Morgunblaðið - 17.08.2004, Síða 29

Morgunblaðið - 17.08.2004, Síða 29
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 17. ÁGÚST 2004 29 ✝ Gunnar AlbertHansson fæddist í Reykjavík 10. ágúst 1957. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 8. ágúst síðastliðinn. Foreldr- ar hans eru Hans Hilaríusson, f. 27.2. 1935, og Helga Sveinsdóttir, f. 15.5. 1938, d. 16.11. 1976. Stjúpmóðir Gunnars er Jónína Böðvars- dóttir, f. 3.10. 1940. Systkini Gunnars eru: Magnea Rannveig, f. 5.1. 1960, gift Ásgeiri Þorsteinssyni, f. 3.7. 1955, Sveinn Elías, f. 6.7. 1961, og Guðmundur Freyr, f. 23.12. 1962, kvæntur Valgerði Maríu Jóhanns- dóttur, f. 22.2. 1964. Gunnar kvæntist 18.8. 1979 Helgu Guðmundsdóttur, f. 3.2. 1957. Foreldrar hennar eru Guð- mundur Karlsson, f. 20.3. 1932 og Oddbjörg Kristjánsdóttir, f. 25.2. 1938. Börn Gunnars og Helgu eru: Nökkvi, f. 1.8. 1976, unnusta Ellen Rut Gunnarsdóttir, f. 20.10. 1977; Steinn Baugur, f. 10.9. 1984, unn- usta Júlíana Einars- dóttir, f. 26.10. 1986, og Helga Sunna, f. 18.8. 1986. Gunnar ólst upp í vesturbænum í Reykjavík og gekk í Landakotsskóla og lauk þaðan barna- skólaprófi árið 1969. Eftir gagnfræðapróf lá leið hans í Iðnskól- ann í Reykjavík þar sem hann lauk sveins- prófi í húsasmíði árið 1979. Hann starfaði lengst af við trésmíðar. Á árunum 1987–1998 gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum hjá Trésmiða- félagi Reykjavíkur. Árið 1998 flutt- ist fjölskyldan til Danmerkur þar sem Gunnar stundaði nám í bygg- ingafræði og lauk hann bygginga- fræðiprófi frá Byggeteknisk høj- skole árið 2001. Fjölskyldan fluttist heim að námi loknu og eftir það starfaði hann við kennslu og sem byggingafræðingur. Gunnari verður flutt sálumessa í Kristskirkju í Landakoti í dag og hefst hún klukkan 13. Elskulegur pabbi okkar, hetjan okkar og besti vinur er látinn langt um aldur fram. Eftir lifa minningar um yndislegan mann sem ávallt verð- ur efstur í hugum og hjörtum okkar. Það er erfitt að skilja af hverju hann hefur verið numinn á brott frá okkur í blóma lífsins, en við trúum því að allt hafi tilgang og trúin styrkir okkur á þessum erfiðu tímum. Hann kenndi okkur svo margt, leið- beindi okkur í gegnum lífsins þrautir og sýndi okkur einstaka væntum- þykju. Missir okkar er mikill, en eins og pabbi hefði viljað þá höldum við áfram með það að leiðarljósi að gera hlutina eins og hann hefði viljað. Blessuð sé minning einstaks manns sem setti þarfir okkar og mömmu á undan sínum eigin. Bless í bili, elsku pabbi. Nökkvi, Steinn og Sunna. Hjartkær stóri bróðir minn er fall- inn frá. Tveimur dögum fyrir afmælisdag- inn sinn er hann hefði orðið 47 ára, á dánardegi föðurömmu okkar. Hvern hefði grunað það fyrir nokkrum mánuðum að hans örlög yrðu sem raun ber vitni? En eins og við vitum eru vegir Guðs órannsakan- legir. Í mínum huga var Gunni stór á marga vegu. Hann var mjög hár vexti og einstaklega glæsilegur maður. Elstur var hann af okkur systkinum og því stóri bróðir okkar. Nú og síðast en ekki síst hafði hann stórt hjarta. Af nógu er að taka þar sem stóra hjartað átti í hlut en það sem stendur upp úr í mínum huga er þegar sonur minn lést ungur að árum. Gunni beið heima eftir fréttum af veikindum hans einum eða tveimur dögum fyrir andlát hans. Þá berast honum þær fréttir að hann hafi unnið vinning í happdrætti. Þessi mismunur á hlut- skipti okkar systkina hafði mikil áhrif á hann, svo mikil að hann og hún Helga hans, sem ávallt stóð eins og klettur við hlið hans, ákváðu í samein- ingu að ánafna stórum hluta vinnings- ins í nafni sonar míns. Þessi hugul- semi gerði okkur fjölskyldunni kleift að sjá til þess að minningu sonar okk- ar, sem var okkur svo kær, yrði ávallt haldið á lofti með stofnun minning- arsjóðs Greiningar- og Ráðgjafar- stöðvar ríkisins til minningar um Þor- stein Helga Ásgeirsson. Fyrir þetta höfum við aldrei getað þakkað nægilega fyrir. Vil ég því gera það enn og aftur svo allir viti, því ekki var hann Gunni minn mikið fyrir að gorta sig af því sem hann gerði. Alveg frá því við vorum börn bar ég mikla virðingu fyrir honum, hjartalag hans og útgeislun var þannig. Þegar við vorum unglingar var ég ákaflega stolt af því þegar vinir hans sögðu við mig „þú ert nú örugglega systir hans Gunna, þið eruð svo lík“. Síðast nú í vetur var þetta sagt við mig og alltaf fannst mér jafn vænt um þetta. Ekki skipti það mig máli þegar við vorum í barnaskóla og ég fékk hann til að vera dansherrann minn einn vetur í dansskóla þó að í eitt skipti þegar hann næstum gleymdi tíman- um og mætti aðeins of seint og kom í hnéháum gúmmístígvélum. Ég var bara svo stolt af honum stóra bróður mínum. Guð blessi minningu Gunna. Styrkir það okkur í sorg okkar að kvalir hans eru nú að baki. Elsku Helga, Nökkvi, Steinn Baug- ur, Helga Sunna, Ellen og Júlla. Minningin um góðan dreng mun varð- veitast í hjörtum okkar um ókomna tíð. Bið ég algóðan Guð að styrkja okk- ur öll í sorg okkar. Með þessum fáu orðum vil ég þakka honum stóra bróður mínum fyrir allt það sem hann gaf mér. Þangað til að við hittumst við him- ins hlið. Þín systir. Litli vinur, viltu finna mig? Vera má ég fái skilið þig, þótt ég sé annars undarlega gerður og því síður góðra kosta verður. Sestu hérna, segðu hvað það er sem þú vilt, en ég mun fylgja þér og veita hvað í valdi mínu stendur. Þú varst sem góður engill til mín sendur. Vertu hjá mér. Ég er annars einn. Aldrei framar heimsækir mig neinn. Þeir forðast mig er eitt sinn virtust vera vinir mínir. Hvað á ég að gera? Þú brosir og það birtir yfir mér. Blika tregans víkur fyrir þér. Unaðsljóð frá æskudögum mínum ómar blítt í skærum hlátri þínum. Ég vildi ég væri ungur eins og þú – ekkert líkur því sem ég er nú, – mömmudrengur, fölskvalaus og fríður, fagureygður, draumlyndur og blíður. En æskan hefur yfirgefið mig. Á ég samt að leika mér við þig stundarkorn og gleyma tregans gígju? Get ég kannski orðið barn að nýju? (Haraldur Stígsson.) Þetta ljóð var samið þegar Gunnar var lítill drengur. En nú er Gunni dá- inn, eftir erfiða baráttu við vægðar- lausan sjúkdóm. Nú er hann laus við þjáningar og líður vel á öðrum stað. Við bræðurnir lærðum smíðar hjá Hans Guðmundi Hilaríussyni og unn- um saman í mörg ár. Allt sem hann tók sér fyrir hendur leysti hann vel. Hann hafði mikinn áhuga á félagsmál- um og vann mörg ár við ýmis störf fyrir Trésmiðafélag Reykjavíkur. Hann var einn af hvatamönnum þess að félagið keypti jörðina Stórahof í Gnúpverjahreppi. Þar reisti hann sér lítinn bústað fyrir nokkrum árum. Gunnar fór til náms í Danmörku ár- ið 1998 í byggingarfræði og lauk því með glæsibrag. En því miður fengum við ekki að njóta hæfileika hans nema í stuttan tíma, en þessir hæfileikar nýtast annars staðar. Ég votta Helgu, Nökkva, Steina, Helgu Sunnu og Ellen mína dýpstu samúð. Takk fyrir allt, Gunni minn. Blessuð sé minning þín. Sveinn Elías Hansson. Elsku Gunni frændi. Nú ert þú dáinn og kominn til Guðs. Ég hjálpaði þér að smíða pall á Stóra Hofi núna í júní og þú varst ánægður með það og kallaðir mig „stórsmið“ eftir það. Það fannst mér gaman. Deginum áður fórum við og pabbi minn á Stóra Hof og steyptum tein- ana fyrir pallinn. Þú kenndir mér að negla naglana á réttan stað. Þú manst þegar við vorum að hjóla saman í skóginum í Danmörku þegar þú áttir heima þar og ég heimsótti þig. Og fórum í Legoland og til Þýskalands. Það var svo gaman að heimsækja þig þangað að ég kom fjórum sinnum til þín. Mér þykir leiðinlegt að þú ert dá- inn. Þinn guðsonur, Helgi Freyr. Ég sest niður til að minnast náins frænda og vinar, Gunnars Alberts bróðursonar míns. Orð fá ekki lýst þeirri sorg, sem fylgja fregn um ótímabært andlát ná- ins ættingja á besta aldri. Særindin mikil að sjá svo skjótt eftir dugmikl- um hæfileikamanni. Á fyrstu árum Gunnars Alberts höfðu fjölskyldur okkar bræðra náin og farsæl samskipti. Eiginkonur okk- ar bræðra voru miklar vinkonur og mjög samrýndar og störfuðu saman innan kaþólsku kirkjunnar. Fjölskyldurnar hittust oft og elstu börnin gengu í sama skóla. Það var mikið áfall fyrir Gunnar, systkini hans og föður þeirra, þegar móðir þeirra Helga féll frá aðeins 38 ára gömul. Þegar maður hugsar um lífið og til- gang þess vakna hjá manni margar spurningar og gjarnan vill maður fá svör. Hugurinn leitar vítt og breitt. Fátt verður um svör, en trúin á Guð vísar okkur veginn. Við vitum að vegir Guðs eru órannsakanlegir og allt hef- ur sinn tilgang. Það var fljótlega ljóst að Gunnar Albert væri gæddur miklum mann- kostum. Hann var einstaklega vinnu- samur, ósérhlífinn og ávallt lét hann velferð annarra ganga fyrir sinni eig- in. Það var gott að vera í návist Gunn- ars. Hann kunni þá list að gera lítið úr vandamálum hversdagsins og reyndi ávallt að sjá björtu hliðarnar á tilver- unni. Það fylgdi honum ferskur andblær, hlýja og glaðværð. Gunnar Albert var ljóðelskur og orti sjálfur fögur og innihaldsrík ljóð. Félagshyggjumað- ur og trúr hugsjónum jafnaðarstefn- unnar. Eftir að Gunnar Albert lauk námi í trésmíði starfaði hann við þá iðn. Fyr- ir fáum árum flutti fjölskyldan til Danmerkur og stundaði Gunnar Al- bert nám í byggingafræði í þrjú ár. Að námi loknu kom fjölskyldan heim til Íslands. Gunnar Albert hóf störf í sínu fagi og einnig stundaði hann kennslu við fjölbrautaskóla. Allt virtist leika í lyndi og björt framtíð blasti við samhentri fjöl- skyldu. Ég og fjölskylda mín höfum hugsað hlýtt til Gunnars Alberts í þessari hörðu baráttu sem hann og fjölskylda hans hafa staðið í síðustu mánuðina. Þessa baráttu háði Gunnar Albert af miklum hetjuskap og eldmóði, með frábærum stuðningi Helgu konu sinn- ar. Óvenjulegt eðlislægt þrek og óbug- andi lífsvilji ásamt því að leita hugg- unar í bæninni og guðstrú, gerði það að Gunnar Albert tók sínu hlutskipti svo vel, að fáir geta ímyndað sér að nokkur geti verið svona jákvæður við slíkar kringumstæður. Með trega og þökk kveðjum við Gunnar Albert og biðjum góðan Guð að umvefja fjölskyldu hans birtu og Guðsblessunar. Sigurjón frændi og fjölskylda. Kveðja frá Trésmiðafélagi Reykjavíkur Í félagasamtökum veljast ávallt einhverjir til forystu, eðli málsins samkvæmt. Sumir gefa sig fram en aðrir eru kallaðir til af félögunum. Gunnar Albert Hansson fyllti síðari hópinn. Þegar þessi stóri og mynd- arlegi stráklingur lauk sveinsprófi í húsasmíði kölluðu félagarnir hann til starfa fyrir Trésmiðafélagið. Ekki skemmdi að vera sonur Hansa Hilaríussonar sem hafði verið einn af forystumönnum félagsins á árum áð- ur. Gunnar sat í stjórn félagsins um tíma og einnig var hann virkur í trún- aðarmannaráði og ýmsum starfs- nefndum félagsins um langt árabil. Gunnar var ritstjóri TR frétta, frétta- blaðs Trésmiðafélagsins í 10 ár. Þar naut hann sín vel þar sem hann var góður penni og hafði gaman af að koma sínum beittu skoðunum á fram- færi. Einnig var hann naskur á að sjá það fréttnæma úr umhverfinu og gat komið aðalatriðunum fram í knöppum texta. Árið 1998 ákvað Gunnar að fara til Danmerkur í framhaldsnám í byggingafræði. Þann tíma sem hann var við nám gerði hann hlé á störfum sínum fyrir félagið að mestu en sendi þó af og til pistla um hugrenningar sínar og veru í Danaveldi. Er hann lauk námi sínu kom hann aftur til starfa í félagsmálunum fyrir Tré- smiðafélagið. Það liggja mörg handtökin eftir Gunnar í þágu félagsins. Það sem hann tók sér fyrir hendur kláraði hann af stakri prýði. Hann hafði sterkar skoðanir í félags- og þjóð- félagsmálum og lá ekki á þeim en var jafnframt alltaf tilbúinn að hlusta á skoðanir annarra. Gunnar var atorku- samur og skemmtilegur félagi sem gaman var að vinna með og lagði ávallt gott til málanna með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Stjórn, starfsfólk og félagsmenn Trésmiðafélagsins þakka Gunnari fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins og trésmiðastéttarinn- ar á liðnum árum. Við sendum Helgu og öllum aðstandendum Gunnars okkar innilegustu samúðarkveðjur og óskum að almættið styrki þau á þess- ari erfiðu kveðjustund sem og í fram- tíðinni. Finnbjörn A. Hermannsson, formaður. Einstakur maður hefur kvatt þetta tilverustig langt fyrir aldur fram. Það er sárt að horfast í augu við þessa staðreynd. Gunnar var einn minna bestu vina. Hann var skemmtilegur, hugsuður, ræðinn, næmur og kíminn. Það var gott að vera í návist hans. Gunnar var góður smiður. Hann smíðaði t.d. glugga í hús mitt á Eyr- arbakka eftir innbrot þar. Að verki loknu sagði hann: „Láttu svo ekki brjótast hér inn aftur.“ Hann lagði einnig nýtt gólfefni í eldhús í sama hús ásamt öðrum góðum perluvini. Græna Golfinn minn keypti ég af Gunnari og Helgu, þegar þau fóru til Danmerkur. Gengið var frá kaupun- um í síma. Það var ekki þörf á að líta á bílinn. Gunnar og Helga fóru vel með alla hluti, toppheiðarlegt fólk og vinir mínir. Ég gerði góð kaup. Gunnar var vel ritfær. Er hann var í Danmörku við nám í byggingafræði fól hann mér að flytja afmælisræðu til elskaðrar systur sinnar Magneu á fertugsafmæli hennar. Það var mér mikill heiður. Ræðan til systurinnar var bæði vel skrifuð og sagði svo margt um samband systkinanna, sem misstu svo ung móður sína. Kynni okkar Gunnars hófust í gegnum hans góðu konu Helgu Guð- mundsdóttur en við kenndum við sama skóla, sérskóla fyrir fatlaða, til fjölda ára. Við Helga bundumst sterk- um vináttuböndum, sem aldrei hafa rofnað og þau Gunnar bæði hafa reynst mér ómetanlegir vinir bæði á gleði- og raunastundum lífsins. Fyrir tæpu ári síðan sátum við saman á hlýju ágústkvöldi í garðinum á Há- teigsveginum og nutum stundarinn- ar. Ekki óraði mig fyrir að Gunnar yrði allur að ári liðnu. Minningarnar eru margar og allar góðar. Þegar ég stóð frammi fyrir erf- iðum flutningum árið 2002 sagði Helga: „Gerir þú þetta ekki, Gunni minn?“ Og hann gerði það, hann Gunni minn. Með hjálp Gunnars tókst það. Þakklæti er mér efst í huga. Gunnar fór of fljótt en skilur eftir sig ekkert nema gott. Hann var trúaður maður, hafði sterka réttlætiskennd og vildi jöfnuð í þjóðfélaginu. Hann unni fjölskyldu sinni og sinnti uppeld- ishlutverkinu af kostgæfni. Ég sendi þeim mínar innilegustu samúðar- kveðjur og kveð góðan dreng. Sigríður Eyþórsdóttir. Ágústmánuður er nýgenginn í garð, svo fagur sem aldrei fyrr. Samt er eitthvað ekki eins og það á að vera, það er einhver lífskraftur sem er horf- inn. Mér bárust þær sorgarfregnir að Gunni frændi væri dáinn. Í hugann koma upp margar spurn- ingar, spurningar sem fást ekki svör við eða allavega ekki í þessu lífi. En svona er víst gangur lífsins, einn fæðist og annar deyr og ekkert sem við getum gert til að breyta því. Það er svo skrítið að sitja hér fyrir framan tölvuna og vera að skrifa loka- orð um Gunna frænda, hann sem gerði allt svo vel sem hann tók sér fyr- ir hendur. Ef hann hafði penna í hönd komu hinir fallegustu textar, ljóð og ræður sem ég hef séð, ef hann hafði hamar í hönd komu hin glæsilegustu tréverk og þegar hann ákvað að setjast á skólabekk í Danaveldi náði hann próf- unum með toppeinkunnum. Það hrannast upp minningar um Gunna, allt frá því að ég man eftir mér. Eitt sinn fór ég á Stórahof með honum og fjölskyldunni. Fengum við krakkarnir sitthvorn 500 krónaseðil- inn, nema að ég hafði svo óheppilega týnt mínum og var því mjög sár og reið út í sjálfa mig. Gunni sér hvernig ég er og kemur að tala við mig. „Helga mín, þetta gæti nú verið miklu verra, þú gætir hafa týnt sjálfri þér.“ Alltaf hafði hann góð svör við öllu. Það er svo erfitt að hugsa sér lífið án hans, hann sem var alltaf svo mikill orkubolti. Hress og kátur. Fyrir á að giska ári voru hann, pabbi og Nökkvi að labba upp á Esj- una. Ekki hvarflaði að manni að hann væri að fara svo fljótt. En minningarnar um hann hjálpa okkur að komast yfir þessa erfiðleika. Það koma brátt betri og bjartari tímar. Elsku Gunni. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér og kennt mér í lífinu. Ég vona að þú hafir það betra núna, því ég veit að þú ert hjá góðu fólki. Alltaf þegar ég heyri málsháttinn „Hver er sinnar gæfu smiður,“ hugsa ég um þig og fjölskylduna þína. Elsku Helga, Steini, Sunna, Nökkvi og Ellen. Megi englar Guðs vera með ykkur og styrkja. Við eigum svo margar góðar minn- ingar um hann Gunna sem geta gefið okkur styrk til að komast yfir þessa erfiðu tíma. Svo höfum við líka hvert annað. Takk fyrir allt. Ég vil enda þessa litlu kveðju til Gunna frænda á broti úr Söknuði eftir Vilhjálm Vilhjálmsson. Eitt sinn verða allir menn að deyja. Eftir bjartan daginn kemur nótt. Ég harma það en samt ég verð að segja, að sumarið líður allt of fljótt. Ég gái út um gluggann minn hvort gangir þú um hliðið inn. Mér alltaf sýnist ég sjái þig. Ég rýni út um rifurnar. Ég reyndar sé þig alls staðar. Þá napurt er, það næðir hér og nístir mig. Kveðja, Helga Sveinsdóttir. GUNNAR ALBERT HANSSON  Fleiri minningargreinar um Gunnar Albert Hansson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar þeirra eru: Kristján, Sverrir Ólafsson, Þór- arinn Haraldsson, Úlfar Stein- dórsson, Jarþrúður og Ásgeir, Hildigunnur og Guðlaugur, Sigrún Stefánsdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.