Morgunblaðið - 17.08.2004, Qupperneq 31
frábær saman. Frá þeim stafaði
ótakmörkuð hjartahlýja til hvors
annars, ekki síður en til okkar af-
komendanna.
Afi okkar og amma voru mjög
samrýmd og áttu fjölmörg áhugamál
saman. Þau voru miklir unnendur ís-
lenskrar náttúru og höfum við
barnabörnin öll notið góðs af. Hvert
okkar á sælar minningar um tjald-
ferðir með afa og ömmu og við mun-
um vel eftir handbókinni góðu, sem
afi notaði til þess að sýna, hvaða fugl
það var, sem kvakaði fyrir utan tjald-
ið. Síðar meir hafa svo börn afa og
ömmu haldið hefðinni á lofti með
skipulögðum stórfjölskylduferðum á
sumrin, sem hafa enn frekar eflt
tengsl og samheldni fjölskyldunnar.
Á Ægisíðu var afi einstaklega góð-
ur heimilisfaðir, sem lét sér annt um
og fylgdist grannt með högum allra
barna og barnabarna. Hann gaf sér
ætíð tíma fyrir barnabörnin, hvort
sem það var til þess að sýna þeim
nýtt töfrabragð eða bara að ræða
málin yfir djús og skonsum.
Þó að afi sé nú farinn frá ömmu er
hún sannarlega ekki ein. Hún á okk-
ur öll að, sem þau afi hafa saman átt
þátt í að móta.
Minningarnar um afa varðveitum
við alla tíð. Guð blessi afa og styrki
ömmu í sorg hennar.
Tómas, Soffia Elín og Jóhann.
Við systkinin erum á ferðalagi
þegar við fréttum að afi er dáinn, en
margar af okkar fallegustu minning-
um eru einmitt frá ferðum sem afi og
amma fóru iðulega með barnabörnin.
Úr aftursætinu hlýddum við á sögur
um það sem fyrir augu bar, lásum
fuglabækur og Andrésblöð og dáð-
umst að tjaldvagninum sem kinkaði
til okkar kolli þegar leiðin lá um mis-
hæðótta vegi.
Afa var mikið í mun að kenna okk-
ur að meta og virða náttúruna, en að
sama skapi lærðum við margt af
framkomu hans. Jafn yfirvegaðan og
hlýlegan mann höfum við hvergi hitt.
Það er auðvelt að loka augunum og
sjá afa sitjandi í stólnum á Ægisíðu,
jafnvel spjalla saman í smástund.
Við söknum þín, afi.
Árni Magnússon,
Sigríður Magnúsdóttir.
Tíminn er eins og vatnið
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.
Frændi okkar Sigurjón lögreglu-
stjóri er látinn 88 ára að aldri. Lokið
er langri og hamingjuríkri ævi sem
umfram allt var full af festu, gleði og
skilyrðislausum heiðarleika. Þau
voru sex systkinin, Elín gift Ludvig
Storr, Snjólaug (móðir okkar) gift
Kaj Aage Bruun, Ingibjörg gift Sig-
ursteini Magnússyni, Jóhanna gift
Sveini Péturssyni, Björn kvæntur
Sólveigu Sigurbjörnsdóttur og Sig-
urjón kvæntur Sigríði Kjaran. Frá
þessum systkinahópi er fjölmennur
hópur niðja.
Afinn og amman voru Sigurður
Björnsson frá Höfnum í Austur-
Húnavatnssýslu og Snjólaug Sigur-
jónsdóttir frá Laxamýri í Þingeyjar-
sýslu.
Úr þessu ættanna kynlega blandi
er orðinn mikill ættleggur sem nær-
ist á samheldni þessara systkina og
nærgætni þeirra í mannlegri um-
gengni.
Ástúð þeirra til samferðafólks
einkum frænda og niðja og um-
hyggjusemi fyrir velferð annarra var
óviðjafnanleg.
Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs
Tíminn og vatnið mætast í glerinu
og storkna þar í eilífð. Minningin fer
frá kynslóð til kynslóðar og verður
dýrmætur arfur nýju lífi sem kveik-
ist þegar hið eldra slokknar. Minn-
ingarbrotin koma eins og skuggi á
rúðu frá æsku og uppvaxtarárum og
raðast upp eins og herfylki á enda-
lausri hreyfingu. Þessi glæsilegi
frændi okkar við hlið föður síns á
fjölskylduhátíðum; ráðgjafinn og
fyrirmyndin ef leysa þurfti við-
kvæmt vandamál innan fjölskyld-
unnar; stolt okkar og fyrirmynd
hinna yngri en umfram allt heimilis-
faðirinn við hlið fallegrar konu á
heimili fullu af börnum, gleði og
hlæjandi fólki.
Og þannig er lífið eins og kvik-
mynd og við sem eftir lifum sitjum í
rökkrinu í sal minninganna.
Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs
Sigurjón var lögreglustjóri lands-
ins í fjörutíu ár, hálfa ævi sína. Á
mótunarskeiði þjóðarinnar þar sem
hún hvarf frá fornum háttum og
breyttist á örskömmum tíma í nú-
tímaþjóð stýrði hann vörðum laga og
reglna og mótaði embættið og færði
inn í nútímann. Styrk hönd hans og
hugur leiddi þessar breytingar á
miklum umbrotatímum í lífi þessarar
litlu þjóðar.
Sigurjón var í embættisfærslu
sinni fremstur meðal jafningja, hann
stjórnaði með vinsemd og mildi en
jafnframt af ískaldri skynsemi og
ætíð og einlæglega með hagsmuni
borgaranna í fyrirrúmi. Rík réttlæt-
iskennd, samúð með þeim sem minna
máttu sín og skilyrðislaus virðing
fyrir lögum og reglu gerðu Sigurjón
frænda að einstökum embættis-
manni og lögreglustjóra. Minningin
um þennan þátt í lífi hans er best
geymd í hugum allra samstarfs-
manna hans.
Við systkinin vottum Sigríði eig-
inkonu hans og börnum samúð okk-
ar. Lokið er langri og hamingjuríkri
ævi.
Og tíminn hvarf
eins og tár sem fellur
á hvíta strönd.
(Steinn Steinarr.)
Knútur Bruun,
Snjólaug Bruun.
Sigurjón Sigurðsson var farsæll
lögreglustjóri í Reykjavík í tæp 40
ár. Þegar hann gegndi því ábyrgð-
armikla starfi, hvíldu einnig á honum
önnur störf eins og yfirumsjón með
Bifreiðaeftirliti ríkisins og stjórn
Lögregluskóla ríkisins. Hann var um
árabil formaður heilbrigðisnefndar
Reykjavíkur og umferðarnefndar
Reykjavíkur. Öll lögreglustjóraár
hans voru útlendingamál einnig á
verksviði embættis hans. Í þessu til-
liti einu var hann margra manna
maki, en hitt skipti þó mestu, að
hann vann viðkvæm trúnaðarstörf
sín af kostgæfni.
Nýlega var birt Gallup-könnun um
viðhorf almennings til einstakra
starfsstétta og enn á ný eru lögreglu-
menn þar fremstir í fylkingu með
læknum og kennurum. Ekki er sjálf-
gefið, að lögregla njóti svo mikils
álits meðal borgaranna, árum og ára-
tugum saman. Hitt er ekki heldur til-
viljun, að sjö umsækjendur skuli nú
vera um hvert nemendasæti í lög-
regluskólanum. Virðinguna og áhug-
ann má að verulegu leyti rekja til
leiðsagnar manna með forystuhæfi-
leika Sigurjóns Sigurðssonar.
Í tíð Sigurjóns lögreglustjóra var
lagður traustur grunnur að þeim
metnaði, sem einkennir allt lögreglu-
starf í landinu um þessar mundir.
Hann gerði skýrar og strangar kröf-
ur en jafnframt treysti hann „sínum
mönnum“ til að leysa hin erfiðustu
verkefni á farsælan hátt með öryggi
borgaranna að leiðarljósi.
Í ár eru 60 ár liðin frá því að Sig-
urjón réðst til starfa hjá lögreglunni
í Reykjavík sem löglærður fulltrúi,
hann var settur lögreglustjóri 1.
ágúst 1947 en skipaður lögreglu-
stjóri 13. febrúar 1948 aðeins 32 ára
að aldri. Rúmu ári eftir skipun hans
þurfti lögreglan að snúast gegn árás-
inni á Alþingishúsið 30. mars 1949,
þegar þingmenn ræddu aðild Íslands
að Atlantshafsbandalaginu, NATO.
Æstur múgur reyndi að hindra störf
þingsins og varð lögregla að beita
táragasi til að fæla óeirðaseggina frá
Austurvelli. Þessi einstæði atburður
varð ekki til þess að draga úr trausti
almennings á hinum unga lögreglu-
stjóra, þótt hann sætti svæsnum
árásum frá þeim, sem tóku málstað
uppþotsmannanna. Ég kynntist því
þegar í foreldrahúsum, hve mikið
traust ráðherrar báru til Sigurjóns
lögreglustjóra, dómgreindar hans og
viðleitni til að leysa hvert mál í krafti
laga og réttar. Við embættisstörf í
forsætisráðuneytinu síðari helming
áttunda áratugarins sá ég einnig úr
þeirri átt, hve mikla alúð Sigurjón og
menn hans lögðu við öll sín fjöl-
breyttu verk.
Mér er ljúft að minnast og þakka
ánægjuleg persónuleg kynni við Sig-
urjón lögreglustjóra. Ég átti samleið
með honum í Rotaryklúbbi Reykja-
víkur, þar sem hann var með lengst-
an félagsaldur eða síðan 1949. Þar
sem annars staðar naut hann virð-
ingar og trausts og er eftirminnilegt
að hafa fengið tækifæri til að hitta
hann og kynnast honum á þeim vett-
vangi. Ég færi Sigríði Kjaran, eig-
inkonu Sigurjóns, börnum þeirra
hjóna og fjölskyldum þeirra innileg-
ar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Sigurjóns Sig-
urðssonar.
Björn Bjarnason.
Sigurjón Sigurðsson lögreglu-
stjóri var mikill heiðursmaður og
farsæll embættismaður. Hann hafði
þrek og kjark til þess að stýra lög-
reglustjóraembættinu í Reykjavík.
Sigurjón naut virðingar vegna verka
sinna og mannkosta. Hann keypti
sér ekki frið.
Á róstu- og umbrotatímum stýrði
hann lögreglunni þjóðinni til heilla.
Það þarf stjórnvisku og æðruleysi til
þess að vera farsæll í slíku starfi.
Sigurjón var réttur maður á réttum
stað. Hans verður minnst og saknað.
Fyrir hönd lögreglunnar í landinu
kveð ég traustan vin og bakhjarl.
Fjölskyldu hans sendi ég samúðar-
kveðjur.
Haraldur Johannessen.
Þegar Birgir Björn hringdi til mín
og tilkynnti mér fráfall föður síns,
kom það mér ekki á óvart þar sem
mér var kunnugt um veikindi hans.
Kallið var komið og undan því getur
enginn vikist. Við fréttina gerði ég
mér ljóst að horfinn var á braut einn
minn besti vinur og samstarfsmaður
sem ég mun sárt sakna. Kynni okkar
hófust er hann réð mig sem lögreglu-
þjón í Reykjavík haustið 1953 og allt
frá þeim degi urðu til þau vináttu-
bönd sem aldrei brustu.
Það fer ekki á milli mála að Sig-
urjón átti mikinn þátt í að byggja
upp lögregluna í Reykjavík bæði
með því að bæta menntun hennar og
byggja upp aðstöðu hennar alla.
Hann lagði grunninn að menntun
lögreglumanna með stofnun Lög-
regluskóla ríkisins og var skólastjóri
hans og kennari uns hann lét af
störfum 1985. Hann átti líka stóran
þátt í byggingu lögreglustöðvarinn-
ar við Hverfisgötu sem gjörbreytti
allri aðstöðu lögreglunnar.
Honum var mikið metnaðarmál að
byggja upp lögreglulið sem væri
fært um að sinna sínu hlutverki sem
best bæði að því er snerti öryggi rík-
isins og almenningur gæti treyst og
virt, og í því starfi átti hann stóran
þátt.
Sigurjón var mikill embættismað-
ur sem hafði góða sýn yfir alla sína
embættisfærslu, og var mjög ná-
kvæmur með alla hluti og mátti ekki
vamm sitt vita í neinu. Það var góður
skóli að hafa verið samstarfsmaður
Sigurjóns Sigurðssonar því af hon-
um mátti læra margt sem til fyrir-
myndar var og var gott veganesti út í
lífið. Einn af kostum Sigurjóns var
hve skilningsríkur hann var gagn-
vart starfsfólki sínu, þegar það átti
við erfiðleika að stríða eða þurfti á
aðstoð að halda var hann alltaf
reiðubúinn að hjálpa eins og honum
var unnt. Þessu kynntist ég af eigin
raun 1961 þegar ég þurfti að fara
með 6 ára son minn á sjúkrahús í
London og þurfti að fá frí frá störf-
um, þá kom hann því svo fyrir í gegn-
um sín góðu sambönd að hann kom
mér í starfsnám hjá Scotland Yard í
2 mánuði, sem bjargaði málinu.
Það er mannbætandi að hafa feng-
ið að kynnast persónu eins og Sig-
urjóni Sigurðssyni og það voru mikil
forréttindi fyrir mig að hafa átt vin-
áttu og traust slíks manns. Að leið-
arlokum vil ég þakka langa og far-
sæla vináttu og samstarf og bið guð
að blessa og vernda minningu Sig-
urjóns Sigurðssonar.
Sigríði og börnunum sex og fjöl-
skyldum þeirra sendi ég og fjöl-
skylda mín innilegar samúðarkveðj-
ur.
Bjarki Elíasson.
Frábær mannkostamaður með
gott hjartalag og hlýjan hug til allra
manna er kvaddur í dag. Sigurjón
var úrvals lögreglustjóri, traustur,
réttsýnn, sanngjarn og með gott
verksvit. Hjá honum var gott að
vinna. Ég sá hann fyrst haustið 1957
og var undir hans stjórn alla hans
stjórnunartíð eftir það. Varð þess
heiðurs aðnjótandi að hann trúði mér
fyrir ábyrgðarmeiri störfum er árin
liðu. Með virðingu, óbugandi festu og
látleysi vann hann hug og hjörtu lög-
reglumanna, sem lögreglustjóri og
skólastjóri Lögregluskólans. Við
fyrrverandi samstarfsmenn hans, nú
í Lífeyrisd. Landssambands lög-
reglumanna þökkum áratuga far-
sæla stjórn og fræðslu og sendum
frú Sigríði og börnunum hlýjar sam-
úðarkveðjur. Minning um góðan hús-
bónda lifir.
Magnús Einarsson, yfirlþj.,
formaður Lífeyrisd. LL.
Kveðja frá Lögreglufélagi
Reykjavíkur
Fallinn er frá Sigurjón Sigurðs-
son, fyrrverandi lögreglustjóri. Lög-
reglumenn í Reykjavík eiga honum
mikið að þakka fyrir mikilsverð störf
í þágu lögreglunnar. Starfsferill Sig-
urjóns var einstakur. Hann hóf störf
sem fulltrúi Agnars Kofoed Hansen,
lögreglustjóra, árið 1944 og gegndi
því starfi þar til hann var settur lög-
reglustjóri árið 1947. Starfaði hann
sem lögreglustjóri Reykvíkinga í 38
ár. Á þeim árum urðu miklar þjóð-
félagsbreytingar sem leiddu til þró-
unar innan lögreglunnar. Sigurjón
var þar í fararbroddi. Hann átti m.a.
frumkvæði að því að Lögregluskóli
ríkisins var stofnsettur. Sigurjón var
þar skólastjóri jafnframt því sem
hann kenndi þar verðandi lögreglu-
mönnum.
Með tilkomu Lögregluskólans
gafst lögreglumönnum tækifæri til
náms í lögreglufræðum og þannig
vildi Sigurjón undirbúa þá sem best
undir starfið. Með þessu frumkvæði
að menntunarmálum lögreglunnar
hefur Sigurjón lagt grunninn að ein-
um mikilvægasta þætti löggæslunn-
ar – að byggja upp lögreglu sem hef-
ur þekkingu og hæfni til að takast á
við þau erfiðu verkefni sem henni er
falið að leysa.
Sigurjón bar hag og velferð lög-
reglumanna fyrir brjósti og hafði
mikinn skilning á stéttarbaráttu
þeirra. Hann lagði áherslu á að hags-
munir lögreglumanna og löggæsl-
unnar í landinu færu jafnan saman.
Þannig væru góð starfskjör hæfra
starfsmanna lykillinn að góðri þjón-
ustu til handa þeim sem hennar
njóta. Sigurjón var sæmdur gull-
merki Lögreglufélags Reykjavíkur
árið 1985 og gerður að heiðursfélaga
árið 1995.
Lögreglufélag Reykjavíkur sendir
fjölskyldu Sigurjóns innilegar sam-
úðarkveðjur. Guð blessi minningu
hans.
Sveinn I. Magnússon,
formaður LR.
Með Sigurjóni Sigurðssyni er fall-
inn í valinn einstakur höfðingi,
grandvar maður og gegn. Hann var
slíkur atorkumaður í embætti sínu
sem lögreglustjóri í Reykjavík um
nærfellt fjögurra áratuga skeið, að
fáum mun hent að feta í fótspor hans.
Verka hans á þeim vettvangi mun
lengi sjá stað. Mér var það ungum
gæfa og eldskírn að vera samverka-
maður hans um hríð og njóta leið-
sagnar hans og forystu. Hann var
embættismaður par excellence og
sætti sig ekki við minna en fullkomið
dagsverk eftir því sem unnt var.
Hann var hvorki hávaðamaður né til
þess búinn að hreykja sér á mann-
þingum eða í fjölmiðlum. Hann var
hógvær en fastur fyrir, ljúflyndur en
fylginn sér og umfram allt leiðtogi og
vinur í senn. Hann kenndi með for-
dæmi sínu.
Listakonan Sigríður Kjaran var
stoð hans og styrkur alla tíð. Sam-
fylgd þeirra var slík, að öllum var
ljóst, er til þekktu, að á betra varð
ekki kosið. Hugur okkar Ingu Ástu
leitar nú við fráfall Sigurjóns til
hennar og fjölskyldunnar allrar. Þau
hafa mikils misst, en minning hans,
hljóðlát og sterk í senn, er aflvaki öll-
um þeim, er honum kynntust.
Pétur Kr. Hafstein.
Leiðir okkar Sigurjóns lögreglu-
stjóra lágu fyrst saman í umferðar-
nefnd Reykjavíkur á árinu 1965, þar
sem hann var þá formaður, og síðar í
Umferðarráði. Ég kynntist honum
þá sem hinum virðulega embættis-
manni og fullkomna stjórnanda, sem
allir báru mjög mikla virðingu fyrir.
Samstarf okkar átti síðar eftir að
verða mjög náið og persónulegt,
einkum á sviði umferðarmálanna, og
á ég margar góðar minningar frá
þeim árum.
Minnisstæðustu og ánægjuleg-
ustu stundirnar okkar saman voru
þó þær, þegar við sátum tveir einir
saman rétt fyrir jólin á hverju ári, oft
síðdegis á laugardegi, og árituðum
kveðjur á bækur til þeirra barna,
sem dregin höfðu verið út í jólaget-
rauninni. Þá kynntist ég vel hinni
hlýju og mjúku hlið embættismanns-
ins. Einnig minnist ég með hlýhug
margra ánægjulegra ferðalaga er-
lendis með Sigríði og Sigurjóni, betri
ferðafélaga en þau er vart hægt að
hugsa sér.
Eftir að við báðir hættum störfum
hittumst við sjaldnar, en í þau skipti
sem við hittumst fann ég alltaf fyrir
hlýju og gleði í návist hans.
Við Guðrún sendum Sigríði og fjöl-
skyldunni innilegar samúðarkveðjur
með kæru þakklæti fyrir samveru-
stundirnar með þeim hjónum.
Guttormur Þormar.
Fleiri minningargreinar um Sig-
urjón Sigurðsson bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu daga.
Höfundar þeirra eru: Pétur Svein-
bjarnarson, Óli H. Þórðarson.
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 17. ÁGÚST 2004 31
www.mosaik.is
LEGSTEINAR
sendum myndalista
MOSAIK
Hamarshöfði 4 - sími: 587 1960
Guðmundur
Jóhannsson
f. 10. 6. 1932
d. 8. 3. 1989
Minning þín lifir
Hvíl í friði
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Með virðingu og þakklæti,
Erlendur Sveinsson.
HINSTA KVEÐJA