Lesbók Morgunblaðsins - 13.11.2004, Page 11

Lesbók Morgunblaðsins - 13.11.2004, Page 11
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 13. nóvember 2004 | 11 S íðasta skáldsaga þín, Annað líf, fjallaði um konu frá Taílandi sem kemur hingað og býr með ís- lenskum manni, óttalegum þumbara eiginlega. Síðan hef- urðu skrifað tvær barnabækur, þá síðari Skrýtnastur er maður sjálfur um afa þinn Halldór Laxness. Sú bók var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sem og fyrsta skáldsaga þín, Stjórnlaus lukka. Í nýju bókinni er bernska aðalpersónunnar mik- ilvægur hluti af frásögninni. Þú lýsir líka af- skaplega fallegu sambandi á milli aðalpersón- unnar Klöru og Nonna, átta ára systursonar hennar. „Mér finnast börn mjög skemmtileg. Svo er þetta fyrst og fremst barnið í sjálf- um manni sem er á ferðinni. Ég held að barna- bækurnar hafi einmitt hjálpað mér að skrifa þessa bók. Stór hluti af bókinni hefur með börn að gera.“ Ytri rammi sögunnar gerist á einu kvöldi og fram undir morgun heima hjá Klöru og Svenna sem eru með vinafólk sitt í heimsókn. Þau eru að borða saman og drekka svo ótæpi- lega fram á nótt. Frásögnin er síðan að miklu leyti í huga Klöru sem rifjar upp bernskuna og smám saman verður til heilsteypt mynd af lífi hennar og fjölskyldu hennar. „Já, sagan fer fram og aftur í tíma þar sem Klara rifjar upp æsku sína, samskiptin við for- eldrana sem eru hippar af 68-kynslóðinni. Þegar maður fer í svona viðfangsefni eins og er í þessari bók er best að taka það í gegnum bernskuheiminn. Margt verður skrýtið í aug- um barnsins en fullorðnir verða svo fljótt sam- dauna.“ Frásagnaraðferðin minnir að einhverju leyti á 100 ára einsemd eftir Garcia Marquez. „Það er ekki slæmt að minna á þá frábæru bók. Fólk af minni kynslóð las þá bók upp til agna á unglingsárunum.“ En svo koma aðrar sögur úr allt annarri átt líka upp í hugann. Sögurnar um Jón Odd og Jón Bjarna eftir Guðrúnu Helgadóttur. Það hvarflaði að mér við lesturinn að þetta væri eins og Jón Oddur og Jón Bjarni fyrir full- orðna. „Maður veit aldrei hvaða bækur hafa áhrif á mann. Ég lá í þeim bókum sem krakki. Sam- líkingin nær til þess að söguhetjurnar koma í báðum bókum af vinstrisinnuðum heimilum. Foreldrar Klöru eru bókmenntafræðingar og upphaflega handritið var miklu lengra og kafl- arnir um bernsku Klöru fyrirferðarmeiri. Ég skemmti mér mjög við að skrifa þá. Tíðarandi áttunda áratugarins er mjög sterkur í minni margra og Guðrún Helgadóttir fór ansi nærri honum.“ Ertu kannski að segja að þessi kynslóð hafi ekkert kunnað með börn að fara? „Eiginlega ekki. Því að þó frjálsræðið hafi verið mikið og börnin alist upp við ýmislegt sem ekki þekktist áður og þekkist varla síðan þá lýsi ég mikilli hlýju og nálægð; vænt- umþykju og ást sem snýst svo upp í andhverfu sína án þess að nokkur beinlínis hafi ætlað sér það. Meðvitundin um hvaða áhrif áfeng- isneysla foreldra innan um börnin hafði var kannski lítil, fólk var í partíum og börnin voru á staðnum. Þetta fer ekkert saman þó allt hafi þetta verið vel meint. En um leið innrætti þetta börnunum ákveðið fordómaleysi sem ég held að sé af hinu góða.“ Þú skýrir þetta líka með því að segja frá uppvexti foreldranna. Pabbinn var sendur í sveit og meira og minna alinn þar upp. Mamm- an þvældist með móður sinni ráðskonunni á milli sveitabæja. „Já, það er búið að skrifa svo mikið í ásök- unartón um foreldrakynslóðina mína. Mig langaði að skrifa bók sem segði sögu allra og hvernig allir verða fórnarlömb sinnar hræðslu og sinna aðstæðna.“ Foreldrar Klöru eru drykkfelldir og halda sínu striki í þeim efnum þrátt fyrir breyttan hugsunarhátt í samfélaginu gagnvart áfeng- issýki. „Já, þegar það fyrirbrigði kemur fyrst til landsins var það fljótt flokkað sem hálfgert amerískt sértrúardæmi; þessi kynslóð var ekki sérlega ginnkeypt fyrir slíku. Fleiri skyldir hlutir, sem nú er búið að skilgreina og talað er um opinskátt, voru aldrei nefndir á þessum tímum. Hlutir einsog kynferðislegt of- beldi og anorexia hétu eitthvað allt annað. Fólk fékk sér bara í glas og hugsaði um annað. Það var ekki tekið á svona hlutum. Kannski er það ekki heldur gert fullkomlega í dag en við höfum allavega heiti yfir þá og þeir eru uppi á yfirborðinu.“ Þú lýsir því mjög vel hvernig foreldrarnir þenja sífellt út mörkin í hegðun sinni gagnvart hvort öðru. Þetta er í rauninni lýsing á sið- ferðilegu niðurbroti. „Já, algjörlega. En samt er húmor í þessu. Ég man eftir fólki frá þessum tíma sem drakk og skemmti sér með börnin í eftirdragi en var á sama tíma að viða að sér alls konar tónlist og bókum svo börnin fengu menningarlegt upp- eldi í þeim skilningi. Þannig varð til einhver heimur sem var hreinlega eins og sýrð amer- ísk skáldsaga. Foreldrar Klöru er full af hlýju og mjög ástrík. En þau eru breysk og einhvern veginn fer þetta ekki alveg eins og þau hefðu viljað. Þau gera samt sitt besta og kannski er besta veganestið sem Klara fær úr uppvext- inum að hafa sterka samkennd með öðrum og geta elskað.“ Klara er mjög meðvituð manneskja og þjá- ist með öllum heiminum. Hún veit ekki hvert hún á að beina sársaukanum. „Mig langaði að skrifa sögu um manneskju sem væri mjög hrædd af því að hræðslan er fyrirferðarmikil tilfinning í einkalífi svo margra og reyndar heimsmálunum öllum. Klara er líka hrædd við allar fréttir en drekk- ur þær samt í sig. Hún upplifir þetta allt á sama hátt. Hræðslu sína við umhverfið og ótta sinn um hvert heimurinn stefnir. Fyrir ein- staklinginn er svo mikilvægt að vinna bug á svona hræðslu og láta í sér heyra. Mér fannst forvitnilegt að tefla þessu saman, óttanum úr uppvextinum og hræðslunni við heiminn. Klara er hrædd um alla í kringum sig og sér- staklega vona ég að það sé skýrt í sambandi við Nonna litla, því hún óttast að hann taki við hræðslunni. Þegar óttinn er afleiðing af alkó- hólisma eða anorexíu þá verður fólk svo hrætt að það byrjar að tortíma sjálfu sér. Undir- staðan er veik, siðferðisþrekið lítið. Þetta er brotið fólk.“ En svo er Svenni, kærasti Klöru, af allt öðru sauðahúsi. Sjálfsöruggur, gegnsýrður ein- staklingshyggju, en góður strákur engu að síð- ur. „Hann kemur úr allt öðru umhverfi. Hann er af heimili þar sem hann hefur fengið tilfinn- ingalegt öryggi í veganesti. Í rauninni er ég að lýsa ósýnilegri stéttaskiptingu sem byggist á þessu. Hún er ekki veraldleg heldur tilfinn- ingaleg. Það er mesta stéttaskiptingin og hún er raunveruleg.“ Elskar Klara Svenna? „Það er einmitt mjög krítískt. Kannski gerir hún það en kannski gerir hún ekki greinarmun á ást og öryggi. Þetta eru gjörólíkir ein- staklingar. Vinkona mín, sem las söguna í handriti, spurði hvort þetta væri einn af þessu „jakkafatagaurum“. En svo kunni hún alltaf betur og betur við hann eftir því sem leið á söguna. Hann er líka mjög góður drengur og þeim er ekki stillt upp sem andstæðum í þeim skilningi.“ Fjóla, æskuvinkona Klöru, fer heldur illa út úr uppeldinu, svo ekki sé meira sagt. „Já, foreldrar hennar eyðileggja hana mjög dyggilega. Þar er dæmi um sorgarsögu sem erfitt er að fyrirgefa. Mamma hennar elur hana upp í sjúklegri áherslu á útlit og klæða- burð sem gerir hana að kynferðislegri fígúru langt fyrir aldur fram.“ Við höfum ekki minnst á manninn í kjall- aranum. „Nei, það verður bara að lesa um hann í bók- inni.“ Morgunblaðið/ÞÖK„Mig langaði að skrifa bók sem segði sögu allra og hvernig allir verða fórnarlömb sinnar hræðslu og sinna aðstæðna.“ Hræðslan í lífinu Fólkið í kjallaranum er heiti nýrrar skáld- sögu eftir Auði Jónsdóttur. Þar segir frá Klöru, stúlku á þrítugsaldri, foreldrum henn- ar af 68-kynslóðinni og fleira fólki sem sett hefur spor sín á líf hennar. Eftir Hávar Sigurjónsson havar@mbl.is Auður Jónsdóttir talar um nýja skáldsögu sína. Dómar um skáldsögur, ævisögur, barna- og ung- lingabækur, frásagnir og viðtalsbækur, m.a. bækur Arnalds Indriðasonar, Ragnars Arnalds, Tryggva Ólafssonar, Sigrúnar Eldjárn, Matthíasar Viðars Sæmundssonar, Þorvalds Þorsteinssonar o.fl. Flosi Ólafsson lætur gamminn geisa um Heilagan sannleik og ritstjórar Jöklaveraldar segja frá því stórvirki sem sú bók er. Bækur

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.