Morgunblaðið - 18.07.2004, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 18.07.2004, Blaðsíða 23
18.7.2004 | 23 Beckham grætur stanslaust stóð á forsíðu slúður-blaðs og ég keypti það, las um fall kappans og ein-hvern ódám sem hafði úðað Looser yfir listaverk af honum, hefði sjálf nýtt þessa úthugsuðu tilvísun í Re- beccu Loos ef ég væri á annað borð í úða-bransanum. Romeo, sonur Beckhams, grét í fangi móður sinnar á Evrópumeistarakeppninni, sennilega lumar barnið á skyggnigáfu og vildi forða föður sínum frá vítaspyrnunum. Allavega mátti Victoria hafa sig alla við að hugga hann. Portúgalarnir grétu eftir úrslitaleikinn, fórnuðu höndum meðan tárin streymdu niður sólbrúna kjálka. Himnarnir í Danmörku grétu daginn sem Tékkar skoruðu þrjú mörk í mark Dana og kannski grétu einhverjir fjarskyldir ættingjar Jóns Dahl á Íslandi, markastjörn- urnar í danska landsliðinu sem á ættir sínar að rekja í Skagafjörðinn og fékk viðurnefnið Fót- urinn eftir jafnteflið við Svía. Ekki er langt síðan að Frederik prins grét í beinni útsend- ingu og danska þjóðin var með „running nose“, enda hjartnæmt að sjá prinsinn með rauðsprengd augu. Hvarfl- aði ekki að neinum að uppnefna hann Tudefjæs, jafnvel þótt brúðurin væri með skraufþurra hvarma. Þegar ónefndur sakborningur í Landssímamálinu grét í réttinum fylltist maður samstundis löngun að faðma hann og hvísla: „Svona, svona … þetta lagast allt.“ Beckham og Romeo eiga einnig samúð mína alla. Portú- galarnir voru svo grátbólgnir að ég fékk hryllilegt sam- viskubit yfir að hafa haldið með Grikkjum, nýbúin að vinna hlussustóra melónu í veðmáli. Ef einhverjir hrossa- bændur í Skagafirði grétu í stað þess að syngja þá er hugur minn tvímælalaust hjá þeim og frænda þeirra, honum Jóni Dahl. Tárin sem glitruðu í augum Frederiks gerðu mig að konungssinna, finnst eiginlega að hann sé frændi minn. Grátandi karlmenn eru ómótstæðilegir og vekja skringi- legar kenndir. Reyndar er ekkert jafnuppbyggjandi fyrir móðureðlið og að horfa á vöðvastæltan fótboltakappa gráta, nema ef vera skyldi prúðbúinn þjóðhöfðingi sem deplar augunum ótt og títt. Eins og móðir fyrirgefur barninu sínu allt á grátandi karlmaður fyrirgefninguna vísa, varnirnar bresta algjörlega þótt hann sé þúsund sinn- um ríkari, voldugri og vinsælli en ég. Býst þó við að bresk- ar fótboltabullur fyrirgefi ekki jafnglatt, en þær eru líka á svörtum listum í flestum siðmenntuðum ríkjum. Stjórnmálamenn á Íslandi ættu að hafa þetta bak við eyrað – á tímum sem einkennast af verstu stjórnarkreppu sem þjakað hefur íslenska lýðveldið að mati dansks dag- blaðs. Man ekki hvaða blað básúnaði því, tæpast sama blað og flutti fregnir af táraflóði Beckhams; kannski blaðið sem gaf Jóni Skagfirðingi viðurnefnið Fóturinn. Það væri bráðgóður leikur hjá Davíð Oddssyni að mæta í Kastljós, tylla sér í gráan stólinn og bresta í grát. Kjökra allt sem hann hefur að segja um fjölmiðlafrumvarpsfárið og lyppast niður í fang spyrjandans. Hann myndi ábyggi- lega skora betur en Beckham og Portúgalarnir til samans. Að minnsta kosti hjá kvenkyns kjósendum á barneign- araldri og gott ef ekki ömmum þeirra líka. Halldór, Ólafur Ragnar, Össur, Steingrímur – og já, Gunnar Smári og Jón Ásgeir, þeir ættu að gera það sama. Losa um spennuna og gráta og gráta – og gráta. Svo munu andstæðingar ræða málin af kvenlegu innsæi uns þeir komast að sanngjarnri niðurstöðu, sættast bljúgir, fallast í faðma. Og konurnar munu elska þá, eins og syni sína. Gráttu eins og Beckham – maður ætti að skrifa sjálfs- hjálparbók með þessum titli og bjarga heiminum. Get prufukeyrt hugmyndina á manninum mínum. Á eftir ætla ég að biðja hann um að skera lauk í spagettísósu og fá að horfa … Beckham grætur og grætur – og grætur … Auður Jónsdóttir Pistill Maitena Burundarena, höfundur teikni- myndasagnanna „Tæpar á taugum“, sem nú birtast í fyrsta skipti í Tímariti Morgunblaðsins í þýðingu Hildar Hreinsdóttur, fæddist í Buenos Aires í Argent- ínu árið 1962 og hefur teiknað og skrifað myndasögur í meira en 20 ár. Fyrstu myndirnar í þessari seríu birtust í argentínsku tímariti árið 1993 og fyrsta bók hennar af fimm kom út 1997. Þær hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og einnig hafa kaflar úr þeim birst vikulega í virtum dagblöðum í S-Ameríku og á Spáni. Maitena er einkar lagið að sýna skoplegu hliðarnar á mannlífinu þar sem konur og samskipti kynjanna eru oftast viðfangsefni hennar. Húmor Maitenu virðist landamæralaus því hann er auðskilinn hvar sem er í heiminum. Fólk held- ur að hún sé spænsk, ítölsk, bresk eða jafnvel af þeirra eigin þjóðerni. Tæpar á taugum AÐ LOKUM ... Svitaholur líkam- ans eru misáber- andi og þrátt fyrir það bráðnauðsyn- lega starf sem þær vinna eru opnar svitaholur í andliti sjaldan ofarlega á vinsældalistanum, enda virðist húðin oft gróf og ójafnari fyrir vik- ið. Franski snyrtivöruframleiðandinn Biotherm hefur nú sett á markað Biopur Instant Touch Pore Refiner, sérstakt stifti, sem ætlað er að draga saman opnar svitaholur og gefa húðinni þannig fínlegra yfirbragð. Stiftið er hluti af línu fyrir blandaða eða feita húð og má ýmist nota það af og til eða sem tveggja vikna meðferð. Stiftinu er dúppað létt á nef, enni, höku eða önn- ur vandræðasvæði sem á meðferð þurfa að halda og svo farðað yfir. ...slétt húð og mjúk „Hole in one“ kall- ast þessi bolli frá Bodum sem er sér- stakur að því leyti að undirskálin sem fylgir er með gati í miðjunni. Bollinn passar beint í gatið og hreyfist þ.a.l. lít- ið þótt maður sé á ferðinni með kaffið. Þá er hægt að leggja skálina ofan á bollann og halda drykknum þannig heitum lengur, t.d. þegar drukkið er úti við. Bollarnir koma fjórir saman í pakka sem kostar 2.480 krónur en hann fæst í Bodum-búðinni í Húsgagnahöll- inni. Hægt er að fá servíettur með sama munstri og bollarnir. Og hver veit nema hægt sé að nota settið sem eggjastatíf líka? Hola í höggi

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.