Morgunblaðið - 02.10.2004, Qupperneq 38

Morgunblaðið - 02.10.2004, Qupperneq 38
38 LAUGARDAGUR 2. OKTÓBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Ástgeir ArnarIngólfsson húsa- smíðameistari fædd- ist á Syðri-Hömrum í Ásahreppi 31. mars 1948. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 24. september síðastlið- inn. Foreldrar hans voru Bjarnheiður Ástgeirsdóttir, f. á Syðri-Hömrum í Ása- hreppi 15. mars 1921, og Karl Ingólfur Eide Eyjólfsson, f. á Fáskrúðsfirði 8. apríl 1925, d. 7. september 1991. Systk- ini Ástgeirs samfeðra eru Haf- steinn Eide, f. 3. ágúst 1949, Þór, f. 22. maí 1952, og Kristín Anna, f. 14. júlí 1955. Eiginkona Ástgeirs er Kristín Jóhanna Andersdóttir starfsmað- ur hjá MBF, frá Hárlaugsstöðum í Ásahreppi, f. 25. desember 1947. Foreldrar hennar voru Her- mannía Sigurrós Hansdóttir frá Móum á Snæfellsnesi, f. 25. sept- ember 1921, d. 16.apríl 2002, og Anders Stefánsson frá Vest- mannaeyjum, f. 29. nóvember 1916, d. 3. september 1981. Eig- inmaður Hermanníu var Lárus Kjartansson frá Austurey 1 í Laugardal, f. 5. apríl 1927, d. 22. desember 1996. Kristín ólst upp frá barnsaldri hjá Erlendi Jóns- syni frá Hárlaugsstöðum í Ása- hreppi, f. 21. febrúar 1899, d. 15. nóvember 1980. Börn Ástgeirs og Kristínar eru: 1) Bjarnheiður mat- artækninemi, f. 2. janúar 1969, gift Pétri Má Jenssyni innkaupastjóra, f. 6. október 1960. Börn þeirra eru Daníel Jens, f. 11. júní 1990, Dagný María, f. 3. desember 1998, og Davíð Arnar, f. 3. desember 1998, 2) Erlendur mjólkur- fræðingur, f. 25. jan- úar 1975, í sambúð með Gunnþóru Steingrímsdóttur sálfræðinema, f. 11. maí 1976. Ástgeir ól upp dóttur Kristínar, Sigurrósu Huldu Jóhannsdóttur viðskiptafræðinema, f. 5. septem- ber 1966, í sambúð með Sigmari Ólafssyni húsasmíðameistara og grunnskólakennara, f. 18. septem- ber 1962. Börn þeirra eru Ástgeir Rúnar, f. 8. janúar 1989, og Díana Kristín, f. 3. mars 1995. Ástgeir lærði húsasmíði hjá SG á Selfossi. Hann vann við iðn sína hjá SG, síðan starfaði hann sjálf- stætt, vann þar á eftir hjá bygg- ingarfyrirtæki Svavars Valdi- marssonar og síðustu starfsárin starfaði hann hjá SG-húsum á Sel- fossi. Þau hjónin Ástgeir og Kristín byggðu sér hús árið 1973 á Engja- vegi 85 á Selfossi, þar sem þau hafa svo búið allar götur síðan. Útför Ástgeirs fer fram frá Sel- fosskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Elsku pabbi. Það er svo erfitt að horfast í augu við það að þú sért farinn frá okkur, kallið kom alltof fljótt. Ég á margar góðar minningar um þig sem ég mun geyma í huga mér. Þú varst búinn að berjast við krabba- meinið í svo mörg ár og að lokum varðst þú að láta undan. Það verður svo tómlegt í hesthúsinu í vetur, eng- inn pabbi til að gefa hestunum eða til að járna. Við munum öll hjálpast að við að komast yfir þessa miklu sorg sem er í hjarta okkar. Ég lofa að passa vel upp á mömmu og ömmu. Ég kveð þig með miklum söknuði og vona að þú vakir yfir okkur. Ég sakna þín svo mikið, þín dóttir, Heiða. Ég veit ekki hvor okkar var meira feiminn þegar Heiða dóttir þín sendi mig í heimsókn til ykkar í fyrsta skipti. Við bjuggum í Vestmannaeyjum þá og ég hafði aldrei hitt ykkur Stínu. Þú tókst strax vel á móti mér og bauðst mig velkominn í fjölskyld- una. Það var alltaf gott að koma til ykkar hvort sem var á Engjavegin- um eða á Hárlaugsstöðum. Börnin okkar sóttu mikið í afa og ömmu þegar við vorum í bústaðnum okkar í sumar. Veikindin virtust ná yfirhöndinni í sumar. Ekkert okkar óraði fyrir því að þetta yrði síðasta sumarið þitt hjá okkur, þó vissum við alltaf að krabbameinið myndi ná yf- irhöndinni að lokum. Það er með söknuði sem ég kveð þig, Geiri minn. Hvíl í friði. Þinn tengdasonur, Pétur Jensson. Mig langar með örfáum orðum að kveðja tengdaföður minn, hann Geira. Ég er afar þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast honum og öll- um þeim góðu eiginleikum sem hann stóð fyrir. Tryggð, natni, alvarleiki, sjálfsagi og stjórn, röð og regla, styrkur, óeigingirni, stundvísi, ein- lægni og samviskusemi eru þau orð sem koma upp í huga mér þegar ég hugsa til Geira og kynna minna af honum. Það sem þó stendur upp úr fyrir mér er þessi gífurlegi andlegi og líkamlegi styrkur sem hann bjó yfir. Þrátt fyrir erfið veikindi í gegn- um lengri tíma átti hann alltaf til styrk aflögu, hvort sem það var til að faðma mann á erfiðri stundu eða til að járna reiðhestana. Á endanum varð þó styrkurinn að gefa eftir fyrir veikindunum og Geiri þurfti að kveðja þennan heim og fara yfir í annan þar sem allt er fagurt, bjart og gott. Að liðnum degi kemur okkar kvöld, þá kvöldið líður, tekur nóttin völd. Svo birtist ljós, er brúna lyftast tjöld og björtum heimum lífsins fagnar öld. (Steingrímur Davíðsson.) Guð blessi þig, Geiri, og þakka þér fyrir allt. Gunnþóra Steingrímsdóttir. Kæri afi. Mikið er sárt að þurfa að kveðja þig svona fljótt, við sem áttum eftir að gera svo margt saman. Það er mikið tómlegt á Engjó núna, enginn afi, bara amma og hundurinn Lena. Nú verður allt öðruvísi að fara í sumarbústaðinn því vanalega varst þú í næsta húsi við hliðina á okkur. Allt er á einhvern hátt öðru vísi þegar þú ert ekki hér. Ég leit mjög mikið upp til þín því að þú varst alltaf svo góður við mig. En ég skil ekki af hverju þú þurftir að fara, mér finnst það mikið óréttlæti, ég sakna þín mikið. Þinn Daníel Jens. Elsku afi. Guð hlýtur að hafa vantað góðan smið til að vinna hjá sér fyrst hann tók þig til sín.Við söknum þín mikið og biðjum Guð að taka vel á móti þér, við skulum passa ömmu og líka Lenu og Hroll. Dagný og Davíð. Ástgeir afi okkar er dáinn eftir hetjulega viðureign við slæman sjúk- dóm. Ótal minningar koma upp um hann afa okkar og munum við varð- veita þær í hjarta okkar. Það var gott að tala við hann og hann var alltaf góður við okkur. Afa verður sárt saknað og munum við ætíð minnast hans með hlýhug og virðingu. Sofðu vinur vært og rótt verndi þig Drottinn góður. Dreymi þig vel á dimmri nótt dýrð þíns Jesú bróður. (Þorkell G. Sigurbjörnsson.) Elsku amma, langamma og aðrir ástvinir, missir ykkar er mikill. Megi góður Guð styrkja ykkur á þessari sorgarstund. Ástgeir Rúnar og Díana Kristín. Hetjulegri baráttu er lokið – Ást- geir Arnar, eða Geiri eins og hann var ávallt kallaður, vinur okkar og nágranni er allur. Kynni okkar hófust er við byggð- um húsin okkar hlið við hlið og flutt- um öll á Engjaveginn upp úr 1970. Geiri og Stína á nr. 85, Guðfinna og Mummi nr. 83 og Sigfús og Svanborg nr. 81. Stína og Geiri með dæturnar Rósu og Heiðu, og seinna fæddist Elli, og við hin með okkar börn. Við stóðum saman í þessu basli sem fylgir því að koma yfir sig fyrsta húsnæðinu og glöddumst saman yfir hverjum áfanga sem lokið var – hversu smár sem hann var. Það kom fljótlega í ljós hjálpsemi Geira á þessum árum og var gott að leita til hans þegar þurfti á smið að halda eða að fá að nýta sér aðstöðu hans í bílskúrnum þegar þurfti að komast í rafmagns- sög eða annað. Fyrir þetta viljum við þakka. Aldrei hefur borið skugga á sam- býlið öll þessi ár sem eru nú komin á fjórða tuginn og sem dæmi um það þá höfum við allan þennan tíma hald- ið því að eiga saman garðsláttuvél en upphafið var auðvitað það að við höfðum ekki efni á því að kaupa slíka ein og sér. Geira verður ekki minnst án þess að Stína sé nefnd en svo samhent voru þau hjón með allt sem þau tóku sér fyrir hendur. Fyrstu búskapar- árin var Stína heima með krakkana en Geiri vann við smíðar, mikið úti í sveitum, svo það var oft langur vinnudagurinn hjá honum og þegar heim var komið þá þurfti að dytta að einu og öðru. Fljótlega kom í ljós að þau Stína og Geiri voru miklir hestamenn og komu þau sér fljótlega upp hesthúsi í nágrenninu og þar sem áhugi á hestamennsku hafði líka vaknað hjá heimasætunni á 83 gerðumst við meðeigendur í hesthúsinu. Það er því líka búin að vera samvinna í hesta- mennskunni í rúma tvo áratugi. Geiri sá yfirleitt um morgungjafirnar sem kom sér afskaplega vel fyrir okkur hin og var sameinast í hesthúsinu í lok vinnudags. Þetta samstarf hefur allan þennan tíma gengið einstak- lega vel. Fyrir þetta viljum við fjöl- skyldan á Engjavegi 83 þakka sér- staklega. Geiri var afskaplega vinnusamur maður og harður af sér, sterklega vaxinn, handstór, ljósrauðbirkinn yf- irlitum og minnti alltaf dálítið á hetj- urnar í Íslendingasögunum, hávax- inn og herðabreiður. Þetta hefur eflaust komið honum til góða í veik- indum hans sem staðið hafa yfir í hálfan annan áratug, með hléum þó. Veikindi hans gerðu það að verkum að hin síðari ár gat hann ekki stund- að vinnu og var sorglegt að horfa uppá þennan stóra og stæðilega mann verða sífellt máttminni, en erf- iðast hefur þetta auðvitað verið fyrir hann sjálfan og hans nánustu. Um það leyti sem veikindin gerðu vart við sig fóru þau hjónin í sína fyrstu utanlandsferð og fylgdu margar slíkar í kjölfarið en Geiri naut þess að ferðast til sólarstranda, Þess á milli dvöldu þau í sveitinni sinni austur á Hárlaugsstöðum öllum stundum. Þar höfðu þau skapað sér annað heimili og stunduðu þar sína hrossarækt. Þau hjón var gott heim að sækja og í mörg ár voru heim- sóknir á nýársnótt viðhafðar og finnst okkur nú að þær stundir hefðu mátt vera fleiri. Með þessum fátæklegu kveðjuorð- um viljum við þakka Geira samfylgd- ina. Okkar innilegustu samúðar- kveðjur sendum við Stínu, Rósu, Heiðu, Ella og þeirra fjölskyldum, og Bjarnheiði móður hans sem sér nú á bak einkasyninum. Minningin um góðan dreng mun lifa. Blessuð sé minning Ástgeirs Arnars Ingólfsson- ar. Fjölskyldurnar Engjavegi 81 og 83, Selfossi. Í dag kveðjum við systkinin kæran frænda okkar, Ástgeir Arnar Ing- ólfsson. Á tímamótum sem þessum reikar hugurinn til baka til æskuár- anna að Ártúni 8, Selfossi. Ástgeir bjó þá ásamt Bjarnheiði móður sinni, afa okkar og ömmu og Sveini frænda í sama húsi og við. Það er margs að minnast úr Ártúninu og þegar við lít- um til baka sjáum við hve mikil for- réttindi það voru að fá að alast upp með öllu þessu góða fólki. Íbúarnir voru tólf þegar flest var í húsinu. All- ir hjálpuðust að svo hlutirnir gengju sem best fyrir sig, og við krakkarnir vorum sameign allra í húsinu. Mamma og Heiða voru heimavinn- andi eins og algengt var þá, og við fengum sannarlega að njóta æskunn- ar. Það var gott að alast upp með Ást- geiri og eigum við margar skemmti- legar minningar frá þeim dögum. Hann var elstur og því ákveðin fyr- irmynd okkar sem yngri vorum, sterkur persónuleiki, hæglátur og hlýr. Oft var leikið, spilað og spjallað en hápunkturinn var þó þegar Ást- geir dró fram Matador-spilið sitt og þá var stundum setið við langt fram á kvöld. Okkur þótti merkilegt hve Ástgeir fór vel með allt sem hann átti og spilin hans voru ávallt sem ný. Þessi snyrtimennska fylgdi honum allt hans líf. Æskan leið og einn daginn hler- uðum við á neðri hæðinni, að uppi í herbergi hjá Heiðu væri stelpa að bíða eftir Geira. Þetta þóttu mikil tíðindi og áttum við systkinin nú öll erindi upp. Þá var líka hægt að líta á stelpuna í leiðinni. Þarna var kær- astan Kristín Jóhanna Andersdóttir komin, eða hún Stína hans Geira, eins og við höfum ávallt kallað hana síðan. Það var spennandi að fylgjast með þeim breytingum sem urðu í lífi Ástgeirs á þessum tíma. Allt í einu var hann orðinn heimilisfaðir og kominn með litla prinsessu, hana Sigurrós Huldu á handlegginn. Þetta fórst honum vel úr hendi eins og reyndar allt annað sem hann kom nærri. Síðar eignuðust þau svo tvö börn til viðbótar, þau Bjarnheiði og Erlend. Með árunum hefur svo fjöl- skyldan stækkað og eru tengdabörn- in þrjú og barnabörnin orðin fimm. Þau Ástgeir og Stína byggðu sér fljótlega hús á Engjaveginum, þar sem þau bjuggu alla tíð. Á bygging- artímanum voru nú hendur látnar standa fram úr ermum, enda var Ástgeir mikill hagleikssmiður og vann við smíðar alla tíð. Seinna komu þau Geiri og Stína sér upp bústað á Hárlaugsstöðum þar sem þau höfðu hestana sína og kindurnar og nutu sín við sveitastörfin. Fyrir u.þ.b. tólf árum greindist Ástgeir með krabbamein sem hann tókst á við af ótrúlegu æðruleysi en jafnframt miklum baráttuvilja. Þá kom vel í ljós hve sterkur hann var bæði á sál og líkama. Þessi ár höfum við fylgst með þeirri miklu sam- heldni sem einkenndi þau hjónin og fjölskylduna alla. Fyrir utan veikindi Ástgeirs þurfti fjölskyldan að takast á við alvarleg veikindi Dagnýjar litlu fyrir nokkrum árum. Í sumar lenti svo Stína í slysi sem leiddi til alvar- legra meiðsla og sjúkrahúsdvala. Í öllum þessum erfiðleikum hefur styrkur fjölskyldunnar komið vel í ljós. Einn koldimman morgun þú kvaddir, og allt varð svo hljótt. Við fáum ei skilið hví kallað var á þig svo fljótt. Nú myrkrið er svartara og mikill er söknuður sár. En minningin lifir og yljar um ókomin ár. Kæra Heiða, Stína og fjölskylda. Hugurinn dvelur hjá ykkur á þessum erfiða tíma. Við systkinin sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur. Blessun fylgi minningunni um góðan dreng. Systkinin frá Ártúni 8, Arndís Ásta, Sigríður, Jóna Bryndís, Garðar, Margrét og Sigrún. Látinn er góður vinur og félagi, Ástgeir Arnar Ingólfsson. Nú hefur hann hlotið hvíld eftir langa baráttu. Á þessari stundu er margs að minnast frá liðnum árum. Geiri og Stína byrjuðu að búa á Selfossi á sama tíma og við á Laugalandi. Fljótlega lágu leiðir beggja fjöl- skyldnanna að Hárlaugsstöðum til Erlendar, fóstra Stínu. Þar komum við saman með börnin okkar og hjálpuðum til við búskapinn og önn- ur störf. Það varð órjúfandi hluti af tilverunni hjá okkur öllum. Margar voru hestaferðirnar og ekki má gleyma veiðiferðunum í Veiðivötnin og víðar. Þetta voru ynd- islegar stundir sem fjölskyldurnar áttu saman í gegnum árin. Upp úr 1985 settumst við svo að á Hárlaugsstöðum og þegar við byggð- um húsið okkar kom enginn annar smiður til greina en Geiri og gekk smíðin hratt og vel fyrir sig eins og allt sem hann tók að sér. Nokkrum árum seinna byggðu Geiri og Stína sér sumarbústað undir Vesturklett- unum á Hárlaugsstöðum. Fljótlega eftir það greindist Geiri með krabba- mein, sem hann barðist við í mörg ár. Smátt og smátt dró af honum en ekki lét Geiri sitt eftir liggja og í sumar sneri hann heyinu þó orkan væri orð- in lítil. Í bústaðnum áttu Geiri og Stína margar góðar stundir. Þar fannst honum gott að dveljast við smíðar og gróðursetningu og ráða vinnutíma sínum eftir því sem heils- an leyfði. Við hlið sér hafði hann Stínu sem hlúði að honum og studdi. Við þökkum góðum vini og sam- ferðamanni samfylgdina. Guðmundur og Sigurlaug (Silla). Sauðburður, heyskapur fram á nótt, rýja, reka hross niður í Sauð- holt, Hárlaugsstaðir og Stína og Geiri. Í minningu æskuáranna er þetta eitthvað sem á saman og maður hef- ur alltaf hugsað um sem eina heild. Þannig hefur það alltaf verið og þannig átti það að vera áfram. En nú er Geiri farinn, svo allt, allt of fljótt. Þessi myndarlegi, stóri og sterki maður sem okkur fannst að ekkert gæti bitið á varð að lokum að lúta í lægra haldi fyrir krabbameininu sem hann hafði barist við í 12 ár. Barist við af miklum krafti og margsinnis haft betur. Kæra Stína, missir þinn er mikill. Þú hefur misst góðan eiginmann og vin, þið voruð sem eitt. Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi, hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér. Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi, og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér. (Ingibjörg Sigurðardóttir.) Elsku Stína, Rósa, Heiða og Elli. Það er með sorg í hjarta sem við kveðjum Geira og vottum ykkur okk- ar dýpstu samúð. Hekla, Lilja, Sólrún, Erlendur, og makar, Hárlaugsstöðum. ÁSTGEIR ARNAR INGÓLFSSON Morgunblaðið birtir minningargrein- ar alla útgáfudagana. Skil Minningargreinar skal senda í gegnum vefsíðu Morgunblaðsins: mbl.is (smellt á reitinn Morgunblaðið í fliparöndinni – þá birtist valkostur- inn „Senda inn minningar/afmæli“ ásamt frekari upplýsingum). Skilafrestur Ef birta á minningar- grein á útfarardegi verður hún að berast fyrir hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi). Ef útför hefur farið fram eða grein berst ekki innan hins tiltekna skilafrests er ekki unnt að lofa ákveðnum birtingardegi. Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein ber- ist áður en skilafrestur rennur út. Lengd Minningargreinar séu ekki lengri en 2.000 slög (stafir með bil- um - mælt í Tools/Word Count). Ekki er unnt að senda lengri grein. Hægt er að senda örstutta kveðju, HINSTU KVEÐJU, 5-15 línur, og votta þeim sem kvaddur er virðingu sína án þess að það sé gert með langri grein. Ekki er unnt að tengja viðhengi við síð- una. Undirskrift Minningargreinahöfund- ar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.