Lesbók Morgunblaðsins - 07.04.2001, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 07.04.2001, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. APRÍL 2001 7 skoðunum um hvað væri „góð“ nútímalist og „góð“ listastofnun. Auk birtinga mynda og yfirlýsinga í tímarit- inu Kusama Orgy (Kusömu-svall) lét Kusama einnig taka stuttmyndir af uppákomum sínum sem síðan voru klipptar saman af Jud Yalkut í myndina Kusama’s Self-Obliteration (sjálfsaf- máun Kusömu) sem hlaut viðurkenningar á kvikmyndahátíðum. Listakonan tryggði þann- ig dreifingu hugmynda sinna utan hneyksl- isgreina New York-pressunnar og varðveitti einnig sem heimildir. Í titli myndar hennar kemur fram orðið „obliteration“ (afmáun eða útþurrkun) sem er eins konar samnefnari fyr- ir boðskap hennar á þessu tímabili: hún boðar afmáun sjálfsins, sjálfhverfingar og eigin- girni, líkt og í mörgum fyrri verka. Á þessum ötulu árum var Kusama einnig fatahönnuður og seldi „götóttar“ flíkur (and- hverfur doppanna) í ýmsum stórverslunum. Hún lét enga miðla framhjá sér fara til að ná til sem flestra og til að dreifa markvisst boð- skap sínum um ást og frelsi. Þessi vinnubrögð voru ekki alltaf að skapi listaheimsins og ungu listamannanna sem Kusama hafði deilt með bágum kjörum í byrjun áratugarins, en sem hlupu nú við fót upp opinbera viðurkenninga- stigann. Kusama varð því sífellt einangraðri í doppu- og uppákomuheimi sínum. Aftur til Japans Árið 1973 ákveður Kusama að flytjast alfar- in til Japans. Hún er 44 ára gömul, er búin að reyna það sem hún getur í Bandaríkjunum og finnur þörf fyrir breytingu en um leið festu. Af fúsum og frjálsum vilja biður hún um að mega dvelja á geðveikrahæli í Tókýó, þar sem hún hefur aðgang að læknisaðstoð og getur um leið sinnt list sinni. Þar hefur hún búið í pínu- litlu herbergi frá 1977 til dagsins í dag, en hin- um megin við götuna er „Studio Kusama“ þar sem hún vinnur með fjölda samstarfsfólks. Eftir heimkomuna hóf Kusama að skrifa fyrir alvöru og hefur birt alls nítján skáldsög- ur auk ljóðabóka. Sumar bækur hennar eins og The Hustler Grotto of Christopher Street (Vændishöllin í Christopherstræti) hafa hlotið alþjóðlegar viðurkenningar. En þessi fjölhæfa listakona lagði þó ekki myndlistina á hilluna heldur þróaði ný tjáningaform eins og úti- skúlptúra. Eftir að hafa verið talin lengi vel „snarbiluð“ af samlöndum sínum, er Kusama nú í hópi virtustu listamanna Japans og var fulltrúi lands síns á Feneyjatvíæringnum 1993, tæpum 30 árum eftir jólakúlu-uppá- komu sína. Síðan hefur hún sýnt vítt og breitt og henni var til dæmis helguð stór yfirlitssýn- ing í Bandaríkjunum (m. a. í MoMA!) og í Jap- an á árunum 1998–99. Nýjar innsetningar Ólíkt fyrri yfirlitssýningum er sýningin Ya- yoi Kusama installations (sem hófst í Dijon í Frakklandi, er nú í París til 19. maí, fer síðan til Óðinsvéa í Danmörku í júní-ágúst, því næst til Toulouse og endar í tveimur borgum í Kór- eu) samansett að mestu af algerlega nýjum verkum, unnum á síðasta ári. Mörg verkanna eru beinar tilvísanir í eldri verk eða þemu en útfærslan er ný. Þannig taka hundruð silfurkúlna á móti gestum í japönsku menningarmiðstöðinni í París. Þær eru að mestu innan svæðis sem er afmarkað glerrúðum og þegar kvöldar spegl- ast þær í margar áttir, rétt eins og spegilverk Kusömu. Ber þetta vel merki aðlögunarhæfni og rýmistilfinningu listakonunnar, því á síð- asta sýningarstað voru þær sýndar á allt ann- an hátt. Síðan tekur maður eftir vegg með röð málverka sem sýnast allt að því mónókrómísk (einlita) en eru þegar betur er að gáð ný út- færsla á Infinity Nets myndunum sem hún málaði fyrst um 1960. Því næst liggur leiðin inn í hvítan gang sem er klæddur hringlaga, kúptum speglum. Þessi innsetning, kölluð Invisible Life (ósýnilegt líf), er alveg ný og sérlega athyglisverð því í ein- faldleika sínum býður hún upp á margs konar lesningu. Áhorfandi sér afmyndaða spegil- mynd sína en einnig speglun hinna speglanna, sem verða eins og silfurlitar „doppur“. Er inn- ar dregur í ganginum er á vinstri hönd hjarta- laga gluggi en inn um hann sést endalaus röð af litlum, rauðum ljósaperum. Sýningargestur getur látið hug sinn og spegilmynd hverfa inn í þetta seiðandi hjarta, nefnt God’s Heart (hjarta Guðs). Eftir þessi hreinu, huglægu verk tekur allt í einu við herbergi sem virðist við fyrstu sýn of- ur venjuleg stofa. Þar eru borð, stólar, sófi, gluggi og plaköt á veggjum, bækur, glös og ýmist dót hér og þar, rétt eins og sá sem þar búi hafi aðeins brugðið sér frá. Allt í einu slokknar ljósið og í útfjólublárri birtu kvikna skínandi doppur í ýmsum litum út um allt: á veggjum, gólfi, húsgögnum og munum. Síðan kviknar ljósið aftur og þá greinir maður hvítar doppur þar sem áður voru ljóspunktar. Á opn- un sýningarinnar settist frú Kusama við eitt borðið og drakk hægt úr vatnsglasi. Á síðum, bláum kjól, háum hatti, hári hennar og húð voru sams konar doppur sem lifnuðu við um leið og doppur umhverfisins. Hún gefur þann- ig sýningargestum innsýn í eigin hugarheim þar sem allt rennur saman, þar sem hún sjálf „afmáist“ og verður órofa hluti af umhverfinu, tilfinning sem er vel lýst í titli verksins: I’m Here but Nothing (ég er hér en ekkert). Bak við luktar dyr í þessari „stofu“ er lítið herbergi þar sem opnast sannkölluð töfraveröld. Veggir og loft eru klædd speglum og gólfið vatni, fyrir utan lít- inn pall þar sem mest tvær til þrjár manneskjur rúmast í senn. Ofan úr loft- inu hangir urmull af litlum, lituðum ljósaperum sem speglast eins langt og augað eygir. Fir- eflies on the Water (eldflugur á vatn- inu) er ný og sérlega ljóðræn útgáfa af speglaherbergjum Kusömu. Eftir þessa mögnuðu upplifun er manni beint inn í álklædd- an gang sem umlyk- ur sexhyrnt rými með tveimur glugg- um þar sem sést inn í Infinity Mirrored Room – Love For- ever (speglarými óendanleikans – eilíf ást) sem er eina verkið sem er ekki frá síðasta ári held- ur 1996. Eins og í fyrri speglarýmum Kusömu endurvarp- ast mynd áhorfand- ans margfalt í takt við blikkandi ljósa- perur sem mynda alls kyns mynstur, líkt og í mynstur- kíki. Því næst er gengið inn í stórt, bjart her- bergi þar sem veggir, loft og stór, uppblásin form eru þakin marglitum doppum. Þetta verk, kallað Dots Obsession, New Century (doppuþráhyggja á nýrri öld) er í anda svip- aðra innsetninga sem hún hefur þróað frá 1996. Þetta nýaldarverk virðist þó bjartsýnna en þau fyrri því doppuþráhyggjan er í glaðleg- um litum á hvítum grunni. Viðbrigðin þegar gengið er inn í sal þar inn af eru mikil, því í þessu litla, svartmálaða herbergi er einungis stigi úr málmi og ljósþráðum sem liggur milli tveggja hringlaga spegla í gólfi og lofti. Ladd- er to Heaven er sannkallaður himnastigi, en hann liggur líka endalaust niður á við, sem getur skilist sem tákn fyrir svimandi víddir hugans. Síðasta hebergið á sýningunni er myndbandarými þar sem gestir geta látið fall- ast á marglitar, uppblásnar sessur (þrívíðar doppur) innan doppóttra veggja og horft á úr- val gjörningamynda Kusömu frá 1967 til dags- ins í dag og fengið þannig innsýn í mikilvægan hluta listaferils hennar. Popp-doppur? Þessi óvenju ferska, heildstæða og skemmtilega (í bókstaflegri merkingu þess orðs) sýning gefur því sérlega góða mynd af sköpun Yayoi Kusömu og þeim þemum sem hún hefur fengist og fæst enn við: þráhyggja, endaleysi, margföldun, speglun, afmáun, ást, doppur ... Undanfarið hefur gætt talsverðrar umræðu um 7. áratuginn og popp-menningu hans, eins og tísku- og hönnunarheimurinn endurspegla greinilega. List Kusömu er órofa hluti þessa tímabils, þar sem hlutir eins og pólitísk vit- und, friðarstefna, kynferðislegt frelsi, kven- frelsi, tilraunir með ofskynjunarlyf o.s.frv. voru sjálfsagðir meðal ungra listamanna (hún á til dæmis margt sameiginlegt með Andy Warhol). Þetta skýrir að hluta til „endur- komu“ Kusömu á sjónarsviðið, bæði í Japan (þar sem hún er dýrkuð meðal yngri kynslóð- ar listamanna) og á alþjóðlega vísu. En sýn- ingin sem nú er í gangi sýnir á ótvíræðan hátt að hér er ekki um tískubólu (eða doppu) að ræða heldur heilsteyptan listamann sem hefur virkjað eigin veikleika af hugrekki og list- fengi. Þegar greinarhöfundur gekk út úr sýning- unni lá leiðin eðlilega fram hjá Eiffelturninum sem er í nágranni japönsku menningarmið- stöðvarinnar. Eins og alltaf á heila tímanum á kvöldin fór turninn allt í einu að iða vegna blikkandi smáljósa sem þekja hann og kallast á við smástirndan næturhimin. „Vá,“ hugsaði ég, „doppóttur Eiffelturn. Endalaus ljós og himinn. Þetta þætti Kusömu flott.“ Því það er hægt að horfa á heiminn öðrum augum. Heimildir: Yayoi Kusama, Les presses du réel/Janvier, Studio Kusama, 2001 Yayoi Kusama, Phaidon Press, 2000 Yayoi Kusama 1958-68, LACMA / Japan Foundation / MoMA, 1998 Höfundur er listfræðingur. Garður Narkisossar í japönsku menningarmiðstöðinni í París, 1966–2000. C.-O. Meylan. Frá sýningu sinni upphrópanir: 1.000 báta sýning í Gertrude Stein Gallery í New York, 1963. Ljósmynd/Kusama Studio Kusama í verki sínu Eldflaugar á vatninu, 2000. Hvelfdir speglar í innsetningunni Ósýnilegt líf, 2000. Ljósmynd/A. Morin

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.