Morgunblaðið - 14.12.2003, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 14.12.2003, Blaðsíða 32
32 | 14.12.2003 þess að hafa aldrei verið brotin til mergjar. Hins vegar tókst mér einnig að uppgötva Ísland á nýjan máta, hugsa meðvitað um landið, hvernig það tengdist mér og hvaða áhrif það hafði haft á mig að alast upp í ljósi tveggja menningarheima.“ „Það var ákveðin þörf á því að setja hlutina í sögulegt samhengi,“ heldur Magnús áfram, „og að skilja hvað fram fór á síðari hluta nítjándu aldar á því landi sem bar af sér fólkið sem flutti á Laxamýri og syni þeirra. Synirnir voru alltaf til vandræða,“ út- skýrir hann. „Þeir voru að sinna öðru í stað þess að gera það sem faðir þeirra ætlaðist til af þeim. Í raun bar öllum frásögnum saman um að synirnir hefðu verið góðir í öllu sem þeir tóku sér fyrir hendur, nema bændamennsku.“ Einn þessara sona var skáldið Jóhann Sigurjónsson, sem Íslendingar þekkja fyrir allt annað en búskap. Hann segir að eitt það mikilvægasta sem hann uppgötvaði í ferðinni frá sagn- fræðilegu sjónarhorni hafi verið að komast að því hvaða hlutverki þessi landshluti gegndi í iðnþróuninni, þróun fiskveiða og myndun Sambandsins. Sally samsinnir og bætir við að sér hafi ávallt fundist fremur erfitt að ná tökum á ís- lenskri sagnfræði. „Sennilega vegna þess að ég hef alltaf aðeins haft aðgang að bókum á ensku máli, sem mér finnst fremur óskiljanlegar og eru í rauninni aðeins samansafn af orðum en skilja ekkert eftir sig þrátt fyrir að ég hafi lagt mig fram við að skilja þær. Það sem Laxamýri gerði hins vegar var að sýna mér hvernig hlutirnir gerðust í raun og veru svo mér tókst að skilja hvernig vélvæðing fiskiðnaðarins gjörbylti landinu í lok nítjándu aldar. Þetta lærði ég í gegnum sögu langömmubróður míns, Lúðvíks Sigurjónssonar,“ segir hún. Þeim ber saman um að ferðin hafi verið þeim mikil skemmtun. „Eftir á að hyggja,“ segir Sally, „held ég að fáum feðginum gefist tækifæri á að takast á við verkefni sem þetta í sameiningu. Maður kemst á það stig í lífinu að maður er upptekinn við að sinna sinni eigin fjölskyldu og daglegu amstri og hittir foreldra sína einungis í tengslum við fjölskyldumál. Það var ómetanlegt að fá að vinna saman að verkefni sem við bárum bæði svo sterkar tilfinningar til og gátum kynt undir brennandi áhuga hvort annars og þar að auki tekist á við blaðamennskustörf í leiðinni.“ Persónulegur leiðangur Bókaforlagið Mál og menning hefur gefið bókina út í þýðingu Árna Sigurjóns- sonar, en hann og Magnús eru systkinasynir. Enska útgáfan kemur út í vor, enda nær almanak bókaútgáfu í Bretlandi yfir tólf mánuði, en ekki einn eins og á Íslandi. Sally og Magnús eru mjög ánægð með þýðingu frænda síns á bókinni, sem jafn- framt staðfærði hana eilítið með því að taka út kafla sem móðgað gætu þjóðarsálina. „Til að mynda tók hann út langorða lýsingu á Bláa lóninu,“ útskýrir Sally, „sem okk- ur fannst algjör óþarfi að bera á borð fyrir íslenska lesendur sem gjörþekkja staðinn. Hugmyndin um að þýða bókina kom hins vegar frá Árna,“ heldur Sally áfram. „Til að byrja með fannst mér það heldur fráleitt,“ segir hún og brosir. „Það hefði ekki hvarflað að mér að reyna að segja Ís- lendingum frá sögu þeirra, ekki einu sinni að reyna að út- skýra fyrir þeim hvað gerðist á Laxamýri …“ „Eða árið 1874 …“ grípur Magnús fram í. „Já, eða árið 1874, eða neitt í þeim dúr,“ tekur Sally undir. „Ég skrifaði bókina fyrst og fremst fyrir sjálfa mig og föður minn. Þetta varð eins konar persónulegur leiðangur fyrir okkur tvö.“ Faðirinn kinkar kolli og sam- sinnir túlkun hennar. „En svo velti ég því fyrir mér að þetta gæti ef til vill orðið áhugaverð aðferð til þess að kynna Ísland fyrir fólkinu í þessu landi sem dettur ein- ungis í hug jöklar þegar minnst er á Ísland,“ heldur hún áfram. „Jöklar og Björk …“ grípur Magnús inn í. Það er augljóst að þau hafa rætt þessi mál margoft. Ég legg þó ekki í að bæta við „… og Magnús Magnússon“, sem er yfirleitt það fyrsta sem Bretar nefna þegar ég aðspurð segist vera frá Íslandi. Meira að segja áður en þeir nefna Björk. „Já, jöklar og Björk og stutt stopp á leið til Flórída og kannski Bláa lónið,“ heldur Sally áfram af mikilli sannfæringu. „Og mér fannst ég hafa tækifæri til að skrifa ann- ars konar ferðabók og endurminningar og sameina í einni bók. Það var allt sem ég vonaðist eftir. En ég vildi hafa öll atriði á hreinu og sendi afrit af handriti til Árna til yfirlestrar, en Árni hefur verið ómetanleg hjálp í þessu verkefni, og hann stakk upp á því að bókin yrði þýdd og gefin út á íslensku. Ég er ótrúlega upp með mér að yfirleitt skuli vera áhugi fyrir bókinni á Íslandi. Ég átti alls ekki von á því,“ segir hún. Þegar ég spyr hvort hún sé með þessu verki að feta í fótspor föður síns, sem eytt hefur lunganum úr ævi sinni í að fræða fólk um Ísland, segir hún með hógværð að svo sé ekki. Þótt hún vildi gæti hún ekki jafnað lífsstarf föður síns. „Þetta snerist meira um að deila ástríðu minni fyrir landinu og reyna ef til vill að sýna Ísland í öðru ljósi.“ Einmitt það sem Magnús er hvað þekktastur fyrir. Hann gerir grín að því sjálfur og segist vera Íslendingur að atvinnu, að hann hafi búið sér til starfsgrein sem felist í því einu að vera íslenskur. Hann hefur skrifað fjölda bóka um land og þjóð en einna þekktust er bók hans um víkingana sem hann skrifaði í kjölfar þáttaraðar fyrir sjón- varp sem sýnd var m.a. á Íslandi. Hann færist allur í aukana þegar umræðuefnið snýst yfir í víkinga enda hefur hann verið í nokkurs konar krossferð fyrir þeirra hönd í ára- tugi. „Víkingar voru alls ekkert með horn á hjálmum sínum,“ segir hann með sann- færingarkrafti og bendir á að nær allt það sem fólk þykist vita um víkinga nú á dögum sé byggt á villutrú. Víkingar voru fáeinir tækifærissinnaðir sjóræningjar „Jafnvel orðið sjálft í ensku, Vikings, er uppfinning frá Viktoríutímabilinu,“ held- ur hann ótrauður áfram. „Þó svo að orðið sé komið úr íslensku var það aldrei notað í þessu samhengi á Íslandi. Það var ekki notað um fólkið sjálft og aldrei var talað um víkingaöld. Nú er talað um víkinga eins og þeir hafi verið heil þjóð, en ekki fáeinir tækifærissinnaðir sjóræningjar. Íslendingar voru aldrei víkingar, heldur voru þaðan aðeins örfáir piltungar sem fóru í víking.“ Hann er fullur hneykslunar á þessum aldalanga misskilningi og ekki laust við að vera eilítið pirraður yfir þessu. Þau eru eflaust óteljandi skiptin sem hann hefur átt í heitum samræðum um þetta málefni við þá sem betur þykjast vita. Sally brosir skiln- ingsrík og skýtur nokkuð áhugasöm inn einu og einu orði þrátt fyrir að hún sé ekki að heyra þessa ræðu föður síns í fyrsta skipti. Þau taka sér stutt málhlé áður en talið berst aftur að ferðalagi þeirra. Eftir smáum- hugsun segir Magnús að sér hafi ekki síður þótt mikið til þess koma að kynnast sögu föðurfjölskyldu sinnar frá Akureyri. Fjölskylda sú státar af ekki síðri hetju en móð- urfjölskyldan. „Mér finnst sagan af Jóhannesi á Borg síður en svo minna rómantísk en saga Jóhanns Sigurjónssonar,“ segir Magnús. „Annar er að sigra heiminn með vöðvaafli en hinn er að sigra heiminn með penna sínum,“ heldur hann áfram kíminn á svip. Genghis Khan gegn Snorra Sturlusyni. „Jóhannes á Borg var sannkallaður víkingur,“ segir Magnús og segir sögu sem Jó- hannes hafði sagt honum sjálfur af því þegar hann fleygði hópi fullvaxta karlmanna sem unnu fyrir hann á hótelinu, einum á eftir öðrum, upp stiga á hótelinu þegar þeir komu drukknir heim af skemmtun. Magnúsi er þó sú stund eftirminnilegust með Jóhannesi er hann aldraður lá bana- leguna á sjúkrahúsi. „Þegar ég stend upp og kveð gerir Jóhannes sig líklegan til að setjast upp, en ég bið hann í öllum bænum að liggja kyrran. Hann tekur á öllum sín- um lífs og sálar kröftum, sest upp og segir eldrauður í framan af áreynslu: „Ég kveð ekki skyldmenni mín liggjandi.““ Magnús skellir upp úr við þessa frásögn af frænda sínum. „Þvílík orðræða,“ segir hann í aðdáunartón. Þegar talið berst að bernsku Sally og systkina hennar er auðsæ dálítil eftirsjá að því að hafa ekki gefist tækifæri til að læra íslensku á barnsaldri. „Ég hefði gjarnan viljað læra málið sem barn. Hins vegar er ég farin að skilja að það er sjálfsagt dálítið óraun- sær draumur. Það hefði eflaust verið mun auðveldara að læra málið ef móðir okkar hefði talaði erlenda tungumálið á heimilinu, feður höfðu einfaldlega ekki tækifæri til að eyða jafn miklum tíma með börnunum og mæðurnar.“ Sally lagði stund á íslensku í eitt ár í Edinborgarháskóla þar sem hún lauk námi í ensku. Hún var samskóla Hermanni Pálssyni, sem þýtt hefur fjölda Íslendingasagna á ensku. „Námið gaf mér málfræðilegan grunn,“ segir hún. „En það er breitt bil milli þess að vita hvernig málfræðin virkar og að geta notað hana rétt,“ segir hún og hlær. „Þegar ég fór að hugsa um íslensku af fullri alvöru var ég þó verulega þakklát fyrir það sem ég þó hafði,“ heldur hún áfram. „Þakklát fyrir að hafa fengið reglulega að heyra íslenskufrasana hans pabba; ég er farinn … takk fyrir matinn …“ „Og amma í Edinborg talaði oft við okkur á íslensku, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því að hún væri ekki að tala ensku,“ segir hún. „Sally stóð bara og kinkaði kolli og þóttist skilja allt,“ bætir Magnús við hlæjandi. Upp úr þessu berst talið að börnum Sally og frásögn í bókinni þar sem Sally segir frá því er hún heimsótti Ísland með fjölskyldu sinni fyrir um tíu árum. Elstu fjögur börnin voru fædd, öll innan við sjö ára, þegar þau fóru að heimsækja Vigdísi Finnbogadóttur, þáverandi forseta Ís- lands, í sumarbústað hennar á Þingvöllum. Mikill vinskapur hafði tekist milli Vigdís- ar og Sally mörgum árum áður, er Sally vann sumarlangt hjá Ferðaskrifstofu Íslands. „Norman, eiginmaður minn, var að reyna að útskýra fyrir börnunum hver þessi kona væri sem við vorum að fara að heimsækja,“ segir Sally. „Hann kallaði hana drottningu Íslands og að gamni sínu tók Vigdís þátt í leiknum. Á veröndinni á sum- arbústaðnum sló Vigdís síðan börnin til riddara af Íslandi, svo þau mættu muna land sitt. Þetta var alls ekki gert í neinni alvöru,“ segir Sally brosandi, „en Vigdísi tókst á sinn einstaklega hugmyndaríka hátt að minna mig og börnin mín á hvar rætur okkar liggja, henni var það hjartans mál að við gleymdum því aldrei.“ Hvarflaði nokkurn tímann að Magnúsi að flytjast til Íslands? „Nei,“ svarar hann, „eiginlega aldrei. Hér er mitt líf; fjölskylda, starf og vinir.“ En hve mikill hluti af hon- um er skoskur núorðið? „Ó, ekki nokkur hluti,“ svarar hann snögglega, stoltur á svip. „Ég bý bara hérna. Ég er íslenskur út í gegn.“ siggawilliams@onetel.com AMMA Í EDINBORG TALAÐI OFT VIÐ OKKUR Á ÍSLENSKU FEÐGIN Á SLÓÐUM FORFEÐRANNA

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.