Morgunblaðið - 25.04.2004, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 25.04.2004, Blaðsíða 21
L ífshlaup Brooks Walker hefur á margan hátt verið óvenjulegt. Hann hefur til dæmis verið mikið á faraldsfæti. Fyrst sem barn en foreldrar hans litu á ferðalög sem hluta af almennri þekkingarleit og síðan hef- ur hann ferðast mikið vegna starfa sinna. Framan af vann hann sem ballettdansari og bjó um skeið meðal annars í Japan. Brooks starfar nú sem ljósmyndari og hefur unnið fyrir mörg af helstu tímaritum veraldar, eins og National Geographic, New York Times, tímarit Conde Nast útgáfunnar og tímaritið Geo sem gefið er út í Þýskalandi svo einhver séu nefnd. Á vegum þessara tímarita hefur hann tekið að sér viðamikil verkefni víðsvegar um heim en algengt er að hann sé á vegum úti að mynda stóran hluta úr árinu. Brooks er einnig þekktur fyrir myndir af mat og víni, þá sérstaklega á Ítalíu þar sem hann hefur búið af og til í fjörtíu ár. Brooks er ljósmyndari (contributing editor) hjá National Geographic Traveler og tekur að sér ákveðin verkefni fyrir Metropolitan safnið í New York. Hann er spurður hvað felist í starfsheitinu „contributing editor?“ „Ég fæ fría áskrift ...“ segir hann í hálfkæringi. „En í alvöru talað þá fæ ég ekki að- eins útdeilt verkefnum heldur kem ég með hugmyndir og lausnir á því hvernig á að útfæra þær.“ Brooks er fjölhæfur ljósmyndari eins og kemur fram þegar rætt er um verkefnin sem hann hefur tekið að sér í gegnum tíðina. Hann segir útgefendur hafa tilhneigingu til að flokka ljósmyndara eftir því hvað þeir hafa verið að fást við. „Ef ritstjóri man eftir ljósmyndara vegna tiltekins efnis er honum eiginlegt að láta hann aftur í svipuð störf. Ég hef sem betur fer sloppið við að vera settur á ákveðinn bás en hef einkum verið í ferða- og menningartengdu efni auk þess að taka mannamyndir og myndir af landslagi. Eftir að nýr myndritstjóri tók við hjá New York Times Magazine Sophistica- ted Traveler hef ég verið talsvert í útilífsverkefnum. Í fyrra var ég sendur til að taka myndir af flúðasiglingu í Idaho og fór í laxveiði hér á Íslandi.“ Í gegnum þessa vinnu hefur hann kynnst ýmsum hliðum mannlífsins. Eitt sinn fékk hann til dæmis það viðfangsefni hjá Smithsonian Magazine í Bandaríkjunum, að ljósmynda gaddavír. „Ég fékk engar nánari skýringu á verkefninu og hafði algjörlega frjálsar hendur. Ég hélt til deyjandi smábæjar í mið-vesturhluta Bandaríkjanna, La- crosse, í Kansas, þar er að finna gaddavírssafn. Árlega koma þar saman gaddavírs- safnarar heimsins.“ Safn tileinkað gaddavír? „Já það eru til hundruð tegunda af gaddavír,“ segir hann og útskýrir nánar: „Gaddavírinn er nátengdur sögu bandarísku þjóðarinnar. Landnemarnir urðu að girða land sitt til að hafa hemil á búfénaðinum svo hann færi ekki út um allar trissur. Má segja að gaddavírinn hafi breytt landslaginu á þessum kúaslóðum. Þetta var fróðleg ferð og mesta furða hvað hægt er að gera list- rænar ljósmyndir úr efnivið eins og gaddavír.“ „Vinna mín er ekki ósvipuð vinnu mannfræðingsins,“ bætir hann við. „Ég skráset með ljósmyndatækninni menningarleg fyrirbæri, bæði gömul og ný eins vel og ég mér er unnt og miðla því sem mér finnst athyglisvert og upplýsandi til áhugasamra lesenda. Ljósmyndun er auk þess mjög vitsmunalegt starf þar sem notuð eru öll skiln- ingarvitin til að uppgötva, læra og skilja. Það er ekki nóg að skoða og hugsa heldur þurfum við líka að smakka, lykta og hlusta, þ.e. nota öll skynfærin sem við höfum til að kanna umhverfið, hvort sem það er framandi eða kunnuglegt.“ En hvernig er að vera á sífelldum ferðalögum, kannski fleiri vikur í senn? „Ég nýt þess,“ segir hann með áherslu og hallar sér makindalega aftur í stólnum. „Mér finnst lyktin af flugvélabensíni góð og kann vel við mig á hótelum, ég myndi búa á hóteli að staðaldri hefði ég efni á því. Ég veit í raun fátt betra en að fara frá ein- um stað til annars og kynnast áhugaverðu fólki, menningu þess og landfræðilegum aðstæðum og því sem gerir umhverfið sérstætt og þess virði að fjalla um það og deila því með öðrum.“ Vinnurútínan í þessum ferðum, hvernig er hún? „Ég vinn svo að segja allan sólarhringinn, alla daga vikunnar og ég finn ekki fyrir þreytu fyrr en ég hef lokið verkefninu. Fólk heldur að á ferðalögunum geti ég notið þess inn á milli að vera í fríi. En ég fullvissa það um að á þessum ferðum er ekki svig- rúm til slíks. Frí fyrir mér er þegar ég er heima hjá mér.“ Kynntist konunni um borð í Gaiu „Mér eru ferðalögin á margan hátt eiginleg enda byrjaði ég snemma að ferðast með foreldrum mínum,“ heldur hann áfram frásögn sinni. „Ég var hálfs árs þegar atvikin höguðu því þannig að faðir minn sem var listamaður fékk vinnu í Íran. Þetta var í kringum 1956 skömmu eftir að keisarinn losaði sig við Breta sem höfðu ráðið yfir ol- íuiðnaðinum. Í stað þeirra fluttu Íranar inn nokkur hundruð Bandaríkjamenn og Hollendinga til að annast vinnslustörfin tímabundið og til að kenna innfæddum til verka. Við bjuggum í borginni Abadan. Starf föður míns fólst í að útbúa myndabæk- ur fyrir þá sem ekki kunnu að lesa og voru notaðar til að kenna Írönum hin ýmsu störf við olíuvinnsluna. Þegar við höfðum dvalið í Íran í tvö ár héldum við austur á bóginn og vorum á ferðalagi í eitt ár um Asíu. Þegar við komum til baka til Banda- ríkjanna settumst við að í litlum bæ í Vermont, þar sem faðir minn vann fyrir sér sem höggmyndalistamaður. Þegar ég var átta ára fluttum við til Ítalíu. Sástu ljósmyndina í forstofunni þegar þú komst inn?“ spyr hann allt í einu, þar sem við sitjum við eldhús- borðið á heimili hans við Tjarnargötuna. Ég hristi höfuðið. „Þetta er þekkt ljósmynd og heitir American girl in Italy, tekin í kringum 1951 eftir Ruth Orkin og er af ungri stúlku á gangi í Flórens. Hún er af móðursystur minni sem giftist greifa ættuðum frá Feneyjum. Ég bjó hjá henni um tíma eða þangað til foreldrar mínir fluttu þangað. Síðan hef ég búið á Ítalíu alltaf af og til í áratugi. Ég hef alltaf haft bækistöð í New York og búið í mörg ár á Íslandi.“ Fyrir þrettán árum kynntist Brooks íslenskri konu, Herdísi Ellen Gunnarsdóttur. Þá var hann sendur hingað til lands til að taka myndir fyrir Archeology Magazine af víkingaskipinu Gaiu og áhöfn þess. Herdís var í áhöfn Oseberg sem tók þátt í leið- angri Gaiu sem var sameiginlegt verkefni íslenskra og norskra stjórnvalda en skipin sigldu frá Noregi til Bandaríkjanna til að kynna siglingar víkingaskipa fyrr á tímum og sögu landafundanna. Ástin blómstraði ekki fyrr en Herdís kom til New York nokkrum vikum síðar en þá beið Brooks hennar við höfnina. Í nokkur ár fylgdi Her- dís honum á ferðum hans en er hætt því, en þeim fæddist sonur síðastliðinn nóv- ember. Þau Herdís unnu að ýmsum verkefnum saman á þessum árum. Eitt stærsta NOTA ÖLL SKYNFÆRIN VIÐ VINNU MÍNA Framan af starfsævinni var Brooks Walker ballettdansari en nú starfar hann sem ljósmyndari við þekkt alþjóðleg tímarit, þar á meðal National Geographic Traveler sem er eitt víðlesnasta ferðatímarit veraldar. Eftir Hildi Einarsdóttur 25.4.2004 | 21

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.