Tíminn Sunnudagsblað - 28.04.1963, Qupperneq 4
Burt frá Reykjavík. — LeiðLn liggur
upp í Miðdal eftir bugðóttum vegi.
Víðs vegar liggja stuttir vegarspottar
út frá honum eins og greinar á tré,
enda allt í einu upp úr þurru hjá
steinsteyptum- plötum á melhólum.
Þessar steinplötur væru manni jafn
óskiljanlegar og vegarspottarnir, ef
maður vissi ekki, að eitt sinn var ís-
land hernumið. Þetta eru Leifarnar
frá hermennsku Breta og Bandarikja-
manna á íslandi á stríðsárunum: —
Fánýtir vegarspottar og braggagrunn
ar, sem spilla útsýninu og vekja með
manni tómlega ógeðstilfinningu.
— Áfram liggur vegurinn og að
baki; Miðdalur blasir við utan í há-
um ási með glampandi Hafravatn í
baksýn, Úlfarsfell og Esjuna. Slétt
tún niður undan bænum, framræstar
mýrar . . . íslenzk sveit svona stutt
frá Reykjavík útlandsins, — ótrúlegt
en satt.
Fjórir hundar koma þjótandi á
móti bílnum. Þrír lágvaxnir og stutt-
fættir, sá fjórði loðinn, skozkur á
svip. Tryggvi Einarsson, bóndinn í
Miðdal, hastar á þá, segir: — Ég
tala ekki við þig nema þú skoðir trén
hjá mér. Svo göngum við niður í
kvos stutt frá bænum, þar sem tveir
sumarbústaðir standa. Þeir Sveinn og
Haukur, bræður Tryggva, eiga þá.
Einn bróðirinn enn, Guðmundur Ein-
arsson myndhöggvari, á sumarbústað
lengia niður með veginum. — Lækur
liðast um kvosina og hefur augastað
á Hafravatni. Hér stóð kornmyllan
hans afa míns, segir Tryggvi. Hann
malaði korn fyrir austanbændurna-
Hún stóð enn, þegar ég var strákur,
en löngu hætt að mala, því að afi
hætti búskap 1890. Það var líf og
fjör við lækinn hér þá. Menn komu
með korn, mylluvængirnir snérust, og
konur þvoðu þvott við lækinn milli
þess, sem þær hjálpuðu til við möl-
unjna. Sumir sjá þær enn þá krjúp-
andi við lækinn með þvottinn á stein-
unum. — Sérðu þessi tré þarna. Þau
eru orðin jafn há símastaurum, vant-
ar bara gildleikann. Hann Helgi
Sæm hefði átt að standa við þau og
snúa réttum enda fram. Við höfum
verið að gera tilraunir hér, bræð-
urnir, og nú getum við farið að
gróðursetja af fullum krafti.
Þegar við snúum heim á leið, berst
talið að stríðsárunum. Herinn var
hér allt í kringum bæinn: — Já, þeir
færðu sig alltaf nær og nær bænum,
segir Tryggvi. Svo ætluðu þeir að
byrja að byggja á holtinu fyrir ofan
túnið. Þá fór ég að svipast um eftir
vopni. Ég varð að finna eitthvert
vopn, sem dygði á þá, því að sjálfir
voru þeir með alvæpni. Ég sá, að
þeir voru þannig byggðir aftan fyrir,
Bretarnir, að steypuskófla væri bezta
vopnið gegn þeim. Þeir voru þá
komnir með tinda, hæla og drasl upp
á holtið, en ég rak þá á flótta með
steypuskóflunni. Þeir miðuðu á mig
rifflunum, en ég fékkst ekkert um
það. Svona voru okkar viðskipti. Það
þýddi ekki annað en vera harður,
annars hefðu þeir vaðið um allt. Þeir
skildu alltaf, hvað ég meinti, þegar
ég kom með steypuskófLuna. Einu
sinni komu á móti mér 5—6 riffil-
menn, miðuðu á mig og skipuðu mér
að stíga upp á bílpall. Ég gerði. það
þeim til hæfis. En uppi á pallinum
kippti ég rifflinum af einum her-
mannanna. Ég ætlaði með því að sýna
þeim, að ég vildi vera vopnaður eins
364
T í M I N N — SUNNUDAGSBLAÐ