Morgunblaðið - 17.08.2004, Side 22
UMRÆÐAN
22 ÞRIÐJUDAGUR 17. ÁGÚST 2004 MORGUNBLAÐIÐ
GUÐMUNDUR Hallvarðsson,
þingmaður og formaður samgöngu-
nefndar Alþingis, ritar grein í Morg-
unblaðið 17. júní sl. um að fyr-
irkomulag leigu-
bifreiðaaksturs milli
Keflavíkur og Reykja-
víkur sé úrelt og að við
viljum halda dauðahaldi
í forneskjulega reglu-
gerð. Ég er sammála
Guðmundi að þessi
reglugerð er á skjön við
megintilgang laga um
leigubifreiðaakstur, en
hann er eins og Guð-
mundur segir góð og
örugg þjónusta, og að
„Leigubifreiðastöðvar
skipuleggi starfsemi
sína með þeim hætti að almenningi
verði veitt góð og örugg þjónusta“.
Þegar þau lög sem nú eru og tóku
gildi 21/4 2002 voru í undirbúningi,
óskaði samgöngunefnd Alþingis eftir
áliti hlutaðeigandi á frumvarpi því er
þá lá fyrir, með uppkastinu fylgdi
greinargerð. Greinargerð þessi var
að okkar áliti svo ótrúleg sýn á stétt
okkar að engu líkara en að óald-
arflokkur væði um, og tími kominn
að stemma stigu við með haldgóðum
lögum. Aðstæður væru breyttar í
þjóðfélaginu og að farþegi staddur
einn á óskilgreindum stað með bif-
reiðastjóra væri í hugsanlegri hættu.
Það voru engar áhyggjur af einum
bifreiðastjóra á óskilgreindum stað,
með allt að 8 farþegum í misjöfnu
ástandi, eins og oft kemur fyrir.
Auka átti allt eftirlit með bifreiða-
stöðvum, og að auka ábyrgð þeirra
svo hægt væri að stilla
þeim upp við vegg ef
eitthvað færi úrskeiðis
með útgáfu und-
anþágna, sem þær
áttu nú að taka að sér,
en stéttarfélögin höfðu
séð um þær allar götur
hingað til. Upphaf-
legur tilgangur frum-
varpsins, að okkar
áliti, var að þurrka út
minni stéttarfélögin,
og setja allt undir hatt
og fyrirkomulagsóskir
stéttarfélagsins
Frama í Reykjavík, enda teljum við
okkur sjá fingraförin. Til málamynda
var sett í viðkomandi grein að stétt-
arfélög gætu gefið út undanþágur ef
þau teldust hæf til þess að áliti Vega-
gerðarinnar. Nú skyldi nýjustu
tækni beitt til að halda utan um
starfsemi stéttarinnar. Sérstakt
námskeið skyldi gert að skilyrði til
að leysa af í forföllum leyfishafa, og
vera með skírteini uppá vasann frá
Vegagerðinni, fyrr enginn for-
fallaakstur, nú var hið meira próf
ekki nægjanlegt. Fáir þú aftur á
móti vinnu á stórum malarbíl eða bif-
reið til langferða, ekkert auka-
námskeið. Þetta er eina stéttin er
þarf að lúta þess háttar lögum, að því
er við best vitum, þetta auka-
námskeið kostar með öllu um 30 til
40 þúsund. Þetta er farið að hafa þær
afleiðingar að nú er illmögulegt að fá
nýja aðila til afleysinga.
Bifreiðarnar standa heima ónýttar
á álagstímum. Þetta er alveg ný
reynsla, og önnur ný reynsla er að
þeir afleysingamenn sem eru þó í
gangi um helgar hafa mátt sæta, oft-
ar en ekki, auknum afskiftum lög-
reglu og eftirlitsmanna Vegagerðar,
og eru margir búnir að fá sig full-
sadda af þessum yfirdrifna eftirlits-
iðnaði sem er að tröllríða allri at-
vinnustarfsemi hér í þessu að mörgu
leyti góða landi okkar. Við gerðum
óspart grín að eftirlitinu í Rússlandi
hér á árunum áður, en maður líttu
þér nær. Lögin gerðu ráð fyrir hert-
um reglum og ströngum viðurlögum
gagnvart stöðvunum, sinni þær ekki
þeim skyldum er Vegagerðinni yrði
veitt heimild að setja á í formi
„gæðastaðla“ til að tryggja áreið-
anlegri þjónustu og til að bæta
ímynd stéttarinnar, sem að áliti höf-
undar frumvarps væri orðin eitthvað
döpur. Þetta átti að vera svo „flott“,
því svona væri þetta í útlandinu, svo
vitnað sé í greinargerðina er fylgdi
frumvarpinu. Fyrsti af 8 „gæðastöðl-
um“ Vegagerðarinnar, til að bifreiða-
stöð fái starfsleyfi, þó svo að hún hafi
verið starfandi síðustu 40 ár án allra
vandræða, viðkomandi stöðvarstjóri
á að sækja námskeið ætluð tilvon-
andi leyfishöfum til leigubifreiða-
aksturs. Vegagerðin úthlutar þess-
um námskeiðum til þeirra sem hún
hefir velþóknun á. Ég vil ætla að
slíkt tveggja vikna námskeið, og er í
umræðunni að stækka umfang
þeirra og meiri peningaútgjöld, séu
eingöngu fyrir fólk með bifreiðapróf,
en ég hefi ekki séð það á prenti að
stöðvarstjóri leigubifreiðastöðvar
þurfi að hafa bifreiðaþróf til að geta
sinnt starfi sínu. Hvað gerir Vega-
gerðin þá með sína „gæðastaðla“?
Hinir 7 „gæðastaðlar“ Vegagerð-
arinnar gagnvart starfsleyfi bifreiða-
stöðvar eru allir í sama dúr, ótrúleg
forræðishyggja. Þetta hefur ekkert
með gæði að gera, en sýnir enn og
einu sinni hvernig misviturt og þekk-
ingarsnautt embættisfólk getur eyði-
lagt starfsumhverfi annarra.
Nánar verður fjallað um mál þetta
í annarri grein.
Magnús Jóhannsson skrifar
um leigubílaakstur
’Þetta hefur ekkertmeð gæði að gera,
en sýnir enn og einu
sinni hvernig misviturt
og þekkingarsnautt
embættisfólk getur
eyðilagt starfsumhverfi
annarra.‘
Magnús Jóhannsson
Höfundur er stöðvarstjóri
Ökuleiða, Keflavík.
Er fyrirkomulag
leigubifreiðaaksturs
úr Keflavík úrelt?
SKÓLASETNING
verður í grunnskólum
Reykjavíkur eftir
nokkra daga. Fyrir
flestar fjölskyldur er
það tilhlökkunarefni.
Þær tilfinningar sem
foreldrar nemenda í
5.–10. bekk Öskju-
hlíðarskóla finna til
eru blendnar. Þeir
gleðjast með börnum
sínum við skólabyrj-
un en á sama tíma
kvíða þeir vetrinum.
Ástæðan er sú að
Fræðsluráð Reykja-
víkur virðist hafa
ákveðið að starfrækja
ekki skóladagvist fyr-
ir þennan hóp nem-
enda en slík þjónusta
hefur verið til staðar
frá árinu 1993. Þessi
ákvörðun Fræðslu-
ráðs Reykjavíkur fel-
ur í sér algera stefnubreytingu í
þjónustu Reykjavíkurborgar við
þennan hóp nemenda.
Nemendur Öskjuhlíðarskóla eru
þroskaheft börn. Mörg þeirra eru
með flókna fötlun og atferlistrufl-
anir. Þau búa flest við verulega fé-
lagslega einangrun og eiga mörg
hver einu vini sína í skólanum.
Skóladagvistin er þeim því mjög
mikilvæg og þau njóta samvist-
anna hvert með öðru.
Skóladagvist var
sett á laggirnar til að
tryggja foreldrum
(ekki síst konum) 6–9
ára barna í Reykjavík
jafnrétti á vinnumark-
aði. Foreldrum er
þannig tryggð gæsla
barna sinna sem ekki
eru fær um að vera
ein heima. Nemendur
í 5.–10. bekk Öskju-
hlíðarskóla eru ekki
fær um að vera ein
heima. Sömu rök gilda
því fyrir því að
tryggja þessum for-
eldrum jafnrétti á
vinnumarkaði og for-
eldrum barna í 1.–4.
bekk.
Haustið 2003 var
skóladagvist ekki
starfrækt á haustönn
fyrir nemendur 7.–10. bekkjar
Öskjuhlíðarskóla vegna manneklu.
Það ástand hafði í för með sér
mjög alvarlegar afleiðingar fyrir
fjölskyldur nemenda. Foreldrar
urðu fyrir vinnutapi sem hafði
veruleg áhrif á fjárhagsafkomu
fjölskyldnanna. Dæmi eru um að
einstæðu foreldri með einhverft
barn hafi verið sagt upp störfum
vegna fjarveru frá vinnu sem
skortur á skóladagvist hafði í för
með sér. Ástandið hafði einnig
veruleg áhrif á líðan barnanna sem
upplifðu enn meiri félagslega ein-
angrun en fyrir var. Mörg þeirra
þoldu illa það óöryggi sem skortur
á skóladagvist fylgdi. Afleiðingar
þessa voru hegðunarerfiðleikar og
geðræn einkenni sem m.a. þurfti
að meðhöndla með lyfjameðferð
sem annars hefði verið óþörf.
Þær afleiðingar sem skortur á
skóladagvist hafði á líf umræddra
fjölskyldna haustið 2003 eru ráða-
mönnum Reykjavíkurborgar og fé-
lagsmálaráðuneytis fullkunnugar
og hefðu átt að verða hvati til að
tryggja að slíkt ástand skapaðist
aldrei aftur.
En raunin er ekki sú. Reykja-
víkurborg hefur nú valið að leggja
þessa þjónustu niður. Það er leik-
ur í því stríði sem Reykjavík-
urborg og félagsmálaráðuneytið
hafa valið sér að há nú á haust-
dögum. Engin lausn virðist í sjón-
máli í því stríði og þeir sem munu
þjást eru fötluð börn og fjöl-
skyldur þeirra. Slík átök eru
hvorki Reykjavíkurborg né félags-
málaráðuneytinu til sóma og í litlu
samræmi við þá félagshyggju sem
báðir aðilar vilja kenna sig við.
Báðir aðilar hljóta að þurfa að
íhuga hvort tilgangurinn helgi í
raun meðalið. Fjölskyldur fatlaðra
barna búa við nægt álag fyrir þó
stjórnvöld skapi þeim ekki enn
frekari erfiðleika og vanlíðan
vegna pólitískra deilna.
Foreldra- og styrktarfélag
Öskjuhlíðarskóla skorar á Reykja-
víkurborg að tryggja nú þegar
starfrækslu skóladagvistar fyrir
nemendur 5.–10. bekkjar Öskju-
hlíðarskóla með því að fela ÍTR
það verkefni og afstýra þannig
þeim alvarlegu og óþörfu afleið-
ingum sem annars blasa við nem-
endum og fjölskyldum þeirra.
Foreldra- og styrktarfélag
Öskjuhlíðarskóla skorar á félags-
málaráðherra að beita sér af al-
vöru í þessu máli í samræmi við
tilmæli Umboðsmanns barna og
tryggja starfrækslu skóladagvistar
í Öskjuhlíðarskóla.
Skóladagvist eldri
nemenda í Öskju-
hlíðarskóla
Gerður Aagot Árnadóttir
skrifar um skólamál
Gerður Aagot
Árnadóttir
’Reykjavíkur-borg hefur nú
valið að leggja
þessa þjónustu
niður.‘
Höfundur er læknir, foreldri drengs
í Öskjuhlíðarskóla og formaður
Foreldra- og styrktarfélags Öskju-
hlíðarskóla.
Eftirfarandi greinar eru á
mbl.is:
Jón Steinsson: „Það er engin
tilviljun að hlutabréfamarkaður-
inn í Bandaríkjunum er öflugri
en hlutabréfamarkaðir annarra
landa.“
Regína Ásvaldsdóttir: „Eitt af
markmiðum með stofnun þjón-
ustumiðstöðva er bætt aðgengi í
þjónustu borgaranna.“
Jónas Gunnar Einarsson:
„Áhrifalaus og mikill meirihluti
jarðarbúa, svokallaður almenn-
ingur þjóðanna, unir jafnan mis-
jafnlega þolinmóður við sitt.“
Jakob Björnsson: „Mörg rök
hníga að því að raforka úr vatns-
orku til álframleiðslu verði í
framtíðinni fyrst og fremst unn-
in í tiltölulega fámennum, en
vatnsorkuauðugum, löndum …“
Tryggvi Felixson: „Mikil
ábyrgð hvílir því á þeim sem
taka ákvörðun um að spilla þess-
um mikilvægu verðmætum fyrir
meinta hagsæld vegna frekari
álbræðslu.“
Stefán Örn Stefánsson: „Ég
hvet alla Seltirninga til að kynna
sér ítarlega fyrirliggjandi skipu-
lagstillögu bæjaryfirvalda …“
Á mbl.is
Aðsendar greinar
DAGANA 19. og 20. ágúst verður
námskeið fyrir skólahjúkrunarfræð-
inga um kynheilbrigði og barneignir
unglinga. Til landsins kemur fræði-
maðurinn, Stephanie A. Rowe, MSc í
heilbrigðisfræðum (health and devel-
opmental education) til að kynna
námsefnið „Baby think it over“ eða
„Hugsað um barn“ eins
og það hefur verið þýtt á
íslensku. Námsefnið hef-
ur verið notað víða, m.a. í
Noregi, við góðar und-
irtektir og ánægju kenn-
ara, nemenda og for-
eldra. Það er ætlað
unglingum í 8. og 9.
bekk. Námsefnið er sett
upp þannig að nemendur
fá fræðslu um kynheil-
brigði og barneignir í 4
kennslustundir áður en
þeir fá svo að reyna það
á eigin skinni hvernig
það er að vera foreldri ungabarns. Þá
taka þeir heim með sér „barn“ sem
þeir eiga að sjá um í tvo sólarhringa.
Barnið er tölvustýrð dúkka sem líkist
ungabarni í útliti og stærð, hún hefur
tölvuforrit sem líkir eftir þörfum
barns og metur hvernig hugsað er um
það. Foreldrar nemendanna fá kynn-
ingu á því hvernig verkefnið gengur
fyrir sig og hafa margir foreldrar lýst
því yfir að þátttaka þeirra í verkefninu
hafi hjálpað þeim til að ræða við ung-
lingana sína um þetta viðkvæma en
mikilvæga málefni sem samskipti
kynjanna er. Eftir tvo sólarhringa
með „barnið“ heima er farið yfir
reynsluna af því að hafa verið „for-
eldri“ og hvernig hefur tekist til að
sinna þörfum „barnsins“ því það hefur
verið skráð í tölvuforrit „barnsins“.
Markmiðið með „Hugsað um
barn“-raunveruleikanáminu var í upp-
hafi að seinka ótímabærum barn-
eignum og gera unglinga meðvitaða
um þá ábyrgð og álag sem fylgir því
að annast ungabarn Það hefur sýnt
sig í könnunum, sem gerðar hafa verið
eftir námskeiðið, að árangurinn er víð-
tækari. Könnun sem gerð var í Hald-
en í Noregi sýndi að þegar ungling-
arnir höfðu fengið að reyna
„foreldrahlutverkið“ á eigin skinni
fundu þeir út að þeir voru ekki tilbúnir
að verða foreldrar strax og að það
þyrfti meiri þroska og þolinmæði til að
takast á við það. Það kom einnig í ljós
að fyrstu kynlífsreynslu seinkaði, hjá
þeim sem höfðu kynnst „Hugsað um
barn“. Einnig fækkaði
verulega tilfellum kyn-
sjúkdóma. Þessar nið-
urstöður gefa til kynna
að viðhorf unglinganna
til kynlífshegðunar
breytist til batnaðar og
ábyrgð þeirra eykst.
Engin stúlka sem tók
þátt í námskeiðinu
hafði orðið ófrísk 3 ár-
um eftir þátttökuna, þá
17–18 ára gömul. Áður
var þungunartíðni
stúlkna 18 ára og yngri
10%, þar sem helming-
urinn valdi að fara í fóstureyðingu.
„Hugsað um barn“ er jákvætt jafn-
réttisverkefni því að bæði strákar og
stelpur taka þátt í því jöfnum hönd-
um, og þurfa að sinna foreldra-
hlutverkinu og finna fyrir því hvað það
er ábyrgðarmikið og krefjandi. Bæði
kynin sjá foreldrahlutverkið í öðru
ljósi eftir að hafa tekið þátt í „Hugsað
um barn“ og eru tilbúin að seinka
barneignum þar til síðar.
ÓB ráðgjöf, sem býður upp á nám-
skeiðið hefur kynnt efnið fyrir sveit-
arstjórnum og skólastjórnendum
margra sveitarfélaga. Einnig hefur
það verið kynnt í heilbrigðiskerfinu
þar sem farið var á fund hjúkr-
unarforstjóra Heilsugæslunnar í
Reykjavík, Landlæknisembættisins
og Lýðheilsustöðvar. Flestir sem
kynnast verkefninu sjá að þarna er á
ferðinni áhugavert og metnaðarfullt
efni. Unglingar fá fræðslu um kynheil-
brigði út frá víðara sjónarhorni en hef-
ur verið hingað til og fá tækifæri til að
tengja það því að hægt sé að taka
ákvarðanir um barneignir í framtíð-
inni. Einnig fá þeir að kynnast því
hvernig það er að vera „foreldri“ í
stuttan tíma og ábyrgðinni og álaginu
sem því fylgir að fullnægja þörfum
ungabarns. Mikilvægt er að allir sem
koma að velferð barna og unglinga,
allt frá foreldrum til ráðamanna, taki
höndum saman til að vernda þau fyrir
því gífurlega áreiti sem dynur yfir
daglega gegnum fjölmiðla og Netið og
hefur ekkert að gera með eðlilega og
heilbrigða kynlífshegðun og veiti þeim
fræðslu og þroskavænlegt umhverfi.
Vaxandi þörf er á því að stuðla að kyn-
heilbrigði unglinga og til þess þarf
umræðu og fræðslu sem dregur úr
ótímabærum þungunum og kyn-
sjúkdómum.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér
efnið nánar geta farið á slóðina;
www.obradgjof.is.
Kynheilbrigði unglinga
Stefanía B. Arnardóttir
skrifar um heilbrigðismál ’Vaxandi þörf er á þvíað stuðla að kynheil-
brigði unglinga …‘
Stefanía B. Arnardóttir
Höfundur er skólahjúkrunarfræð-
ingur og móðir þriggja unglinga.