Morgunblaðið - 02.10.2004, Page 12
12 LAUGARDAGUR 2. OKTÓBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Alþingi, 131. löggjafarþing,
var sett í gær. Hófst þing-
setningin með guðsþjónustu í
Dómkirkjunni kl. 13.30 þar
sem séra Pálmi Matthíasson,
sóknarprestur í Bústaða-
prestakalli, predikaði og
þjónaði fyrir altari ásamt
Karli Sigurbjörnssyni, bisk-
upi Íslands.
Síðan gengu forseti Ís-
lands, biskupinn, ráðherrar,
alþingismenn og aðrir gestir
til þinghússins þar sem for-
seti Íslands setti Alþingi.
Starfsaldursforseti, Halldór
Ásgrímsson forsætisráð-
herra, tók síðan við fund-
arstjórn. Hann flutti minn-
ingarorð um Árna Ragnar
Árnason alþingismann, Gylfa
Þ. Gíslason og Gunnar G.
Schram, fyrrverandi alþing-
ismenn, og Gauk Jörundsson,
fyrrverandi umboðsmann Al-
þingis. Þingheimur minntist
þeirra með því að rísa úr sæt-
um.
Þá stjórnaði Halldór Ás-
grímsson kjöri forseta Al-
þingis og var Halldór Blöndal
kjörinn forseti þingsins.
Flutti nýkjörinn þingforseti
síðan ávarp áður en þingsetn-
ingarfundi var frestað.
Alþingi var
sett í gær
ÓLAFUR Ragnar Grímsson, forseti
Íslands, hóf ræðu sína á setningar-
fundi Alþingis í gær, á því að þakka
Davíð Oddssyni, utanríkisráðherra og
fráfarandi forsætisráðherra, fyrir far-
sæl störf og forystu á umbrotatímum.
Bauð hann jafnframt Halldór Ás-
grímsson forsætisráðherra velkominn
til nýrra ábyrgðarstarfa.
„Nýr forsætisráðherra tók við emb-
ætti 15. september og núverandi utan-
ríkisráðherra vék úr þeim stóli eftir
ábyrgðarskeið sem er einstakt í sögu
þjóðarinnar,“ sagði Ólafur Ragnar.
„Við þessi tímamót færi ég hæstvirt-
um ráðherra Davíð Oddssyni þakkir
fyrir farsæl störf, forystu á umbrota-
tímum og mikilvægt framlag til hag-
sældar og velferðar Íslendinga sem
skipar honum í sérstakan virðingar-
sess í annálum þings og þjóðar.
Ég bið honum jafnframt góðrar
heilsu og vona eins og landsmenn allir
að hann nái sem fyrst fullum bata. Það
er þraut að glíma við erfið og marg-
þætt veikindi en eðliskostir, staðfesta
og bjartsýni sem hann býr yfir í ríkum
mæli eru haldgott veganesti. Þegar
Alþingi kemur nú saman væntum við
öll að hann geti innan tíðar tekið sem
fyrr fullan þátt í störfum þingsins.“
Ólafur Ragnar bauð því næst Hall-
dór Ásgrímsson velkominn til nýrra
ábyrgðarstarfa, eins og áður sagði.
„Fjölþætt reynsla hans við forystu-
störf undanfarna áratugi og viðamikil
þekking munu örugglega létta honum
verkin við krefjandi úrlausnarefni.
Sambúð Alþingis og oddvita ríkis-
stjórnar er grundvallarþáttur í stjórn-
skipun landsins og löng þingreynsla
verður nýjum forsætisráðherra far-
sæll leiðarvísir í þeim efnum.“
Höldum vöku okkar
í umhverfismálum
Ólafur Ragnar vék því næst að
loftslagsbreytingum og málefnum
hafsins. Hann sagði m.a. í því sam-
bandi að hækkandi loftslagshiti,
bráðnun jökla og ísbreiðunnar við
skaut jarðar ógnuðu einnig haf-
straumunum sem réðu miklu um lífs-
hætti jarðarbúa. Hafsvæðið umhverfis
Íslands væri í brennidepli hvað þetta
varðaði. „Lykillinn að auknum skiln-
ingi á þeim hættum sem loftslags-
breytingar munu færa mannkyni öllu
er fólginn í hafinu umhverfis Ísland og
héðan til annarra svæða á norðurslóð-
um. Því er mikilvægt að við höldum
vöku okkar og séum í fremstu sveit við
eflingu rannsókna og alþjóðlegrar um-
ræðu á þessu sviði, sviði sem veitt get-
ur Alþingi mikla vegsemd, líkt og þeg-
ar Alþingi á síðustu öld færði
Íslendingum virðingu og þökk ann-
arra þjóða vegna forystunnar í land-
helgismálum.“
Ólafur Ragnar minnti á að íslenskir
þingmenn hefðu nýlega tekið þátt í
vestnorrænum fundi þar sem kynntar
voru nokkrar niðurstöður úr loftslags-
skýrslu Norðurskautsráðsins. „Lofts-
lagsskýrslan og önnur um þróun
mannlífs á norðurslóðum eru mark-
verðasti ávinningurinn af formennsku
Íslendinga í Norðurskautsráðinu og
þær munu báðar sæta tíðindum víða
um heim. Einkum er líklegt að lofts-
lagsskýrslan verði grundvöllur að víð-
tækum umræðum á alþjóðavelli enda
geyma norðurslóðir skýrastar vís-
bendingar um áhrifin sem umsvif
mannsins hafa haft á hitastig jarðar-
innar.“
Undir lok ræðu sinnar, sagði Ólafur
Ragnar, að Alþingi hefði nú sögulegt
tækifæri til að taka forystu um við-
brögð við þeim breytingum sem væru
að verða í hafinu við Íslandsstrendur,
en þær breytingar næðu einnig til
norðurslóða „og munu hafa ógnvæn-
leg áhrif á lífsskilyrði allra jarðarbúa –
ekki bara eftir margar aldir heldur
jafnvel innan fáeinna áratuga,“ sagði
hann.
„Alþingi er í betri stöðu en þjóðþing
flestra landa til að láta að sér kveða og
tengja saman áreiðanlegustu niður-
stöður fræðimanna og samræður á al-
þjóðavettvangi um þá nýskipan sem
getur forðað okkur, börnum okkar og
afkomendum frá slíkum hættum.“
Ólafur Ragnar Grímsson á setningarfundi Alþingis
Þakkar Davíð
Oddssyni fyrir far-
sæl störf og forystu
á umbrotatímum
Íslendingar verði í fremstu sveit í
umræðunni um málefni hafsins
Morgunblaðið/Þorkell
Forseti Íslands,Ólafur Ragnar Grímsson, ávarpar Alþingi við setningu þess.
HALLDÓR Blöndal, forseti Alþingis, sagði í
ávarpi sínu á setningarfundi á Alþingi í gær að
löggjafarstarf Alþingis stæði ekki jafn traust-
um fótum og áður, eftir atburði sumarsins. Vís-
aði hann þar til þess að forseti Íslands, Ólafur
Ragnar Grímsson, hefði synjað fjölmiðlalögun-
um svonefndu staðfestingar hinn 2. júní sl.
Halldór sagði um þetta í ávarpi sínu í gær:
„Hinn 2. júní sl. gerðist það utan ríkisráðsfund-
ar að forseti Íslands synjaði um staðfestingu á
lögum frá Alþingi sem forsætisráðherra hafði
lagt fyrir hann. Þá urðu kapítulaskipti í sögu
Alþingis og samskiptum þess við embætti for-
seta Íslands.
Ákvörðun sína um að synja lögum frá Al-
þingi staðfestingar tilkynnti forseti Íslands á
fundi sem hann boðaði blaðamönnum á Bessa-
stöðum 2. júní. Synjun sína reisti forseti Ís-
lands á 26. gr. stjórnarskrárinnar. Í yfirlýsingu
sinni segir hann m.a. að harðar deilur hafi orðið
„um þann lagagrundvöll fjölmiðlanna sem mót-
aður er í frumvarpi sem Alþingi hefur nú af-
greitt“.
Síðan segir í 9. tölulið yfirlýsingarinnar sem
virðist vera kjarninn í röksemdarfærslu for-
seta Íslands:
„Því miður hefur skort samhljóminn sem
þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mik-
ilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í
lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga
að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá
milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að
brúa.“
Ummæli forseta Íslands, synjun hans um
staðfestingu á lögum frá Alþingi á þeim grund-
velli að djúp gjá sé á milli þingvilja og þjóð-
arvilja og þeir atburðir, sem á eftir fóru, gefa
mér tilefni til að ræða stöðu Alþingis um leið og
ég legg áherslu á að Alþingi er æðsta og elsta
stofnun þjóðarinnar, að löggjafarvaldið er í
höndum Alþingis og Alþingi er hornsteinn
menningar og lýðræðislegrar stjórnskipunar
hér á landi. Á Alþingi hafa örlög þjóðarinnar
ráðist,“ sagði Halldór.
Leifar af þeirri trú að
konungurinn fari með guðs vald
Síðan sagði hann: „Á Alþingi var Gamli sátt-
máli staðfestur og þar sótti íslenska þjóðin rétt
sinn í hendur konungi Dana, uns fullnaðarsigur
var unninn. Íslendingar eignuðust stjórnar-
skrá 1874.
Fyrr á þessu ári var þess minnst að hundrað
ár voru liðin síðan heimastjórn var sett og þing-
ræði hófst hér á landi sem síðan var staðfest í 1.
gr. stjórnarskrárinnar frá 1944: „Ísland er lýð-
veldi með þingbundinni stjórn.“
Við fögnuðum fullveldi 1. desember 1918 og
stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júní 1944.
Alþingi og þingræðislegir stjórnarhættir eiga
djúpar rætur í hugum Íslendinga.
Synjunarákvæði stjórnarskrárinnar eru leif-
ar af þeirri trú að konungurinn – einvaldurinn
– fari með guðs vald. Þingið stóð gegn vilja
konungs og leiðrétti vald eins manns með því
að taka það til sín.
Alþingi er kjörið af þjóðinni. Þar á fólk með
ólíkar skoðanir og stefnur sína fulltrúa. Þar
ráða menn ráðum sínum og leiða mál til lykta.
Þótt forseti lýðveldisins sé kjörinn á sama hátt
getur hann ekki mælt sig við Alþingi.
Ég geri ekki öðrum háttvirtum alþingis-
mönnum upp orð né skoðanir en mér kom
aldrei til hugar að forseti Íslands synjaði um
staðfestingu á lögum frá Alþingi.
Svo hefur verið um fleiri. Skv. 26. gr. stjórn-
arskrárinnar taka lög frá Alþingi gildi þótti for-
seti synji um staðfestingu, en leggja skal lögin
„svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra
kosningabærra manna í landinu“.
Til þess að svo megi verða þarf sérstaka lög-
gjöf um atkvæðagreiðsluna, en hún hefur ekki
verið sett né um hana hugsað fyrr en eftir synj-
un forseta Íslands um staðfestingu á lögum frá
Alþingi 2. júní sl.
Við vitum hvað síðan gerðist. Skoðanir voru
mjög skiptar um nánast allt, er varðaði fram-
kvæmd og gildi þjóðaratkvæðagreiðslunnar,
m.a. hvort rétt væri að skilyrða lágmarksþátt-
töku í atkvæðagreiðslunni eða hvort áskilinn
fjöldi atkvæðisbærra manna yrði að greiða at-
kvæði gegn lögum frá Alþingi til þess að þeim
yrði hnekkt. Og enn voru þeir sem töldu að ekki
skipti máli hvort 10% eða 90% kosningabærra
manna í landinu tækju þátt í slíkri atkvæða-
greiðslu,“ sagði Halldór.
Staða Alþingis hafin yfir vafa
Og áfram sagði hann: „Loks deildu lögfræð-
ingar um hvort Alþingi mætti samþykkja
breytingar á hinum nýju fjölmiðlalögum eða
ekki. Og það var jafnvel gengið svo langt að
segja að Alþingi mætti ekki nema lögin úr gildi.
Hvergi er þó stafkrókur fyrir því í stjórn-
arskránni að sú staða geti komið upp að forseti
Íslands geti með athöfnum sínum eða athafna-
leysi skert löggjafarvald Alþingis.
Er skemmst frá hinum svokölluðu fjölmiðla-
lögum að segja að Alþingi var kallað saman til
sumarþings hinn 5. júlí þar sem lagt var fram
stjórnarfrumvarp til breytinga á lögunum. Því
var vísað til allsherjarnefndar en meiri hluti
hennar lagði síðan til í grófum dráttum að fjöl-
miðlalögin yrðu efnislega felld úr gildi og sam-
þykkti Alþingi það samhljóða 22. júlí.
Forseti Íslands staðfesti síðan lögin, en vék
enn að Alþingi í yfirlýsingu sinni: „Alþingi hef-
ur nú fellt úr gildi lögin sem ollu hörðum og
langvarandi deilum og mynduðu djúpa gjá milli
þingvilja og þjóðarvilja.“
Ég vil ekki nú við setningu Alþingis gaum-
gæfa þessi orð forseta Íslands, og er þó ástæða
til, enda eru allar hugmyndir um þjóðarvilja
óljósar og enginn í aðstöðu til að þekkja þjóð-
arvilja um einstök mál.
Hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslu
byggjast á því að þær eigi sér aðdraganda og
að málið sé vel undirbúið, vel kynnt og vel reif-
að. Það ber að gefa þjóðinni tækifæri og tóm til
þess að kynna sér efni slíks máls. Þjóðin verður
að geta skeggrætt það svo að það geti þroskast
í umræðunni.
Það er vandasamt að leggja mál fyrir dóm
þjóðarinnar og valið verður að vera afdrátt-
arlaust en ekki um minniháttar atriði sem eðli-
legt er að séu jafnan til endurskoðunar.
Að öðru leyti eru ekki efni til að ræða þjóð-
aratkvæðagreiðslu.
Kjarni þess sem ég vil segja nú við setningu
Alþingis er að eftir atburði sumarsins stendur
löggjafarstarf Alþingis ekki jafntraustum fót-
um og áður. Það er alvarleg þróun og getur
orðið þjóðinni örlagarík nema við sé brugðist.
Ákvæði stjórnarskrárinnar um æðstu stjórn
ríkisins, Alþingi, framkvæmdarvald og dóms-
vald, þurfa endurskoðunar við. Hver skal vera
staða Alþingis, hver forseta Íslands og ríkis-
stjórnar og hver dómstóla?
Slík endurskoðun hefur látið á sér standa
þar sem menn almennt hafa talið önnur mál
brýnni, enda hefðu skapast ákveðnar venjur og
hefðir sem ástæðulaust væri að hrófla við, en
einstök ákvæði stjórnarskrárinnar hvorki ver-
ið skilin né framkvæmd eftir bókstafnum.
Þau hörðu átök, sem urðu á Alþingi í vor og
sumar, gera slíka endurskoðun á stjórnar-
skránni örðugri en ella myndi. Einstökum al-
þingismönnum kann að finnast sem þeir hafi
fest sig í ákveðnum skoðunum og skilyrðum
sem þeir vilja ekki víkja frá að svo komnu. Því
má vera að niðurstöðu sé ekki að vænta meðan
það þing situr, sem kjörið var í maí 2003.
Eftir sem áður verður að hefja verkið. Staða
Alþingis verður að vera hafin yfir vafa og lög-
gjafarstarfið í traustum skorðum.“
Halldór Blöndal, forseti Alþingis, í ávarpi sínu á þingsetningarfundi
Löggjafarstarfið
ekki jafn traust eftir
atburði sumarsins
Morgunblaðið/Þorkell
Halldór Blöndal, forseti Alþingis, heilsar
Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í
anddyri þinghússins í gær.