Morgunblaðið - 01.02.2004, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 01.02.2004, Blaðsíða 17
1.2.2004 | 17 varð uppsveifla í þeirri baráttu, bæði hér heima, í Evrópu – og reyndar víðar úti í heimi. Þetta sér maður auðvitað mun betur þegar litið er til baka,“ segir Vigdís og bætir við: „Það var dásamlegt að finna hvað konur glöddust innilega yfir því að ég skyldi ná kjöri. Ég ferðaðist mikið um allan heim á meðan ég gegndi forsetaemb- ættinu og það var alveg sama til hvaða lands ég kom, ég var alls staðar beðin um að koma í ótal viðtöl, ekki síst sjónvarpsviðtöl – til þess að sýna að ég væri raunveru- leg.“ Ekki til lítil þjóð „Auðvitað skipti það meginmáli hvað ég sagði um konur og lífið – en það sem vakti mesta athygli var að ég skyldi hafa verið kosin í almenn- um kosningum. Ég var gjarnan spurð hvort ég hefði aðeins verið kosin af konum en gat með sanni sagt að karlarnir hefðu ekki legið á liði sínu. Og ég er alltaf afar hreykin af Íslendingum fyrir þann kjark sem þeir sýndu með því að verða fyrstir til þess í heiminum að kjósa sér konu sem forseta. Með því sendu þeir þau skilaboð um víða veröld, í upphafi níunda áratugarins, að sjálfsagt væri að kjósa konu til að gegna forsetaembættinu. Það var einmitt til þess að binda endahnút á þau skila- boð, sem ég bauð mig fram til að gegna embættinu í enn eitt kjörtímabil eftir að hafa gegnt því í tólf ár. Ég átti þá eftir að hnýta svo marga hnúta. Þegar ég lít til baka sé ég hvað það var gagnlegt að þessi þjóð hérna fyrir norðan – ég segi ekki lítil þjóð, því það eru ekki til litlar þjóðir og stórar; það er ekkert lítið við það að verða þjóð; það er „röddin“ sem gildir; hvað hefur þessi þjóð að segja heimsbyggðinni – skyldi senda svo sterk skilaboð út í heim. En maður nær því ekki einu sinni sjálfur fyrr en eftir á, þegar maður fer að rýna í hlutina og skilgreina þá. Á meðan ég var stödd í eldlínunni hugsaði ég fyrst og fremst um að fylgja eftir sannfæringu minni. Þó skulum við ekki gleyma því að sú uppsveifla sem varð á níunda áratugnum verður vegna þess að konur fá tækifæri til þess að menntast og það er ’68 kynslóðin sem hrindir því af stað. Konur streyma inn í skólana, afla sér tækifæra og brjótast út úr viðjum hefðanna. Síðan hefur tæknin líka fært okkur svo margt. Hér áður fyrr voru húsmæðraskólar að kenna konum að strauja karlmannaskyrtur – sem þótti alveg sérstök kúnst, en nú er öldin önnur og með aukinni tækni fór að þykja sjálfsagt að konur nýttu greind sína og hæfni til annars.“ Nóg komið stelpur „Karlmenn vissu alveg að konur gætu tekist á við hvað sem er – ekki síst sjómenn. Ég hef aldrei heyrt karlmenn tala eins fallega um konur og sjómenn gera. Þeir vita manna best að komi eitthvað fyrir þá úti á reginhafi, þá reddast allt í landi þar sem konan er við stjórnvölinn. Sjómenn eru svo raunsæir, vegna þess að þeir standa stöðugt berskjaldaðir frammi fyrir náttúruöflunum. En upp úr 1990 kemur svo augljóst bakslag í jafnréttisbaráttuna. Það var eins og kæmi ósýnileg hönd sem sló á uppsveiflugleðina. Skilaboðin voru: „Nú er nóg komið stelpur. Gleymið ekki að þið eruð kynverur.“ Þetta kom ekki síst fram í klæðaburði. Konur voru látnar fækka fötum, en þótt kvenlíkaminn geti verið fal- legur, þá var gengið of langt vegna þess að þessi klæðaburður var svo naumur að hann hékk á hlýrunum einum saman. Þetta gekk alveg niður í smábarnaföt. Mér fannst átakanlegt að horfa á lítil stúlkubörn í gegnsæjum fötum, kjólum með örmjóum hlýrum yfir axlirnar og bert á milli laga. En íslenskar konur eru mjög sterkar. Þess vegna eigum við að senda afstöðu út til heimsbyggðarinnar þar sem barátta kvenna fyrir sjálfsmynd sinni er vissulega átakanleg. Þótt ýmislegt hafi áunnist á þeim vettvangi má svo sannarlega betur, ef duga skal. Veröldin fer mikils á mis að nýta ekki greind kvenna betur. Ég hef þá bjargföstu trú að okkur eigi eftir að aukast skilningur á því hversu mikilvægt það er að nýta þá auðlind sem felst í konum. Þegar ég er að tala um þessi mál úti í heimi, nota ég iðulega líkingu við gull til þess að sýna hve augljóst þetta er: Ef það lægi gullnáma á næsta torgi, hver mundi ekki nýta hana? Konur eru gullnáma heimsins.“ Allar manneskjur ganga einar Skiptir máli fyrir þig að hljóta þakkarvið- urkenningu frá íslenskum konum sem stunda atvinnurekstur? „Já, allar viðurkenningar skipta miklu máli, vegna þess að allar manneskjur ganga einar og vita ekkert hvort einhver annar kann að meta það sem þær gera. Allar manneskjur hafa þörf fyrir hljómgrunn og alltaf verð ég jafn þakklát þegar mér er sýnt að það sem ég geri er ekki unnið til einskis, vegna þess að það er ekki gert án fyrirhafnar. Það liggur gífurleg vinna í öllu sem ég tek mér fyrir hendur og það verður að vanda til þeirrar vinnu. Þar erum við líka komnar að annarri ástæðu fyrir því hversu mikilvægt er að velja konur í störf leiðtoga og stjórnenda. Þær eru mjög meðvitaðar um að það þarf að vanda til verka. Við erum ekki enn komnar á það stig að konum fyrirgefist ef þeim verður eitthvað á. Karlar komast upp með miklu meira. Við erum ennþá í því gamla fari að vera miklu umburðarlyndari gagnvart karlmönnum en konum. En viðurkenningar skipta miklu máli. Það sjáum við best hjá börnum. Það barn er miklu betur statt sem fær viðurkenningu fyrir það sem það gerir vel en það barn sem aldrei fær neina viðurkenningu. Mín kynslóð er til dæmis alin upp við það að það mátti aldrei hæla neinum, enginn mátti skara fram úr og lítið var um viðurkenningu. Þetta er gamli, blessaði lúterisminn; viðurkenning var af misskiln- ingi tengd ofmetnaði.“ Stend með konum hvar sem ég get „Það skiptir mig miklu máli að frétta það núna, þegar ég er orðin 73 ára gömul, að ég kunni að hafa verið fyrirmynd og hafi orðið til þess að konur öðluðust trú á sig sjálfar. FKA-viðurkenningin er ekki viðurkenning sérstaklega fyrir þau störf sem ég hef innt af hendi, heldur fyrir að hafa sýnt styrk til þess að fylgja þeim málum eftir sem eru mér hjartfólgin, við- urkenning fyrir að hafa haft kjark til þess að standa með sjálfri mér og með þeim mannverum og málefnum sem hafa verið mér hugleikin – og þar með konum. Ég stend alltaf með konum hvar sem ég get og hef það að einkunarorðum að bregðast aldrei konum.“ En yfir í allt annað. Nú gegndir þú forsetaembættinu í sextán ár af þeim sextíu sem Ísland hefur verið lýðveldi. Þegar mín kynslóð var að alast upp lærði hún að forsetinn væri sameiningartákn þjóðarinnar en í dag er forsetinn fremur fulltrúi hennar á erlendum vettvangi. Hefur þetta alltaf farið saman, eða hefur embættið þróast? „Já, að sjálfsögðu hefur embættið þróast. Þjóðin sjálf hefur þróast. Það hefur löngum verið mín skoðun að forsetaembættið eigi alltaf að hafa hugsýn og forset- inn eigi að reyna að hrífa landsmenn með sér í þessari hugsýn. Það þarf að vera hugsýn sem kemur okkur öllum við og getur snert hjarta okkar allra. Mín hugsýn hefur alltaf verið land, þjóð og tunga. Við erum þetta land, við er- um þessi þjóð og við eigum þessa tungu. En í peninga- og tómhyggju nútímans er eins og lagst hafi slikja yfir þessa hugsýn sem þjóðin átti og stóð svo föstum rótum, að því er virtist. Þjóðin hafði alltaf staðið saman um hana og staðfesti það þrisvar sinnum á seinustu öld, fyrst með heimastjórninni 1904, síðan með fullveldinu 1918 og að lokum með lýðveldisstofnuninni 1944. Sjálfstæðið var leiðarljós og sameiginleg sýn allra landsmanna. Þetta var aðalsmerki þjóðarinnar – og á að vera það.“ Þér var ég gefinn… „Þess vegna finnst mér leiðinlegt að heyra það þegar ég er erlendis núna á tímum peninga- og tómhyggju að við séum svo ameríkaníseruð. En við erum það ekki nema á yfirborðinu. Það er á yfirborðinu sem sést hvað við búum við mikla velmegun og eigum stóran og góðan bílakost. En svo fer það ekki framhjá neinum sem heimsækir okkur hversu mikið af því efni sem sýnt er í sjón- varpi er frá Ameríku. Það sagði við mig rithöfundur um daginn að íslenskir ung- lingar þekktu orðið betur úthverfi í bandarískum borgum en sitt eigið land. Hins vegar finnst mér við ekki lifa og hugsa á ameríska vísu og eigum auðvitað ekki að gera það. Okkar menning hefur tilheyrt evrópskri menningu í gegnum aldirnar og það ættum við að hafa í huga. Við eigum, til dæmis, hvergi á jörðinni raunverulega vini nema á Norðurlöndunum. Við erum norræn þjóð og þess vegna er mjög mikilvægt að við tileinkum okkur eitt af norrænu tungumálunum í skóla. Það er mín skoðun að það eigi að byrja að kenna dönsku miklu fyrr en gert er. Það ríkir mikil samkennd meðal Norðurlandaþjóðanna. Það sjáum við best þegar eitt- hvað bjátar á, eða þegar dramatískir atburðir eiga sér stað. Þetta höfum við Ís- lendingar fengið að reyna þegar hér hafa orðið alvarlegar náttúruhamfarir, eins og snjóflóð og eldgos. Þá taka Norðurlöndin fyrst af öllum eftir vandanum, sýna sitt sanna bróðurþel og koma okkur til hjálpar. En af því að við vorum að tala um forsetaembættið, þá hefur það alltaf verið barn síns tíma. Það fer auðvitað saman að forsetinn sé sameiningartákn og fulltrúi þjóðarinnar út á við. Ég var úti um allan heim að kynna okkar menningu. Land, þjóð og tunga var mitt mottó og ég skammast mín ekki fyrir það. Þessi einkunn- arorð sótti ég í ljóðið hans Snorra Hjartarsonar Land, þjóð og tunga sem hefst á þessu undurfallega stefi: „Þér var ég gefinn, barn á móðurkné.“ Ég var alin upp í þessum anda. Ég var alin upp með tveimur kynslóðum þar sem afi og amma bjuggu á heimilinu. Þau mundu heimastjórnina og valtýskuna. Það var mikils virði að vera alin upp í tengslum við gamla tíma. Það er veganesti sem ég hef alltaf búið að, því það er ekki hægt að undirbúa neina framtíð öðruvísi en að hafa fortíðina með í farteskinu.“ En upp úr 1990 kemur svo augljóst bakslag í jafnrétt- isbaráttuna. Það var eins og kæmi ósýnileg hönd sem sló á uppsveiflugleðina. Skilaboðin voru: „Nú er nóg komið, stelpur. Gleymið ekki að þið eruð kynverur.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.