Morgunblaðið - 14.12.2003, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 14.12.2003, Blaðsíða 12
12 | 14.12.2003 A ð tala við Einar Örn er að vissu leyti eins og að stíga inn í texta eftir hann, hugsanir skjótast fram og aftur, setningar taka óvænta stefnu, breyta um átt í miðju kafi, innskot hleypa öllu í bál og brand, fara með okkur út af sporinu, en síðan er komið inn aftur; löngu síðar klárar hann setningu sem ég held að sé komin í algjörar ógöngur. Eins og í textunum hefur hann frá svo mörgu að segja, allt frá því hann fór fyrst að syngja með Purrki Pillnikk, þó Einar Örn hafi aldrei beinlínis sungið, hefur hann verið að veita okkur innsýn í kollinn á sér, leyft hugsununum að flæða fram, ófeiminn við að láta allt flakka. Þegar Sykurmolarnir voru hvað frægastir fyrir hálfum öðrum áratug eða svo, köll- uðu blaðamenn úti í heimi Einar Örn „Media Terrorist“, fjölmiðlaskelfi, enda fengu þeir oftar en ekki að kenna á honum, fengu ekki að komast upp með aulaskap og yf- irborðsmennsku, en fyrir þeim sem þekkja hann var sú lýsing alltaf hálf hjákátleg, enda varla til viðfelldnari og þægilegri maður í umgengni en Einar Örn – svo fram- arlega sem menn eru ekki uppvísir að því að beita órétti eða yfirgangi. EINAR ÖRN VESTURBÆINGUR Einar Örn Benediktsson er fæddur í Kaup- mannahöfn en uppalinn vestur í bæ, sonur hjónanna Benedikts Arnar Árnasonar leikara og Völu Kristjánsson kennara. Hann á einn bróður yngri, Árna, sem hefur fengist við sitthvað í gegnum árin, búfræðimenntaður, starfaði meðal annars sem hér- aðsráðunautur, en er nú umboðsmaður hljómsveita. Fullorðnir Reykvíkingar þekkja flestir söguna af því er er Vala var valin til að leika í uppfærslu Þjóðleikhússins á My Fair Lady 1962, sem sló öll aðsóknarmet, en Bene- dikt var aðstoðarleikstjóri. Einar kallar sig leikarason, en hann nefnir þó að móðir sín hafi ekki verið menntuð leikkona þegar hún var valin í hlutverkið og er kennari í dag. Hún lék reyndar fleiri hlutverk en Elísu í My Fair Lady, í Fiðlaranum á þakinu og Ó, hve þetta er indælt stríð eins og Einar rifjar upp. Eitt sinn þegar Sykurmolarnir voru að byrja héldu þeir blaðamannafund á Duus og sendu þá út sérkennilega fréttatilkynningu sem undirrituð var af E. Adler Papa- foti þó ekki færi milli mála að Einar Örn væri höfundur textans. Það er og þýskt og grískt blóð í móðurættinni, amma hans, Martha Papafoti, er grísk-þýsk. Hann hefur þó lítið af grískum ættmennum sínum að segja, en Vala móðir hans gróf upp ýmsan fróðleik um grískan ættboga og Einar Örn segir að hann eigi eflaust eftir að kynna sér það líka. „Hún gerði þetta eftir miðjan aldur, svo ætli það fari ekki að koma að því að ég taki við,“ segir hann, en hann hefur aldrei til Grikklands komið, Sykurmolarnir náðu ekki að spila þar, komust næst því með tónleikum í Júgóslavíu og á Ítalíu. EINAR ÖRN Í HÁLFRI BLOKK Þeir bræður ólust upp hjá foreldrum sínum til ellefu ára aldurs, bjuggu á Meistaravöllunum í „hálfu blokkinni“ eins og Einar Örn og fleiri Vesturbæingar kölluðu hana, en hún er reyndar orðin heil í dag. Þegar Einar var ellefu ára skildu aftur á móti foreldrar hans og Vala fluttist með drengina á Ný- lendugötuna. Einar segist ekki hafa upplifað skilnaðinn sem heimsendi „en ég var ekkert rosalega kátur, það man ég. Ég hef ekkert hugleitt þetta svo mikið, víst breytt- ust aðstæður hjá okkur við það að við fluttum upp á Nýlendugötu þó það hafi ekki verið alveg úr Vesturbænum og ég man eftir því að einu sinni vissi ég ekki alveg hvernig ég átti að fara í skólann, hvort þetta væru endalok. Ég vissi í sjálfu sér ekki hvers vegna þessar breytingar áttu sér stað. Pabbi fluttist svo til Englands og var þar mikið næstu ár og það var ekki óhagstætt að eiga pabba í útlöndum þegar ég var orðinn táningur því þá fórum við bræðurnir í heimsóknir út og áttum eftir að koma þangað mjög oft.“ EINAR ÖRN OG ÁRNI Þeir Einar Örn og Árni voru afskaplega samrýndir og Ein- ar Örn segir að hann hafi þroskað með sér mikla ábyrgðartilfinningu fyrir litla bróður sínum og lífinu almennt, ofþroskaða reyndar sem hafi skilað sér í því að hann hafi lík- lega oft verið heldur stjórnsamur, en þessi ábyrgðartilfinning er síst minni í dag, „mitt helsta vandamál“, segir hann og kímir. Þeir Einar Örn og Árni fóru allt saman og gerðu allt saman. Þegar Einar Örn gekk í skátana varð Árni að fara með þó hann ætti í raun að fara í ylflingana, of ungur til að verða skáti, en það varð ekki hjá því komist að vígja hann sem skáta líka með sérstakri undanþágu, aðeins níu ára gamlan, en Einar Örn var þá ellefu ára. Ekki dró að nokkru marki úr samveru þeirra bræðra fyrr en Einar fór í Hagaskóla en Árni varð eftir í Melaskóla og þeir eignuðust hvor sína eigin vini í skólanum. Í gegnum árin hafa þeir þó áfram unnið mikið saman. EINAR ÖRN STAÐGENGILL Þó báðir hafi þeir bræðurnir lagt tónlist fyrir sig að einhverju leyti, Einar Örn sem starfandi tónlistarmaður í áraraðir og Árni sem um- boðsmaður tónlistarmanna og hljómsveita, segir Einar að hann hafi ekkert fengið neitt sérstakt tónlistaruppeldi. Móðir hans hafði eðlilega áhuga á tónlist þar sem hún söng í leikhúsi, og afi hans var Einar Kristjánsson, einn fremsti óperusöngvari Íslend- inga. Þannig segir Einar Örn að þegar hann heyri óperur í dag kannist hann við æði margt, hafi þá líklega heyrt það sem barn þó hann þekki það ekki að öðru leyti. Þó það hafi ekki verið tónlistaruppeldi var þess meira um leiklist og Einar Örn var oft að þvælast í leikhúsinu með pabba sínum, á æfingum eða sýningum, baksviðs að þvælast, fara með vini í leikhúsið á æfingar eða til að sjá barnaleikrit. Hann segist ekki muna hve oft hann sá Dýrin í Hálsaskógi og Kardimommubæinn, en Árni bróðir hans lék einmitt íkorna í Dýrunum í Hálsaskógi. „Ég var staðgengill hans og vaknaði á hverjum einasta sunnudegi heilan vetur með hjartað í buxunum og spurði hann hvort hann væri nokkuð veikur; það hefði ekki verið gott fyrir mig sem nemanda í Hagaskóla að vera að leika íkorna í Dýrunum í Hálsaskógi.“ Þó leikhúsið hafi skipað svo stóran sess í lífi Einars þessi fyrstu ár segist hann aldrei hafa haft neinn sérstakan áhuga á að leika. „Árni tók það, hann lék í Dýrunum og var í útvarpsleikritum. Ég hafði ekki það sjálfstraust eða áhuga til að standa á leiksviði, en mér fannst gaman að fylgjast með, ekki síst í leikmyndagerðinni hjá Lárusi Ingólfs- syni, þar var ótrúleg veröld.“ Einar segir að listalífið sem fjölskyldan hrærðist í hafi óneitanlega verið svolítið bó- hemlíf eftir á að hyggja, foreldrar hans hafi haldið miklar veislur og ævinlega hafi ver- ið mikið á seyði. „Meðal bernskuminninga minna er til dæmis þegar menn voru að taka upp myndina Rauðu skikkjuna suður í Krýsuvík. Ég man vel eftir mönnum að berjast með sverðum og þar sem þeir flutu dauðir í sjónum og svo hópuðust allir sam- an í stórt tjald og átu humar.“ EINAR ÖRN SKÁTI Einar Örn segist halda að hann hafi almennt verið stilltur sem barn, rólyndur skáti, en hann átti síðar eftir að breytast í pönkara, var með þeim fyrstu sem gengu pönkinu á hönd hér á landi. Fyrstu kynni hans af pönki segir hann hafi verið af afspurn; einn æskuvinur sagði honum frá uppátækjum manna úti í heimi sem menn kölluðu ræfla og tónlistina ræflarokk, síhrækjandi ofstopamenn með grænar tennur. „Mér fannst það makalaust að það væri til svoleiðis fólk sem væri að skyrpa og hrækja á almannafæri. Þetta var líklega 1976 þegar Sex Pistols fóru í ein- hverja flugferð og höguðu sér eins og skepnur. Þetta kveikti hjá mér forvitni og mig langaði að sjá hvernig þetta lið væri og síðar átti ég eftir að eyða heilu sumri úti í London að leita uppi pönkara.“ Í Hagaskóla átti Einar Örn eftir að eignast sína bestu vini, Braga Ólafsson og Frið- rik Erlingsson, sem síðar stofnuðu með honum hljómsveitir. Einar Örn segir svo frá að Friðriki hafi hann tekið eftir á fyrsta skóladegi sínum í Hagaskóla: „Fyrsta skóla- daginn áttum við að lesa upphátt til að kennarinn gæti áttað sig á hvernig við stæðum í lestrinum. Þá les strákur upp fyrir aftan eða framan mig mjög röggsamlega svo ég tók eftir því. Þegar við svo fórum að tala saman eftir tímann kemst ég að því að þetta var líka leikarasonur, Friðrik, sonur Erlings Gíslasonar, nágranni minn af Öldugötu sem ég hafði þó aldrei hitt áður.“ Friðrik kunni að spila á gítar, enda var mamma hans Katrín Guðjónsdóttir gít- arkennari, og hann gat líka teiknað, var snjall teiknari að því Einar Örn segir. „Fram að því hafði ég horft á listamenn úr fjarlægð, á leiksviðinu, en hér var kominn vinur minn sem kunni bæði að spila á gítar og gat teiknað,“ segir Einar Örn. EINAR ÖRN Í PROGGINU Þó fram að því hafi hann ekki haft neinn sérstakan áhuga á tónlist fékk Einar Örn græjur í fermingargjöf, en þegar hann ætlaði að fara að kaupa plötur lenti hann í vandræðum, vissi ekkert hvað hann ætti að hlusta á. Hann fór því að leita að einhverju sem honum þætti skemmtilegt, leitaði meðal annars í smiðju til tónlistarpælarans Braga, og svo fór að hann bað um Tarkus með Emerson, Lake & Palmer í jólagjöf. „Ég skildi ekki þessa músík, proggið, og ekki heldur Yes og King Crimson sem allir voru að hlusta á á þessum tíma.“ Þeir Bragi og Friðrik héldu áfram sínum tónlistarpælingum og stofnuðu skóla- hljómsveit í Hagaskóla, en Einar var ekki með í því, ekki enn kominn með tónlistar- bakteríuna. Það átti þó eftir að breytast því vorið 1977, þegar Einar Örn var fimmtán

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.