Morgunblaðið - 14.12.2003, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 14.12.2003, Blaðsíða 34
34 | 14.12.2003 G uðrún Helga Jóhannsdóttir var nýlega á ferð í Sambíu og Malaví þarsem henni þótti mannfólkið allt hið elskulegasta en hún átti fótumfjör að launa undan urrandi krókódílum og þurfti að venjast því að sofa í félagsskap froska, eðla og kóngulóa. Nú er hún komin heim í skor- dýraleysi Íslands en hún ætlar ásamt fjölskyldu sinni að bjóða ósýnilegum jólagesti til borðs á aðfangadagskvöld. Hún ætlar að leggja á borð fyrir hann og láta autt sætið minna sig á þá sem minna mega sín. Ósýnilegi jólagesturinn er munaðarlaust barn sem eitthvað af þeim fjölmörgu SOS-barnaþorpum sem finna má um víða veröld hefur tekið að sér að hugsa um og veita aðstoð. Og til að leggja sitt af mörkum til að bæta hag þessara barna ætla Guðrún Helga og fjölskylda hennar að láta af hendi rakna andvirði einnar jólamáltíðar til SOS- barnaþorpanna. „Þessi hugmynd um ósýnilegan jóla- gest er gömul hefð víðast hvar í Evrópu en það er Íslandsdeild SOS-barnaþorp- anna sem ætlar að fá okkur Íslendinga til þess að leiða hugann að hlutskipti annarra á sjálfu aðfangadagskvöldi. Til stendur að vera með átak þessi jólin og brýna sem flesta Íslendinga til að leggja á borð fyrir ósýnilegan jólagest og gefa andvirði máltíðarinnar til SOS-barnaþorpanna og finnst mér það vel til fund- ið,“ segir Guðrún Helga sem heimsótti einmitt slíkt þorp í Malaví og kynntist því af eigin raun hversu frábært starf þar fer fram. „Á þessum tíma sem við höldum jól á Íslandi leggst regntíminn af öllum sín- um þunga á Malaví og þá er mjög erfitt um matföng svo jaðrar við hungurs- neyð. Þörfin fyrir aðstoð er því mikil einmitt núna í desember og janúar.“ Guðrún Helga segir að í þorpinu sem hún heimsótti hafi verið tólf hús og tíu börn í hverju húsi ásamt einni „mömmu“ sem sér um þau en síðan var ein „aðalmamma“ yfir öllu þorpinu. „Innan þorpsins var skóli, barnaheimili, heilsugæslustöð og félagsmiðstöð en þær stofnanir þjóna einnig börnum utan þorpsins og því eru þessi þorp sannarlega góðir grannar. Ég var líka mjög stolt þegar ég komst að því að um helmingur þeirra hundrað og tuttugu barna sem búa í þessu þorpi er styrktur af íslensk- um fjölskyldum. Í Malaví urðum við vör við mikla fátækt og eymd en þegar við komum inn í barnaþorpið var það einna líkast því að koma inn í Paradís. Börnunum þar líður augljóslega vel og þau eru ánægð og alveg ljóst að pen- ingar sem renna til þorpanna gera mik- ið gagn. Þessi börn eiga miklu meiri möguleika á að komast til manns en þau sem eru á götunni,“ segir Guðrún Helga og bætir við að í fyrsta tímanum í stjórnmálahagfræði eftir að hún kom heim úr ferð sinni til Sambíu og Malaví hafi viljað svo skemmtilega til að kenn- arinn varpaði fram fullyrðingunni: Hagvöxtur eykur hamingju. „Þá gat ég ekki orða bundist og mót- mælti harðlega og minnti á að ég væri nýkomin frá fátækum svæðum Afríku og að ég hefði sjaldan séð eins mikla hamingju í augum fólks og einmitt þar.“ Guðrún Helga segist einhverra hluta vegna alltaf hafa verið veik fyrir Afríku og hún stefnir á framhaldsnám í Afríkufræðum þegar hún hefur lokið há- skólanámi sínu í stjórnmálafræði. Eins er hún harðákveðin í að flytja einn góð- an veðurdag tímabundið til Afríku og taka þátt í uppbyggingarstarfi þar. Þeir sem hafa hug á að taka þátt í átakinu um ósýnilega jólagestinn og gefa andvirði jólamáltíðar til SOS-barnaþorpanna geta lagt inn á reikning: 0130– 15–371300 í Landsbanka Íslands Hamraborg. Þar að auki er nánari upplýs- ingar að finna á heimasíðu SOS–barnaþorpanna www.sos.is og í síma 564– 2910. khk@mbl.is ÓSÝNILEGI JÓLAGESTURINN Íslendingar gefi andvirði einnar jólamáltíðar til munaðarlausra barna L jó sm yn d: K ri st in n In gv ar ss on Nokkur þeirra barna sem eiga heima í SOS–barnaþorp- inu í Malaví brosa fyrir íslenska gestinn, Guðrúnu Helgu. Á efri myndinni er Guðrún Helga ásamt manni sínum, Þresti Guðberg Franssyni, og börnum þeirra, Daníel Arnari Þrastarsyni og Klöru Dröfn Tómasdóttur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.