Morgunblaðið - 01.12.2004, Side 4
4 MIÐVIKUDAGUR 1. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur
sýknaði í gær löggiltan endurskoð-
anda af ákæru um að hafa vanrækt
skyldur sínar sem endurskoðandi
Tryggingasjóðs lækna á árunum
1993–2001 en á tímabilinu tókst fram-
kvæmdastjóra sjóðsins að draga sér
um 75 milljónir úr sjóðnum án þess að
endurskoðandinn yrði þess var.
Héraðsdómur Reykjavíkur gerði
verulegar athugasemdir við rannsókn
og málatilbúnað ríkislögreglustjóra
sem ákærði í málinu.
Ríkislögreglustjóri ákærði mann-
inn fyrir brot gegn almennum hegn-
ingarlögum, lögum um ársreikninga,
lögum um skyldutryggingu lífeyris-
réttinda og starfsemi lífeyrissjóða og
lögum um endurskoðendur. Krafist
var refsingar og að hann yrði sviptur
réttindum til að starfa sem löggiltur
endurskoðandi. Tryggingasjóður
lækna krafðist þess að endurskoð-
andinn yrði dæmdur til að greiða
sjóðnum 47,5 milljónir króna auk
vaxta en þeirri kröfu var vísað frá
dómi.
Í sumar var fyrrverandi fram-
kvæmdastjóri Tryggingasjóðs lækna
dæmdur í tveggja og hálfs árs fang-
elsi fyrir 75 milljóna króna fjárdrátt á
árunum 1992 til 1999 og bókhaldsbrot
á árunum 1992 til 2001.
Endurskoðandanum var gefið að
sök að hafa áritað ársreikningana án
fyrirvara og með yfirlýsingu um að
þeir gæfu glögga mynd af efnahag og
breytingu á eign, án þess að hafa við
endurskoðunarvinnuna aflað full-
nægjandi gagna til að byggja slíkt álit
á. Hann hafi ekki heldur kannað á
fullnægjandi hátt þau gögn sem fyrir
lágu og þannig ekki hagað endurskoð-
unarvinnu sinni í samræmi við góða
endurskoðunarvenju.
Ótæk rannsókn
Í niðurstöðu héraðsdóms eru veru-
legar athugasemdir gerðar við rann-
sókn málsins og ákæran er jafnframt
sögð óskýr. Þá hafi framkvæmda-
stjórinn fyrrverandi upplýst að hann
hafi falsað gögn sem hann lagði fyrir
endurskoðandann en þessar fullyrð-
ingar ekki verið rannsakaðar. Þetta
sé í trássi við lög um meðferð opin-
berra mála sem kveða á um að ákæru-
valdið verður að leitast við að leiða hið
sanna í ljós og gæta jafnt að þeim at-
riðum sem horfa til sýknu og sektar.
Þá kom fram að eina rannsóknin
sem gerð var á meintum brotum end-
urskoðandans var gerð af endurskoð-
endaskrifstofunni Grant Thornton að
beiðni sjóðsins í samráði við ríkislög-
reglustjóra og Fjármálaeftirlitið.
Fram kom hjá endurskoðanda fyrir-
tækisins að hann hafi fengið þær upp-
lýsingar hjá Fjármálaeftirlitinu að
reikninginn fyrir rannsóknina ætti að
senda til stjórnar sjóðsins. Dómurinn
taldi þessa rannsókn ekki tæka sem
sönnunargagn þar sem vafi gæti
vaknað um að rannsóknin væri óhlut-
dræg og óháð. Framburður endur-
skoðenda hjá Grant Thornton var
virtur í sama ljósi.
1,1 milljón til lögmanna
Enn fremur voru gerðar athuga-
semdir við að maður sem aðstoðaði
við rannsóknina er tengdur fjöl-
skylduböndum við mann sem telur
sig eiga kröfu á sjóðinn. Þótti það
draga úr sönnunargildi framburðar
hans. Þótt dómurinn hafi ekki talið að
vinnugögn ákærða styddu ekki að
fullu framburð hans um vinnubrögð
hans við endurskoðunina var það mat
dómsins að ríkislögreglustjóra hafi
ekki tekist að færa sönnur á sök hans
og var hann því sýknaður.
Allur sakarkostnaður greiðist úr
ríkissjóði, þar með talin málsvarnar-
laun verjenda endurskoðandans,
samtals 1,1 milljón króna.
Ingveldur Einarsdóttir, Margrét
Flóvenz og Ólafur Kristinsson kváðu
upp dóminn.
Sýknaður
af ákæru
um van-
rækslu
KILJAN, annað bindi um ævi og
störf Halldórs Kiljan Laxness, eftir
Hannes Hólmstein Gissurarson pró-
fessor mun koma út í kringum 10.
desember nk. Að sögn Hannesar
gefur Almenna bókafélagið (AB)
ekki út bókina í
ár, en það gaf út
fyrsta bindið sem
nefnist „Halldór“.
Nýja bókafélagið
ætlar að gefa
bókina út í ár, en
félagið hefur áður
gefið út bækur
eftir Hannes
Hólmstein.
Aðspurður seg-
ist Hannes hafa orðið seinn fyrir með
bókina til AB af óviðráðanlegum
ástæðum og því hafi Nýja bókafélag-
ið tekið verkefnið að sér.
Hannes segir marga, sem höfðu
lesið fyrsta bindið, hafa skorað á sig
að gefa út annað bindið. „Ég er nú að
skrifa þessa bók fyrir það fólk sem
vill fróðlega og læsilega bók um Lax-
ness. Það er náttúrlega mjög margt
nýtt sem kemur fram í minni bók og
hún á eftir að vekja mikla athygli,“
segir Hannes.
Nýja bókafélagið
gefur út bók Hannesar
Hólmsteins um Laxness
„Á eftir að
vekja mikla
athygli“
Hannes Hólm-
steinn Gissurarson
SLITNAÐ hefur upp úr viðræðum eigenda Lands-
virkjunar um að ríkið kaupi hluti Reykjavíkurborgar
og Akureyrarbæjar í fyrirtækinu í áföngum á næstu
árum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var
viljayfirlýsing um fyrirkomulag eignabreytinga
tilbúin til undirritunar í gær þegar Reykjavíkurborg
setti fram kröfur um að fá hluta af eignum Lands-
virkjunar, í stað fjármuna fyrir greiðslur upp í lífeyr-
isskuldbindingar borgarinnar sem samkomulag
hafði náðst um. Sættu fulltrúar ríkisins sig ekki við
þessa kröfu borgarinnar, samkvæmt upplýsingum
blaðsins, en fram hefur komið vilji til þess hjá
Reykjavíkurborg, m.a. hjá Alfreð Þorsteinssyni,
stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur, að hún
taki til sín Sogsvirkjanir sem hún lagði inn í Lands-
virkjun á sínum tíma.
Ríkissjóður á um 50% hlut í Landsvirkjun (LV),
Reykjavíkurborg 44,5% og Akureyrarbær 5,5% hlut.
Hrein eign fyrirtækisins um síðustu áramót var um
41 milljarður króna. Bókfærð eign borgarinnar mið-
að við það er því um 18 milljarðar króna og hlutur
Akureyringa um tveir milljarðar. Endanlegt verð-
mat á eignarhlutum og lífeyrisskuldbindingum
vegna borgarstarfsmanna hefur ekki farið fram.
Heimildir blaðsins herma að Reykjavíkurborg hefði
vilja tryggja að ef lífeyrisskuldbindingar dygðu ekki
þá yrði henni bætt það upp með fjármagni frá ríkinu.
Var ríkið tilbúið til þess en í gær mun hafa komið
krafa frá borginni um að ríkið gerði það í formi eigna,
ekki fjármuna. Höfðu þá fundahöld staðið yfir innan
meirihluta Reykjavíkurlistans í borgarstjórn. Svo
langt var málið komið að búið var að boða þingflokka
stjórnarflokkanna til fundar síðdegis í gær til að
kynna þeim efni viljayfirlýsingarinnar.
Borgarstjóri ekki með umboð
til að ganga lengra
Þórólfur Árnason, fráfarandi borgarstjóri, hafði
lagt mikla áherslu á að ljúka málinu áður en hann
hætti störfum í dag, 1. desember. Þórólfur staðfesti
það í samtali við Morgunblaðið en sagðist ekki hafa
haft umboð til að ganga lengra en hann var kominn.
Hann sagði öll samskipti milli Reykjavíkurborgar
og ríkisins hafa verið með miklum ágætum frá því að
hann tók við störfum sem borgarstjóri. Málið hefði
tekið nýja stefnu í júní sl. þegar hann hefði lagt til á
fundum með iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra
að horfa á málefni Landsvirkjunar sem málefni kyn-
slóðanna, þar sem lífeyrissjóðaskuldbindingar yrðu
teknar í samhengi við eignarhlut borgarinnar í fyr-
irtækinu. Með þeim hætti væri hægt að standa að
flutningi eignaraðildar án þess að til þensluáhrifa
kæmi á innanlandsmarkaði. Ekki yrði um beinar
greiðslur að ræða heldur yrðu fjárhæðir greiddar yf-
ir mannsaldur. Vildi hann hrósa borgarfulltrúum og
ráðherrum fyrir skilning á þessari hugmynd sinni.
Að sögn Þórólfs eru lífeyrisskuldbindingar borg-
arinnar umfram innstæðu um 25 milljarðar króna.
Bókfært verðgildi hlutar borgarinnar í LV væri um
18 milljarðar. Taldi Þórólfur hlutinn klárlega vera
meira virði en sem næmi lífeyrisskuldbindingum.
„Mér þykir það mjög miður að ekki náðust samn-
ingar í dag [gær] sem ég hef unnið að sleitulaust á
undanförnum dögum, og vildi skilja við Reykjavík-
urborg þannig að þessir samningar næðust. Hins
vegar ætla ég ekki að leggja dóm á það hvor aðilinn
þurfi að teygja sig lengra. Þegar samningar þurfa að
nást þá þurfa báðir aðilar að semja. Ég tel að í dag
[gær] hafi ekki verið lengra komist,“ sagði Þórólfur
en hafði þá trú að þrátt fyrir viðræðuslitin myndi tak-
ast að klára málið á næstu dögum. Svo lítið stæði út
af borðinu að hann sagðist treysta borgarfulltrúum
og ráðherrum ríkisstjórnarinnar til að ljúka því verki
sem hann lagði upp með.
Vonbrigði en ekki búið
Bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti á auka-
fundi á mánudag að fela Kristjáni Þór Júlíussyni
bæjarstjóra heimild til að ganga frá samningi. Krist-
ján Þór sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa orðið
fyrir vonbrigðum með málalok í gær. Ekki hefði tek-
ist samkomulag að þessu sinni um verklag áfram-
haldandi viðræðna en málið væri þrátt fyrir það ekki
búið. Það hefði þó enga þýðingu að líta á atburði gær-
dagsins sem einhver endanleg viðræðuslit. Mikil
vinna væri eftir ennþá.
„Vegna þeirra breytinga sem eru fram undan á
raforkumarkaðnum hljóta allir skynsamir menn að
sjá að samsetning stóru orkufyrirtækjanna, eins og
hún er í dag, gengur ekki. Einnig hefur legið fyrir
lengi að Reykjavíkurborg hefur viljað losa um sinn
hlut í Landsvirkjun og Akureyrarbær er að sjálf-
sögðu bara minnihlutaeigandi þarna.“
„Smáhandavinna eftir“
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, sem fer
með hlut ríkisins í Landsvirkjun, segir viðræður hafa
verið í gangi um nokkurt skeið.
„Ég hef talið það jákvætt að reyna að skerpa skilin
milli þessara orkufyrirtækja, Landsvirkjunar og
Orkuveitu Reykjavíkur, í nýju umhverfi samkeppni í
framleiðslu og sölu á raforku. Þó að ekki hafi náðst
samkomulag um samningstexta í þessari lotu þá er
málið ekki þar með úr sögunni. Allra hluta vegna er
mikilvægt að ná þessu fram. Ég tel að allir séu sam-
mála um það og að eingöngu sé eftir smáhanda-
vinna,“ segir Valgerður.
Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður
Landsvirkjunar, segir að viðræður um breytt eign-
arhald séu í raun mál eigendanna, ekki Landsvirkj-
unar sem slíkrar. Hins vegar séu það klárlega hags-
munir Landsvirkjunar að eignarhaldið verði
skýrara. Erfitt sé að fara inn í nýtt umhverfi á raf-
orkumarkaðnum um áramótin með núverandi eign-
arhald, þar sem borgin hefur ítök í tveimur stærstu
orkufyrirtækjunum, Orkuveitu Reykjavíkur og
Landsvirkjun. Æskilegt sé að það takist að stíga
fyrstu skrefin í eignabreytingum á fyrirtækinu fyrir
áramót.
Viljayfirlýsing var
klár til undirritunar
Borgin gerir kröfu
um að fá hluta af eign-
um Landsvirkjunar,
m.a. Sogsvirkjanir
Morgunblaðið/Golli
Áform eru um að Reykjavíkurborg og Akureyr-
arbær selji ríkinu hluti sína í Landsvirkjun en
samkomulag hefur ekki tekist um fyrirkomulag.
Viðræðuslit hjá eigendum Landsvirkjunar; ríkinu, borginni og Akureyrarbæ
bjb@mbl.is