Morgunblaðið - 30.11.2003, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - 30.11.2003, Blaðsíða 13
Ómar fékk hugmyndina fyrir nokkrum árum, þegar hann rannsakaði vettvang þar sem maður fullyrti að hann hefði ráðið öðrum manni bana. Á þessum stað hafði fórnarlambinu, að sögn árásarmannsins, blætt mikið. „Gerandinn benti okkur á stað þar sem hann sagðist hafa ráðist að manninum og myrt hann,“ segir Ómar. „Tæknideild lögreglunnar rannsakaði vettvanginn viku eftir verknaðinn. Við tjölduðum yfir svæðið, úðuðum það með efninu luminol og lýstum það svo með sérstöku ljósi. Þrátt fyrir það komu engir blóðblettir fram. Núna gætum við fullyrt, að ekkert blóð rann á þessum stað. Rannsóknir okkar Þóru hafa sýnt að blóð hverfur ekki úr jarðvegi á einni viku. Við getum ennþá greint blóðblettina í tilrauninni okkar þremur mánuðum eftir að við helltum blóðinu þar niður. Af ein- hverri ástæðu kaus gerandinn í þessu máli að segja ósatt um atburðarásina. Ég veit ekki hvers vegna, því hann játaði á sig verknaðinn og nægum öðrum sönn- unargögnum var til að dreifa. Það breytir því þó ekki, að lögreglan vill alltaf fá sem skýrasta heildarmynd af atburðarásinni, þótt niðurstaðan hefði orðið hin sama í þessu tilviki.“ Ómar var ósáttur við árangurslausa leitina þar sem mikið blóð átti að hafa runn- ið. Hann ákvað því að leita liðsinnis Þóru og fá úr því skorið, hversu lengi blóð væri í raun greinanlegt í jarðvegi. „Við Þóra fórum bæði á námskeið í blóðslettu- fræðum í New York-ríki í Bandaríkjunum, hjá Bloodstain Evidence Institute. Þar fengum við margar gagnlegar upplýsingar um vettvangsrannsóknir.“ Stofnun þessa í blóðslettufræðum rekur Herbert Leon MacDonell og hefur gert í 30 ár. Hann var einn sérfræðinganna sem vöktu athygli í máli O.J. Simpson á sínum tíma og starfaði með verjendum málsins, ásamt Henry Lee sem áður er nefndur. Eftir árangurslausa leit að upplýsingum um blóð í jarðvegi, en kappnógar upplýsingar eru til um greiningu þess á mismunandi vegg- og gólfefnum eða fatn- aði, ákváðu þau að hefja eigin rannsókn. „Rannsóknaraðferðirnar eru ekki nýjar, en þær hafa aldrei verið notaðar við leit að blóði utanhúss,“ segir Þóra. „Við vild- um kanna áhrif mismunandi jarðvegar og veðurfars á blóðið og renndum í raun blint í sjóinn. Við vissum ekki einu sinni hversu lengi blóð greinist berum augum utanhúss.“ Flest manndráp eru innanhúss eða við hús, til dæmis á verönd eða tröppum. Líklega er það skýringin á því, að engin áhersla hefur verið lögð á rannsóknir á blóði í jarðvegi. „Í Bandaríkjunum eru flest manndráp og þar hefur öll áhersla ver- ið lögð á að kanna vettvang innanhúss,“ segir Þóra. „Þetta eru borgarglæpir og uppgötvast oftast fljótt. Ef það gerist ekki, þá tekst gerendum kannski að grafa líkin og því er til fjöldi rannsókna sem hjálpa til að finna lík í jörðu og grafa þau upp á réttan hátt. Þá er oft langur tími lið- inn, vikur, mánuðir eða jafnvel ár, og því hafa menn ekki velt fyrir sér möguleikanum á að skoða blóðslettur. Þeir rannsaka frekar sígarettustubb, sem gerandinn hefur hugsanlega skilið eftir á vettvangi, hnapp sem hann hef- ur misst eða plöntuleifar sem gefa ef til vill vísbendingu um hvar morðið var framið. Blóðsletturannsóknir á staðnum þar sem líkið finnst hafa orðið útundan.“ Í einni bóka fyrrnefndrar Patriciu Cornwell, The Body Farm, segir af rann- sóknum á líkum sem látin eru liggja úti eða grafin á mismunandi hátt. Í raun heitir rannsóknarsvæðið ekki Body Farm, heldur Decay Research Facility, Rotnunar- rannsóknarmiðstöðin, og tilheyrir háskólanum í Tennessee. Tilgangur rannsókn- anna er að öðlast þekkingu á því hvaða áhrif veður og mismunandi jarðvegur hef- ur á rotnun. Menn ánafna Body Farm líkama sinn til þessara rannsókna, svo hægt sé að fylgjast með niðurbroti þeirra. Þrátt fyrir að þessar rannsóknir hafi hjálpað lögreglu og réttarmeinafræðingum að greina hversu lengi lík hafa legið á eða í jörðu hefur mönnum ekki hugkvæmst að rannsaka hversu lengi sé hægt að greina blóð í jarðvegi. Og enn ljómar blóðið Ómar og Þóra fengu samþykki vísindasiðanefndar fyrir rannsókninni. Í ágúst hófust þau svo handa. „Blóðbankinn sá um að útvega okkur blóðið, en gallinn var sá að við gátum ekki sett storkuvara í blóðið, af því að við óttuðumst að það gæti haft áhrif á niðurstöður,“ segir Ómar. „Við þurftum því að stefna öllum þeim sem samþykktu að gefa blóð til rannsóknarinnar í Blóðbankann á sama tíma, taka blóðið og aka svo rakleitt með það á tilraunastaðinn áður en það storknaði.“ Staðurinn þar sem tilraunirnar fara fram er utan við höfuðborgina. Hann lætur ekki mikið yfir sér, þarna er dálítill grasbali og fyrir neðan hann er malarfláki. Óm- ar og Þóra helltu niður blóði, ýmist í gras eða möl, í mismiklu magni, 5, 10, 50, 100, 250, 500 og 1000 millilítrum. Síðari hluti rannsóknarinnar hefst þegar frost er í jörðu og þá verður meira blóði hellt. Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur. LESIÐ Í BLÓÐ Luminol og fluorescin eru efnablöndur sem notaðar eru í réttarrannsóknum til grein- ingar á blóði. Báðar efnablöndurnar greina blóð í mikilli þynningu, gamalt sem nýtt. Luminol er mjög þunnt, eins og vatn. Gall- inn við það er að það lýsir mjög skamma stund og því þarf að bregðast fljótt við til að ljósmynda það. Það vill líka leka og þá getur það skekkt myndina. Það breytir þó ekki myndinni varanlega, þ.e. þegar sprautað er aftur kemur ljómun á blóðið á réttum stað. Fluorescin hefur ekki verið notað hér á landi hingað til, þar sem sérstakt ljós þarf til að kalla fram ljómunina, þ.e. fjölbylgjuljós- gjafa. Fluorescin lekur ekki út og sýnir ljómun í allt að hálftíma, sem gerir alla vinnu á vett- vangi miklu auðveldari en þegar luminol er notað. Þá er hægt að skoða blóðbletti á staðn- um, í stað þess að lesa í ljósmyndir. Á síðasta ári fékk tæknideild lögreglunnar í Reykjavík fjölbylgjuljósgjafa, PolyLight.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.