Morgunblaðið - 27.08.2004, Blaðsíða 43

Morgunblaðið - 27.08.2004, Blaðsíða 43
MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. ÁGÚST 2004 43 Viltu sjá hana verða að kvikmynd? Knightscove Entertainment Corporation efnir til ritsmíðasamkeppni í samstarfi við Lesbók Morgunblaðsins, þar sem sögusviðið er Ísland og nágrannalönd á víkingaöld. Höfundar bestu innsendinga hljóta peningaverðlaun auk þess sem verk þeirra verða notuð við handritsgerð kvikmyndar í fullri lengd sem tekin verður á Íslandi á næsta ári. Dragðu pennann úr slíðrum - þetta er tækifæri sem þú mátt ekki missa af! Fyrstu verðlaun eru $1000, önnur verðlaun $500 og þriðju verðlaun $250. Komdu og fáðu góð ráð! Leif Bristow, forstjóri Knightscove Entertainment Corporation, verður staddur í Kringlunni á morgun, laugardag, og gefur ráðleggingar sem nýst geta öllum sem ætla að spreyta sig. Allir sem koma og skila inn seðlinum hér að neðan útfylltum eiga kost á glæsilegum vinningum! Tveir heppnir fá heildarútgáfu Íslendingasagnanna frá bókaútgáfunni Leifi Eiríkssyni að verðmæti um 30.000 kr. Nafn.......................................................................... Sími.............................................................................. Heimili......................................................................  Nánari upplýsingar á mbl.is AF ýmsum ástæðum verður mér hugsað til kvæðisins Orðs úr Veðra- hjálmi þegar skáldskap Þorsteins frá Hamri ber á góma. Í öðrum hluta þess ljóðs segir að orð skáldsins hafi flúið ,,í fjarlægt útsker / til að bíða þar ragnarökkurs“. Mér finnst stundum kveðskapur Þorsteins bera keim af þessari útlegð orðsins. Má þó vera að sá skáldskapur sé ,,eina rétta orðið“, eins og segir í kvæðinu góða. Vandi skáldskaparins á öld tækni- væðingar, alþjóðavæðingar og fjöldamenningar hefur lengi verið viðfangsefni Þorsteins. Í slíkum heimi á hinn varfærni og þjóðlegi kveðskapur hans, þótt módernískur sé öðrum þræðinum, erfitt upp- dráttar. Ekki þar fyrir að slík rödd eigi ekki erindi en hætt er við að hún drukkni í skvaldrinu. Á hinn bóginn hlýtur það að teljast styrkur skálds að geta staðið sem klettur í ólgandi hafi. Nýlega kom út önnur útgáfa af Ritsafni Þorsteins frá Hamri ásamt með vönduðum og ítarlegum inn- gangi eftir Njörð P. Njarðvík og eft- irmála höfundar. Þetta er mikið verk, hátt í 700 blaðsíður og margt er þar hnýsilegt að finna. Fá skáld hafa á sínum ferli glímt af jafnmikilli ein- lægni við gildi eða gildisleysi sam- tímans. Lífsskoðun Þorsteins er á engan hátt einföld en þó má segja í grófum dráttum að hann líti á sig sem varðmann lands, lífs og orða eins og segir í ljóðinu Vökur úr Jór- vík. Skáldið yrkir um sundrungu heimsins, því finnst innviðir sam- félagsins vera grannar og lágreistar stoðir og hann lýkur ljóðinu á hvatn- ingu um að menn haldi vöku sinni: land líf orð – svo kann að fara um sumt að oss reynist tilvist þess langrar vöku virði. Á bak við skáldskap Þorsteins er mikil ást á landinu. ,,Ég vil líkjast þér, land“, segir í kvæðinu Ísland sem birtist í Fiðrinu úr sæng Dala- drottningar og í kvæðinu Rætur úr Urðargaldri samsamar skáldið sig þessu landi, sem hann vill líkjast, í kvöl þess og sviða. Á ferð hans um landið í bíl ,,kemur landið inn um gluggann / og rennur saman / við sviðann í hjartanu // Senn / gránar í rót“. Sársaukinn í kvæðum Þorsteins er af sömu rótum. Auðvald, hervald og eyðingaröfl tímans vega að landi drauma hans, lífi jarðar og orðum tungunnar. Fá nútímaskáld standa betur vök- una um málið og edduhefðina, ekki bara hina formlegu, heldur ekki síð- ur hugmyndaheiminn. En jafnframt er Þorsteinn nýjungamaður og brautryðjandi. Persónulegt táknmál fyrstu ljóðabóka hans var sannarlega nýjung í íslenskum bókmenntum og myndmál hans, sérkennileg blanda forns og nýs svo á stundum jaðrar við súrrealisma. Fáir kunna betur að rissa upp mynd með orðum sem stendur lesendum til túlkunar og íhugunar. Sama má segja um þá fléttu þjóðsagna, ævintýra og mód- ernískrar frásagnar sem einkenndi sögur hans, Himinbjargarsögu eða skógardraum, Möttul konung eða Caterpillar og Haust í Skírisskógi. Ef til vill málar Þorsteinn einna skí- rast myndina af sjálfum sér í kvæð- inu Gestir úr Tannfé handa nýjum heimi þar sem þetta tvíeðli skáldsins, togstreita gamals og nýs eða upp- lifun hennar kemur vel fram: Týndir dagar hafa vitjað mín í hús núverunnar komið til móts við daga sem bíða mín Raddir Jómsvíkinga og ys götunnar mætast Sjálfur hlusta ég og stari í reyktákn Það er vitaskuld margt fleira en umfjöllun um land, líf og orð í kvæð- um Þorsteins. Firring nútímans, hræsnin, hluttekningarleysið og réttlæting þess eru algeng viðfangs- efni og hin síðari ár óreiðan og upp- lausnin í kjölfar þess að Sovétríkin hrundu til grunna. En einnig áraun tímans. Í kvæðinu Fölva úr Sæfar- andanum sofandi kveður hann um aldraðan frænda sem hann var að kveðja í hinsta sinn, hrumar krákur sem hann orti um fyrir löngu og bæt- ir við: ,,og víst er að allmiklu fyrr / og oftar en hér segir / hefur veröldin virzt mjög við aldur“. Þorsteinn frá Hamri hefur fyrir löngu markað sér ákveðinn bás í bókmenntasögu okkar. Verk hans eru merki þess að hin forna þjóð- arvitund er lífs en ekki liðin. Hann er sannkallaður varðmaður lands, lífs og orða en hann er einnig nútíma- skáld sem er virkur í samfélagslegu lífi og liggur ekki á skoðunum sínum þó að rödd hans sé ekki hávær. Land líf orð BÆKUR Ljóð Inngangur eftir Njörð P. Njarðvík. 2. útgáfa. Mál og menning. 2004 – 671 tölusett bls. ÞORSTEINN FRÁ HAMRI – RITSAFN Skafti Þ. Halldórsson ÆVINTÝRIÐ um Líneik og Laufeyju er um margt dæmigert ævintýri með góðum og fallegum kóngsbörnum, vondri stjúpu, veik- lyndum föður og góðum endi. Það er líka fullt af möguleikum sem ættu að nýtast hugmyndaríku leik- húsfólki og/eða höfundum til að búa til skemmtileg leikrit eða -sýn- ingar. Kaflinn þar sem hinn ungi Grikklandskóngur heldur að Lauf- ey sé Líneik kóngsdóttir er upp- skrift að miklum skemmtilegheit- um og flagðið og mannætan Blávör kjörið viðfangsefni fyrir kraftmik- inn leikara og hugmyndaríka út- litshönnuði og leikstjóra. Sú leið sem þessi leikhópur velur er hins vegar of lítið afgerandi og útfærsl- an of dauf til að möguleikar efni- viðarins nýtist sem skyldi. Sérkennileg og að mínu viti mis- ráðin er sú hugmynd að hefja sýn- inguna eins og um leikæfingu sé að ræða. Þessi rammi bætir engu við, og afsakanir fyrir því að segja sögur á sviði eru alger óþarfi. Hugmyndinni var heldur ekki fylgt þannig eftir að úr yrði áhugaverð hliðarsaga um tilurð leiksýningar. Að öðru leyti er sögunni snúið í frekar venjulegt leikform, lítið byggt á að fleyta henni áfram með sögumanni, en samtöl látin koma upplýsingum til skila. Þetta tekst ekki alls staðar jafn vel. Þannig verður kynning Blávarar og Lauf- eyjar frekar snubbótt, og enn- fremur er sú ógn sem stafar af Blávöru alltof lítið sýnd til að æv- intýrið verði spennandi. Þar og annars staðar er gripið til dansins og hreyfinga án orða til að skila efninu, og tekst það ekki nógu vel, því það er eins og ekki hafi unnist tími eða vilji til að gera þessum at- riðum nægilega hátt undir höfði. Sem er synd, því þarna eru mögu- leikar á skemmtilegheitum og frumleika býsna miklir. Það stendur sýningunni líka nokkuð fyrir þrifum hvað lítið er gert til að skapa tengsl við áhorf- endur. Aðeins einu sinni eru þeir ávarpaðir, og þá er það nánast eins og af skyldurækni, því svoleið- is á jú að gera á barnasýningum. En tengslin felast ekki bara í „gagnvirkni“, heldur lifandi sam- bandi, tilfinningu fyrir þörf hóps- ins til að miðla verki sínu, og hana vantaði sárlega. Leiklega er hópurinn hreint ekki nógu góður. Það er ekki ásætt- anlegt, þó að um barnasýningu sé að ræða, að textameðferð og fram- sögn valdi hreinlega vandræðum við að skilja það sem sagt er og le- stónn er ófyrirgefanlegt lýti á framgöngu leikara. Hér þarf meiri metnað og djörfung í framsetningu efnisins. Það er virðingarvert að skapa leiklist fyrir börn, og ekkert at- hugavert við að það sé gert án þess að miklu sé til kostað. En í barnaleikhúsi verður líka að vera eldmóður, hugmyndaflug og kraft- ur. Til hvers annars að vera að þessu? Á ævintýramiðum LEIKLIST Leikhópur í Tjarnarbíói Leikgerð á ævintýrinu um Líneik og Laufeyju. Leikstjóri: Ólöf Ingólfsdóttir. Útlit: Elma B. Guðmundsdóttir, Katrín Þorvaldsdóttir og Kolbrún Anna Björnsdóttir. Leikendur: Aino Freyja Järvelä, Höskuldur Sæmundsson, Ingibjörg Reynisdóttir, Kolbrún Anna Björnsdóttir og Ólafur Guðmundsson. Tjarnarbíói 21. ágúst 2004 LÍNEIK OG LAUFEY Þorgeir Tryggvason www.thjodmenning.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.