Morgunblaðið - 15.11.2004, Blaðsíða 4
4 MÁNUDAGUR 15. NÓVEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Skógarhlíð 18, sími 595 1000
www.heimsferdir.is
Nú bjóðum við síðustu sætin í sólina 23. nóvember í
28 nætur til Kanaríeyja á hreint ótrúlegu verði. Beint
flug til Kanarí. Það er um 22-25 stiga hiti á Kanarí í nóvember og desember
og hér er auðvelt að njóta lífsins við frábærar aðstæður.
Munið Mastercard
ferðaávísunina
Kanarí
frá kr. 19.990
23. nóvember
Verð kr. 19.990
M.v. tilboð 2 fyrir 1. Flugsæti með
sköttum.
Úrval hótela í boði
frá kr. 1.400 kr. per nótt.
28 nætur
SKÓLASTJÓRAR í Reykjavík hitt-
ust á óformlegum fundi í Öldusels-
skóla í gær og fóru yfir stöðu mála.
Að sögn Daníels Gunnarssonar, for-
manns Skólastjórafélags Reykjavík-
ur, var þungt hljóð í fundarmönnum
en í kringum áttatíu skólastjórar og
aðstoðarskólastjórar mættu á fund-
inn auk fræðslustjóra í Reykjavík og
formanns fræðslunefndar. Engar
ákvarðanir voru teknar um hvernig
yrði brugðist við ef kennarar mættu
ekki til vinnu í dag og segir Daníel að
það sé erfitt að taka ákvarðanir um
stöðu sem ekki er komin upp.
„Menn gera sér vel grein fyrir í
hversu alvarlegri stöðu skólarnir
eru. Það er óskaplega alvarlegt ef
fólk neyðist til að segja upp vegna
kjarasamninga. Við höfum ekki að-
eins áhyggjur af morgundeginum
[deginum í dag] heldur almennt af
stöðu grunnskólans í samfélaginu.
Það er eins og sett sé kalhönd á
skólaþróun í landinu. Hvaða skilaboð
er samfélagið að senda skólum?“
segir Daníel og bætir við að á þennan
hátt sé kennaranámið ekki raun-
verulegur valkostur ungs og hæfi-
leikaríks fólks.
„Kaótískur“ dagur?
Hilmar Hilmarsson, skólastjóri í
Réttarholtsskóla, segir að skóla-
stjórar séu almennt mjög áhyggju-
fullir. „Morgundagurinn [dagurinn í
dag] verður kannski kaótískur í
grunnskólum en það er ekki aðeins
hann sem við höfum áhyggjur af. Við
höfum áhyggjur af næstu vikum,
mánuðum og jafnvel árum og fram-
tíð skólastarfs í landinu. Þetta er öm-
urlegt ástand,“ segir Hilmar og bæt-
ir við að ef allt fari á versta veg og
kennarar mæti ekki til vinnu sé lítið
annað að gera í stöðunni en að senda
nemendur heim. Hilmar býst ekki
við hópuppsögnum þótt margir
kennarar hafi látið í ljós vilja til þess
að segja upp. „Fólk hleypur ekki svo
auðveldlega í aðra vinnu.“
Hanna Hjartardóttir, formaður
Skólastjórafélags Íslands og skóla-
stjóri í Snælandsskóla, segir stöðuna
mjög dapra og óvissuna erfiða. „Við
vitum frekar lítið hvernig dagurinn
hefst á morgun [í dag]. Einhverjir
kennarar munu eflaust ekki mæta.
Ég vona auðvitað að kennararnir
mínir mæti en ég skil afsöðu þeirra
vel. Við erum ekki með neinar sam-
ræmdar aðgerðir í Kópavogi. Þetta
fer allt eftir því hversu margir mæta
ekki ef á annað borð einhverjir
ákveða að mæta ekki.“
Hanna segist ekki hafa heyrt um
uppsagnir enn sem komið er en að
margir kennarar hafi velt þeim
möguleika fyrir sér. „Ég á allt eins
von á því að einhver segi upp og þá
kannski sérstaklega í röðum yngri
kennara. Þeir fóru illa út úr kjara-
samningum síðast og hafa eflaust
augun opin fyrir öðrum starfsvett-
vangi.“
Að sögn Hönnu eru flestir kenn-
arar á fyrirframgreiddum launum.
Margir hafi fengið greiddan allan
septembermánuð og nóvembermán-
uð og því þurfi að draga þá daga sem
verkfallið stóð í þessum tveimur
mánuðum frá næstu launagreiðslu
þeirra. „Þetta er döpur staða rétt
fyrir jól,“ segir Hanna.
Skólastjórar hafa áhyggjur af
framtíð starfs í grunnskólum
„VIÐ vorum fyrst og fremst að
ræða saman og fara yfir stöðuna,“
sagði Ólafur Loftsson, formaður
Kennarafélags Reykjavíkur, að
loknum fundi trúnaðarmanna
kennara á höfuðborgarsvæðinu og
víðar í gærkvöldi en um 150 manns
mættu á fundinn. „Mér virðist sem
kennarar séu hreinlega búnir að fá
nóg. Nú hafa menn skoðað nýju lög-
in og skipst á skoðunum. Í fram-
haldinu þarf fólk að gera upp við
sig hvort það mætir til vinnu eða
ekki. Þetta er auðvitað ákvörðun
sem hver og einn þarf að taka fyrir
sig,“ sagði Ólafur og bætti við að
hann vissi ekki til þess að kennarar
hygðust taka sig saman og mæta
ekki til vinnu enda væru slíkar að-
gerðir lögbrot. „Það er þó mín til-
finning að það verði nokkur röskun
á skólastarfi svona miðað við það
sem ég hef heyrt frá hinum al-
menna kennara.“
Ólafur sagði að fleiri og fleiri
veltu fyrir sér þeim möguleika að
segja upp störfum. „En það er nátt-
úrlega eitt að tala um að segja upp
og annað að gera það. Þetta er ein
erfiðasta ákvörðun sem fólk tekur,
að hætta í starfinu sínu.“
Morgunblaðið/Ómar
Um 150 manns mættu á fund trúnaðarmanna kennara á höfuðborgarsvæð-
inu og í næsta nágrenni í verkfallsmiðstöðinni í gærkvöldi.
Kennarar búnir að fá nóg
VILHJÁLMUR Þ. Vilhjálmsson, for-
maður Sambands íslenskra sveitarfé-
laga og oddviti Sjálfstæðisflokks í
borgarstjórn, segir að ef kennarar
vilji semja við hvert og eitt sveitarfé-
lag um kjör sín muni sveitarfélögin
ekki loka á þá umræðu. Það komi á
hinn bóginn ekki til greina að slíkt
verði gert í yfirstandandi kjaradeilu.
„Þetta er framtíðarmúsík,“ segir
hann.
Vilhjálmur bendir á að sveitar-
félögin hafi veitt launanefnd sveitarfélaga fullt og ótak-
markað umboð til að semja og það taki marga mánuði að
segja því umboði upp. Enginn áhugi sé heldur fyrir slíku
hjá sveitarfélögunum. Hann ítrekar að það komi ekki til
greina að einstök sveitarfélög geri sérsamninga við
kennara í þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir. „Það er
af og frá,“ segir hann. „Þessu kerfi verður ekki breytt í
núverandi samningaferli.“
Vilhjálmur segir að það hafi verið krafa kennarafor-
ustunnar á sínum tíma að sveitarfélögin hafi eina mið-
læga launanefnd, og sjálfir hafi kennarar miðlæga launa-
nefnd. Kennarar hafi fram að þessu aldrei viljað að
sveitarfélög semdu sjálf við sína kennara. „Ef menn vilja
hins vegar ræða um það að hvert sveitarfélag semdi við
sína kennara þá munum við að sjálfsögðu ekki hafna
slíkri umræðu. En þá myndi ekki einhver miðlæg nefnd
kennara í Reykjavík semja við 100 sveitarfélög,“ segir
hann.
Sérsamningar við sveitarfélög
koma ekki til greina nú
Vilhjálmur Þ.
Vilhjálmsson
ENGIN sveitarfélög hafa haft samband við samninga-
nefnd grunnskólakennara, en formaður nefndarinnar
hefur lýst því yfir að nefndin bjóði einstökum sveit-
arfélögum að semja beint við kennara í stað þess að láta
samningaumboð sitt í hendur launanefndar sveitarfé-
lagana.
„Ef einhver sveitarfélög vilja tryggja frið um skóla-
starfið hjá sér þá erum við tilbúin að semja við hvert og
eitt sveitarfélag,“ segir Eiríkur Jónsson, formaður
Kennarasambands Íslands.
Eiríkur segir að enn sem komið er hafi ekkert sveitar-
félag þekkst þetta boð. „Ég held að nú sé runnin upp sú
stund sem er óþægilegust í starfi stjórnmálamannsins,
þegar hann stendur allt í einu frammi fyrir því að honum
standi til boða að standa við yfirlýsingar sínar. Sú stund
er upp runnin núna og ég verð ekki var við að menn ætli
að gera það.“ Eiríkur segist þar m.a. vitna til orða bæjar-
stjóra Akureyrar og formanns fræðsluráðs Reykjavíkur
í fjölmiðlum. Hann segir að allar
breytingar sem urðu við meðferð alls-
herjarnefndar Alþingis á frumvarpi
til laga um kjaramál kennara hafi ver-
ið til bóta, en lögin séu engu að síður
ónothæf vegna þriðju greinarinnar
sem setur gerðardómi forskrift.
Eiríkur segir að til að kennarar hefðu
sætt sig við þessa grein frumvarpsins
hefði eina forskrift gerðardóms verið
að miða við aðra hópa með sambæri-
lega menntun, reynslu og ábyrgð.
„Ef gerðardómur úrskurðar ekki fólki töluvert betri
kjör en miðlunartillaga sáttasemjara gerði ráð fyrir þá
er verið að dæma fólk til að starfa á kjörum sem það er
búið að hafna, og ég bara óttast ástandið ef það verður,“
segir Eiríkur. „Þá er verið að dæma grunnskólana úr
leik þann tíma sem gerðardómurinn myndi ákveða.“
Sveitarfélögum verði boðið að
semja beint við kennara
Eiríkur
Jónsson
REYKJAVÍKURBORG, stærsti
vinnuveitandi grunnskólakennara á
landinu, mun ekki bregðast sérstak-
lega við þótt stór hópur grunnskóla-
kennara komi ekki til vinnu í dag,
segir Stefán J. Hafstein, formaður
fræðsluráðs Reykjavíkurborgar.
„Ég held að það sé langbest að
láta daginn líða í einskonar millibils-
ástandi, vera hvorki með stórar yf-
irlýsingar né aðgerðir, heldur ein-
faldlega reyna að skapa örlítið
svigrúm til að láta á það reyna hvort
menn geta náð saman [við samninga-
borðið] á þessum síðustu mínútum
sem eftir eru. Ég held að viðbrögð
okkar verði ekki nein að öðru leyti en
því að við vonumst eftir því besta við
samningaborðið,“ segir Stefán.
Kallar á miklar tilslakanir
Hann segist hafa mikla samúð
með kennurum, enda hart að vera
sviptur samningsrétti með lögum,
um leið hafi hann skilning á afstöðu
Alþingis og ríkisstjórnar en finnst
skilmálarnir sem kennarar fái harð-
ir. „Í þessu ljósi hef ég hugsað mér
það að menn nýti þessi síðustu and-
artök sem eru gefin til að reyna sitt
ýtrasta til að semja. Það kallar auð-
vitað á talsvert miklar tilslakanir af
hálfu beggja aðila,“ segir Stefán.
Hann segir Reykjavíkurborg ekki
hafa áætlanir um að semja sérstak-
lega við kennara heldur þurfi launa-
nefndin að reyna sitt besta til að
semja fyrir öll sveitarfélögin.
Engar að-
gerðir þótt
kennarar
skrópi
MARGIR skólar hafa lokað vef-
svæðum sínum og sett upp svartar
síður í staðinn. Hugmyndin var sett
fram á spjallþræði kennara (www.-
kennarar.is) og brugðu margir vef-
umsjónarmenn skjótt við.
Þorkell Daníel Jónsson sér um
vefsíðu Selásskóla og ákvað að taka
þátt í þessari táknrænu aðgerð.
„Þetta var gert til þess að benda á
þennan svarta dag sem föstudagur-
inn var þegar lögin voru birt. Vef-
urinn verður að sjálfsögðu ekki
endalaust lokaður en þetta eru
svartir dagar.“
Þorkell segist hafa á tilfinning-
unni að margir kennarar verði ekki
við störf í dag, mánudag. „Ég ætla
sjálfur að mæta til vinnu þar sem ég
er deildarstjóri en ég get ekki neit-
að því að maður hálfkvíðir morgun-
deginum,“ segir Þorkell.
Svartir
dagar
Í VIKUNNI mun menntamálaráðu-
neytið ákveða hvort fresta eigi sam-
ræmdum prófum í 4. og 7. bekk og
meta hvort einhverjar leiðir séu fær-
ar til að bæta nemendum upp það
kennslutap sem þeir hafa orðið fyrir í
verkfallinu. Steingrímur Sigurgeirs-
son, aðstoðarmaður menntamálaráð-
herra, telur óhjákvæmilegt að fresta
samræmdu prófunum sem eiga að
vera í lok nóvember. Hann segir þó að
engar ákvarðanir hafi verið teknar
enn sem komið er en að honum þyki
líklegt að þau verði ekki fyrr en eftir
áramót.
Þetta er því í annað sinn sem fresta
þarf samræmdum prófum í 4. og 7.
bekk vegna verkfallsins. Ekki hefur
verið ákveðið hvort breyta þurfi dag-
setningum á samræmdum prófum í
10. bekk sem þreytt skulu í vor.
Óhjákvæmi-
legt að fresta
samræmdum
prófum
♦♦♦