Lesbók Morgunblaðsins - 13.11.2004, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 13. nóvember 2004 | 3
námi loknu leikstýrði hann Skýfalli í Nem-
endaleikhúsinu og Hr. Maður, einnig í Vestur-
porti. Að því loknu lá leiðin til Svíþjóðar þar
sem hann setti upp verkið Arabísk nótt hjá
Borgarleikhúsinu í Stokkhólmi. Og nú er Egill
að leggja lokahönd á sitt fyrsta leikverk sem
byrjað verður að sýna á litla sviði Turbine-
halla Konunglega danska leikhússins hinn 19.
nóvember.
Dreymdi ekki um Konunglega leikhúsið
Fyrir tveimur árum, þegar Egill útskrifaðist
sem leikstjóri af leikstjórnarbraut Danska
leiklistarskólans, dreymdi hann hvorki um né
langaði til að starfa hjá Konunglega leikhúsinu
sem er langstærsta og umsvifamesta leikhús í
Danmörku. Í hans augum var Konunglega
leikhúsið staðnaður risi sem setti upp klassísk
og lítt tilraunakennd leikverk. Skömmu eftir
útskrift Egils tók hins vegar nýr leikhússtjóri
við, sem hafði nýjar hugmyndir um leiklist og
vildi breyta til í leikhúsinu.
„Þegar Mikkel Harder Munck-Hansen tók
við sem leikhússtjóri markaði hann leikhúsinu
strax nýja stefnu. Hann ákvað meðal annars að
setja upp svið sem væri eingöngu fyrir avant-
garde starfsemi, og var litla svið Turbine-
hallanna tekið undir það,“ segir Egill. Í janúar
síðastliðnum fékk Egill svo upphringingu þar
sem honum var boðið að taka þátt í að móta
starfsemi þessa nýja sviðs. Hann tók boðinu og
hefur unnið að því verkefni allt árið með
hléum.
„Við byrjuðum á því að gera plan fyrir þetta
nýja svið. Markmiðið með breytingunum var
að skapa svið sem var ætlað til framúrstefnu-
legra og tilraunakenndara leikhúss. Leikhúss
sem hleypir inn yngri kynslóð af leikstjórum
og gefur þeim tækifæri til að þróa sitt leik-
hústungumál. Það má segja að í okkar huga
geti leikhúsið svo miklu meira en það gerir í
dag, í þá átt að þróa listina sjálfa og gera leik-
húsið að stað sem fólk langar til að fara á. Stað
þar sem fjallað er um sömu mál og fólk veltir
fyrir sér og spurt er sömu spurninga og það
spyr sig. Leikhúsið á ennfremur að vera staður
þar sem fólk getur látið koma sér á óvart. Þar
sem væntingar um hvað borgaralegt leikhús á
að vera ráða ekki ferðinni, heldur forvitnin yfir
því sem sviðið getur boðið upp á,“ segir Egill.
Kveikja líf í leikhúsinu
Út frá þessari stefnumörkun ákváðu Egill og
samstarfsmenn hans að litla svið Turbine-
hallanna yrði svið þar sem ekki væri byggt á
tilbúnum handritum, heldur væri leikstjór-
unum sjálfum falið að skapa eigin handrit.
Áhorfendasalurinn var tæmdur, á þann hátt að
kortagestir í áskrift fá ekki sjálfkrafa aðgang
að leiksýningum sviðsins. Einnig var ákveðið
að kveikja líf í anddyri leikhússins – þar er
klúbbur með tónlist á fimmtudögum, mál-
fundir um brennandi málefni á laugardögum
og endrum og sinnum eru þar frumflutt út-
varpsleikhús, en þá geta hlustendur lagst á
dýnu á gólfinu, látið fara vel um sig og hlustað
á leikhús. Egill og samstarfsfólk hans hafa
þrjú ár til að fylla þetta nýja leikhús af fólki og
marka því sess í dönsku leikhúslífi. Verk Egils,
„Galskab“ eða „Brjálæði“, er fyrsta verkið sem
sýnt er undir formerkjum þessa nýja leikhúss
og er umgjörð þess heldur óvenjuleg.
„Brjálæði“ og skynsemi
„Kveikjan að verkinu er bókin „The History of
Madness in the Age of Reason“ eftir franska
heimspekinginn Michel Foucault. Í verkinu út-
færi ég þessar hugmyndir um hvað í okkar
evrópska samfélagi er talið eðlilegt annars
vegar og óeðlilegt hins vegar, hvar landamæri
okkar og „grensur“ liggja.
Í krafti þessarar kortlagningar landamæra,
hugmynda um forsjálni, skynsemi og vís-
indahyggju, hefur Evrópubúum tekist í gegn-
um 2000 ára menningarsögu okkar að tröllríða
heiminum. Evrópa hefur upphafið sig yfir aðr-
ar menningarþjóðir í gegnum tíðina, hvort sem
er með heimsvaldastefnu eða öðrum aðferðum,
og þetta fjöllum við líka um í verkinu.
Til þess að geta farið í saumana á þessum
hugmyndum velja leikararnir sér geðsjúkdóm
til að vinna út frá. Handritið er samsetning af
textum eftir aðra – svokallað „devised play“ –
eiginlega svona „copy/paste“ handrit þar sem
raðað er saman textum eftir ýmsa höfunda,
Marx, Foucault, Freud og ótal fleiri. Við erum
þrír sem sitjum í ritstjórn verksins en ég hef
yfirumsjón með leikstjórn og strúktúr þess.“
Lifandi leikverk í stöðugri þróun
Þegar viðtalið er tekið eru tæpar þrjár vikur í
frumsýningu og verkið enn að taka breyt-
ingum. „Þetta form leiklistar kallar á enda-
lausa ritstýringu auk þess sem verkið tekur
miklum breytingum eftir að við sjáum það í
sviðsetningu. Ég býst ekki við að það verði
endanlega tilbúið fyrr en stuttu fyrir frumsýn-
ingu,“ segir Egill sem þó virðist sallarólegur
yfir óvissunni sem fylgir því að setja verk á
svið með þessum hætti.
„Já, ég er alveg pollrólegur yfir þessu, að-
allega vegna þess að endanlegt útlit verksins
er minn höfuðverkur. Ég ber ekki ábyrgð á því
að túlka verk annars höfundar á réttan eða
rangan hátt. Ef svo væri yrði ég eflaust stress-
aður, en með þessu formi erum við búin að losa
okkur við hugmyndina um rétt og rangt og það
gefur mér aukið frelsi til að vinna.“
Þótt Egill hafi unnið bæði á Íslandi og í Dan-
mörku og Svíþjóð undanfarin tvö ár, segir
hann töluvert skorta á flæði á milli leik-
húsheimsins á Íslandi og leikhúsheimsins á
hinum Norðurlöndunum. „Það er auðvelt að
tengjast fólki hér og sem annar tveggja leik-
stjórnarnema í leiklistarskólanum hér kynnist
maður fljótt helsta fólkinu í bransanum, bæði
hér og annars staðar á Norðurlöndum. Mér
virðist sem Norðurlöndin séu mjög tengd
hvert öðru á þessu sviði en það skorti örlítið
upp á að þetta flæði nái til Íslands. Það er auð-
veldara að komast að hér með sínar hug-
myndir en á Íslandi. Vesturport var til dæmis
stofnað af ungu leikhúsfólki vegna þess að við
komumst ekki að með okkar hugmyndir,“ seg-
ir Egill.
Spurður hvort ekki sé óvenjulegt sem leik-
stjóri að fá strax svona mikið að gera, segir
hann: „Bekkjarsystir mín úr leikstjórnarnám-
inu hefur, veit ég, líka nóg að gera, og ég er
mjög ánægður að fá tækifæri. En það sem mér
þykir vænst um er að fá að gera það sem ég hef
áhuga á,“ segir Egill og vísar þar í áhuga sinn á
að skapa leikhúsinu nýtt hlutverk, að afbyggja
leikverkið og fanga kraftinn sem felst í eyði-
leggingunni.
Ætlaði að verða arkitekt
Þegar Egill var yngri leit ekki út fyrir að hann
myndi starfa við leiklist. Að loknu stúdents-
prófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð ætl-
aði hann að fara til Spánar og læra arkitektúr,
en móðir hans er spænsk. Eitthvað olli því þó
að Egill sótti um í Leiklistarskóla Íslands og
komst inn. Þegar hann sótti um hafði hann
ekkert fengist við leiklist, en það var eitthvað
sem heillaði. Þegar leið á leiklistarnámið
kviknaði áhugi Egils á því að leikstýra og frá
útskrift úr Leiklistarskóla Íslands hefur hann
fengist við leikstjórn. Allt lítur út fyrir að hann
haldi því áfram því verkefnin fram undan eru
ekki síður spennandi en það sem hann hefur
verið að fást við.
Að lokinni frumsýningu á „Brjálæði“ fer
hann beint til Helsinki að setja upp verk fyrir
leiklistarhátíð um nýja evrópska leikritun,
verkið „Electronic City“ eftir Þjóðverjann
Falk Richter. Að því loknu sér hann fram á að
komast í langþráða smíðavinnu í íbúð sem
hann hefur fest kaup á ásamt eiginkonu sinni
Margréti Vilhjálmsdóttur leikkonu, kennslu
við Leiklistarháskólann og Útvarpsleikhúsið.
Með vorinu hefst hann svo handa við að leik-
stýra Rambó 7, nýju verki eftir Jón Atla Jón-
asson, í Þjóðleikhúsinu. Af ofansögðu er ljóst
að af verkefnum er nóg hjá Agli Heiðari Ant-
oni, en spurningin er hvort hann finnur tíma til
að flytja inn í nýju íbúðina sína.
TENGLAR
..........................................................
Tenglar: www.kgl-teater.dk
Burt með væntingar um borgaralegt leikhús
Ljósmynd/Jens Dige
„Mér virðist sem Norðurlöndin séu mjög tengd hvert öðru á þessu sviði en það skorti örlítið upp á að þetta
flæði nái til Íslands. Það er auðveldara að komast að hér með sínar hugmyndir en á Íslandi. Vesturport
var til dæmis stofnað af ungu leikhúsfólki vegna þess að við komumst ekki að með okkar hugmyndir.“
Ljósmynd/Jens Dige
Egill Heiðar Anton Pálsson segir leikhúsið eiga að koma fólki á óvart. „Þar sem væntingar um hvað borgaralegt leikhús á að vera ráða ekki ferðinni, heldur forvitni yfir því sem sviðið getur boðið upp á.“