Morgunblaðið - 01.12.2004, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 01.12.2004, Blaðsíða 23
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 1. DESEMBER 2004 23 DAGLEGT LÍF Craig kom til landsins í síð-ustu viku til að fylgja eft-ir íslenskri útgáfu á bókhans um drauma. Craig e draumspakur maður og í bókinni leiðbeinir hann fólki með að lesa í drauma sína og læra af þeim. En Craig er miklu meira en draumales- ari, hann er einn frægasti miðill Bretlands og segir miðilsgáfuna hafa fylgt sér svo lengi sem hann man. „Þetta var alltaf þarna. Þegar ég var barn að aldri þá sá ég árur fólks og dáið fólk og ég var líka strax mjög næmur á tilfinningar fólks. En ég gerði ekkert með þessa hæfileika fyrr en ég fór sem ungur maður með systur minni á miðils- fund með hinum fræga miðli Doris Stokes. Doris kom sér beint að efn- inu og sagði mér að ég ætti eftir að starfa sem miðill og ætti eftir að fara um alla veröld og miðla mínum hæfileikum. Hún var mjög viss í sinni sök og ég leit á þetta sem hvatningu. Eftir að hafa hugsað ráð mitt vel, ákvað ég að snúa baki við glæstum starfsframa sem ég hafði byggt upp og snúa mér að því að þjálfa miðilshæfileika mína. Síðan hefur þetta verið mitt aðalstarf.“ Persónuleikinn lifir dauðann af Jane eiginkona Craigs er einnig miðill og þau koma fram saman í miðilsstörfum sínum. Hann segist ekki vera í því að segja til um fram- tíð fólks því hann álítur að framtíðin sé fyrst og fremst í höndum hvers og eins. „Reyndar unnum við hjónin eitt sinn við þátt í sjónvarpi þar sem hlutverk okkar var að segja fyrir um fréttir í heiminum viku fram í tímann. Allt sem við sögðum gekk eftir og má þar nefna sem dæmi eldsvoðann mikla í Windsor-kastala fyrir nokkrum árum. En þetta er ekki það sem ég vil fást við og starf mitt í dag felst fyrst og fremst í því að sanna að persónuleiki ein- staklings lifir af líkamlegan dauða. Ég get ekki staðfest tilveru guðs, aðeins að lífið heldur áfram eftir dauðann.“ Að dreyma er hluti af lífinu Að sögn Craigs geta draumar sagt okkur mikið um okkur sjálf og þeir geta hjálpað okkur við að koma jafnvægi á tilfinningar okkar, ef við hlustum á þá. „Við myndum hrein- lega springa ef okkur dreymdi ekki. Sumir halda því fram að þá dreymi aldrei, en það er ekki rétt. Rann- sóknir sýna ótvírætt að okkur dreymir öll, en sumir muna ekkert eftir draumum sínum,“ segir Craig sem skiptir draumum í þrjá meg- inflokka: Drauma sem byggjast á tilfinningum okkar og daglegum hugsunum, drauma þar sem skap- andi hugmyndir okkar birtast, (margir rithöfundar hafa til dæmis fengið hugmyndir að bókum sínum í gegnum drauma og svo er einnig um margar merkar vísindalegar uppgötvanir), og svo eru „stóru draumarnir“ eins og hann kallar þá. „Stóru draumarnir eru andlegir draumar fullir af táknum þar sem fólki birtist merking lífsins, um hvað dauðinn snýst og annað í þeim dúr.“ Draumar eru læknandi Í bók Craigs fræðir hann almennt um drauma, kennir að lesa í tákn, hvernig á að muna drauma og vinna úr draumum og þar er líka draum- orðabók. Craig ráðleggur fólki að halda draumadagbók til að geta borið saman drauma sína og taka eftir endurteknum táknum. „Það er mjög áríðandi að skrifa drauma sína niður strax og maður vaknar, því annars vilja þeir hverfa úr minninu. Þess vegna mæli ég með að fólk haldi draumadagbók svo það geti skoðað drauma sína í samhengi, því draumar eru spegill sálarinnar og draumar vara okkur jafnvel við því sem koma skal. Draumar eru lækn- andi ef við hlustum á þá.“ Að dreyma sama drauminn aftur og aftur er eitthvað sem margir kannast við en Craig segir það merki um að eitthvað sé óuppgert í tilfinningalífi viðkomandi. „Draum- urinn er þá að minna okkur á að við verðum að horfast í augu við hlutina og gera þá upp svo okkur líði bet- ur.“ Sammannlegir draumar En dreymir fólk ólíka drauma eftir löndum? Eru draumar fólks í Sómalíu til dæmis mjög ólíkir draumum Íslendinga? „Já, því menningin og umhverfið sem við lif- um í hefur áhrif á drauma okkar. Fátækan mann í eyðimörk Afríku dreymir ekki að hann sé að vinna við tölvu vegna þess að tölva er hon- um algjörlega ókunnugt fyrirbæri. En sumir draumar eru sammann- legir og birtast fólki hvar sem er í heiminum, svona rétt eins og sagna- minni sem fyrirfinnast um alla ver- öld. Slíkir draumar koma djúpt úr undirmeðvitundinni og eru í raun frá fornum tíma. Þeir eru eitthvað sem við berum í okkur kynslóð fram af kynslóð. Þannig geta draumar flutt okkur mjög langt aftur í tím- ann og við verðum mannlegri eftir því sem við komumst betur í tengsl við fortíðina.“ Draumur eða veruleiki? Craig segist vona að starf hans fái fólk til að líta lífið öðrum augum og það átti sig á að við lifum ekki aðeins í efnislegum heimi. „Mesta afrek okkar í lífinu er að gera sem flest í nafni kærleikans, því kærleik- urinn lifir áfram í þeim sem við sýn- um hann og án hans væri engin tenging.“ Craig er sérlega ánægður með Ís- landsheimsóknina og honum finnst hann vera staddur í landi Hringa- dróttinssögu norðursins. „Og það er stórmerkilegt að mig hefur ekki dreymt neitt síðan ég kom til Ís- lands! Kannski að ég sé alls ekki hér, kannski er þetta bara draum- ur?“  DRAUMAR | Breskur miðill sendir frá sér bók um drauma Margt má af draumum læra Morgunblaðið/ÞÖK Craig Hamilton-Parker: Segir suma drauma vera sammannlega og koma djúpt úr undirmeðvitundinni. Spegill sálarinnar? Draumar vara okkur jafnvel við því sem koma skal. Breski miðillinn Craig Hamilton-Parker sagði Kristínu Heiðu Kristinsdóttur allt um drauma og las fyrir hana í lófa lífið sjálft. Heimasíða Craigs: www.psychics.co.uk Bókaútgáfan Stöng gefur bók Craigs út á íslensku og heitir hún: Draumar, að muna þá og skilja. khk@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.