Morgunblaðið - 26.04.2004, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 26.04.2004, Blaðsíða 10
FRÉTTIR 10 MÁNUDAGUR 26. APRÍL 2004 MORGUNBLAÐIÐ „ÞAÐ ER kominn tími til að hér á landi fari fram hlutlaus rannsókn á því ferli, sem leiddi til þeirrar ákvörðunar Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar að setja Ísland á lista hinna sjálfviljugu þjóða sem studdu innrásina í Írak,“ sagði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylk- ingarinnar, á opnum landsmálafundi flokksins á Egilsstöðum á laugardag. Frummælendur á fundinum voru þau Össur Skarphéðinsson, Einar Már Sigurðarson og Lára Stefáns- dóttir. Gerð að taglhnýtingum Bandaríkjamanna Össur sagðist ekki muna eftir að jafn harðri umræðu um utanríkismál og verið hefði í vetur. „Það sem veld- ur þessu er að sjálfsögðu sú skelfi- lega ákvörðun íslensku ríkisstjórn- arinnar að setja okkur Íslendinga, án samráðs við Alþingi og þjóð, á lista hinna þrjátíu sjálfviljugu ríkja sem studdu innrásina í Írak. Við, friðsæl þjóð, án hers, án vopna, vorum gerð að ósjálfstæðum taglhnýtingum Bandaríkjamanna í Írak án þess að nokkur íslenskur forystumaður í rík- isstjórn reyndi að grafast fyrir um hvaða nauðir ráku til innrásarinnar. Það fór engin sjálfstæð rannsókn fram á því af hálfu íslenskra ráða- manna hvað var á bak við staðhæf- ingar um gereyðingarvopn í Írak. Utanríkisráðherra hafði margoft sagt að það væri nauðsynlegt að gefa vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að leita af sér allan grun um hvort slík vopn væri að finna í Írak.“ Össur sagði að eitt símtal frá Dav- íð Oddssyni virtist hafa dugað til að breyta afstöðu Halldórs. Forsendur innrásar- innar breyttar Össur sagði merkilegt að íslenskir ráðamenn fetuðu í slóð þeirra er- lendra ráðamanna sem héldu því nú fram að tilefni innrásarinnar í Írak hafi ekki verið að leita uppi gereyð- ingarvopn, heldur að frelsa írösku þjóðina undan Saddam Hussein. „Hvaða frelsi er það sem ríkir nú í Írak?“ spurði Össur. „Hvaða frelsi er það til dæmis fyrir íraskar konur að geta ekki farið út úr húsi um hábjart- an dag vegna þess að stjórnleysi rík- ir á götum í Írak? Hans von Spon- neck er yfirmaður mannúðar- aðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Írak. Hann segir að frelsið sem Írakar búi nú við sé miklu verra heldur en það frelsi sem þeir, þrátt fyrir allt, höfðu fyrir innrásina. Van Sponneck segir einnig að eins og þróunin er, telji hann að það frelsi sem Írakar muni búa við eftir fimm ár verði minna en þeir höfðu á dögum Saddam Huss- ein.“ Brutu lög „Ég verð að undirstrika sem ís- lenskur alþingismaður, að mér þótti sárt að íslenskir ráðamenn spurðu hvorki þjóðina né Alþingi um hvort stuðningur væri við þessa aðgerð ríkisstjórnarinnar. Þeir brutu þess vegna lögin sem kveða skýrt á um að gagnvart meiri háttar ákvörðunum í utanríkismálum á að hafa samráð við utanríkismálanefnd þingsins. Þeir brutu með öðrum orðum lög til þess að þjóna hagsmunum Bush Banda- ríkjaforseta og bandarísku þjóðar- innar. Vitum við hvað varð til þess að við Íslendingar urðum með beinum hætti þátttakendur og stuðningsaðil- ar styrjaldarinnar í Írak? Það hefur aldrei komið fram, en það hrannast upp nýjar staðreyndir dag eftir dag, sem sýna að það var ekki fótur fyrir röksemdum íslenskra ráðamanna um nauðsyn þess að íslenska þjóðin væri teymd til að styðja innrásina í Írak. Það er kominn tími til að hér á landi, eins og annars staðar, fari fram hlutlaus rannsókn á því ferli sem leiddi til þessarar ákvörðunar Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar að setja Ísland á lista hinna sjálfviljugu þjóða sem studdu innrásina. Skoða þarf á hvaða for- sendum sú ákvörðun var tekin, hvernig hún var tekin og sérstaklega hvernig utanríkisráðherra sinnti því, sem hlýtur að vera sjálfsögð rann- sóknarskylda á þeim forsendum sem innrásin var háð á, áður heldur en að hann tók ákvörðun sína um að hnýta okkur í tagl Bush Bandaríkjafor- seta.“ „Við í Samfylkingunni munum hafa forgöngu um það meðal stjórn- arandstöðunnar, með hvaða hætti verður lagt til við Alþingi Íslendinga að þessi rannsókn verði tekin upp. Það er hægt að gera það með tvenn- um hætti. Annars vegar með því að utanríkismálanefnd þingsins taki að sér að kanna þetta og kalli fyrir sig þá ráðamenn íslenska sem myndi þá bera skylda til að greina nefndinni frá tildrögum þessa máls. Hins vegar gætum við nýtt okkur ákvæði stjórn- arskrárinnar til þess að setja upp sjálfstæða rannsóknarnefnd. Ís- lenskir ráðamenn verða að gera þetta mál upp og greina íslensku þjóðinni frá því með hvaða hætti hún var tengd inn í þennan hildarleik.“ Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir Jónína Rós Guðmundsdóttir og Lára Stefánsdóttir voru meðal fund- armanna á opnum fundi Samfylkingarinnar á Egilsstöðum. Vilja hlutlausa rann- sókn á ákvörðun um stuðning við innrás Íslenskir ráðamenn verða að gera Íraksmálið upp og greina íslensku þjóðinni frá því með hvaða hætti hún var tengd því, segir formaður Samfylkingarinnar. Egilsstöðum. Morgunblaðið. SKIPTAR skoðanir voru á málþingi um verðbreytingar á lyfjum, sem Ör- yrkjabandalag Íslands boðaði til á laugardag í tilefni af fyrirhuguðum breytingum á lyfjaverði sem taka munu gildi 1. maí. Þeirri spurningu var varpað fram í upphafi málþingsins hvort tvöfalt heilbrigðiskerfi yrði að veruleika á Ís- landi á baráttudegi verkalýðsins 1. maí og ræddu frummælendur kosti og galla hins nýja fyrirkomulags, svo- kallaðs analog eða hliðræns kerfis, en það felur í sér að tekið verður upp við- miðunarverð lyfja með sambærileg meðferðaráhrif í þremur kostnaðar- sömustu lyfjaflokkunum, en undir þau falla m.a. gigtarlyf, kólester- óllækkandi lyf og geðdeyfðarlyf. Tryggingastofnun mun þá miða greiðsluþátttöku sína við þessi við- miðunarverð með svipuðum hætti og nú gildir um viðmiðunarverð sam- heitalyfja. Í upphafsávarpi ráðstefnunnar sagði Garðar Sverrisson hættu á að fagleg sjónarmið myndu víkja fyrir fjárhagslegri aðstöðu sjúklinga sam- kvæmt hinu nýja kerfi, þar sem nið- urgreiðsla á lyfjum myndi breytast og dýrari lyf einungis á færi hinna efna- meiri. Sagði Garðar allt stefna í að hér á landi yrði „tvöfalt heilbrigðiskerfi, eitt fyrir hina efnameiri og annað fyr- ir hina efnaminni.“ Mikilvægar sparnaðar- ráðstafanir Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðar- maður heilbrigðisráðherra, sagði nýja kerfið ætlað til að sporna við útgjalda- aukningu í lyfjakostnaði, en að öllu öðru jöfnu væri lyfjakostnaður hér á landi um 4,4 milljörðum króna meiri en í Noregi í samanburði, eða rúm þrjátíu prósent. Því vildi ríkið beina neytendum að lyfjum með lægri verð. Sagði Sæunn ríkið nú tilbúið til sam- starfs við hagsmunahópa og lækna til að útfæra nánar þetta kerfi. Lyfjakostnaður landsmanna var tæpir 14 milljarðar kr. á síðasta ári. Hlutur ríkisins í þessari upphæð var 9,4 milljarðar. kr. Í fjárlögum yfir- standandi árs er gert ráð fyrir 450 milljóna sparnaði á fyrirsjáanlegum lyfjaútgjöldum Tryggingastofnunar. Lyfjaverðsnefnd hefur m.a. unnið að lækkun lyfjaverðs með gildistöku 1. júlí nk. sem nemur um 500 milljóna kostnaðarlækkun á heildarútgjöldum vegna lyfja á ársgrundvelli. Sæunn benti á þessar ráðstafanir og sagði að verið væri að reyna að ná tökum á sí- auknum lyfjakostnaði ríkisins. Einar Magnússon, yfirlyfjafræð- ingur heilbrigðisráðuneytisins, sagði ráðherra hafa lagt á það áherslu að sparnaður yrði ekki lagður á sjúk- linga. Þá væri ljóst að notkun margra lyfja, þar á meðal gigtarlyfja og Rítal- íns og amfetamínlyfja væri farin úr böndum og mikilvægt að koma henni í skorður. Með hliðræna kerfinu væri reynt að finna ódýrustu sambærilegu meðferðina sem í boði væri. „Það er ekki rétt að verið sé að hækka verð, aftur á móti er verið að reyna að lækka það,“ sagði Einar m.a. Í máli Péturs Haukssonar geð- læknis kom fram að sjúklingar búa yf- ir mikilli reynslu af lyfjum sem ekki er hlustað á. Sjúklingar geti þannig vottað um mismunandi virkni lyfja, þar sem þeir væru þeir sem upplifa þau. Sagði Pétur hins vegar svindlað á kerfinu á ýmsan hátt. Þannig væru margir lyfjaskápar fullir af óþörfum lyfjum, þar sem sum apótek bjóði upp á 100% afslátt af afgreiðslugjaldi, sé vísað á þriggja mánaða skammt af lyfjum í stað eins. Þannig vildi Pétur meina að mikið magn lyfja væri selt að óþörfu. Emil Thoroddsen, framkvæmda- stjóri Gigtarfélags Íslands, sagði gigt- arsjúkdóma stærstu orsök fötlunar. Gríðarlegir hagsmunir væru fyrir stóran hóp að lyfjaverð sé lágt. „Við getum vissulega ekki mótmælt áformum um að lækka lyfjaverð, en við getum mótmælt ráðstöfunum sem rýra möguleika á fullnægjandi með- ferð,“ sagði Emil og bætti við að ljóst væri í því samkomulagi sem ríkir hér á landi að Íslendingar vildu ekki að efnahagur stýri meðferðarúrræðum. Undanþága á orði en ekki á borði Ingunn Björnsdóttir, fram- kvæmdastjóri Lyfjafræðingafélags Íslands, furðaði sig meðal annars á því að ekkert samráð hefði verið haft við lyfjafræðinga og spurði: „Hvers vegna þurfa íslensk yfirvöld að vísa í þriggja ára gömul dönsk skýrsludrög til að rökstyðja ráðstafanir og án þess að hafa samráð við samtök fagfólks.“ Í erindi sínu sagði Matthías Hall- dórsson aðstoðarlandlæknir ljóst að jafnrétti fólks til heilbrigðisþjónustu væri grundvöllur samfélagsrekinnar heilbrigðisþjónustu. Sagði hann not- endagjöld æskileg í hófi en ekki mega verða þannig að fólk veigri sér við því að kaupa sér lyf. Mikilvægt væri að þörf fólks fyrir lyf réði lyfjavali en ekki eitthvað annað. Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, sagði vaxandi kostnað við heilbrigðisþjón- ustu með erfiðari vandamálum sem Íslendingar standi nú frammi fyrir. Sagði hann muninn liggja í innkaupa- verði og lélegum samningum við lyfjafyrirtækin. „Maður leiðréttir ekki svona vitleysu með meiri vit- leysu,“ sagði Kári og bætti við að hon- um fyndist það slappt í auðugu vel- ferðarsamfélagi að grípa til ráðstafana sem skerða þjónustu við sjúklinga. Umræður eftir framsögur voru snarpar og komst nokkur hiti í fund- armenn um tíma. Í máli lækna og hagsmunasamtaka sjúklinga kom fram að þrátt fyrir að í lögunum væri opið fyrir möguleika á undanþágum frá viðmiðunarverði með læknisfræðilegum rökstuðningi, vegna dýrari lyfja, væri svar Trygg- ingastofnunar afar einfalt, en þar væri öllum umsóknum neitað. Sam- skiptin við Tryggingastofnun væru með því móti að næstum ómögulegt væri að fá undanþágu vegna dýrari lyfja. Þá benti Kári Stefánsson á að hlið- rænt kerfi væri ekki við lýði í Dan- mörku, en þó væru þeir með lægri lyfjakostnað. Vandamálið fælist þá mun frekar í því að ná betri samn- ingum við lyfjafyrirtæki og bæta inn- kaupaverð lyfja. Jón Kristjánsson heilbrigðisráð- herra vildi í samtali við Morgunblaðið í gær ekki tjá sig um gagnrýni á breytt kerfi. Málþing um breytingar á lyfjaverði og verðhækkanir á lyfjum til sjúklinga Þörf sjúklinga ráði en ekki efnahagur Morgunblaðið/Sverrir Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalagsins, gagnrýndi nýjar regl- ur heilbrigðisráðuneytisins um lyfjakostnað sem taka eiga gildi 1. maí. FJÖLDI fólks lagði leið sína á Frost Activity, sýningu Ólafs Elíassonar í Listasafni Reykjavíkur í gær, en þá var síðasti sýningardagur. Soffía Karlsdóttir, kynningarstjóri lista- safnsins, segir að um átta til níu hundruð manns hafi komið á sýn- inguna í gær en alls hafi um 40.000 manns séð sýninguna, sem stóð yfir í rúma þrjá mánuði. „Hingað hefur verið stríður straumur fólks frá því klukkan tíu í morgun,“ sagði hún í samtali við Morgunblaðið í gær, en sýningunni lauk kl. 18 síðdegis, klukkutíma síðar en áformað var, vegna góðrar aðsóknar. „Þetta er al- gjört met í aðsókn á lokadegi sýn- ingar, ekki síst í ljósi þess hvað hún hefur staðið lengi yfir.“ Aðspurð segir Soffía að aðal- ástæða góðrar aðsóknar sé sú að Ólafur sé frábær listamaður. Níu hundruð manns á Frost Activity í gær UNDIRRITAÐUR hefur verið kjarasamningur milli Samtaka at- vinnulífsins (SA) og Matvæla- og veit- ingasambands Íslands (MATVÍS) en í því eru matreiðslumenn, framreiðslu- menn, kjötiðnaðarmenn og bakarar. Samningurinn gildir frá 24. apríl 2004 til ársloka 2007 og eru almennar launahækkanir og hækkanir á lífeyr- isframlögum þær sömu og í fyrri samningum SA. Niels S. Olgeirsson, formaður MATVÍS, segist bærilega sáttur við samninginn þótt svigrúmið hafi ekki verið mikið þar sem búið hefði verið að leggja línurnar. „Reyndar vorum við aðeins að taka til hjá okkur í samn- ingnum og samræma ýmsa þætti sem höfðu ekki gengið áður, s.s. uppsagn- arfrest og orlof. Við vorum einnig að fá inn taxta fyrir þá sem eru með meistaraskóla, flokkstjóra o.s.fr.v. Við vorum líka að færa tölurnar svo- lítið nær raunveruleikanum. Við erum nokkuð sáttir,“ segir Niels. MATVÍS semur ♦♦♦

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.