Morgunblaðið - 01.12.2004, Síða 20
20 MIÐVIKUDAGUR 1. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
MINNSTAÐUR
Vestmannaeyjar | Nýsköpunarstofa
í Vestmannaeyjum er að leggja loka-
hönd á undirbúning vegna náms í
viðburðastjórnun. Kennsla hefst í
janúar ef næg þátttaka fæst. Sig-
urjón Haraldsson, forstöðumaður
Nýsköpunarstofunnar, telur að
námið geti orðið vísir að háskóla í
Vestmannaeyjum.
Námið er í raun þríþætt. Viska –
símenntunarstöð mun sjá um grunn-
nám, Framhaldsskólinn í Vest-
mannaeyjum mun standa fyrir
tveggja ára starfsnámi á framhalds-
skólastigi og einnig verður boðið upp
á 60 eininga starfstengt diplóma-
nám á háskólastigi.
Sigurjón Haraldsson segir hug-
myndina um nám í viðburðastjórnun
hafa orðið til áður en hann kom til
Eyja. „Hugmyndin kom upp og
tengist greiningu á vandamálum
sem koma upp í byggðarlögum þeg-
ar ungt fólk flytur burt til að afla sér
frekari menntunar og fær ekki at-
vinnu við sitt hæfi að námi loknu. Í
framhaldinu var farið yfir hvað við
gætum gert til að halda ungu fólki í
sveitarfélögum svipuðum Vest-
mannaeyjum og fara yfir hvaða auð-
lindir væru til staðar.
Vinna að loknu námi
Í Vestmannaeyjum er öflugt
íþrótta- og menningarlíf, eins og
víða annars staðar, og margir við-
burðir settir upp. Menn hafa séð í
þessu fjáröflun fyrir félagasamtök
en víða erlendis sjá menn þetta sem
starfsgrein með arðsemi. Menn
lokka fjárfesta til að setja fjármagn í
leiksýningar, tónlistarsýningar, ráð-
stefnur svo eitthvað sé nefnt.“
Sigurjón segir viðburðastjórn-
unarnám til í annarri mynd í Dan-
mörku. „Ég sá fyrir mér hvernig ég
gæti tengt það bæjarfélaginu hér og
sett upp nám sem gæti skapað at-
vinnu að því loknu. Ég fékk fólk með
mér í verkefnastjórn og við fórum
yfir málin. Helgi Baldursson þekkir
vel til þessara mála og hefur sett
upp námskeið og fjarnámsnámskeið
fyrir ýmsa aðila og verslunarstjóra-
námskeið á Bifröst sem hann setti
upp á sínum tíma fékk nýsköp-
unarverðlaun á þessu ári. Bergþóra
Þórhallsdóttir, hjá Visku, kom með
annað sjónarmið og út frá þessum
hugmyndum þróaðist námið. Fólk
getur komið inn á hvaða skólastigi
sem er, frá framhaldsskóla að há-
skólastigi. Tækifæri skapast fyrir þá
sem eru atvinnulausir en þeir geta
farið í fornám hjá Visku. Námið ætti
því að henta öllum sem hafa áhuga á
viðburðastjórnun.“
Sigurjón segir námið nýtt og
óvenjulegt þar sem það byggist líka
á verklegu námi. Nemendur eru
hálfan daginn í verklegum þætti og
hálfan daginn í bóklegu. Verklegi
þátturinn byggist á því að skipu-
leggja verk og fylgja þeim eftir. Það
ætti að skapa ákveðinn stuðning fyr-
ir samfélagið hér og ekki bara fyrir
Vestmannaeyjar. Fólk gæti á síðari
stigum unnið að verkefnum í sinni
heimabyggð.
Háskólanámið er sextíu eininga
diplóma-nám. Nemendur fara aldrei
annað, námið er staðbundið og nem-
endahópurinn verður hér. Hins veg-
ar getur verið að kennarar verði
annars staðar og kenni um fjar-
fundabúnað. Verklegi hlutinn fer
fram í Íþróttamiðstöðinni en það
ræðst af fjölda nemenda hvort kennt
verður á fleiri stöðum.“
Sigurjón sér fyrir sér að stofnaður
verði háskóli í framtíðinni. Menn
hafa rætt um þetta sem háskólaset-
ur en ég sé fyrir mér að hér verði há-
skóli sem sinni ákveðnum þáttum.
Bæði nemendur og kennarar verði
hér og síðar myndist samstarf við
aðra háskóla. Þannig getum við
kennt og fengið kennslu í gegnum
fjarfundabúnað. Ef við ætlum að
breyta samfélaginu hér og fá hingað
menntað fólk verðum við að breyta
aðstæðum t.d. með háskóla.“
Þegar Sigurjón er spurður nánar
út í þessa hugmynd segist hann sjá
fyrir sér félagsvísindadeild með
ferða- og viðburðastjórnun og nátt-
úrufræðideild. „Við höfum mögu-
leika á því að tengjast erlendum há-
skólum, getum verið með verklega
þáttinn hér er varðar jarðfræði,
sjávarlíffræði og fleira. Við höfum
umhverfið, erum með rannsókn-
arstofur og Rannsóknasetrið. Heil-
mikið er til af ónýttu húsnæði sem
gæti nýst sem kennsluaðstaða. Eins
og háskóli er í dag þá þurfa menn
ekki lengur að hugsa í kössum, há-
skóli er orðinn að netverki.“
„Það tekur ákveðinn tíma að
kynna nýtt námsframboð,“ segir
Sigurjón sem sér fyrir sér að eftir
tíu ár geti 700 manns tengst skól-
anum í Eyjum, þegar jaðaráhrif
verða tekin með í reikninginn.
Háskólanám hefst í janúar
Eftir diplóma-námið geta nem-
endur bætt við sig einu ári í fjarnámi
og fá þá BS-gráðu. „Þetta er fyrst og
fremst stjórnunarnám, þ.e. einblínt
er á þann þátt að stjórna viðburðum
og öllu sem þeim viðkemur. Ef vel á
að vera felst í því í heilt starf að
skipuleggja einn einstakan viðburð.
Oft fer eitthvað úrskeiðis vegna þess
að menn ætla of stuttan tíma í und-
irbúning. Upphaflega er námið mið-
að við rekstrarfræðinám í Tæknihá-
skólanum en nú er hann að sam-
einast Háskólanum í Reykjavík. Ef
nægileg þátttaka næst þá hefst há-
skólanámið hjá okkur í janúar,“
sagði Sigurjón. Ekki er endanlega
ljóst hvort Nýsköpunarstofa ráði
kennara í upphafi en námið verði
síðan metið í hinum sameinaða há-
skóla þegar hann verður tilbúinn.
Hefja kennslu í viðburðastjórnun á háskólastigi
Morgunblaðið/Sigurgeir
Undirbúningshópurinn Þau hafa stjórnað undirbúningi háskólanámsins, f.v. Ólafur H. Sigurjónsson skólameist-
ari, Bergþóra Þórhallsdóttir, forstöðumaður Visku, og Sigurjón Haraldsson, forstöðumaður Nýsköpunarstofu.
LANDIÐ
AKUREYRI
GEFIN hefur verið út keppnislýsing fyrir al-
þjóðlega hugmyndasamkeppni sem „Akur-
eyri í öndvegi“ stendur fyrir varðandi skipu-
lag miðbæjarins á Akureyri og hefur
samkeppninni því formlega verið hleypt af
stokkunum. Keppnin er haldin í samstarfi
við Arkitektafélag Íslands og er hún opin öll-
um sem áhuga hafa á málinu. Hugmyndir
þurfa að hafa borist í síðasta lagi 1. mars nk.
og mun dómnefnd kynna úrslit um miðjan
apríl. Verðlaun verða afhent sumardaginn
fyrsta, 21. apríl 2005.
Eins og fram kemur í keppnislýsingu hafa
forsendur keppninnar verið mótaðar með
víðtæku samráði við fjölda hagsmunaaðila á
Akureyri, þar með talið bæði aðstandendur
Akureyrar í öndvegi og íbúa bæjarins.
Fundað hefur verið afmörkuðum hópum
hagsmunaaðila auk þess sem keppnislýsingin
tekur mikið mið af þeim hugmyndum sem
íbúar komu á framfæri á opnu samráðsþingi
sem haldið var í bænum í haust og var sótt af
tæplega 1.500 íbúum.
Í keppnislýsingunni er m.a. kveðið á um
þau markmið, að Akureyri festi sig í sessi
sem helsti þéttbýlisstaður og þungamiðja
menningar, mennta, verslunar og þjónustu
utan höfuðborgarsvæðisins, að Akureyri hafi
sterkt aðdráttarafl fyrir íbúa, ferðamenn og
fyrirtæki, að fleira fólk eigi þess kost að búa
í og við miðbæinn, að í miðbænum verði í
boði fjölbreytt þjónusta, að miðbærinn verði
suðupottur mannlífs, menningar, lista og við-
skipta og verði helsti vettvangur samveru-
stunda og hátíðahalda bæjarbúa.
Verðlaunaféð er 7,5 milljónir
Verðlaunafé í samkeppninni er samtals
86.000 evrur, eða um 7,5 milljónir króna. Auk
þess er gert ráð fyrir að Akureyri í öndvegi
kaupi einstakar hugmyndir fyrir að 8.600
evrur í viðbót og eignist þannig afnotarétt af
viðkomandi lausnum. Allar upplýsingar um
keppnina, keppnisgögn og fjöldi mynda af
bænum og nágrenni hans eru aðgengileg á
vefsíðu Akureyrar í öndvegi, www.vision-ak-
ureyri.is hvort heldur er á íslensku eða
ensku. Það er nýmæli í svona keppnum hér á
landi að keppnisgögnin séu eingöngu á raf-
rænu formi en það er gert til að einfalda og
jafna aðgang allra þátttakenda að gögnun-
um, sama hvar þeir eru staðsettir í heim-
inum, segir í fréttatilkynningu verkefnisins.
Það er nýnæmi að keppni eins og þessi
sem snýst um skipulag miðbæjarkjarna sé
skipulögð og framkvæmd af einkaaðilum
sem hafa átt frumkvæði bæði að verkefninu
og samvinnu við bæjarfélagið. Það eru fimm-
tán úr hópi öflugustu atvinnuveitenda á Ak-
ureyri sem hafa tekið höndum saman um
fjármögnun og framkvæmd verkefnisins og
hefur verið lögð mikil áhersla á góða sam-
vinnu við Akureyrarbæ enda í verkahring
bæjarins að annast skipulagsmál. Þessi öfl-
ugi hópur bakhjarla ætti líka að geta orðið til
að flýta fyrir framkvæmdum við útfærslu
verðlaunatillagna þannig að raunverulegs
ávinnings af verkefninu sjái stað ennþá fyrr
en ella.
Samkeppni um skipulag miðbæjarins á Akureyri er komin af stað
Miðbærinn verði suðupottur
mannlífs, lista og viðskipta
Morgunblaðið/Kristján
Samkeppni Markmiðið með hugmyndasamkeppninni um skipulag miðbæjarins er m.a. að
fjölga þar fólki og auka þjónustu. Verðlaun verða afhent sumardaginn fyrsta á næsta ári.
Kórsöngur | Tónleikar til styrktar Mæðrastyrks-
nefnd Akureyrar fara fram í Akureyrarkirkju nk.
fimmtudagskvöld kl. 20. Kvennakór Akureyrar
heldur tónleikana ásamt Stúlknakór Akureyrar-
kirkju og Kór Glerárkirkju. Á efnisskrá verða jóla-
lög og önnur þekkt lög sem eiga vel við á þessum
árstíma. Þetta er í annað sinn sem tónleikar sem
þessir eru haldnir, í fyrra safnaðist vel og er það
einlæg von kórfélaga að fólk sjái sér fært að eiga
notalega stund í Akureyrarkirkju og styrkja um
leið gott málefni. Stjórnendur kóranna eru Þór-
hildur Örvarsdóttir, Eyþór Ingi Jónsson og Hjört-
ur Steinbergsson. Verð aðgöngumiða er að lág-
marki kr. 1000 fyrir fullorðna en ekkert gjald er
fyrir börn. Frjáls framlög eru einnig vel þegin. Í
lok tónleikanna verður afraksturinn færður
Mæðrastyrksnefnd.
Hvít og falleg jól | „Við ætlum að halda okkur
við hvít jól. Hvít og falleg jól,“ segir í jólaveðurspá
Veðurklúbbsins á Dalbæ í Dalvíkurbyggð. Þar
segir að jólatunglið kvikni í norðri 12. desember og
verður fullt á annan í jólum. „Við eigum ekki von á
miklum breytingum með því tungli, helstar þær að
norðanáttir gætu orðið harðari og ekki loku fyrir
það skotið að meira eigi eftir að snjóa,“ segja fé-
lagarnir. Stórra breytinga á veðurfari sé því ekki
að vænta fyrr en í fyrsta lagi með þorratungli sem
kviknar þann 10. janúar segja klúbbfélagar.
Hraðskákmót | Stefán Bergsson sigraði á haust-
hraðskákmóti Skákfélags Akureyrar sem haldið
var síðustu helgi. Stefán hlaut 15 vinninga af 16
mögulegum. Í 2.-3. sæti urðu Þór Valtýsson og
Unnar Þór Bachmann með 11,5 vinninga og í 4.
sæti varð Sigurður Eiríksson með 11 vinninga.
Stefán vann því tvöfalt í haustmótinu því hann
vann einnig hægu skákina. Næsta mót hjá félaginu
er Atskákmót Akureyrar sem hefst fimmtudaginn
2. desember kl. 20 og því verður framhaldið sunnu-
daginn 5. desember kl 14. Teflt er að venju í KEA
salnum Sunnuhlíð og eru allir velkomnir.
Nágrannar senda baráttukveðju | Á fundi
fastanefnda Þingeyjarsveitar og sveitarstjórnar
sem haldinn var í Stórutjarnaskóla á mánudags-
kvöld var íbúum Skútustaðahrepps send stuðn-
ings- og baráttukveðja vegna þeirrar alvarlegu
stöðu sem upp er komin í atvinnumálum sveitarfé-
lagsins. „Fundurinn skorar jafnframt á stjórnvöld
að taka saman höndum með íbúum Skútustaða-
hrepps og grípa nú þegar til aðgerða til eflingar at-
vinnulífs í Mývatnssveit,“ segir ályktun frá fund-
inum.