágreinings við dönsku stjórnina í sjálfstæðismál- inu var komin upp vandasöm staða í Sjálfstæðisflokknum þar sem hluti flokksins gat sætt sig við víðtækari málamiðlarnir en meiri- hlutinn. Þrír þingmenn flokksins, þeir Einar Arnórsson, Sveinn Björnsson og Guðmundur Hann- esson, voru í sambandi við konung vegna málsins og boðuðu í skeyti að ef þörf krefði myndu þeir gera tillögu um ráðherra. Skeytið var svohljóðandi: „We prefer account abnormal situation leave Majesty personal question if considered necessary we will propose Arnors- son Bjornsson Hannesson.“ Þetta orðalag getur vafist fyrir hverjum sem er. Konungsritari skildi það svo að hinir tveir síðarnefndu væru að gera tillögu um hinn fyrst- nefnda og hann var í framhaldinu skipaður ráðherra. Misskilningur konungsritara og stafrófsröð réð þannig vali ráðherrans. Sjálfstæð- isflokkurinn klofnaði í kjölfarið „langsum“ (þeir sem fylgdu ráð- herranum) og „þversum“. Heimastjórnarflokkurinn átti ekki í sams konar vandræðum með að velja ráðherra enda nokkur ein- hugur í flokknum um helsta leið- toga hans, Hannes Hafstein. Hannes naut mikillar velvildar í Danmörku, ólíkt ýmsum af leið- togum Sjálfstæðismanna, og vafa- laust greiddi það til dæmis fyrir því að hann, en ekki Valtýr Guð- mundsson, varð fyrsti ráðherra Ís- lands. En þau skipti sem Heima- stjórnarflokkurinn átti kost á að velja ráðherrann, 1904 og 1912, virðist enginn vafi hafa verið um útkomuna. Brotthvarf úr embætti Á heimastjórnartímanum mót- aðist smám saman sú venja að ráð- herra segði af sér þegar sýnt þætti að hann hefði glatað stuðningi meirihluta þings en biði ekki eftir vantraustsyfirlýsingu þingsins. Þannig sagði Kristján Jónsson af sér eftir Alþingiskosningar 1912, Hannes Hafstein eftir kosningar 1914 og Einar Arnórsson 1917. Fyrst í stað voru hins vegar nokkur áhöld um það með hvaða hætti lausn ráðherra úr embætti ætti að bera að. Hannes Hafstein og Heima- stjórnarflokkurinn fóru miklar hrakfarir í „uppkastskosningun- um“ 1908 og ljóst var að ráð- herrann naut ekki lengur stuðn- ings meirihluta þingsins. Hannes ákvað þrátt fyrir þetta að hverfa ekki úr embætti heldur bíða eftir að þing kæmi saman nærri hálfu ári síðar og lýsti á hann vantrausti. Hugsanlega vonaðist hann til – eins og sumir álíta – að geta breytt stöðunni með samningum við ein- staka þingmenn Sjálfstæðisflokks- ins þannig að hann þyrfti ekki að hverfa úr embætti. Hvernig sem því víkur við tókst honum að bæta nokkuð vígstöðu Heimastjórnar- flokksins eftir kosningarnar með því að skipa tvo konungkjörna þingmenn í stað tveggja sem afsal- að höfðu sér þingmennsku. Þetta gerði Hannes í krafti ráðherravalds eftir að ljóst var orðið að hann nyti ekki trausts meirihluta þings. Verð- ur að telja það heldur vafasama að- gerð og nefna má í því sambandi að þegar Heimastjórnarflokkurinn tapaði þingkosningum 1914 beið Hannes ekki eftir að þing kæmi saman heldur baðst strax lausnar. Eftirmaður Hannesar í ráðherra- embætti, Björn Jónsson, varð einn- ig að lúta í lægra haldi fyrir van- trausti þingsins. Eins og Hannes Hafstein tregðaðist Björn við að víkja þótt ljóst væri að hann hefði glatað stuðningi í þinginu og beið þess að vantrauststillaga kæmi fram. Slíkar tillögur komu fram í báðum deildum þingsins á þinginu 1911 og hlutu stuðning Heimastjórnarmanna og hluta samflokksmanna Björns. Þegar ljóst var að nægilega stór hluti samflokksmanna Björns myndi styðja vantraust til að það næðist í gegn hefði ef til vill verið hyggi- legra að biðjast lausnar og kanna það innan Sjálfstæðisflokksins gamla (sem hafði þingmeirihluta) með hvaða hætti mætti tryggja flokknum áframhaldandi valda- stöðu. Þetta gerðist ekki og eftir vantraustið blasti upplausn við innan flokksins. Frá því vantraust var samþykkt á Björn Jónsson árið 1911 hefur það aðeins einu sinni gerst að ríkis- stjórn hafi verið felld með van- trausti í þinginu. Það var árið 1950 þegar minnihlutastjórn Ólafs Thors var felld í vantraustsat- kvæðagreiðslu. Virðist það að mörgu leyti eðlilegri og heppilegri framkvæmd þingræðisreglunnar að ríkisstjórn eða ráðherra biðjist lausnar þegar ljóst er að trausti þingsins er eki lengur til að dreifa heldur en að beðið sé eftir form- legri vantraustsyfirlýsingu þings- ins. Veikur flokksagi Helsta skýringin á þeirri óvissu sem ríkti um framkvæmd þing- ræðisins á heimastjórnartímanum er hve flokkarnir voru lausir í reip- unum. Sjálfstæðisflokkurinn hafði enga fasta forystu og iðulega var óljóst hversu margir þingmenn myndu tilbúnir að styðja við hin ólíku ráðherraefni. Veik og óljós flokkaskipting er hins vegar ekki eina skýringin á því að framkvæmd þingræðisins gat virst reikandi á þessum tíma. Þannig virðist ljóst að hugmyndir íslenskra stjórn- málamanna um það með hvaða hætti stjórnarskipti ættu að bera að hafi verið nokkuð á reiki. Þar kemur aðallega tvennt til. Annars vegar hengdu fyrstu ráðherrarnir sig í óeðlilega mikinn formalisma þegar þeir höfnuðu því að víkja fyr- ir öðru en beinu vantrausti, jafnvel þótt ljóst væri að þeir nytu ekki stuðnings meirihluta í þinginu. Hitt atriðið sem vert er að nefna er staða konungkjörnu þingmann- anna. Að mörgu leyti virðist það hæpinn og ólýðræðislegur skiln- ingur á þingræði að ráðherra geti útnefnt nærri helming (43% nánar tiltekið) þingmanna annarrar deildarinnar og þessir þingmenn síðan ráðið úrslitum um traust eða vantraust þingsins á ráðherranum. Miklu eðlilegri skilningur hefði verið að þessir þingmenn tækju ekki þátt í að ákveða traust eða vantraust þingsins á ráðherra. Þingsæti konungkjörnu þing- mannana voru hins vegar afnumin með stjórnarskrárbreytingu árið 1915 og í staðinn kosið í sætin sex með hlutfallskosningu þar sem landið allt var eitt kjördæmi. Þingræði í mótun Þingfundur | Úr sal Sameinaðs þings snemma á 20. öld. Eftir Gunnar Helga Kristinsson Höfundur er prófessor í stjórn- málafræði við Háskóla Íslands. ’Helsta skýringin á þeirri óvissu sem ríkti umframkvæmd þingræðisins á heimastjórnartím- anum er hve flokkarnir voru lausir í reipunum. ‘

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.