Morgunblaðið - 14.09.2004, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 14.09.2004, Blaðsíða 6
FRÉTTIR 6 ÞRIÐJUDAGUR 14. SEPTEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ TÆPLEGA 4.500 manns eða 2,9% af áætluðum mannafla voru án atvinnu í ágústmánuði. Vinnu- málastofnun telur líklegt að atvinnuleysið minnki í september og verði á bilinu 2,6%–2,9%. Rúmlega þriðjungur, eða 34% atvinnulausra, var langtíma- atvinnulaus, þ.e. hafði verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur. Í fyrra voru að meðaltali 26,4% atvinnu- lausra langtímaatvinnulaus og hlutfallið var 19% árið 2002 þannig að langtímaatvinnuleysi hefur aukist umtalsvert á síðustu tveimur árum. Um 19% allra atvinnulausra voru á aldrinum 16–24 ára á móti 21% í ágúst í fyrra. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu mældist vera 3,5%. Atvinnuleysi kvenna á höfuðborgar- svæðinu var 4,4% en hjá körlum 2,7%. Atvinnuleysi á landsbyggðinni var 1,9% af áætluðum mannafla í ágúst. Atvinnuleysi karla á landsbyggðinni var 1,2% en kvenna 3%. Atvinnuleysi á landsbyggðinni var mest á Norðurlandi eystra eða 2,8% en minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra eða 1%. Ískyggilegar tölur um langtímaatvinnuleysi Ingunn S. Þorsteinsdóttir, hagfræðingur í hag- deild ASÍ, segir tölur um langtímaatvinnuleysi vera ískyggilegar. Þetta séu að vísu hlutfallstölur og at- vinnuleysi sé að minnka. „En árstíðaleiðrétt at- vinnuleysi heldur áfram að aukast þrátt fyrir mik- inn hagvöxt og miklar framkvæmdir. Við höfum áhyggjur af því en það þarf að greina betur hvað er að gerast í þessum efnum, þ.e. hvaða hópar þetta eru sem festast í langtímaatvinnuleysi eins og virð- ist vera að gerast núna. Þetta eru hópar sem standa illa fyrir á vinnumarkaðinum, fólk sem hefur litla grunnmenntun, fólk sem er komið yfir miðjan ald- ur, einstæðir foreldrar sem eiga erfitt með að taka hvaða starf sem er.“ Ingunn segir að svo virðist sem einhver kerf- isbreyting sé að eiga sér stað á vinumarkaði en það þurfi að skoða það betur hvað valdi því að atvinnu- leysið minnki ekki. „Það getur verið að það sé að verða einhvers konar mismunur á framboði vinnu- afls og eftirspurnar, að vinnuveitendur séu að leita að annars konar þekkingu eða færni og þá þarf að taka á því með viðeigandi vinnumarkaðsaðgerð- um.“ Ingunn segir að hlutfall ungs fólks sem er at- vinnulaust hafi lækkað en það eigi sér væntanlega þær skýringar að fólk sé að hverfa af vinumarkaði og fara í skóla. „Það er samt sem áður áhyggjuefni hvað þetta hlutfall er hátt eða 19%.“ Veruleg aukning mælist á langtímaatvinnuleysi ÚTVEGGUR Þingholtsstrætis 3 var skrýddur óvenjulegu veggfóðri í gær er hann var þakinn þúsund króna seðlum. Það var fasteigna- félagið Eik sem stóð fyrir þessu óvenjulega veggfóðri og að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins var markmiðið að vekja athygli for- svarsmanna fyrirtækja á þeim kost- um sem fylgja því að leigja atvinnu- húsnæði í stað þess að eiga það, auk þess sem Eik hefur hleypt af stokk- unum nýrri þjónustuleið sem nefnist fasteignaráðgjöf og leit. Garðar Hannes Friðjónsson, framkvæmdastjóri Eikar, áætlar að í kringum hálf milljón prýði húsið við Þingholtsstræti 3. „En sú fjár- hæð samsvarar opnuauglýsingu í einum af helstu prentmiðlum lands- ins eða þremur 30 sekúndna sjón- varpsauglýsingum eða einum fer- metra af fullgerðum útvegg. Með þessari uppákomu vildum við vekja athygli á því að oft er gríðarlegt fjármagn fyrirtækja bundið í fast- eignum þegar mun hagkvæmara væri að losa það og setja fjármagnið í sjálfan rekstur fyrirtækisins. Auk þess vildum við vekja athygli á nýrri þjónustu sem við bjóðum upp á sem felst í því að viðskiptavinir geta fengið ráðgjöf hjá okkur um val á húsnæði út frá kröfum um stærð, staðsetningu og rekstur. Við bjóð- um nú þjónustu sem felst í því að leita að heppilegu húsnæði, kaupa það og leigja viðkomandi fyrirtæki það aftur til lengri eða skemmri tíma.“ Að sögn Garðars eru peningaseðl- arnir lauslímdir á húsið. „Við verð- um með vaktmann á svæðinu í nótt auk þess sem við höfum gert ráð- stafanir ef hvessa skyldi.“ Seðlarnir verða fjarlægðir af húsinu í kvöld og afhentir Umhyggju, félagi til stuðnings langveikum börnum. Nota seðla sem veggfóður Morgunblaðið/Kristinn Garðar Hannes Friðjónsson, framkvæmdastjóri Eikar, við veggfóðraða vegginn. FRUMNIÐURSTÖÐUR rann- sóknar á andláti rúmlega þrítugs karlmanns í Keflavík á fimmtudag, sem lést eftir átök við lög- reglumenn, benda til að um hjarta- stopp hafi verið að ræða. Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að dánarorsök sé ekki rakin til neinna áverka eða of- beldis. Beðið er niðurstöðu krufn- ingar. Lögreglan í Reykjavík rannsakar tildrög málsins að beiðni ríkis- saksóknara. Lést af völdum hjartastopps INNKOMNAR umsóknir hjá Íbúða- lánasjóði voru 275 á tímabilinu 1. til 12. september en 512 umsóknir all- an septembermánuð í fyrra. Um- sóknir það sem af er árinu eru 8.303 á móti 8.942 umsóknum á sama tíma í fyrra eða 2,23% færri. Bragi Bragason, sérfræðingur á fjárstýringarsviði hjá Íbúðalána- sjóði, segir umsóknirnar vera lít- illega færri það sem af er sept- ember en menn hefðu reiknað með því alveg burt séð frá íbúðalánum bankanna enda hefði verið mikill hamagangur í sumar. „Þetta er bara á góðu róli og fólk er greini- lega að skoða málin hægt og ró- lega. Það er engar kollsteypur í þessu,“ segir Bragi. Engar kollsteypur FIMM manns voru í fólksbíl sem valt á Hafnarfjarðarvegi snemma í fyrrinótt. Allir farþeganna kvört- uðu undan eymslum eftir veltuna og flutti lögregla tvo þeirra á slysa- deild til skoðunar. Samkvæmt upplýsingum frá lög- reglunni í Kópavogi var bíllinn á leið í suður þegar hann valt skammt frá versluninni Nesti. Allir í bílnum voru í bílbelti og telur lög- regla að það hafi sennilega orðið til þess að ekki fór verr. Fimm sluppu vel úr bílveltu VERÐ á lambakjöti til neytenda er núna 13,3% hærra en það var fyrir tólf mánuðum, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Á sama tímabili hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,7%. Stjórn Landssambands sauð- fjárbænda hefur lýst óánægju með það verð sem sláturleyfishafar hafa greitt til bænda. Stjórnin telur að verðið þurfi að hækka um a.m.k. 5%. Bent er á að hækkanir, sem hafa verið ákveðnar, geri vart bet- ur en halda í við verðlagsbreyt- ingar frá síðasta ári og jafnframt að haustið 2003 hafi verið ákveðnar mjög verulegar lækkanir á lamba- kjötsverði til bænda. Lambakjöt hækkar í verði HAFÍSJAKAR lóna nú úti fyrir Grímsey, eins og myndin sem tekin var suður af Grímseyjarvita ber með sér. Þykir sumum það undarlegt að sjá stóra borg- arísjaka á siglingu eftir eitt hlýjasta sumar í manna minnum hér á landi. Ljósmynd/Helga Mattína Hafís við Grímsey HÆSTIRÉTTUR hefur stað- fest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir 19 ára pilti sem framdi vopnað rán í Hring- braut- arapóteki. Lögregla rannsakar tvö önnur meint hótunar- og vopnalaga- brot piltsins sem er fíkniefna- neytandi og atvinnulaus. Pilturinn veifaði loft- skammbyssu, ógnaði starfs- fólki og krafðist þess að fá ávana- og fíknilyf þegar hann rændi apótekið laugardags- kvöldið 6. september. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að samkvæmt gögnum málsins er byssan hættuleg á allt að 205 metra færi. Brot manns- ins varða allt að 10 ára fang- elsi en hafi mjög mikil hætta verið samfara ráninu, getur refsingin þó orðið allt að 16 ára fangelsi. Héraðsdómur Reykjavíkur taldi, með tilliti til eðlis brots- ins, annarra brota piltsins og aðstæðna hans, að almanna- hagsmunir krefðust þess að hann sæti í gæsluvarðhaldi til 5. október nk. og á það féllst Hæstiréttur. Áfram í gæslu- varðhaldi vegna ráns Loftbyssan hættuleg á 200 metra færi FALLÞUNGI dilka sem slátrað hef- ur verið hjá Sláturfélagi Suður- lands á Selfossi er í mjög góðu með- allagi að sögn Hermanns Árnasonar sláturhússtjóra. Hann segir reyndar að menn séu ekki enn farnir að slátra fjallfé í sláturhúsinu á Selfossi. Féð, sem nú hafi verið slátrað, hafa mestmegnis verið úr heimahögunum og lágheið- um. Hermann segist telja fallþung- ann ekki ósvipaðan og í fyrra. „Þetta er svona í mjög góðu með- allagi, yfir meðallagi skulum við segja, eins og í fyrra. Mér heyrist almennt að menn búist við lömb- unum vænum af fjalli.“ Lilja Loftsdóttir, fjalldrottning Gnúpverja, sem kom úr leitum í síð- ustu viku, segir hins vegar að lömb- in komi nokkuð misjöfn af fjalli, sum séu stór en önnur smá. Í fyrra- haust hafi lömbin verið vænni. Kennir hún þurrkatíð um. Fallþungi dilka yfir meðallagi

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.