Morgunblaðið - 01.02.2004, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 01.02.2004, Blaðsíða 28
28 | 1.2.2004 Ítalía er einn af þessum stöðum sem breytast aldrei og virðast alltaf vera jafn-vinsælir. Þegar maður kemur þangað inn er eins og ekkert hafi breyst frá því ermaður byrjaði að sækja staðinn heim í menntaskóla fyrir um tveimur áratugum. Jafnvel þegar eldsvoði eyðilagði veitingastaðinn að miklu leyti fyrir nokkrum árum var hann byggður upp á ný í nær óbreyttri mynd. Það má margt setja út á Ítalíu. Innréttingar og matseðill minnir meira á ímynd Ítalíu í ríkjum Norður-Evrópu á síðari áratugum síðustu aldar en Ítalíu sjálfa. Að minnsta kosti hef ég ekki enn komið inn á ítalskan veitingastað á Ítalíu er svipar til Ítalíu þrátt fyrir að hafa heimsótt þá ansi marga frá Veneto í norðri til Sikileyjar í suðri. Hins vegar hef ég komið inn á staði í til dæmis Svíþjóð, Þýskalandi og Bandaríkjunum sem sverja sig í ætt við Ítalíu. Flest borð eru í litlum básum og á þeim eru grófir dúkar og þykk glerplata ofan á sem gerir að verkum að það glymur hressilega þegar gestir leggja frá sér hnífapör, glös eða annað sem þýðir snertingu við gólfplötuna. Raunar er Ítalía yfirleitt fremur hávær staður, þarna er alla jafna mikið af barna- fólki, saumaklúbbum og erlendum ferðamönnum. Ég man ekki eftir að hafa komið á Ítalíu án þess að stað- urinn væri nær troðinn af gestum sama hvaða dag vik- unnar er um að ræða. Stemningsstaðir sem þessir njóta greinilega enn vin- sælda hjá íbúum norðurhjarans sem geta hluta úr kvöldi brugðið sér á suðrænar slóðir, fengið sér pitsu og rauð- vín í hitanum frá pitsuofninum á meðan leikin er blanda af ítölskum slögurum og hetjutenóraaríum og hægt er að virða fyrir sér „listmuni“ og myndir í „ítölskum“ stíl á veggjum. Allur borðbúnaður er einfaldur og það liggur við að maður segi ósmekklegur. Hnífapörin ljót og glösin gróf og þykk. Eins ódýr og hægt er að fá þau. Hins vegar er ekkert slakað á í álagningu á vínunum. Þau eru dýr og vín- listinn að mörgu leyti ómarkvisst samsafn. Þarna er vissulega að finna vín frá mjög góðum framleiðendum svo sem Masi, Brolio og Tommasi en ég gat ekki séð neitt kerfi í skipulagningu eða vali vína á vínlistanum. Matargerðin á Ítalíu er ekki stórkostleg en hún er heldur ekki alslæm. Að mörgu leyti hefur hún skánað. Nú er til dæmis borið fram nýbakað brauð með ólívumauki og mauki úr þurrkuðum tómötum en ekki einungis þurrar grissini-stangir. Pitsurnar standa líka alltaf fyrir sínu og raunar verð ég að segja fyrir mína parta að það er sá hluti matargerðarinnar á Ítalíu sem hvað best stendur undir nafni. Þetta er fínn staður til að fá sér pitsu og rauðvín og reikningurinn verður aldrei hár. Hins vegar vandast málið þegar kemur að öðrum réttum sem stöðugt verða fleiri á matseðlinum. Pastaréttirnir eru sæmilegir en að mínu mati frekar dýrir miðað við hvað er í boði. Þeir styðjast allir við þurrkað pasta úr pakka, það sama sem við kaupum í stórmörkuðum og notum heima hjá okkur. Það er að verða áratugur frá því betri ítalskir staðir hér á landi hófu að leggja metnað í að nota heimatilbúið pasta í rétti sína. Pastasósurnar eru sömuleiðis fremur einfaldar. Uppistaða flestra þeirra er tómatar og/eða rjómi og þá virðist það tilheyra að henda heilum kirsu- berjatómati ofan í pastaskálina og stórum hlunk af agúrku, óháð því hvort blessuð gúrkan eigi nokkurt erindi saman við matinn. Penne með New York-bollum var þannig einstaklega einfald- ur réttur borinn fram í stórri, grófri keramikskál sem ekki var þægilegt að borða úr. Bollurnar voru sagðar kryddaðar á seðli en voru bragðdaufar þegar á hólminn var komið. Sósan fyrst og fremst tómatar með örlitlum lauk og kryddjurtum. Parmesan- osti hafði verið dreift yfir en það magn hefði mátt vera meira. Það hefði ekki spillt fyrir að bera fram ost auka- lega með en það var ekki gert frekar en með öðrum rétt- um. Fusilli-réttur var svipaður nema hvað þá voru engar bollur en í staðinn olíusteiktar zucchini-sneiðar og græn paprika hafði verið elduð með tómatnum. Spaghetti Carbonara var nokkuð bragðgott, sósan þykk og beik- onið vandað í stórum og þykkum sneiðum og setti af- gerandi mark á réttinn. Sósan var hins vegar mjög þung með miklum rjóma og eggjum og fór það að segja til sín fljótlega. Þarna hefði einnig mátt vera meira af osti. Kálfasneið klikkar sjaldan en ég hreifst ekki af Saltim- bocca alla Romana-sneiðunum. Kálfurinn töluvert brasaður og hráskinkan ofan á hefði mátt vera betri. Á heildina litið var útkoman nokkuð sölt. Djúpsteiktar kart- öflu-krókettur voru sömuleiðis ekki þannig að þær heilluðu og ég áttaði mig ekki al- veg á þykku appelsínusneiðunum tveimur. Sósan með bragðdauf og sölt. Vinsældir Ítalíu byggjast hins vegar líklega ekki á því að menn komi þangað til að snæða ítalska sælkeramáltíð. Þá er betra að fara annað. Vinsældir Ítalíu byggjast á kunnugleikanum, menn vita að hverju þeir ganga í stemningu og mat, þetta er suðrænt athvarf frá skammdeginu og þangað inn streyma menn aftur og aftur og aftur. MATUR OG VÍN | STEINGRÍMUR SIGURGEIRSSON L jó sm yn d: G ol li ÍTALÍA SEM ÍMYND FREMUR EN FYRIRMYND Ítalía er yfirleitt fremur hávær staður, þarna er alla jafna mikið af barnafólki, saumaklúbbum og erlendum ferðamönnum Laugavegi 11. Sími 552 4630. Andrúmsloft: Norður-evrópsk Suður-Evrópu-stemn- ing. Angan af hvítlauk og olíu, hetjutenórar í hátöl- urunum og ungar skólastúlkur sem ganga um beina. Pastað er úr pökkum en gestir sækja vísast til í stemn- inguna fremur en matinn. EINKUNN:  Viðunandi  Góður  Mjög góður Frábær  Afburða veitingastaður Einkunnagjöf byggist á mati á þjónustu, húsnæði, vínlista og mat, að teknu tilliti til verðlags. ÍTALÍA  Zinfandel var lengi meginþrúga Kaliforníu þótt Cabernet og Chardonnay hafi á síðustu árum tekið við þeirri nafnbót. Þegar litið er til þess hversu margir hektarar af landi eru ræktaðir af mismun- and þrúgum stendur Zinfandel sig hins vegar enn ansi vel og þegar vel tekst til er þessi þrúga (sem enn er deilt um hvaðan kemur og getur þar að auki brugðið sér í mismun- andi líki) enn einn helsti holdgervingur Kaliforníu. Rancho Zabaco Sonoma County Zinfandel 2001 er dæmigert vín fyrir ákveðna nýbylgju í Zinfandel-víngerð- inni. Þetta er vín úr smiðju Gallo-fjölskyldunnar, mjög ávaxtaríkt, sætt og sultað. Þarna má greina þroskuð kirsu- ber og plómur í nefi, léttur viður sem gefur sætan van- illukeim. Í munni mjúkt, sætur ávöxtur, léttkryddað mild og þykk uppbygging. 1.790 krónur. 16/20. Annað bandarískt vín, einnig frá Sonoma County í Kaliforníu, er Rodney Strong Cabernet Sauvignon 2000. Þetta er að mörgu leyti dæmigert Kaliforníuvín sem sameinar margt af því góða sem einkennir bandaríska víngerð, kraft en jafn- framt breidd. Í nefi er vínið öflugt, djúpur ávöxtur en sömuleiðs brenndur sykur, núggat, og súkkulaði. Eikin er áberandi og vínið amerískt í uppbyggingu, kröftugt en í góðu jafnvægi. Kraftabolti. Nokkuð dýrt, sem dregur einkunn aðeins niður, enda tekur hún mið af verði. 1.900 krónur. 17/20 Frá Sikiley kemur svo hvítvínið Feudi Arancio Grillo 2002. Þrúgan Grillo hefur ekki verið áberandi hér heima, þetta er eitt af fyrstu vínunum er hér koma á markaðinn þar sem hún kemur við sögu. Mig grunar hins vegar að hún eigi vel við landann. Þarna má greina vínger, kíví og sætar perur í nefi. Í munni sætur og góður ávöxtur, ferskt og ljúffengt. Gott jafn- vægi og þægilegt og aðgengilegt vín. 1.250 krónur. 16/20 Sikiley er syðsta hérað Ítalíu en Veneto er með þeim nyrstu. Hvítvínið Tommasi Santa Cecilia Chardonnay 2001 kemur þaðan. Það er grösugt, út í möndlur, ávöxt- urinn þurr, rétt eins og bragðið. Ekki afgerandi vín og milliþungt. Ég er mikill aðdáandi Tommasi-vínanna og Valpolicella og Amarone-vín þessa framleiðanda eru með þeim betri. Þetta hvítvín náði hins vegar ekki að heilla mig í þau skipti sem ég smakkaði það. 1.180 krónur. 15/20 VÍN

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.