Morgunblaðið - 14.12.2003, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 14.12.2003, Blaðsíða 37
14.12.2003 | 37 Þrettán grettnir karlar gægjast til manns af stólbökum í litlu rauðu húsi í Vest-urbænum. Þeir eru greinilega aldnir og skynfæri þeirra eru undarlega ýkt, ámismunandi vegu þó. Þetta eru nánir félagar og samstarfsmenn Felix Bergs- sonar leikara en þessa dagana sýna þeir Ævintýrið um Augastein í Tjarnarbíói. Karlarnir, sem eru engir aðrir en sjálfir jólasveinarnir, eru býsna háðir vini sínum Felix enda ljær hann þeim líf í sýningunni. Hann hefur líka orðið fyrir þeim: „Leik- ritið fjallar um það hvernig jólasveinarnir breyttust úr hrekkjalómum í þessa ljúfu, barngóðu karla sem gefa í skóinn. Eftir eldgos í sveitinni lenda þeir í því að sitja uppi með þetta barn, Augastein, sem Stekkjastaur bjargar frá bráðum háska. Hann fer með það í jólasveinahellinn og jólasveinarnir verða bara að gjöra svo vel og annast þetta litla kríli. Smám saman bræðir það hjörtu þeirra. Sagan má ekki koma öll en í kjölfarið hætta þeir að hrekkja og stríða.“ Það er leikhópurinn Á senunni sem setur sýninguna upp og eins og áður er það Kolbrún Halldórsdóttir sem leikstýrir. Leikritið er eftir Felix sjálfan sem jafnframt er eini leikarinn í sýningunni. Að auki stýrir hann brúðunum sem Helga Arnalds bjó til. „Helga tók mig í læri í sambandi við þetta. Það er fyrst og fremst litli drengurinn Augasteinn sem þörf er á að hafa einhverjar áhyggjur af í sambandi við brúðustjórn. Hina hristi ég eiginlega bara og set mig meira inn í þeirra karakter. Það er svolítið fyndið að ég verð eins og þeir í framan,“ segir Felix og grípur Kertasníki af handahófi um leið og hann beyglar andlitið á sér þannig að þeir verða hlægilega líkir. Það er greinilegt að það er stutt í barnið í Felixi enda segir hann það enga tilviljun að hann leiki iðulega fyrir börn. „Ég er nú þannig að ég vil hafa gaman í vinnunni og ég hef tekið upp lífsmottó Gunnars [Helgasonar] vinar míns sem er: „Það á að vera gaman – ef það er leiðinlegt verður maður að breyta einhverju.“ Og mér finnst ofsa- lega gaman að vinna með börnum og fyrir börn.“ Sjálfur á Felix tvö börn, Álfrúnu og Guðmund, sem hann segir hafa verið sína stærstu hvatningu í gegnum tíðina. „Þegar ég er að vinna hafa þau verið mínir helstu gagnrýnendur og ég hef alltaf fengið að prófa efnið mitt fyrst á þeim.“ Hann bætir því við að í bók ævintýrisins um Augastein, sem gefin er út nú fyrir jólin, hafi hann ákveðið að nefna systkini söguhetjunnar Álfrúnu og Guðmund eftir þeim, til að „leyfa þeim að vera hluti af sögunni“, eins og hann orðar það. Felix segist njóta þess tíma sem nú fari í hönd út í ystu æsar. „Þetta er algjör gós- entíð fyrir mig því ég fer í skóla og leikskóla að hitta krakka og lesa upp úr bókinni. Ég geng um með lítið ljós í hjartanu og það er svo gaman,“ segir hann með innilegri áherslu. „Þegar ég les tek ég brúðurnar með mér og segi krökkunum aðeins frá tilurð sögunnar, að upphaflega hafi hún orðið til fyrir börn í Bretlandi því þau höfðu svo mikinn áhuga á Grýlu og jólasveinunum.“ Hann útskýrir að sýningin hafi fyrst verið sýnd í London fyrir síðustu jól en þaðan kom ósk um að hann setti upp sýningu í kjöl- far sýningarinnar á Hinum fullkomna jafningja sem leikhópurinn setti þar upp fyrir nokkrum árum. „Eftir sýninguna úti fékk ég bréf frá breskum hjónum sem sögðu að þau þekktu íslenskar þjóðsögur vel og væru mjög hrifin af sögunum um jólasveinana. Sérstaklega væru þau hrifin af þessari sögu um hvernig jólasveinarnir urðu góðir og vildu endilega fá að vita hvar í þjóðsögunum ég hefði fundið hana,“ segir hann hlæj- andi. „Þannig að ég er orðinn þjóðsagnaritari án þess að hafa ætlað mér það.“ L jó sm yn d: G ol li „GENG UM MEÐ LÍTIÐ LJÓS Í HJARTANU“ Nánir félagar og samstarfsmenn Felix Bergssonar breytast úr hrekkjalómum í ljúfa barngóða karla STRAUMAR 39 VÍN OG MATUR Góð og fín vín 40 JÓLAPAKKI fyrir stjörnumerkin 41 HÁRTÍSKA Krullurnar burt

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.