Morgunblaðið - 25.04.2004, Síða 29

Morgunblaðið - 25.04.2004, Síða 29
25.4.2004 | 29 Drottinn blessi heimilið“ stendur fagurlega útsaumuðum stöfum á bestastað í stofunni hjá Bergþóri Pálssyni óperusöngvara. „Mér finnst eitt-hvað fallegt við þessa kveðju,“ útskýrir húsráðandi. „Svo er þetta svo heimilislegt – líklega af því að þetta minnir á afa og ömmu.“ Það er Bergþór sjálfur sem hélt á nálinni við útsauminn á kveðjunni atarna og hið sama má segja um fjölda útsaumaðra mynda og klukkustrengja sem prýða heimili hans. Að baki þessum myndum liggja ófáir klukkutímar í handverki sem flestir tengja sjálfsagt við konur af þeirri kynslóð sem sótti menntun sína í hús- mæðraskóla vítt og breitt um landið frekar en karlmenn í blóma lífsins. „Þetta byrjaði eiginlega þannig að mig langaði að eignast skuggamyndir af tónskáldum,“ heldur Bergþór áfram. „Svo sá ég þannig útsaumsmyndir í glugg- anum á hannyrðabúð á Laugaveginum og ákvað að gera þær sjálfur.“ Þetta var fyrir tveimur, þremur árum og síðan hefur Bergþór varið ófáum stundum fyrir framan sjónvarpið með krosssaumsstykki í hendi. „Mér fannst þetta svo þægi- legt og slakandi. Ég hafði alltaf gert mikið af krossgátum en hugsaði með mér að þetta væri enn betra því þá sæist eitthvað eftir mann á tíma sem myndi ekki nýt- ast hvort eð væri. Sömuleiðis væri kannski hægt að gefa þetta í jólagjöf, sem varla er hægt að gera við útfylltar krossgátur,“ segir hann hlæjandi. Allar myndir og strengir Bergþórs eru saumaðar út með krosssaumi. „Það er eiginlega lítið að kunna,“ segir hann hógvær þegar hann er spurður að því hvar hann lærði til verka. „Ég held reyndar að ég hafi beðið mömmu að sýna mér hvernig maður fæli endana – það er svona skemmtilegra en að vera með þetta allt í einhverjum hnútum.“ Þessi grundvallarkennsla virðist hafa skilað sér vel því meðal útsaumsverka Bergþórs eru tvær stórar myndir, gerðar eftir lág- myndum Thorvaldsens, og mynd í norskum stíl, sem hann saumaði eftir teikningu sambýlismanns síns, Alberts Eiríkssonar. „Svo lét ég gera upp baðherbergið hjá mér og var lengi að velta því fyrir mér hvað væri hægt að hafa á veggnum til skrauts. Þá datt mér í hug að sauma út mynd af höggmyndinni Davíð eftir Michelangelo sem ég hafði séð í búðinni á Laugaveginum. Sú mynd var reyndar ofboðslega fíngerð en ég ákvað að fara í kapp við iðnaðarmennina og það stóð á endum – ég kláraði myndina rétt á undan þeim.“ Sum verk Bergþórs hafa krafist talsverðrar leit- ar að réttu munstrunum, eins og þjóðlegur klukkustrengur, sem sýnir íslenskar kirkjur að fornu og nýju og konur í mismunandi íslenskum búningum, sannar. „Ég var búinn að sjá hann í safnaðarheimili Dómkirkjunnar og spurði konur í kvenfélaginu þar hvar mætti nálgast það munstur. Þær vissu það ekki en settu heila herdeild í gang og hringdu út um allt land til að leita að þessu fyrir mig. Og það endaði með því að þær fundu munstrið hjá konu á Vesturlandi sem átti þetta í fórum sínum.“ Bergþór segist lítil viðbrögð hafa fengið við þessari tómstundaiðju sinni. „Ekki nema þegar ég fór að syngja við brúðkaup á Englandi með Sig- nýju Sæmunds. Þá var ég með þetta í lestinni og ég man að við hlógum mikið að tveimur eldri konum sem sátu á móti okkur og höfðu ekki aug- un af mér. En aðrir hafa ekki haft neitt við þetta að athuga.“ Það er nokkuð um liðið síðan Bergþór tók síð- ast í saumana enda segist hann vera í hléi frá bróderíinu sem stendur. „Ég á reyndar einn streng ókláraðan úr Grettissögu og hver veit nema ég taki hann upp ef ég fer eitthvað út á land í sumarbústað í sumar.“ ben@mbl.is M or gu nb la ði ð/ G ol li TÓMSTUNDIR | BERGÞÓRA NJÁLA GUÐMUNDSDÓTTIR ÚR KROSSGÁTUM Í KROSSSAUM Bergþór Pálsson lumar á óvenjulegu áhugamáli Ég held reyndar að ég hafi beðið mömmu að sýna mér hvernig maður fæli endana …

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.