Lesbók Morgunblaðsins

Dagsetning
  • fyrri mánuðurjúlí 2005næsti mánuður
    SuÞrMiFiLa
    262728293012
    3456789
    10111213141516
    17181920212223
    24252627282930
    31123456

Lesbók Morgunblaðsins - 16.07.2005, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 16.07.2005, Blaðsíða 8
Úr sögu líkneskis In L árus Sigurbjörnsson segir svo í þætti Sigurðar málara, er kom út í Reykjavík 1954, bls. 25: „Í sjálfum Ingólfsbæ var eng- inn sýnilegur vottur þess, að það var elzta byggt ból á Íslandi. Það mátti ekki minna vera en að friða Arnarhól og reisa Ingólfi styttu þar uppi á hólnum, grafa stalla í hólinn allt frá læknum og hlaða tröppur úr höggnum steini alla leið upp að styttunni.“ Og Lárus kemur aftur að þessu máli síðar í þættinum, bls. 82-83, þar sem hann segir: „Áður hefur verið drepið á minnisvarða Ingólfs á Arnarhóli, hvernig Sig- urður hugsaði sér höggmynd reista á hólnum til minningar um landnám Ingólfs í Reykjavík. Er- indi um þetta flutti hann í Kveldfélaginu 30. jan. 1863, og var það fyrsta tillaga hans sem horfði til prýði og þrifnaðar í bænum. Síðar, er málið komst á almennan umræðugrundvöll, urðu menn síður en svo ásáttir um hugmynd Sig- urðar, og þrefið um þúsund ára minningu Ís- landsbyggðar endaði með steinkórónu konungs á Alþingishúsinu. Iðnaðarmenn reistu loks höggmyndina, en það var ekki víkingur með blys í hendi, eins og Sigurður hafði hugsað sér, og allt mannvirkið var minna um sig, því að Sigurður hafði hugsað sér allan hólinn stallaðan með breiðum þrepum frá sjávarmáli og upp úr, en blysið efst, innsiglingarviti fyrir Reykjavík. Kveikt var á fyrsta vita á Íslandi 15 árum síðar.“ Þess má geta hér til fróðleiks, að menn sigla nú inn til Reykjavíkur eftir ljósi í turni Sjó- mannaskólans, og er það vissulega vel til fundið. Lárus Sigurbjörnsson segir að lokum, á bls. 92-93, er hann ræðir síðustu fundi Kveldfélags- ins, að Sigurður Guðmundsson hafi fallið frá fyrri hugmynd sinni um Ingólfsvarða, „og er hún þó spursmálslaust réttust“, en vildi í stað þess safna fé til að koma upp húsi fyrir Forn- gripasafnið. Svo vill til, að Einar Jónsson fæddist sama ár og Sigurður málari dó, 1874, svo að þeir náðu eðlilega aldrei saman um þetta mál. En hug- mynd Sigurðar um mynd Ingólfs Arnarsonar hefur lifað áfram og eins er víst, að Einar hafi snemma hugleitt gerð slíkrar myndar og þá sennilega rætt hana við nána vini sína. Einn þeirra var faðir minn Guðmundur Finnbogason, er sagðist í útvarpsræðu, er hann flutti um Ein- ar Jónsson myndhöggvara á sjötugsafmæli hans 11. maí 1944, hafa „þekkt hann síðan árið 1892, er ég kom í skóla og hann var hér í Reykjavík að undirbúa utanför sína, en mest síðan 1896, er ég kom til háskólans í Kaupmannahöfn.“ Í minningum Einars, er komu út í Reykjavík 1944, víkur hann m.a. að tveimur myndum, er honum var snemma falið að gera, hinni fyrri mynd Jónasar Hallgrímssonar, en segir svo: „Önnur myndin var minnismerki Ingólfs Arn- arsonar. Það var gefið landinu af Iðnaðarmanna- félaginu, og munu nokkrir fornkunningjar mínir hafa verið hvatamenn þess, að það var pantað hjá mér eftir mynd þeirri, er ég hafði áður gert í Róm.“ Á fótstalli þeirrar myndar, er Einar gaf á sín- um tíma Guðmundi föður mínum og nú er í minni vörzlu, stendur: Einar Jónsson 1902, Roma. Við þetta hvarflar ósjálfrátt að manni, að Guð- mundur hafi hvatt Einar, er hann bjóst til Róm- arferðar, til að gera mynd, eða að minnsta kosti drög að mynd af Ingólfi Arnarsyni. Hvað sem um það er, gerðist Guðmundur sérstakur tals- maður þessa máls í rækilegri grein um Ingólf Arnarson í Skírni 1906, er hann hóf á þessa leið: „Vér ætlum að reisa mynd af Ingólfi Arn- arsyni. Samskot til þess eru hafin. Iðn- aðarmannafélagið og nokkrir einstakir menn hafa þegar riðið á vaðið með sannri rausn og höfðingsskap. Þar sem svo vel er farið af stað, má vona, að framhaldið verði gott og þess verði ekki langt að bíða, að hér á Arnarhóli rísi fögur mynd af fyrsta landnámsmanni Íslands og frum- byggja þessa bæjar. Ég lít svo á sem þessi hreyfing sé aðeins eitt af mörgum gleðilegum táknum þess, að þjóð vor er að vakna til vitundar um afl sitt og skyldur við sjálfa sig, táknum þess, að nýr dagur er að renna upp.“ Þegar Guðmundur Finnbogason hefur í Skírnisgrein sinni 1906 rakið það, sem hin fornu heimildarrit segja frá Ingólfi Arnarsyni og hin- um fyrsta fundi og landnámi Íslands og metið þær frásagnir, bregður hann á hugleiðingu um Ingólf og hvers konar maður hann var, og fer hér á eftir síðari hluti greinar Guðmundar. „En hvað má nú að réttu ráða af þessu, sem heimildirnar segja oss um Ingólf? Heimildirnar eru fámálugar, þær segja oss að eins helztu æviatriði hans, herma nokkur orð, sem hann hefir sagt, nokkur verk, sem hann hef- ir unnið. Þær hafa að eins gefið oss örfáa drætti í mynd hans, hinum verðum vér sjálfir að bæta við. Engin von er til þess, að vér fáum nokkurn tíma betri heimildir um hann en þær, sem þegar eru komnar, og vér verðum því að nota þær, sem vér höfum, svo vel sem unnt er. Ánægjulegt er það, að allt, sem frá Ingólfi er sagt, bendir í sömu áttina, bendir til þess, að hann hafi verið göfugur maður. Allar athafnir hans eru sönnum höfðingja samboðnar. Vér höfum engar sögur, er bregði hinum minnsta skugga á þá eiginleika hans, sem sagan sýnir eða bendir til. Þess vegna höfum vér nú rétt til að hugsa oss hann svo ágætan mann sem vér óskum. Í huga vorum verður mynd hans að hafa alla þá drætti, sem sagan gefur oss, og þeir, sem vér bætum við frá eigin brjósti, verða að vera í samræmi við þá. Að öðru leyti er hverjum frjálst að hugsa sér hann eins og honum er geðfelldast. Lítum svo á heimildirnar. Ingólfur hefir ef- laust verið af góðum ættum. Flóamannasaga segir, að Örn faðir hans hafi ráðið fyrir Firða- fylki, og þótt það sé ef til vill orðum aukið, þá hefir hann eflaust verið auðugur maður, er hann gat útbúið son sinn í hernað, og hins vegar mundu varla synir Atla jarls hafa gert félag við þá fóstbræður og viljað mægjast við Ingólf, ef ættin hefði verið smá. Ágæti ættarinnar kemur og fram hjá niðjunum, og þarf ekki annað en minna á Þorkel mána lögsögumann, sem sög- urnar bera djúpa lotningu fyrir, en hann var sonarsonur Ingólfs. Ingólfur gerist fóstbróðir Leifs, frænda síns. Margt verður naumast af því ráðið. Á þeim tím- um var algengt, að menn af líkum stigum, sem ólust upp saman og vel féll á með, gengju í fóst- bræðralag. En aðalundirrót fóstbræðralagsins var að jafnaði sterk og heit vinátta; venjulega munu þeir einir hafa gerzt fóstbræður, sem voru svo að skapi farnir, að þeir gátu bundið sterka vináttu við aðra menn. Einrænir menn og eig- ingjarnir hafa varla bundizt slíkum félagsskap, heldur hinir, sem fúsir voru á að taka þátt í kjör- um annarra og bera að sínum hlut ábyrgð á þeim og afleiðingum þeirra. Og einn af þeim mönnum virðist Ingólfur hafa verið. Allt bendir á, að fóst- bræðralag þeirra Ingólfs og Leifs hafi verið hið bezta. Þó hafa þeir verið ólíkir einmitt í því, sem hvað mest greinir einn manninn frá öðrum og veldur löngum sundurþykkju, en það er lífsskoð- unin. Ingólfur er einlægur trúmaður, en Leifur vill ekki blóta. Þetta bregður fögru ljósi yfir vin- áttu þeirra, það sýnir, að hún hefir staðið djúpt. Ingólfur er enginn ofstækismaður. Hann er gæddur þeirri mannúð, sem viðurkennir rétt annarra manna til að ráða skoðunum sjálfra sín í trúarefnum, ekki fyrir þá sök, að hann telji allar lífsskoðanir jafngóðar, það sýna orð hans, er hann sá Leif dauðan: „sé ek svá hverjum verða, ef eigi vill blóta,“ heldur vegna hins, að hver verður með sjálfum sér að fara. Annað dæmi um mannúð Ingólfs er það, að hann gefur Vífli þræli sínum frelsi. Hann hefir kunnað að meta mannkosti jafnt fyrir því, hvort þeir fundust hjá þræl eða frjálsum manni. Stétt- armismunurinn blindar hann ekki. Og þó er auð- fundið á orðum hans, að hann lítur niður á þrælastéttina: „Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng, er þrælar skyldu at bana verða.“ Í veizlunni með Atlasonum sjáum vér gætni Ingólfs og hve vel hann kann að stilla orðum sín- um. Hann lætur Hallstein fyrst strengja heit; hann vill sjá, í hvaða streng hann taki. Svo tekur hann sjálfur til máls: „Þess strengi ek heit, at skipta við engan mann erfð, nema við Leif.“ Orð- in eru vel hugsuð. Þeir Ingólfur og Leifur voru fóstbræður og þetta var því ekki annað en frek- ari staðfesting vináttu þeirra og fóstbræðralags, sem Atlasonum var kunnugt um, en um leið segja orðin Atlasonum óbeinlínis, að Ingólfur geti ekki mægzt við þá. En þessi tilkynning er laus við alla áreitni, hún er að eins afleiðing af fögru fóstbræðralagi þeirra Leifs. En skýrasta lyndiseinkenni Ingólfs er trú- rækni hans. Hann hefir óbilandi trú á æðri stjórn. Áður en hann flyzt búferlum til Íslands, leitar hann frétta um forlög sín hjá guðunum. Hann efast ekki um handleiðslu þeirra, og þegar hann sér Ísland, skýtur hann öruggur öndveg- issúlum sínum fyrir borð. Af þeirri stund hefir Stgr. Thorsteinsson dregið fagra mynd: Gnoð úr hafi skrautleg skreið, skein á jökulfjöllin heið, Ingólfur þá eygði fyrst Ísland morgungeislum kysst; öndvegis stólpum stafni frá steyptı́ hann fram í kaldan sjá. Hetjan prúð í helgum móð horfði lengi og þögul stóð. Hvað er þessi helgi móður, sem gagntekur hann? Er hann ekki tilfinning þess, að nú hefir hann varpað áhyggjum sínum á hið breiða bak forsjónarinnar. Hann er öruggur; hann veit, að guðirnir, sem eiga myndir sínar markaðar á súl- urnar, muni stýra þeim að landi þar sem honum sé bezt að búa. Þeirra er að vísa honum á bústað- inn, hans er að gera garðinn frægan. Hann þarf ekki að kvíða fyrir kvölinni, sem valinu fylgir, hann þarf ekki að vera á tveim áttum um það, hvar land skuli nema. Hann á ekkert val, hann hlýðir, og sú hlýðni er honum ljúf. Þetta er á öll- um öldum einkenni trúmannsins; í því er styrkur hans fólginn. Í þrjú ár er Ingólfur að leita að öndvegissúlum sínum. Hann er ekki óþolinmóður, hann veit, að þær munu finnast, og þær finnast líka. Eflaust hefir Ingólfur brosað að orðum Karla þræls síns: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“ Ingólfur vissi, að guðirnir sjá lengra fram en mennirnir; hann vissi, að það, sem í dag er ófrjó urð, má síðar verða gróin grund, ef mennirnir hlýða vilja guðanna. Að sögn Landnámu voru öndvegissúlur Ing- ólfs enn til í Reykjavík, þegar Landnáma var rit- uð, eða um árið 1200. Um öndvegissúlurnar hefir verið sagt, að engin dæmi væru til að hlut ræki sömu leið og þær hafa farið, og ekki þekki ég neitt yndislegra ævintýr en þetta, að höf- uðstaður landsins skyldi einmitt rísa þar sem þær bar að landi. Það, sem nú hefir verið tekið fram, gefur að vísu nokkra bendingu um það, hvernig Ingólfur hefir verið, en til fulls skiljum vér hann fyrst, þegar vér gætum þess, hvaða spor hann hefir sett í sögu mannkynsins. Allir óska sér að eiga þegar aldir renna eitthvert spor við tímans sjá, eins og skáldið kveður. Og það eru þessi spor, sem kveða upp dóminn yfir hverjum manni. Mönnum má skipta í tvo flokka: þá sem ganga á undan, og þá, sem feta í spor þeirra, þá sem skapa dæmin, og þá, sem gera eftir dæmum þeirra. Mannkynssagan er sagan um for- göngumenn og sporgöngumenn þeirra. Án for- göngumanna kæmist mannkynið hvergi úr spor- um. Allt er í sjálfheldu þangað til einhver ríður á vaðið. Ingólfur er forgöngumaður, það greinir hann frá þeim, sem Ísland fundu á undan hon- um, ekki síður en frá hinum, sem komu á eftir, þegar hann hafði numið hér land. Munkarnir írsku flýja hingað undan árásum víkinga og flýja héðan aftur, af því að þeir „vilja ekki vera hér við heiðna menn“. Þeir eru ekki forgöngumenn, heldur flóttamenn, þess vegna hafa þeir enga sögu skapað á landi hér. Bækur þeirra, bjöllur og baglar eru týndar og tröllum gefnar. Nadd- oddur og Garðar eru ekki forgöngumenn; ofviðr- ið hrekur þá úr leið hingað til lands. Þeir lofuðu mjög landið, en það er sitt hvað að lofa landið og að byggja landið. Flóki er ekki forgöngumaður. Að vísu virðist hann hafa ætlað að nema hér land, en hann brestur fyrirhyggju og þolgæði þegar á reynir. Þess vegna snýr hann aftur og lætur illa yfir landinu: „Árinni kennir illur ræð- ari.“ En var þá ekki Náttfari forgöngumaður og fyrsti landnámsmaður Íslands? Hann varð hér eftir og virðist aldrei hafa farið úr landinu aftur. Þó hefir enginn orðið til að eigna honum fyrsta landnám Íslands. Og ástæðan er auðsæ. Honum var ekki sjálfrátt, að hann settist hér að. Hann hrekur í land á báti og kemst ekki héðan aftur. Hann er ekki fremur forgöngumaður en sá sauð- Líkneski Ingólfs Arnarsonar á Arnarhóli hefur fastan sess í sjálfsmynd Íslendinga. Finnbogi Guðmundsson fjallar um aðdraganda þess að styttan var reist á Arnarhóli og dustar rykið af aldargamalli hugleiðingu Guðmundar Finn- bogasonar um persónu Ingólfs. Eftir Finnboga Guðmundsson fyrrverandi landsbókavörð Ljósmynd/ Guðmundur Ingólfsson ’Ingólfur vissi, að guðirnir sjá lengra fram en menn-irnir; hann vissi, að það, sem í dag er ófrjó urð, má síðar verða gróin grund, ef mennirnir hlýða vilja guðanna.‘ 8 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 16. júlí 2005

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað: 16. júlí (16.07.2005)
https://timarit.is/issue/260595

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.

16. júlí (16.07.2005)

Aðgerðir: