Lesbók Morgunblaðsins - 07.04.2001, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 07.04.2001, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. APRÍL 2001 Í ÞESSARI grein verður reynt að horfa á tíðina og tíðarandann frá sjónarhóli vís- inda. Á öldinni sem nú er liðin hefur vís- indunum fleygt fram sem aldrei fyrr. Jafnframt hafa þau haft sívaxandi áhrif á daglegt líf okkar. Framfarir 20. aldar í vísindum hafa bæði varðað skilning okk- ar á heiminum kringum okkur og eins ýmislegt sem við látum í askana og er oft kennt við tækni. Hér nægir að minna á að skammtafræði og afstæðiskenning mótuðust í upphafi aldarinnar. Erfðafræði Mendels kom þá fyrir alvöru fram á sjónarsviðið og átti eftir að reynast verðmæt viðbót við þróunarkenningu Darwins. Land- rekskenning Wegeners birtist einnig í frumgerð á fyrstu áratugum aldarinnar en átti að vísu erf- itt uppdráttar lengi vel. Nokkru fyrir miðbik aldarinnar kom kjarn- orkan fram á sjónarsviðið og vakti bæði vonir, vonbrigði og deilur um gildi vísindanna. Þá komu fram fyrstu eiginlegu tölvurnar og nokkru síðar komust menn að undirstöðuatriðunum í gerð erfðaefnisins DNA. Í sama mund voru fúkkalyfin einnig fundin upp. Menn fóru að beita hinni torskildu skammtafræði til smíða og tækniframfara, til dæmis í smárum (transistors) sem hafa verið undirstaða alls konar framfara í raftækni æ síðan, þar á meðal í tölvutækninni. Síðustu áratugir aldarinnar hafa einkennst af framförum í tölvum og hugbúnaði, í hvers kyns samskiptatækni, í líffræði og líftækni, í stjarn- vísindum og á fleiri sviðum. Í ýmsum tilvikum hafa menn þarna verið að nýta sér kenningar og hugmyndir sem komu fram á fyrri hluta ald- arinnar en virtust þá kannski ekki hafa neitt sérstakt hagnýtt gildi. Fróðlegt er í þessu viðfangi að hugsa til baka svo sem aldarfjórðung, til ársins 1975. Þá voru menn að vakna til vitundar um vistkreppuna sem svo er kölluð og stafar af sívaxandi efnis- legum umsvifum manna, fólksfjölgun, iðnvæð- ingu og eflingu borga. Á þessum tíma fór hvers konar neysla efnis og orku ört vaxandi meðal manna. Menn sáu ekkert lát á þeirri þróun en vissu jafnframt sem er að ýmsum auðlindum náttúrunnar eru takmörk sett. Hópar vísinda- manna spáðu þess vegna með beinum fram- reikningi fyrir um auðlindaþurrð og ýmiss kon- ar umhverfisspjöll. Skemmst er frá því að segja að þessar spár hafa ræst að ýmsu leyti en að öðru leyti ekki. Beint framhald af þeim má sjá í áhyggjum okk- ar af ósonlagi og gróðurhúsaáhrifum, upp- blæstri og ofnýtingu takmarkaðra auðlinda eins og til dæmis fiskistofna. Einnig hafa þær spár sannarlega ræst að kjarnorkan hefur ekki reynst sá bjargvættur í orkumálum mannkyns- ins sem talið var um 1970. Hins vegar hefur magn efnis og orku sem mannkynið notar ekki vaxið eins ört og menn héldu. Munar þar mestu að þróunin í átt til þyngri og orkufrekari hluta kringum okkur Vesturlandabúa hefur að ýmsu leyti stöðvast. Fyrir 20–40 árum beindist vaxandi neysla vestrænna þjóða öðru fremur að þungum og orkufrekum hlutum. Þar á meðal voru heim- ilistæki eins og kæliskápar, frystikistur, þvotta- vélar, uppþvottavélar og stór og efnismikil við- tæki og hljómflutningstæki. Einkabílum fór auk þess fjölgandi, þeir stækkuðu og eyddu meiri orku. Nú hefur hins vegar mjög dregið úr þess- ari þróun sem kenna má við efnismagn og orku, og hefur það til dæmis birst áþreifanlega í þróun raforkunotkunar. Að hluta til hafa önnur atriði sem við köllum lífsgæði komið í staðinn fyrir þungu málmhlut- ina sem menn voru að koma sér upp á þessum tíma. Skýrasta dæmið um það eru tölvurnar, hugbúnaðurinn sem þeim fylgir, og fjarskipta- búnaðurinn (farsímar og fleira). Þegar við kaup- um og notum slíka hluti erum við aðeins að litlu leyti að nota efni og orku, heldur liggur lang- mest af kostnaðinum, yfir 90%, í hugviti og þekkingu, forritun og fíngerðri tæknivinnu. En auk þess hefur tæknin þróast ört í þá átt að draga úr orkunotkun kringum þungu tækin. Í sumum tilvikum hafa tækin sjálf minnkað mjög, samanber hljómflutningstækin og hátal- arana sem fylltu stofuna áður fyrr en eru nú á við nokkrar bækur. Meðalbíll í einkaeigu hefur líka minnkað og orðið til muna sparneytnari og þannig á allan hátt til minna tjóns í umhverfinu, þrátt fyrir allt. En þó að neyslumynstrið hafi með þessum hætti tekið óvænta stefnu að nokkru leyti, þá er samt að mörgu að hyggja. Nægir þar að minna aftur á gróðurhúsaáhrif og ósonlag en skilning- ur á þeim málum á nú að nýju undir högg að sækja með nýjum Bandaríkjaforseta sem minn- ir okkur á að björninn er ekki unninn. Nýting takmarkaðra auðlinda er líka enn verulegt vandamál hvort sem við lítum til fiskistofna, ol- íu, málma, landrýmis eða skóga. Á köflum hefur verið býsna fróðlegt að fylgj- ast með því hvernig óvæntar breytingar á neyslumynstrinu hafa gengið fyrir sig. Til að mynda hefur það stundum verið hinn almenni neytandi, meðal annars í Bandaríkjunum, sem hefur tekið í taumana í trássi við framleiðendur og stórfyrirtæki. Þegar umhverfisvænar vörur eins og pappír og fleira voru upphaflega að koma á markað tók neytandinn þeim þannig miklu betur en kaupmenn bjuggust við. Ég man til dæmis glöggt þegar íslenskir kaupmenn töldu fyrirfram að enginn mundi kaupa þessar vörur en urðu að skipta um skoðun á nokkrum mánuðum. Þessi saga er þörf áminning um það að skynsemin kemur ekkert endilega að ofan. Nýstárlegasta úrlausnarefnið sem mannkyn- ið stendur nú frammi fyrir og tengist vísindum er í líftækni, ekki síst í erfðatækni. Þá sögu má líka rekja aftur til áttunda áratugarins. Þá voru líffræðingar víða um heim farnir að fikra sig áfram með að breyta erfðaefninu. Að þessu var meðal annars unnið í tiltölulega litlum háskóla- borgum í Bandaríkjunum og hinn almenni borg- ari vaknaði við vondan draum. Menn rifjuðu upp hina frægu sögu bresku skáldkonunnar Mary Shelley um Frankenstein sem tók sér fyrir hendur að búa til mann í rannsóknastofu en sat uppi með ófreskju sem hann hafnaði. Sumir töldu að ófreskjur og afstyrmi af sama toga gætu komist á stjá í bandarísku háskólaborg- unum. Vísindamennirnir sem að þessu unnu um heim allan héldu þá með sér sérstakan fund og sammæltust um að fresta rannsóknum meðan gengið væri úr skugga um að engin hætta væri á ferð. Þess konar frestun af frjálsum vilja sætir tíðindum í vísindum en eftir nokkur ár var rann- sóknum þó haldið áfram. Möguleikar erfðatækninnar eru svo nýir af nálinni að einstaklingar og samfélag eiga trú- lega langt í land að ná áttum, skilja hismið frá kjarnanum og sætta hin ýmsu sjónarmið sem uppi eru, bæði meðal vísindamanna og annarra. Eitt af því sem menn missa sjónar á í hitaupp- streymi umræðunnar er það, hver er hin raun- verulega undirrót þess að menn vilja nýta líf- tæknina til að bæta heilsufar manna. Okkur er öllum í blóð borið að berjast gegn kvillum og vanheilsu sem að okkur steðjar; það er sjálf lífshvötin. En ekki er nóg með það, held- ur viljum við líka að þeir sem við berum fyrir brjósti, ættingjar og vinir, lifi sem lengstu og bestu lífi. Við leggjum fúslega ýmislegt í söl- urnar til þess ef á þarf að halda. Sennilega er þessi hegðun okkar að sumu leyti líffræðilega ákvörðuð og tengd margs kon- ar óeigingirni í lífríkinu þar sem genið er að tryggja að það haldist í komandi kynslóðum. Þegar við látum okkur annt um börnin okkar er- um við auðvitað einum þræði að tryggja okkur eins konar „framhaldslíf“, svo að dæmi sé tekið, og þarf þá ekkert endilega að skilja það þröng- um skilningi líffræðilegra erfða eingöngu. En hvað sem því líður eru fáir menn svo kald- rifjaðir að þeir fagni ekki framförum í læknavís- indunum þegar svo ber undir. Kynslóð mín er til dæmis alin upp við það grunnviðhorf að krabba- mein sé ólæknandi. Í því efni hafa þó greinilega orðið gífurlegar framfarir á nokkrum áratugum, án þess að trumbur hafi alltaf verið slegnar út af einstökum atburðum eða uppgötvunum. En fáir geta væntanlega annað en glaðst þegar við fréttum af fólki sem lifir góðu lífi árum saman eftir að hafa greinst með þær tegundir krabba- meins sem áður voru taldar leiða til dauða á fáum mánuðum. Setjum okkur nú í spor Jóns Jónssonar, fjöl- skylduföður á miðjum aldri sem hefur greinst með tiltekinn sjúkdóm sem er talinn arfgengur að nokkru leyti eins og algengt er með sjúk- dóma á Vesturlöndum nú á dögum. Þess vegna eru verulegar líkur á því að sjúkdómurinn leynist í erfðaefni Jóns. Hann er nú beðinn að gefa ákveðnar upplýsingar sem leitt geti til þess að betri tök náist á sjúkdómnum. Að sjálfsögðu hvarflar ekki að honum annað en að verða við því! Umræða sem tekur ekki mið af þessu einfalda atriði er að mínu mati á villigötum. Má þó vel vera að Jón Jónsson eigi að hafa möguleika til að segja nei á svipaðan hátt og menn geta að vissu marki gert afkomendur sína arflausa, enda geta legið gildar ástæður til þess. Margir láta það auka sér gremju að ný lyf og aðrar framfarir í meðferð sjúkdóma kunna að skapa gróða í stórfyrirtækjum. Þessi gróði er þó ekki frumhreyfiafl framfaranna heldur felst það í óskum borgaranna um lækningu við meinum sínum og sinna. Þjáður sjúklingur sem gerir sér vonir um bata af tilteknu lyfi gerir sér yfirleitt ekki grillur út af því hver hafi framleitt það. Gróði fyrirtækjanna er hér í hlutverki tækis en ekki tilgangs; tækis sem notað er á þessu stigi samfélagsþróunarinnar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ég ræddi hér á undan stuttlega um efnis- neyslu og umhverfismál. Frá því sjónarhorni má meðal annars spyrja hvort ekki sé alltént skárra að Vesturlandabúar verji auði sínum til framfara í heilbrigðismálum en til dæmis til aukinnar einkabílanotkunar og annarra beinna umhverfisspjalla. Þar sem líftæknin er svo ný hafa menn greini- lega ekki lært að umgangast þau gögn sem þar þarf til rannsókna og hagnýtingar, einkum þau sem tengjast mönnum. Engin ástæða er þó til að ætla annað en að menn finni leiðir og úrræði sem duga, leiðir þar sem hagsmunir og viðhorf allra aðila eru tekin til greina. Þá er ekki síst mikilvægt að huga að hagsmunum sjúklinga í framtíðinni, en þeir virðast mér hafa átt fáa tals- menn í umræðunni fram að þessu. En mig grun- ar að einmitt þetta fræðasvið muni valda hvað mestum breytingum á lífi manna á næstu ára- tugum. Hitt er erfiðara að sjá nánar fyrir sér hverjar þær breytingar verða. En því meir sem ég hugleiði allar þessar miklu og linnulausu breytingar sem eru að verða á lífi manna, störfum og samskiptum, því meir undrast ég þá menn sem virðast halda að „sögunni“ sé lokið í þeim skilningi að samfélagið sjálft eða skipulag þess sé komið á einhverja endastöð, framtíðin verði eins og nútíðin að því leyti. Þetta segja menn blákalt þrátt fyrir þær gífurlegu breytingar sem eru sífellt að verða á samskiptum manna vegna nýrrar tækni. Ég get hins vegar vel ímyndað mér að þessi þróun leiði til breytinga á samfélagsgerðinni. En víst verð- ur bæði forvitnilegt og heillandi að fylgjast með því hvaða stefnu þær breytingar taka. FRANKENSTEIN OG FRÆÐIN Höfundur er prófessor í vísindasögu og eðlisfræði við Háskóla Íslands og ritstjóri Vísindavefjarins. Morgunblaðið/Kristinn „En því meir sem ég hugleiði allar þessar miklu og linnulausu breytingar sem eru að verða á lífi manna, störfum og samskiptum, því meir undrast ég þá menn sem virðast halda að „sögunni“ sé lokið í þeim skilningi að samfélagið sjálft eða skipulag þess sé komið á einhverja endastöð, fram- tíðin verði eins og nútíðin að því leyti.“ T ÍÐARANDI Í ALDARBYRJUN E F T I R Þ O R S T E I N V I L H J Á L M S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.